Print Page Options
Previous Prev Day Next DayNext

Book of Common Prayer

Daily Old and New Testament readings based on the Book of Common Prayer.
Duration: 861 days
Icelandic Bible (ICELAND)
Version
Sálmarnir 131-135

131 Drottinn, hjarta mitt er eigi dramblátt né augu mín hrokafull. Ég fæst eigi við mikil málefni, né þau sem mér eru ofvaxin.

Sjá, ég hefi sefað sál mína og þaggað niður í henni. Eins og afvanið barn hjá móður sinni, svo er sál mín í mér.

Vona, Ísrael, á Drottin, héðan í frá og að eilífu.

132 Drottinn, mun þú Davíð allar þrautir hans,

hann sem sór Drottni, gjörði heit hinum volduga Jakobs Guði:

"Ég vil eigi ganga inn í tjaldhús mitt, eigi stíga í hvílurúm mitt,

eigi unna augum mínum svefns né augnalokum mínum blunds,

fyrr en ég hefi fundið stað fyrir Drottin, bústað fyrir hinn volduga Jakobs Guð."

Sjá, vér höfum heyrt um hann í Efrata, fundið hann á Jaarmörk.

Látum oss ganga til bústaðar Guðs, falla fram á fótskör hans.

Tak þig upp, Drottinn, og far á hvíldarstað þinn, þú og örk máttar þíns.

Prestar þínir íklæðist réttlæti og dýrkendur þínir fagni.

10 Sakir Davíðs þjóns þíns vísa þú þínum smurða eigi frá.

11 Drottinn hefir svarið Davíð óbrigðulan eið, er hann eigi mun rjúfa: "Af ávexti kviðar þíns mun ég setja mann í hásæti þitt.

12 Ef synir þínir varðveita sáttmála minn og reglur mínar, þær er ég kenni þeim, þá skulu og þeirra synir um aldur sitja í hásæti þínu."

13 Því að Drottinn hefir útvalið Síon, þráð hana sér til bústaðar:

14 "Þetta er hvíldarstaður minn um aldur, hér vil ég búa, því að hann hefi ég þráð.

15 Vistir hans vil ég vissulega blessa, og fátæklinga hans vil ég seðja með brauði,

16 presta hans vil ég íklæða hjálpræði, hinir guðhræddu er þar búa skulu kveða fagnaðarópi.

17 Þar vil ég láta Davíð horn vaxa, þar hefi ég búið lampa mínum smurða.

18 Óvini hans vil ég íklæða skömm, en á honum skal kóróna hans ljóma."

133 Sjá, hversu fagurt og yndislegt það er, þegar bræður búa saman,

eins og hin ilmgóða olía á höfðinu, er rennur niður í skeggið, skegg Arons, er fellur niður á kyrtilfald hans,

eins og dögg af Hermonfjalli, er fellur niður á Síonfjöll. Því að þar hefir Drottinn boðið út blessun, lífi að eilífu.

134 Já, lofið Drottin, allir þjónar Drottins, þér er standið í húsi Drottins um nætur.

Fórnið höndum til helgidómsins og lofið Drottin.

Drottinn blessi þig frá Síon, hann sem er skapari himins og jarðar.

135 Halelúja. Lofið nafn Drottins, lofið hann, þér þjónar Drottins,

er standið í húsi Drottins, í forgörðum húss Guðs vors.

Lofið Drottin, því að Drottinn er góður, leikið fyrir nafni hans, því að það er yndislegt.

Því að Drottinn hefir útvalið sér Jakob, gert Ísrael að eign sinni.

Já, ég veit, að Drottinn er mikill og að Drottinn vor er öllum guðum æðri.

Allt, sem Drottni þóknast, það gjörir hann, á himni og jörðu, í hafinu og öllum djúpunum.

Hann lætur skýin uppstíga frá endimörkum jarðar, gjörir eldingarnar til að búa rás regninu, hleypir vindinum út úr forðabúrum hans.

Hann laust frumburði Egyptalands, bæði menn og skepnur,

sendi tákn og undur yfir Egyptaland, gegn Faraó og öllum þjónum hans.

10 Hann laust margar þjóðir og deyddi volduga konunga:

11 Síhon, Amorítakonung, og Óg, konung í Basan, og öll konungsríki í Kanaan,

12 og gaf lönd þeirra að erfð, að erfð Ísrael, lýð sínum.

13 Drottinn, nafn þitt varir að eilífu, minning þín, Drottinn, frá kyni til kyns,

14 því að Drottinn réttir hlut þjóðar sinnar og aumkast yfir þjóna sína.

15 Skurðgoð þjóðanna eru silfur og gull, handaverk manna.

16 Þau hafa munn, en tala ekki, augu, en sjá ekki,

17 þau hafa eyru, en heyra ekki, og eigi er heldur neinn andardráttur í munni þeirra.

18 Eins og þau eru, verða smiðir þeirra, allir þeir, er á þau treysta.

19 Ísraels ætt, lofið Drottin, Arons ætt, lofið Drottin!

20 Leví ætt, lofið Drottin, þér sem óttist Drottin, lofið hann!

21 Lofaður sé Drottinn frá Síon, hann sem býr í Jerúsalem! Halelúja.

Sakaría 13

13 Á þeim degi mun Davíðs húsi og Jerúsalembúum standa opin lind til að þvo af sér syndir og saurugleik.

Á þeim degi _ segir Drottinn allsherjar _ mun ég afmá nöfn skurðgoðanna úr landinu, svo að þeirra skal eigi framar minnst verða, og sömuleiðis vil ég reka burt úr landinu spámennina og óhreinleikans anda.

En ef nokkur kemur enn fram sem spámaður, þá munu faðir hans og móðir, hans eigin foreldrar, segja við hann: "Þú skalt eigi lífi halda, því að þú hefir talað lygi í nafni Drottins." Og faðir hans og móðir, hans eigin foreldrar, munu leggja hann í gegn, þá er hann kemur fram sem spámaður.

Á þeim degi munu allir spámenn skammast sín fyrir sýnir sínar, þá er þeir eru að spá, og þeir skulu eigi klæðast loðfeldum til þess að blekkja aðra,

heldur mun hver þeirra segja: "Ég er enginn spámaður, ég er akurkarl, því á akuryrkju hefi ég lagt stund frá barnæsku."

Og segi einhver við hann: "Hvaða ör eru þetta á brjósti þínu?" þá mun hann svara: "Það er eftir högg, sem ég fékk í húsi ástvina minna."

Hef þig á loft, sverð, gegn hirði mínum og gegn manninum, sem mér er svo nákominn! _ segir Drottinn allsherjar. Slá þú hirðinn, þá mun hjörðin tvístrast, og ég mun snúa hendi minni til hinna smáu.

Og svo skal fara í gjörvöllu landinu _ segir Drottinn _ að tveir hlutir landsfólksins skulu upprættir verða og gefa upp öndina, en þriðjungur þess eftir verða.

En þennan þriðjung læt ég í eld og bræði þá, eins og silfur er brætt, og hreinsa þá eins og gull er hreinsað. Hann mun ákalla nafn mitt, og ég mun bænheyra hann og ég mun segja: "Þetta er minn lýður!" og hann mun segja: "Drottinn, Guð minn!"

Bréf Páls til Efesusmanna 1:15-23

15 Eftir að hafa heyrt um trú yðar á Drottin Jesú og um kærleika yðar til allra heilagra,

16 hef ég þess vegna ekki heldur látið af að þakka fyrir yður, er ég minnist yðar í bænum mínum.

17 Ég bið Guð Drottins vors Jesú Krists, föður dýrðarinnar, að gefa yður anda speki og opinberunar, svo að þér fáið þekkt hann.

18 Ég bið hann að upplýsa sálarsjón yðar, svo að þér skiljið, hver sú von er, sem hann hefur kallað oss til, hver ríkdómur hans dýrlegu arfleifðar er, sem hann ætlar oss meðal hinna heilögu,

19 og hver hinn yfirgnæfandi máttur hans við oss, sem trúum. En þetta er sami áhrifamikli, kröftugi mátturinn,

20 sem hann lét koma fram í Kristi, er hann vakti hann frá dauðum og lét hann setjast sér til hægri handar í himinhæðum,

21 ofar hverri tign og valdi og mætti, ofar öllum herradómi og sérhverju nafni, sem nefnt er, ekki aðeins í þessari veröld, heldur og í hinni komandi.

22 Allt hefur hann lagt undir fætur honum og gefið hann kirkjunni sem höfuðið yfir öllu.

23 En kirkjan er líkami hans og fyllist af honum, sem sjálfur fyllir allt í öllu.

Lúkasarguðspjall 19:11-27

11 Meðan þeir hlýddu á, bætti hann við dæmisögu, því að hann var í nánd við Jerúsalem, og þeir ætluðu, að Guðs ríki mundi þegar birtast.

12 Hann sagði: "Maður nokkur tiginborinn fór í fjarlægt land til þess að taka við konungdómi og koma síðan aftur.

13 Hann kallaði tíu þjóna sína, seldi þeim í hendur tíu pund og sagði við þá: ,Verslið með þetta, þangað til ég kem.`

14 En landar hans hötuðu hann og gerðu sendimann á eftir honum til að segja: ,Vér viljum ekki, að þessi maður verði konungur yfir oss.`

15 Nú kom hann aftur og hafði tekið konungdóm. Þá lét hann kalla fyrir sig þjóna þá er hann hafði selt féð í hendur, til þess að vita, hvað hver hefði grætt.

16 Hinn fyrsti kom og sagði: ,Herra, pund þitt hefur ávaxtast um tíu pund.`

17 Konungur sagði við hann: ,Gott, þú góði þjónn, þú varst trúr í mjög litlu og því skaltu ráða fyrir tíu borgum.`

18 Annar kom og sagði: ,Pund þitt, herra, hefur gefið af sér fimm pund.`

19 Hann sagði eins við hann: ,Þú skalt og vera yfir fimm borgum.`

20 Enn kom einn og sagði: ,Herra, hér er pund þitt. Ég hef haft það geymt í dúki,

21 því að ég var hræddur við þig, en þú ert maður strangur og tekur það út, sem þú lagðir ekki inn, og uppsker það, sem þú sáðir ekki.`

22 Hann segir við hann: ,Illi þjónn, eftir orðum þínum dæmi ég þig. Þú vissir, að ég er maður strangur, sem tek það út, sem ég lagði ekki inn, og uppsker það, sem ég sáði ekki.

23 Hvers vegna léstu þá ekki fé mitt í banka? Þá hefði ég fengið það með vöxtum, er ég kom heim.`

24 Og hann sagði við þá er hjá voru: ,Takið af honum pundið, og fáið þeim, sem hefur tíu pundin.`

25 En þeir sögðu við hann: ,Herra, hann hefur tíu pund.`

26 Ég segi yður: Hverjum sem hefur, mun gefið verða, og frá þeim sem eigi hefur, mun tekið verða jafnvel það, sem hann hefur.

27 En þessa óvini mína, sem vildu ekki að ég yrði konungur yfir sér, færið þá hingað og höggvið þá frammi fyrir mér."

Icelandic Bible (ICELAND)

by Icelandic Bible Society