Book of Common Prayer
30 Musterisvígsluljóð. Davíðssálmur.
2 Ég tigna þig, Drottinn, því að þú hefir bjargað mér og eigi látið óvini mína hlakka yfir mér.
3 Drottinn, Guð minn, ég hrópaði til þín og þú læknaðir mig.
4 Drottinn, þú heimtir sál mína úr Helju, lést mig halda lífi, er aðrir gengu til grafar.
5 Syngið Drottni lof, þér hans trúuðu, vegsamið hans heilaga nafn.
6 Andartak stendur reiði hans, en alla ævi náð hans. Að kveldi gistir oss grátur, en gleðisöngur að morgni.
7 En ég uggði eigi að mér og hugsaði: "Aldrei skriðnar mér fótur."
8 Drottinn, af náð þinni hafðir þú gjört bjarg mitt stöðugt, en nú huldir þú auglit þitt og ég skelfdist.
9 Til þín, Drottinn, kallaði ég, og Drottin grátbændi ég:
10 "Hver ávinningur er í dauða mínum, í því að ég gangi til grafar? Getur duftið lofað þig, kunngjört trúfesti þína?
11 Heyr, Drottinn, og líkna mér, ó Drottinn, ver þú hjálpari minn!"
12 Þú breyttir grát mínum í gleðidans, leystir af mér hærusekkinn og gyrtir mig fögnuði,
13 að sál mín megi lofsyngja þér og eigi þagna. Drottinn, Guð minn, ég vil þakka þér að eilífu.
32 Davíðsmaskíl. Sæll er sá er afbrotin eru fyrirgefin, synd hans hulin.
2 Sæll er sá maður er Drottinn tilreiknar eigi misgjörð, sá er eigi geymir svik í anda.
3 Meðan ég þagði, tærðust bein mín, allan daginn kveinaði ég,
4 því að dag og nótt lá hönd þín þungt á mér, lífsvökvi minn þvarr sem í sumarbreiskju. [Sela]
5 Þá játaði ég synd mína fyrir þér og fól eigi misgjörð mína. Ég mælti: "Ég vil játa afbrot mín fyrir Drottni," og þú fyrirgafst syndasekt mína. [Sela]
6 Þess vegna biðji þig sérhver trúaður, meðan þig er að finna. Þótt vatnsflóðið komi, nær það honum eigi.
7 Þú ert skjól mitt, þú leysir mig úr nauðum, með frelsisfögnuði umkringir þú mig. [Sela]
8 Ég vil fræða þig og vísa þér veginn, er þú átt að ganga, ég vil kenna þér og hafa augun á þér:
9 Verið eigi sem hestar eða skynlausir múlar; með taum og beisli verður að temja þrjósku þeirra, annars nálgast þeir þig ekki.
10 Miklar eru þjáningar óguðlegs manns, en þann er treystir Drottni umlykur hann elsku.
11 Gleðjist yfir Drottni og fagnið, þér réttlátir, kveðið fagnaðarópi, allir hjartahreinir!
42 Til söngstjórans. Kóraítamaskíl.
2 Eins og hindin, sem þráir vatnslindir, þráir sál mín þig, ó Guð.
3 Sál mína þyrstir eftir Guði, hinum lifanda Guði. Hvenær mun ég fá að koma og birtast fyrir augliti Guðs?
4 Tár mín urðu fæða mín dag og nótt, af því menn segja við mig allan daginn: "Hvar er Guð þinn?"
5 Um það vil ég hugsa og úthella sál minni, sem í mér er, hversu ég gekk fram í mannþrönginni, leiddi þá til Guðs húss með fagnaðarópi og lofsöng, með hátíðaglaumi.
6 Hví ert þú beygð, sál mín, og ólgar í mér? Vona á Guð, því að enn mun ég fá að lofa hann, hjálpræði auglitis míns og Guð minn.
7 Guð minn, sál mín er beygð í mér, fyrir því vil ég minnast þín frá Jórdan- og Hermonlandi, frá litla fjallinu.
8 Eitt flóðið kallar á annað, þegar fossar þínir duna, allir boðar þínir og bylgjur ganga yfir mig.
9 Um daga býður Drottinn út náð sinni, og um nætur syng ég honum ljóð, bæn til Guðs lífs míns.
10 Ég mæli til Guðs: "Þú bjarg mitt, hví hefir þú gleymt mér? hví verð ég að ganga harmandi, kúgaður af óvinum?"
11 Háð fjandmanna minna er sem rotnun í beinum mínum, er þeir segja við mig allan daginn: "Hvar er Guð þinn?"
12 Hví ert þú beygð, sál mín, og ólgar í mér? Vona á Guð, því að enn mun ég fá að lofa hann, hjálpræði auglitis míns og Guð minn.
43 Lát mig ná rétti mínum, Guð, berst fyrir málefni mínu gegn miskunnarlausri þjóð, bjarga mér frá svikulum og ranglátum mönnum.
2 Því að þú ert sá Guð, sem er mér vígi, hví hefir þú útskúfað mér? hví verð ég að ganga um harmandi, kúgaður af óvinum?
3 Send ljós þitt og trúfesti þína, þau skulu leiða mig, þau skulu fara með mig til fjallsins þíns helga, til bústaðar þíns,
4 svo að ég megi inn ganga að altari Guðs, til Guðs minnar fagnandi gleði, og lofa þig með gígjuhljómi, ó Guð, þú Guð minn.
5 Hví ert þú beygð, sál mín, og ólgar í mér? Vona á Guð, því að enn mun ég fá að lofa hann, hjálpræði auglitis míns og Guð minn.
8 Drottinn sagði við mig: "Tak þér stórt spjald og rita þú á það með algengu letri: Hraðfengi Skyndirán.
2 Og tak mér skilríka votta, prestinn Úría og Sakaría Jeberekíason."
3 Og ég nálgaðist spákonuna, og hún varð þunguð og ól son. Þá sagði Drottinn við mig: "Lát þú hann heita Hraðfengi Skyndirán.
4 Því að áður en sveinninn lærir að kalla ,faðir minn` og ,móðir mín,` skal auður Damaskus og herfang Samaríu burt flutt verða fram fyrir Assýríukonung."
5 Og Drottinn talaði enn við mig og sagði:
6 Af því að þessi lýður fyrirlítur hin straumhægu Sílóa-vötn, en fagnar Resín og Remaljasyni,
7 sjá, fyrir því mun Drottinn láta yfir þá koma hin stríðu og miklu vötn fljótsins _ Assýríukonung og allt hans einvalalið. Skal það ganga upp yfir alla farvegu sína og flóa yfir alla bakka.
8 Og það skal brjótast inn í Júda, flæða þar yfir og geysast áfram, þar til manni tekur undir höku, og breiða vængi sína yfir allt þitt land, eins og það er vítt til, Immanúel!
9 Vitið það, lýðir, og hlustið á, allar fjarlægar landsálfur! Herklæðist, þér skuluð samt láta hugfallast! Herklæðist, þér skuluð samt láta hugfallast!
10 Takið saman ráð yðar, þau skulu að engu verða. Mælið málum yðar, þau skulu engan framgang fá, því að Guð er með oss!
11 Svo mælti Drottinn við mig, þá er hönd hans hreif mig og hann varaði mig við því að ganga sama veg og þetta fólk gengur:
12 Þér skuluð ekki kalla allt það ,samsæri`, sem þetta fólk kallar ,samsæri`, og ekki óttast það, sem það óttast, og eigi skelfast.
13 Drottinn allsherjar, hann skuluð þér telja heilagan, hann sé yður ótti, hann sé yður skelfing.
14 Og hann skal verða helgidómur og ásteytingarsteinn og hrösunarhella fyrir báðar ættþjóðir Ísraels og snara og gildra fyrir Jerúsalembúa.
15 Og margir af þeim munu hrasa, falla og meiðast, festast í snörunni og verða veiddir.
6 En vér bjóðum yður, bræður, í nafni Drottins vors Jesú Krists, að þér sneiðið hjá hverjum þeim bróður, er lifir óreglulega og ekki eftir þeirri kenningu, sem þeir hafa numið af oss.
7 Því að sjálfir vitið þér, hvernig á að breyta eftir oss. Ekki hegðuðum vér oss óreglulega hjá yður,
8 neyttum ekki heldur brauðs hjá neinum fyrir ekkert, heldur unnum vér með erfiði og striti nótt og dag, til þess að vera ekki neinum yðar til þyngsla.
9 Ekki af því að vér höfum ekki rétt til þess, heldur til þess að vér gæfum yður sjálfa oss sem fyrirmynd til eftirbreytni.
10 Því var og það, að þegar vér vorum hjá yður, buðum vér yður: Ef einhver vill ekki vinna, þá á hann heldur ekki mat að fá.
11 Vér heyrum, að nokkrir meðal yðar lifi óreglulega, vinni ekkert, heldur gefi sig alla að því, sem þeim kemur eigi við.
12 Slíkum mönnum bjóðum vér og áminnum þá vegna Drottins Jesú Krists, að vinna kyrrlátlega og eta eigið brauð.
13 En þér, bræður, þreytist ekki gott að gjöra.
14 En ef einhver hlýðir ekki orðum vorum í bréfi þessu, þá merkið yður þann mann. Hafið ekkert samfélag við hann, til þess að hann blygðist sín.
15 En álítið hann þó ekki óvin, heldur áminnið hann sem bróður.
16 En sjálfur Drottinn friðarins gefi yður friðinn, ætíð á allan hátt. Drottinn sé með yður öllum.
17 Kveðjan er með minni, Páls, eigin hendi, og það er merki á hverju bréfi. Þannig skrifa ég.
31 Símon, Símon, Satan krafðist yðar að sælda yður eins og hveiti.
32 En ég hef beðið fyrir þér, að trú þín þrjóti ekki. Og styrk þú bræður þína, þegar þú ert snúinn við."
33 En Símon sagði við hann: "Herra, reiðubúinn er ég að fylgja þér bæði í fangelsi og dauða."
34 Jesús mælti: "Ég segi þér, Pétur: Áður en hani galar í dag, munt þú þrisvar hafa neitað því, að þú þekkir mig."
35 Og hann sagði við þá: "Þegar ég sendi yður út án pyngju og mals og skólausa, brast yður þá nokkuð?" Þeir svöruðu: "Nei, ekkert."
36 Þá sagði hann við þá: "En nú skal sá, er pyngju hefur, taka hana með sér og eins sá, er mal hefur, og hinn, sem ekkert á, selji yfirhöfn sína og kaupi sverð.
37 Því ég segi yður, að þessi ritning á að rætast á mér: ,með illvirkjum var hann talinn.` Og nú er að fullnast það sem um mig er ritað."
38 En þeir sögðu: "Herra, hér eru tvö sverð." Og hann sagði við þá: "Það er nóg."
by Icelandic Bible Society