Book of Common Prayer
37 Davíðssálmur. Ver eigi of bráður vegna illvirkjanna, öfunda eigi þá er ranglæti fremja,
2 því að þeir fölna skjótt sem grasið, visna sem grænar jurtir.
3 Treyst Drottni og gjör gott, bú þú í landinu og iðka ráðvendni,
4 þá munt þú gleðjast yfir Drottni, og hann mun veita þér það sem hjarta þitt girnist.
5 Fel Drottni vegu þína og treyst honum, hann mun vel fyrir sjá.
6 Hann mun láta réttlæti þitt renna upp sem ljós og rétt þinn sem hábjartan dag.
7 Ver hljóður fyrir Drottni og vona á hann. Ver eigi of bráður vegna þeirra er vel gengur, vegna þess manns er svik fremur.
8 Lát af reiði og slepp heiftinni, ver eigi of bráður, það leiðir til ills eins.
9 Illvirkjarnir verða afmáðir, en þeir er vona á Drottin, fá landið til eignar.
10 Innan stundar eru engir guðlausir til framar, þegar þú gefur gætur að stað þeirra, eru þeir horfnir.
11 En hinir hógværu fá landið til eignar, gleðjast yfir ríkulegri gæfu.
12 Óguðlegur maður býr yfir illu gegn réttlátum, nístir tönnum gegn honum.
13 Drottinn hlær að honum, því að hann sér að dagur hans kemur.
14 Óguðlegir bregða sverðinu og benda boga sína til þess að fella hinn hrjáða og snauða, til þess að brytja niður hina ráðvöndu.
15 En sverð þeirra lendir í þeirra eigin hjörtum, og bogar þeirra munu brotnir verða.
16 Betri er lítil eign réttláts manns en auðlegð margra illgjarnra,
17 því að armleggur illgjarnra verður brotinn, en réttláta styður Drottinn.
18 Drottinn þekkir daga ráðvandra, og arfleifð þeirra varir að eilífu.
19 Á vondum tímum verða þeir eigi til skammar, á hallæristímum hljóta þeir saðning.
20 En óguðlegir farast, og óvinir Drottins eru sem skraut vallarins: þeir hverfa _ sem reykur hverfa þeir.
21 Guðlaus maður tekur lán og borgar eigi, en hinn réttláti er mildur og örlátur.
22 Því að þeir sem Drottinn blessar, fá landið til eignar, en hinum bannfærðu verður útrýmt.
23 Frá Drottni kemur skrefum mannsins festa, þegar hann hefir þóknun á breytni hans.
24 Þótt hann falli, þá liggur hann ekki flatur, því að Drottinn heldur í hönd hans.
25 Ungur var ég og gamall er ég orðinn, en aldrei sá ég réttlátan mann yfirgefinn né niðja hans biðja sér matar.
26 Ætíð er hann mildur og lánar, og niðjar hans verða öðrum til blessunar.
27 Forðastu illt og gjörðu gott, þá munt þú búa kyrr um aldur,
28 því að Drottinn hefir mætur á réttlæti og yfirgefur ekki sína trúuðu. Þeir verða eilíflega varðveittir, en niðjar óguðlegra upprætast.
29 Hinir réttlátu fá landið til eignar og búa í því um aldur.
30 Munnur réttláts manns mælir speki og tunga hans talar það sem rétt er.
31 Lögmál Guðs hans er í hjarta hans, eigi skriðnar honum fótur.
32 Hinn guðlausi skimar eftir hinum réttláta og situr um að drepa hann,
33 en Drottinn ofurselur hann honum ekki og lætur hann ekki ganga sekan frá dómi.
34 Vona á Drottin og gef gætur að vegi hans, þá mun hann hefja þig upp, að þú erfir landið, og þú skalt horfa á, þegar illvirkjum verður útrýmt.
35 Ég sá hinn óguðlega í ofstopa sínum og þenja sig út sem grænt tré á gróðrarstöðvum sínum,
36 og ég gekk fram hjá, og sjá, hann var þar ekki framar, ég leitaði hans, en hann fannst ekki.
37 Gef gætur að hinum ráðvanda og lít á hinn hreinskilna, því að friðsamir menn eiga framtíð fyrir höndum,
38 en afbrotamönnum verður útrýmt öllum samt, framtíðarvon óguðlegra bregst.
39 Hjálp réttlátra kemur frá Drottni, hann er hæli þeirra á neyðartímum.
40 Drottinn liðsinnir þeim og bjargar þeim, bjargar þeim undan hinum óguðlega og hjálpar þeim, af því að þeir leituðu hælis hjá honum.
7 Svo bar til á dögum Akasar, konungs í Júda, Jótamssonar, Ússíasonar, að Resín Sýrlandskonungur og Peka Remaljason, konungur í Ísrael, fóru upp til Jerúsalem til að herja á hana, en fengu ekki unnið hana.
2 Þá kom húsi Davíðs þessi fregn: Sýrland hefir gjört bandalag við Efraím. Skalf þá hjarta konungs og hjarta þjóðar hans, eins og skógartré skjálfa fyrir vindi.
3 Þá sagði Drottinn við Jesaja: "Gakk þú og Sear Jasúb, sonur þinn, til móts við Akas, að enda vatnstokksins úr efri tjörninni, við veginn út á bleikivöllinn,
4 og seg við hann: Gæt þín og haf kyrrt um þig. Óttast þú eigi og lát eigi hugfallast fyrir þessum tveimur rjúkandi brandabrotum, fyrir brennandi reiði þeirra Resíns, Sýrlendinga og Remaljasonar.
5 Sökum þess að Sýrland, Efraím og Remaljasonur hafa haft ill ráð með höndum gegn þér og sagt:
6 ,Vér skulum fara herferð á hendur Júda og skjóta mönnum skelk í bringu, taka landið herskildi og setja Tabelsson þar til konungs,` _
7 sökum þess segir hinn alvaldi Drottinn: Það skal eigi takast og það skal eigi verða.
8 Damaskus er höfuð Sýrlands og Resín höfuð Damaskus. Og áður en liðin eru sextíu og fimm ár skal Efraím gjöreytt verða og eigi verða þjóð upp frá því. _
9 Og Samaría er höfuð Efraíms og Remaljasonur höfuð Samaríu. Ef þér trúið eigi, munuð þér eigi fá staðist."
2 En að því er snertir komu Drottins vors Jesú Krists og það, að vér söfnumst til hans, biðjum vér yður, bræður,
2 að þér séuð ekki fljótir til að komast í uppnám eða láta hræða yður, hvorki af nokkrum anda né við orð eða bréf, sem væri það frá oss, eins og dagur Drottins væri þegar fyrir höndum.
3 Látið engan villa yður á nokkurn hátt. Því að ekki kemur dagurinn nema fráhvarfið komi fyrst og maður syndarinnar birtist. Hann er sonur glötunarinnar,
4 sem setur sig á móti Guði og rís gegn öllu því, sem kallast Guð eða helgur dómur. Hann sest í musteri Guðs og gjörir sjálfan sig að Guði.
5 Minnist þér ekki þess, að ég sagði yður þetta, meðan ég enn þá var hjá yður?
6 Og þér vitið, hvað aftrar honum nú, til þess að hann opinberist á sínum tíma.
7 Því að lögleysið er þegar farið að starfa í leyndum og stendur ekki á öðru en að þeim verði burt rýmt, sem nú heldur aftur af.
8 Þá mun lögleysinginn opinberast, _ og honum mun Drottinn Jesús tortíma með anda munns síns og að engu gjöra þegar hann birtist við endurkomu sína.
9 Lögleysinginn kemur fyrir tilverknað Satans með miklum krafti, lygatáknum og undrum
10 og með alls konar ranglætisvélum, sem blekkja þá, sem glatast, af því að þeir veittu ekki viðtöku og elskuðu ekki sannleikann, svo að þeir mættu verða hólpnir.
11 Þess vegna sendir Guð þeim megna villu, til þess að þeir trúi lyginni.
12 Þannig munu allir þeir verða dæmdir, sem hafa ekki trúað sannleikanum, en haft velþóknun á ranglætinu.
22 Nú fór í hönd hátíð ósýrðu brauðanna, sú er nefnist páskar.
2 Og æðstu prestarnir og fræðimennirnir leituðu fyrir sér, hvernig þeir gætu ráðið hann af dögum, því að þeir voru hræddir við lýðinn.
3 Þá fór Satan í Júdas, sem kallaður var Ískaríot og var í tölu þeirra tólf.
4 Hann fór og ræddi við æðstu prestana og varðforingjana um það, hvernig hann skyldi framselja þeim Jesú.
5 Þeir urðu glaðir við og hétu honum fé fyrir.
6 Hann gekk að því og leitaði færis að framselja hann þeim, þegar fólkið væri fjarri.
7 Þegar sá dagur ósýrðu brauðanna kom, er slátra skyldi páskalambinu,
8 sendi Jesús þá Pétur og Jóhannes og sagði: "Farið og búið til páskamáltíðar fyrir oss."
9 Þeir sögðu við hann: "Hvar vilt þú, að við búum hana?"
10 En hann sagði við þá: "Þegar þið komið inn í borgina, mætir ykkur maður, sem ber vatnsker. Fylgið honum inn þangað sem hann fer,
11 og segið við húsráðandann: ,Meistarinn spyr þig: Hvar er herbergið, þar sem ég get neytt páskamáltíðarinnar með lærisveinum mínum?`
12 Hann mun þá sýna ykkur loftsal mikinn, búinn hægindum. Hafið þar viðbúnað."
13 Þeir fóru og fundu allt eins og hann hafði sagt og bjuggu til páskamáltíðar.
by Icelandic Bible Society