Print Page Options
Previous Prev Day Next DayNext

Book of Common Prayer

Daily Old and New Testament readings based on the Book of Common Prayer.
Duration: 861 days
Icelandic Bible (ICELAND)
Version
Sálmarnir 63

63 Sálmur eftir Davíð, þá er hann var í Júda-eyðimörk.

Drottinn, þú ert minn Guð, þín leita ég, sál mína þyrstir eftir þér, hold mitt þráir þig, í þurru landi, örþrota af vatnsleysi.

Þannig hefi ég litast um eftir þér í helgidóminum til þess að sjá veldi þitt og dýrð,

því að miskunn þín er mætari en lífið. Varir mínar skulu vegsama þig.

Þannig skal ég lofa þig meðan lifi, hefja upp hendurnar í þínu nafni.

Sál mín mettast sem af merg og feiti, og með fagnandi vörum lofar þig munnur minn,

þá er ég minnist þín í hvílu minni, hugsa um þig á næturvökunum.

Því að þú ert mér fulltingi, í skugga vængja þinna fagna ég.

Sál mín heldur sér fast við þig, hægri hönd þín styður mig.

10 Þeir sem sitja um líf mitt sjálfum sér til glötunar, munu hverfa í djúp jarðar.

11 Þeir munu verða ofurseldir sverðseggjum, verða sjakölunum að bráð.

12 Konungurinn skal gleðjast yfir Guði, hver sá er sver við hann, skal sigri hrósa, af því að munni lygaranna hefir verið lokað.

Sálmarnir 98

98 Sálmur. Syngið Drottni nýjan söng, því að hann hefir gjört dásemdarverk, hægri hönd hans hjálpaði honum og hans heilagi armleggur.

Drottinn hefir kunngjört hjálpræði sitt, fyrir augum þjóðanna opinberaði hann réttlæti sitt.

Hann minntist miskunnar sinnar við Jakob og trúfesti sinnar við Ísraels ætt. Öll endimörk jarðar sáu hjálpræði Guðs vors.

Látið gleðióp gjalla fyrir Drottni, öll lönd, hefjið gleðisöng, æpið fagnaðaróp og lofsyngið.

Leikið fyrir Drottni á gígju, á gígju með lofsöngshljómi,

með lúðrum og básúnuhljómi, látið gleðióp gjalla fyrir konunginum Drottni.

Hafið drynji og allt sem í því er, heimurinn og þeir sem í honum lifa.

Fljótin skulu klappa lof í lófa, fjöllin fagna öll saman

fyrir Drottni sem kemur til að dæma jörðina. Hann dæmir heiminn með réttlæti og þjóðirnar með réttvísi.

Sálmarnir 103

103 Davíðssálmur. Lofa þú Drottin, sála mín, og allt sem í mér er, hans heilaga nafn,

lofa þú Drottin, sála mín, og gleym eigi neinum velgjörðum hans.

Hann fyrirgefur allar misgjörðir þínar, læknar öll þín mein,

leysir líf þitt frá gröfinni, krýnir þig náð og miskunn.

Hann mettar þig gæðum, þú yngist upp sem örninn.

Drottinn fremur réttlæti og veitir rétt öllum kúguðum.

Hann gjörði Móse vegu sína kunna og Ísraelsbörnum stórvirki sín.

Náðugur og miskunnsamur er Drottinn, þolinmóður og mjög gæskuríkur.

Hann þreytir eigi deilur um aldur og er eigi eilíflega reiður.

10 Hann hefir eigi breytt við oss eftir syndum vorum og eigi goldið oss eftir misgjörðum vorum,

11 heldur svo hár sem himinninn er yfir jörðunni, svo voldug er miskunn hans við þá er óttast hann.

12 Svo langt sem austrið er frá vestrinu, svo langt hefir hann fjarlægt afbrot vor frá oss.

13 Eins og faðir sýnir miskunn börnum sínum, eins hefir Drottinn sýnt miskunn þeim er óttast hann.

14 Því að hann þekkir eðli vort, minnist þess að vér erum mold.

15 Dagar mannsins eru sem grasið, hann blómgast sem blómið á mörkinni,

16 þegar vindur blæs á hann er hann horfinn, og staður hans þekkir hann ekki framar.

17 En miskunn Drottins við þá er óttast hann varir frá eilífð til eilífðar, og réttlæti hans nær til barnabarnanna,

18 þeirra er varðveita sáttmála hans og muna að breyta eftir boðum hans.

19 Drottinn hefir reist hásæti sitt á himnum, og konungdómur hans drottnar yfir alheimi.

20 Lofið Drottin, þér englar hans, þér voldugu hetjur, er framkvæmið boð hans, er þér heyrið hljóminn af orði hans.

21 Lofið Drottin, allar hersveitir hans, þjónar hans, er framkvæmið vilja hans.

22 Lofið Drottin, öll verk hans, á hverjum stað í ríki hans. Lofa þú Drottin, sála mín.

Jesaja 13:6-13

Kveinið, því að dagur Drottins er nálægur; hann kemur sem eyðing frá hinum Almáttka.

Þess vegna verða allar hendur lémagna og sérhvert mannshjarta bráðnar.

Þeir skelfast, harmkvæli og þrautir gagntaka þá, þeir hafa hríðir eins og jóðsjúk kona. Angistarfullir stara þeir hver á annan, andlit þeirra eru sem eldslogi.

Sjá, dagur Drottins kemur, grimmilegur, með heift og brennandi reiði, til að gjöra jörðina að auðn og afmá syndarana af henni.

10 Stjörnur himinsins og stjörnumerkin láta eigi ljós sitt skína, sólin er myrk í uppgöngu sinni og tunglið ber eigi birtu sína.

11 Ég vil hegna jarðríki fyrir illsku þess og hinum óguðlegu fyrir misgjörðir þeirra, ég vil niðurkefja ofdramb hinna ríkilátu og lægja hroka ofbeldismannanna.

12 Ég vil láta menn verða sjaldgæfari en skíragull og mannfólkið torgætara en Ófír-gull.

13 Þess vegna vil ég hrista himininn, og jörðin skal hrærast úr stöðvum sínum fyrir heift Drottins allsherjar og á degi hans brennandi reiði.

Bréfið til Hebrea 12:18-29

18 Þér eruð ekki komnir til fjalls, sem á verður þreifað, ekki til brennandi elds og sorta, myrkurs, ofviðris

19 og básúnuhljóms og raustar sem talaði svo að þeir, sem hana heyrðu, báðust undan því að meira væri til sín talað.

20 Því að þeir þoldu ekki það, sem fyrir var skipað: "Þó að það sé ekki nema skepna, sem kemur við fjallið, skal hún grýtt verða."

21 Svo ógurlegt var það, sem fyrir augu bar, að Móse sagði: "Ég er mjög hræddur og skelfdur."

22 Nei, þér eruð komnir til Síonfjalls og borgar Guðs lifanda, hinnar himnesku Jerúsalem, til tugþúsunda engla,

23 til hátíðarsamkomu og safnaðar frumgetinna, sem á himnum eru skráðir, til Guðs, dómara allra, og til anda réttlátra, sem fullkomnir eru orðnir,

24 og til Jesú, meðalgangara nýs sáttmála, og til blóðsins, sem hreinsar og talar kröftuglegar en blóð Abels.

25 Gætið þess, að þér hafnið ekki þeim sem talar. Þeir, sem höfnuðu þeim er gaf guðlega bendingu á jörðu, komust ekki undan. Miklu síður munum vér undan komast, ef vér gjörumst fráhverfir honum, er guðlega bendingu gefur frá himnum.

26 Raust hans lét jörðina bifast fyrrum. En nú hefur hann lofað: "Enn einu sinni mun ég hræra jörðina og ekki hana eina, heldur og himininn."

27 Orðin: "Enn einu sinni", sýna, að það, sem bifast, er skapað og hverfur, til þess að það standi stöðugt, sem eigi bifast.

28 Þar sem vér því fáum ríki, sem ekki getur bifast, skulum vér þakka það og þjóna Guði, svo sem honum þóknast, með lotningu og ótta.

29 Því að vor Guð er eyðandi eldur.

Jóhannesarguðspjall 3:22-30

22 Eftir þetta fór Jesús og lærisveinar hans út í Júdeuhérað. Þar dvaldist hann með þeim og skírði.

23 Jóhannes var líka að skíra í Aínon nálægt Salím, en þar var mikið vatn. Menn komu þangað og létu skírast.

24 Þá var ekki enn búið að varpa Jóhannesi í fangelsi.

25 Nú varð deila um hreinsun milli lærisveina Jóhannesar og Gyðings eins.

26 Þeir komu til Jóhannesar og sögðu við hann: "Rabbí, sá sem var hjá þér handan við Jórdan og þú barst vitni um, hann er að skíra, og allir koma til hans."

27 Jóhannes svaraði þeim: "Enginn getur tekið neitt, nema honum sé gefið það af himni.

28 Þér getið sjálfir vitnað um, að ég sagði: ,Ég er ekki Kristur, heldur er ég sendur á undan honum.`

29 Sá er brúðguminn, sem á brúðina, en vinur brúðgumans, sem stendur hjá og hlýðir á hann, gleðst mjög við rödd hans. Þessi gleði er nú mín að fullu.

30 Hann á að vaxa, en ég að minnka.

Icelandic Bible (ICELAND)

by Icelandic Bible Society