Book of Common Prayer
120 Ég ákalla Drottin í nauðum mínum, og hann bænheyrir mig.
2 Drottinn, frelsa sál mína frá ljúgandi vörum, frá tælandi tungu.
3 Hversu mun fara fyrir þér nú og síðar, þú tælandi tunga?
4 Örvar harðstjórans eru hvesstar með glóandi viðarkolum.
5 Vei mér, að ég dvel hjá Mesek, bý hjá tjöldum Kedars.
6 Nógu lengi hefir sál mín búið hjá þeim er friðinn hata.
7 Þótt ég tali friðlega, vilja þeir ófrið.
121 Ég hef augu mín til fjallanna: Hvaðan kemur mér hjálp?
2 Hjálp mín kemur frá Drottni, skapara himins og jarðar.
3 Hann mun eigi láta fót þinn skriðna, vörður þinn blundar ekki.
4 Nei, hann blundar ekki og sefur ekki, hann, vörður Ísraels.
5 Drottinn er vörður þinn, Drottinn skýlir þér, hann er þér til hægri handar.
6 Um daga mun sólarhitinn eigi vinna þér mein, né heldur tunglið um nætur.
7 Drottinn mun vernda þig fyrir öllu illu, hann mun vernda sál þína.
8 Drottinn mun varðveita útgöngu þína og inngöngu héðan í frá og að eilífu.
122 Ég varð glaður, er menn sögðu við mig: "Göngum í hús Drottins."
2 Fætur vorir standa í hliðum þínum, Jerúsalem.
3 Jerúsalem, þú hin endurreista, borgin þar sem öll þjóðin safnast saman,
4 þangað sem kynkvíslirnar fara, kynkvíslir Drottins _ það er regla fyrir Ísrael _ til þess að lofa nafn Drottins,
5 því að þar standa dómarastólar, stólar fyrir Davíðs ætt.
6 Biðjið Jerúsalem friðar, hljóti heill þeir, er elska þig.
7 Friður sé kringum múra þína, heill í höllum þínum.
8 Sakir bræðra minna og vina óska ég þér friðar.
9 Sakir húss Drottins, Guðs vors, vil ég leita þér hamingju.
123 Til þín hef ég augu mín, þú sem situr á himnum.
2 Eins og augu þjónanna mæna á hönd húsbónda síns, eins og augu ambáttarinnar mæna á hönd húsmóður sinnar, svo mæna augu vor á Drottin, Guð vorn, uns hann líknar oss.
3 Líkna oss, Drottinn, líkna oss, því að vér höfum fengið meira en nóg af spotti.
4 Sál vor hefir fengið meira en nóg af háði hrokafullra, af spotti dramblátra.
124 Hefði það ekki verið Drottinn sem var með oss, _ skal Ísrael segja _
2 hefði það ekki verið Drottinn sem var með oss, þegar menn risu í móti oss,
3 þá hefðu þeir gleypt oss lifandi, þegar reiði þeirra bálaðist upp í móti oss.
4 Þá hefðu vötnin streymt yfir oss, elfur gengið yfir oss,
5 þá hefðu gengið yfir oss hin beljandi vötn.
6 Lofaður sé Drottinn, er ekki gaf oss tönnum þeirra að bráð.
7 Sál vor slapp burt eins og fugl úr snöru fuglarans. Brast snaran, burt sluppum vér.
8 Hjálp vor er í nafni Drottins, skapara himins og jarðar.
125 Þeir sem treysta Drottni eru sem Síonfjall, er eigi bifast, sem stendur að eilífu.
2 Fjöll eru kringum Jerúsalem, og Drottinn er kringum lýð sinn héðan í frá og að eilífu.
3 Því að veldissproti guðleysisins mun eigi hvíla á landi réttlátra, til þess að hinir réttlátu skuli eigi rétta fram hendur sínar til ranglætis.
4 Gjör þú góðum vel til, Drottinn, og þeim sem hjartahreinir eru.
5 En þá er beygja á krókóttar leiðir mun Drottinn láta hverfa með illgjörðamönnum. Friður sé yfir Ísrael!
126 Þegar Drottinn sneri við hag Síonar, þá var sem oss dreymdi.
2 Þá fylltist munnur vor hlátri, og tungur vorar fögnuði. Þá sögðu menn meðal þjóðanna: "Mikla hluti hefir Drottinn gjört við þá."
3 Drottinn hefir gjört mikla hluti við oss, vér vorum glaðir.
4 Snú við hag vorum, Drottinn, eins og þú gjörir við lækina í Suðurlandinu.
5 Þeir sem sá með tárum, munu uppskera með gleðisöng.
6 Grátandi fara menn og bera sæðið til sáningar, með gleðisöng koma þeir aftur og bera kornbindin heim.
127 Ef Drottinn byggir ekki húsið, erfiða smiðirnir til ónýtis. Ef Drottinn verndar eigi borgina, vakir vörðurinn til ónýtis.
2 Það er til ónýtis fyrir yður, þér sem snemma rísið og gangið seint til hvíldar og etið brauð, sem aflað er með striti: Svo gefur hann ástvinum sínum í svefni!
3 Sjá, synir eru gjöf frá Drottni, ávöxtur móðurkviðarins er umbun.
4 Eins og örvar í hendi kappans, svo eru synir getnir í æsku.
5 Sæll er sá maður, er fyllt hefir örvamæli sinn með þeim, þeir verða eigi til skammar, er þeir tala við óvini sína í borgarhliðinu.
4 Svo sagði Drottinn, Guð minn: Hald til haga skurðarsauðunum,
5 er kaupendur þeirra slátra að ósekju, og seljendur þeirra segja: "Lofaður sé Drottinn, nú er ég orðinn ríkur!" og hirðar þeirra vægja þeim ekki.
6 Því að nú vil ég ekki framar vægja íbúum landsins _ segir Drottinn _ heldur framsel ég nú sjálfur mennina, hvern í hendur konungi sínum. Þeir munu eyða landið, og ég mun engan frelsa undan valdi þeirra.
7 Þá hélt ég til haga skurðarsauðunum fyrir fjárkaupmennina, og tók ég mér tvo stafi. Kallaði ég annan þeirra Hylli og hinn Sameining. Gætti ég nú fjárins
8 og afmáði þrjá hirða á einum mánuði. Varð ég leiður á þeim, og þeir höfðu einnig óbeit á mér.
9 Þá sagði ég: "Ég vil ekki gæta yðar. Deyi það sem deyja vill, farist það sem farast vill, og það sem þá verður eftir, eti hvað annað upp."
10 Síðan tók ég staf minn Hylli og braut í sundur til þess að bregða þeim sáttmála, sem ég hafði gjört við allar þjóðir.
11 En er honum var brugðið á þeim degi, þá könnuðust fjárkaupmennirnir við, þeir er gáfu mér gaum, að þetta var orð Drottins.
12 Þá sagði ég við þá: "Ef yður þóknast, þá greiðið mér kaup mitt, en að öðrum kosti látið það vera!" Þá vógu þeir mér þrjátíu sikla silfurs í kaup mitt.
13 En Drottinn sagði við mig: "Kasta þú því til leirkerasmiðsins, hinu dýra verðinu, er þú varst metinn af þeim!" Og ég tók þá þrjátíu sikla silfurs og kastaði þeim til leirkerasmiðsins í musteri Drottins.
14 Síðan braut ég sundur hinn stafinn, Sameining, til þess að bregða upp bræðralaginu milli Júda og Ísrael.
15 Því næst sagði Drottinn við mig: Tak þér enn verkfæri heimsks hirðis,
16 því að sjá, ég ætla sjálfur að láta hirði rísa upp í landinu, sem vitjar ekki þess, sem er að farast, leitar ekki þess, sem villst hefir, græðir ekki hið limlesta, annast ekki hið heilbrigða, heldur etur kjötið af feitu skepnunum og rífur klaufirnar af þeim.
17 Vei hinum ónýta hirði, sem yfirgefur sauðina. Glötun komi yfir armlegg hans og yfir hægra auga hans! Armleggur hans visni gjörsamlega, og hægra auga hans verði steinblint.
10 Eftir þeirri náð, sem Guð hefur veitt mér, hef ég eins og vitur húsameistari lagt grundvöll, er annar byggir ofan á. En sérhver athugi, hvernig hann byggir.
11 Annan grundvöll getur enginn lagt en þann, sem lagður er, sem er Jesús Kristur.
12 En ef einhver byggir ofan á grundvöllinn gull, silfur, dýra steina, tré, hey eða hálm,
13 þá mun verk hvers um sig verða augljóst. Dagurinn mun leiða það í ljós, af því að hann opinberast með eldi og eldurinn mun prófa hvílíkt verk hvers og eins er.
14 Ef nú verk einhvers fær staðist, það er hann byggði ofan á, mun hann taka laun.
15 Ef verk einhvers brennur upp, mun hann bíða tjón. Sjálfur mun hann frelsaður verða, en þó eins og úr eldi.
16 Vitið þér eigi, að þér eruð musteri Guðs og að andi Guðs býr í yður?
17 Ef nokkur eyðir musteri Guðs, mun Guð eyða honum, því að musteri Guðs er heilagt, og þér eruð það musteri.
18 Enginn dragi sjálfan sig á tálar. Ef nokkur þykist vitur yðar á meðal í þessum heimi, verði hann fyrst heimskur til þess að hann verði vitur.
19 Því að speki þessa heims er heimska hjá Guði. Ritað er: Hann er sá, sem grípur hina vitru í slægð þeirra.
20 Og aftur: Drottinn þekkir hugsanir vitringanna, að þær eru hégómlegar.
21 Fyrir því stæri enginn sig af mönnum. Því að allt er yðar,
22 hvort heldur er Páll, Apollós eða Kefas, heimurinn, líf eða dauði, hið yfirstandandi eða hið komandi, allt er yðar.
23 En þér eruð Krists og Kristur Guðs.
31 Hann tók þá tólf til sín og sagði við þá: "Nú förum vér upp til Jerúsalem, og mun allt það koma fram við Mannssoninn, sem skrifað er hjá spámönnunum.
32 Hann verður framseldur heiðingjum, menn munu hæða hann, misþyrma honum og hrækja á hann.
33 Þeir munu húðstrýkja hann og lífláta, en á þriðja degi mun hann upp rísa."
34 En þeir skildu ekkert af þessu, orð þessi voru þeim hulin, og þeir skynjuðu ekki það, sem sagt var.
35 Svo bar við, er hann nálgaðist Jeríkó, að blindur maður sat þar við veginn og betlaði.
36 Hann heyrði, að mannfjöldi gekk hjá, og spurði, hvað um væri að vera.
37 Var honum sagt, að Jesús frá Nasaret færi hjá.
38 Þá hrópaði hann: "Jesús, sonur Davíðs, miskunna þú mér!"
39 En þeir sem á undan fóru, höstuðu á hann, að hann þegði. En hann hrópaði því meir: "Sonur Davíðs, miskunna þú mér!"
40 Jesús nam staðar og bauð að leiða hann til sín. Er hann kom nær, spurði Jesús hann:
41 "Hvað vilt þú, að ég gjöri fyrir þig?" Hinn svaraði: "Herra, að ég fái aftur sjón."
42 Jesús sagði við hann: "Fá þú aftur sjónina. Trú þín hefur bjargað þér."
43 Jafnskjótt fékk hann sjónina. Og hann fylgdi honum og lofaði Guð. En allt fólkið, er sá þetta, vegsamaði Guð.
by Icelandic Bible Society