Print Page Options
Previous Prev Day Next DayNext

Book of Common Prayer

Daily Old and New Testament readings based on the Book of Common Prayer.
Duration: 861 days
Icelandic Bible (ICELAND)
Version
Sálmarnir 23

23 Davíðssálmur. Drottinn er minn hirðir, mig mun ekkert bresta.

Á grænum grundum lætur hann mig hvílast, leiðir mig að vötnum, þar sem ég má næðis njóta.

Hann hressir sál mína, leiðir mig um rétta vegu fyrir sakir nafns síns.

Jafnvel þótt ég fari um dimman dal, óttast ég ekkert illt, því að þú ert hjá mér, sproti þinn og stafur hugga mig.

Þú býr mér borð frammi fyrir fjendum mínum, þú smyr höfuð mitt með olíu, bikar minn er barmafullur.

Já, gæfa og náð fylgja mér alla ævidaga mína, og í húsi Drottins bý ég langa ævi.

Sálmarnir 121

121 Ég hef augu mín til fjallanna: Hvaðan kemur mér hjálp?

Hjálp mín kemur frá Drottni, skapara himins og jarðar.

Hann mun eigi láta fót þinn skriðna, vörður þinn blundar ekki.

Nei, hann blundar ekki og sefur ekki, hann, vörður Ísraels.

Drottinn er vörður þinn, Drottinn skýlir þér, hann er þér til hægri handar.

Um daga mun sólarhitinn eigi vinna þér mein, né heldur tunglið um nætur.

Drottinn mun vernda þig fyrir öllu illu, hann mun vernda sál þína.

Drottinn mun varðveita útgöngu þína og inngöngu héðan í frá og að eilífu.

Jobsbók 42:1-6

42 Þá svaraði Job Drottni og sagði:

Ég veit, að þú megnar allt, og engu ráði þínu verður varnað fram að ganga.

"Hver er sá, sem myrkvar ráðsályktun Guðs í hyggjuleysi?" Fyrir því hefi ég talað án þess að skilja, um hluti, sem mér voru of undursamlegir og ég þekkti eigi.

"Hlusta þú, ég ætla að tala. Ég mun spyrja þig, og þú skalt fræða mig."

Ég þekkti þig af afspurn, en nú hefir auga mitt litið þig!

Fyrir því tek ég orð mín aftur og iðrast í dufti og ösku.

Fyrra almenna bréf Péturs 1:3-9

Lofaður sé Guð og faðir Drottins vors Jesú Krists, sem eftir mikilli miskunn sinni hefur endurfætt oss til lifandi vonar fyrir upprisu Jesú Krists frá dauðum,

til óforgengilegrar, flekklausrar og ófölnandi arfleifðar, sem yður er geymd á himnum.

Kraftur Guðs varðveitir yður fyrir trúna til þess að þér getið öðlast hjálpræðið, sem er þess albúið að opinberast á síðasta tíma.

Fagnið því, þótt þér nú um skamma stund hafið orðið að hryggjast í margs konar raunum.

Það er til þess að trúarstaðfesta yðar, langtum dýrmætari en forgengilegt gull, sem þó stenst eldraunina, geti orðið yður til lofs og dýrðar og heiðurs við opinberun Jesú Krists.

Þér hafið ekki séð hann, en elskið hann þó. Þér hafið hann ekki nú fyrir augum yðar, en trúið samt á hann og fagnið með óumræðilegri og dýrlegri gleði,

þegar þér eruð að ná takmarki trúar yðar, frelsun sálna yðar.

Sálmarnir 27

27 Davíðssálmur. Drottinn er ljós mitt og fulltingi, hvern ætti ég að óttast? Drottinn er vígi lífs míns, hvern ætti ég að hræðast?

Þegar illvirkjarnir nálgast mig til þess að fella mig, þá verða það andstæðingar mínir og óvinir, sem hrasa og falla.

Þegar her sest um mig, óttast hjarta mitt eigi, þegar ófriður hefst í gegn mér, er ég samt öruggur.

Eins hefi ég beðið Drottin, það eitt þrái ég: Að ég fái að dveljast í húsi Drottins alla ævidaga mína til þess að fá að skoða yndisleik Drottins, sökkva mér niður í hugleiðingar í musteri hans.

Því að hann geymir mig í skjóli á óheilladeginum, hann felur mig í fylgsnum tjalds síns, lyftir mér upp á klett.

Þess vegna hefst upp höfuð mitt yfir óvini mína umhverfis mig, að ég með fögnuði megi færa fórnir í tjaldi hans, syngja og leika Drottni.

Heyr, Drottinn, ég hrópa hátt, sýn mér miskunn og svara mér!

Mér er hugsað til þín, er sagðir: "Leitið auglitis míns!" Ég vil leita auglitis þíns, Drottinn.

Hyl eigi auglit þitt fyrir mér, vísa þjóni þínum eigi frá í reiði. Þú hefir verið fulltingi mitt, hrind mér eigi burt og yfirgef mig eigi, þú Guð hjálpræðis míns.

10 Enda þótt faðir minn og móðir hafi yfirgefið mig, tekur Drottinn mig að sér.

11 Vísa mér veg þinn, Drottinn, leið mig um slétta braut sakir óvina minna.

12 Ofursel mig eigi græðgi andstæðinga minna, því að falsvitni rísa í gegn mér og menn er spúa rógmælum.

13 Ég treysti því að fá að sjá gæsku Drottins á landi lifenda!

14 Vona á Drottin, ver öruggur og hugrakkur, já, vona á Drottin.

Jóhannesarguðspjall 14:1-7

14 "Hjarta yðar skelfist ekki. Trúið á Guð og trúið á mig.

Í húsi föður míns eru margar vistarverur. Væri ekki svo, hefði ég þá sagt yður, að ég færi burt að búa yður stað?

Þegar ég er farinn burt og hef búið yður stað, kem ég aftur og tek yður til mín, svo að þér séuð einnig þar sem ég er.

Veginn þangað, sem ég fer, þekkið þér."

Tómas segir við hann: "Herra, vér vitum ekki, hvert þú ferð, hvernig getum vér þá þekkt veginn?"

Jesús segir við hann: "Ég er vegurinn, sannleikurinn og lífið. Enginn kemur til föðurins, nema fyrir mig.

Ef þér hafið þekkt mig, munuð þér og þekkja föður minn. Héðan af þekkið þér hann og hafið séð hann."

Icelandic Bible (ICELAND)

by Icelandic Bible Society