Book of Common Prayer
34 Sálmur Davíðs, þá er hann gjörði sér upp vitfirringu frammi fyrir Abímelek, svo að Abímelek rak hann í burt, og hann fór burt.
2 Ég vil vegsama Drottin alla tíma, ætíð sé lof hans mér í munni.
3 Sál mín hrósar sér af Drottni, hinir hógværu skulu heyra það og fagna.
4 Miklið Drottin ásamt mér, tignum í sameiningu nafn hans.
5 Ég leitaði Drottins, og hann svaraði mér, frelsaði mig frá öllu því er ég hræddist.
6 Lítið til hans og gleðjist, og andlit yðar skulu eigi blygðast.
7 Hér er volaður maður sem hrópaði, og Drottinn heyrði hann og hjálpaði honum úr öllum nauðum hans.
8 Engill Drottins setur vörð kringum þá er óttast hann, og frelsar þá.
9 Finnið og sjáið, að Drottinn er góður, sæll er sá maður er leitar hælis hjá honum.
10 Óttist Drottin, þér hans heilögu, því að þeir er óttast hann líða engan skort.
11 Ung ljón eiga við skort að búa og svelta, en þeir er leita Drottins fara einskis góðs á mis.
12 Komið, börn, hlýðið á mig, ég vil kenna yður ótta Drottins.
13 Ef einhver óskar lífs, þráir lífdaga til þess að njóta hamingjunnar,
14 þá varðveit tungu þína frá illu og varir þínar frá svikatali,
15 forðast illt og gjörðu gott, leita friðar og legg stund á hann.
16 Augu Drottins hvíla á réttlátum, og eyru hans gefa gaum að hrópi þeirra.
17 Auglit Drottins horfir á þá er illa breyta, til þess að afmá minningu þeirra af jörðunni.
18 Ef réttlátir hrópa, þá heyrir Drottinn, úr öllum nauðum þeirra frelsar hann þá.
19 Drottinn er nálægur þeim er hafa sundurmarið hjarta, þeim er hafa sundurkraminn anda, hjálpar hann.
20 Margar eru raunir réttláts manns, en Drottinn frelsar hann úr þeim öllum.
21 Hann gætir allra beina hans, ekki eitt af þeim skal brotið.
22 Ógæfa drepur óguðlegan mann, þeir er hata hinn réttláta, skulu sekir dæmdir.
23 Drottinn frelsar líf þjóna sinna, enginn sá er leitar hælis hjá honum, mun sekur dæmdur.
49 Heyrið mig, þér eylönd, og hyggið að, þér fjarlægar þjóðir! Drottinn hefir kallað mig allt í frá móðurlífi, nefnt nafn mitt frá því ég var í kviði móður minnar.
2 Hann hefir gjört munn minn sem beitt sverð og hulið mig í skugga handar sinnar. Hann hefir gjört mig að fágaðri ör og falið mig í örvamæli sínum.
3 Hann sagði við mig: "Þú ert þjónn minn, Ísrael, sá er ég mun sýna á vegsemd mína."
4 En ég sagði: "Ég hefi þreytt mig til einskis, eytt krafti mínum til ónýtis og árangurslaust. Samt sem áður er réttur minn hjá Drottni og laun mín hjá Guði mínum."
5 En nú segir Drottinn, hann sem myndaði mig allt í frá móðurlífi til að vera þjón sinn, til þess að ég sneri Jakob aftur til hans og til þess að Ísrael yrði safnað saman til hans, _ og ég er dýrmætur í augum Drottins og Guð minn varð minn styrkur _
6 nú segir hann: "Það er of lítið fyrir þig að vera þjónn minn, til þess að endurreisa ættkvíslir Jakobs og leiða heim aftur þá, er varðveitst hafa af Ísrael. Fyrir því gjöri ég þig að ljósi fyrir þjóðirnar, svo að þú sért mitt hjálpræði til endimarka jarðarinnar."
4 Þannig líti menn á oss svo sem þjóna Krists og ráðsmenn yfir leyndardómum Guðs.
2 Nú er þess krafist af ráðsmönnum, að sérhver reynist trúr.
3 En mér er það fyrir minnstu að verða dæmdur af yður eða af mannlegu dómþingi. Ég dæmi mig ekki einu sinni sjálfur.
4 Ég er mér ekki neins ills meðvitandi, en með því er ég þó ekki sýknaður. Drottinn er sá sem dæmir mig.
5 Dæmið því ekki fyrir tímann, áður en Drottinn kemur. Hann mun leiða það í ljós, sem í myrkrinu er hulið, og opinbera ráð hjartnanna. Og þá mun hver um sig hljóta þann lofstír af Guði, sem hann á skilið.
6 En þetta hef ég yðar vegna, bræður, heimfært til sjálfs mín og Apollóss, til þess að þér af okkar dæmi mættuð læra regluna: "Farið ekki lengra en ritað er," _ og til þess að enginn yðar hroki sér upp einum í vil, öðrum til niðrunar.
7 Því að hver gefur þér yfirburði? Og hvað hefur þú, sem þú hefur ekki þegið? En hafir þú nú þegið það, hví stærir þú þig þá eins og þú hefðir ekki fengið það að gjöf?
8 Þér eruð þegar orðnir mettir, þér eruð þegar orðnir auðugir, án vor eruð þér orðnir konungar. Og ég vildi óska, að þér væruð orðnir konungar, til þess að einnig vér mættum vera konungar með yður!
9 Mér virðist Guð hafa sett oss postulana sísta allra, eins og dauðadæmda á leiksviði, frammi fyrir öllum heiminum, bæði englum og mönnum.
10 Vér erum heimskir sökum Krists, en þér vitrir fyrir samfélag yðar við Krist! Vér erum veikir, en þér sterkir, þér eruð í hávegum hafðir, en vér óvirtir.
11 Allt til þessarar stundar þolum vér hungur, þorsta og klæðleysi, oss er misþyrmt, vér höfum engan samastað,
12 og vér stöndum í erfiði og verðum að vinna með eigin höndum.
13 Hrakyrtir blessum vér, ofsóttir umberum vér, lastaðir áminnum vér. Vér erum orðnir eins og sorp heimsins, afhrak allra allt til þessa.
14 Ekki rita ég þetta til þess að gjöra yður kinnroða, heldur til að áminna yður eins og elskuleg börn mín.
15 Enda þótt þér hefðuð tíu þúsund fræðara í Kristi, þá hafið þér þó eigi marga feður. Ég hef í Kristi Jesú fætt yður með því að flytja yður fagnaðarerindið.
16 Ég bið yður: Verið eftirbreytendur mínir.
96 Syngið Drottni nýjan söng, syngið Drottni öll lönd!
2 Syngið Drottni, lofið nafn hans, kunngjörið hjálpráð hans dag eftir dag.
3 Segið frá dýrð hans meðal þjóðanna, frá dásemdarverkum hans meðal allra lýða.
4 Því að mikill er Drottinn og mjög vegsamlegur, óttalegur er hann öllum guðum framar.
5 Því að allir guðir þjóðanna eru falsguðir, en Drottinn hefir gjört himininn.
6 Heiður og vegsemd eru fyrir augliti hans, máttur og prýði í helgidómi hans.
7 Tjáið Drottni lof, þér kynkvíslir þjóða, tjáið Drottni vegsemd og vald.
8 Tjáið Drottni dýrð þá, er nafni hans hæfir, færið gjafir og komið til forgarða hans,
9 fallið fram fyrir Drottni í helgum skrúða, titrið fyrir honum, öll lönd!
10 Segið meðal þjóðanna: Drottinn er konungur orðinn! Hann hefir fest jörðina, svo að hún bifast ekki, hann dæmir þjóðirnar með réttvísi.
11 Himinninn gleðjist og jörðin fagni, hafið drynji og allt sem í því er,
12 foldin fagni og allt sem á henni er, öll tré skógarins kveði fagnaðaróp,
13 fyrir Drottni, því að hann kemur, hann kemur til þess að dæma jörðina. Hann mun dæma heiminn með réttlæti og þjóðirnar eftir trúfesti sinni.
100 Þakkarfórnar-sálmur. Öll veröldin fagni fyrir Drottni!
2 Þjónið Drottni með gleði, komið fyrir auglit hans með fagnaðarsöng!
3 Vitið, að Drottinn er Guð, hann hefir skapað oss, og hans erum vér, lýður hans og gæsluhjörð.
4 Gangið inn um hlið hans með lofsöng, í forgarða hans með sálmum, lofið hann, vegsamið nafn hans.
5 Því að Drottinn er góður, miskunn hans varir að eilífu og trúfesti hans frá kyni til kyns.
35 Daginn eftir var Jóhannes þar aftur staddur og tveir lærisveinar hans.
36 Hann sér Jesú á gangi og segir: "Sjá, Guðs lamb."
37 Lærisveinar hans tveir heyrðu orð hans og fóru á eftir Jesú.
38 Jesús sneri sér við, sá þá koma á eftir sér og sagði við þá: "Hvers leitið þið?" Þeir svara: "Rabbí (það þýðir meistari), hvar dvelst þú?"
39 Hann segir: "Komið og sjáið." Þeir komu og sáu, hvar hann dvaldist, og voru hjá honum þann dag. Þetta var síðdegis.
40 Annar þessara tveggja, sem heyrðu orð Jóhannesar og fóru á eftir Jesú, var Andrés, bróðir Símonar Péturs.
41 Hann finnur fyrst bróður sinn, Símon, og segir við hann: "Við höfum fundið Messías!" (Messías þýðir Kristur, Hinn smurði.)
42 Hann fór með hann til Jesú. Jesús horfði á hann og sagði: "Þú ert Símon Jóhannesson, þú skalt heita Kefas" (Pétur, það þýðir klettur).
by Icelandic Bible Society