Print Page Options
Previous Prev Day Next DayNext

Book of Common Prayer

Daily Old and New Testament readings based on the Book of Common Prayer.
Duration: 861 days
Icelandic Bible (ICELAND)
Version
Sálmarnir 66-67

66 Til söngstjórans. Ljóð. Sálmur. Fagnið fyrir Guði, gjörvallt jarðríki,

syngið um hans dýrlega nafn, gjörið lofstír hans vegsamlegan.

Mælið til Guðs: Hversu óttaleg eru verk þín, sakir mikilleiks máttar þíns hræsna óvinir þínir fyrir þér.

Öll jörðin lúti þér og lofsyngi þér, lofsyngi nafni þínu. [Sela]

Komið og sjáið verkin Guðs, sem er óttalegur í breytni sinni gagnvart mönnunum.

Hann breytti hafinu í þurrlendi, þeir fóru fótgangandi yfir ána. Þá glöddumst vér yfir honum.

Hann ríkir um eilífð sakir veldis síns, augu hans gefa gætur að þjóðunum, uppreistarmenn mega eigi láta á sér bæra. [Sela]

Þér lýðir, lofið Guð vorn og látið hljóma lofsöng um hann.

Hann veitti sálum vorum lífið og lét oss eigi verða valta á fótum.

10 Því að þú hefir rannsakað oss, ó Guð, hreinsað oss, eins og silfur er hreinsað.

11 Þú hefir varpað oss í fangelsi, lagt byrði á lendar vorar.

12 Þú hefir látið menn ganga yfir höfuð vor, vér höfum farið gegnum eld og vatn, en nú hefir þú leitt oss út á víðan vang.

13 Ég kem í hús þitt með brennifórnir, efni heit mín við þig,

14 þau er varir mínar hétu og munnur minn nefndi, þá er ég var í nauðum staddur.

15 Ég færi þér brennifórn af feitum dýrum, ásamt fórnarilm af hrútum, ég fórna nautum og höfrum. [Sela]

16 Komið, hlýðið til, allir þér er óttist Guð, að ég megi segja frá, hvað hann hefir gjört fyrir mig.

17 Til hans hrópaði ég með munni mínum, en lofgjörð lá undir tungu minni.

18 Ef ég hygg á illt í hjarta mínu, þá heyrir Drottinn ekki.

19 En Guð hefir heyrt, gefið gaum að bænarópi mínu.

20 Lofaður sé Guð, er eigi vísaði bæn minni á bug né tók miskunn sína frá mér.

67 Til söngstjórans. Með strengjaleik. Sálmur. Ljóð.

Guð sé oss náðugur og blessi oss, hann láti ásjónu sína lýsa meðal vor, [Sela]

svo að þekkja megi veg þinn á jörðunni og hjálpræði þitt meðal allra þjóða.

Lýðirnir skulu lofa þig, ó Guð, þig skulu gjörvallir lýðir lofa.

Gleðjast og fagna skulu þjóðirnar, því að þú dæmir lýðina réttvíslega og leiðir þjóðirnar á jörðunni. [Sela]

Lýðirnir skulu lofa þig, ó Guð, þig skulu gjörvallir lýðir lofa.

Jörðin hefir gefið ávöxt sinn, Guð, vor Guð, blessar oss.

Guð blessi oss, svo að öll endimörk jarðar megi óttast hann.

Sálmarnir 19

19 Til söngstjórans. Davíðssálmur.

Himnarnir segja frá Guðs dýrð, og festingin kunngjörir verkin hans handa.

Hver dagurinn kennir öðrum, hver nóttin boðar annarri speki.

Engin ræða, engin orð, ekki heyrist raust þeirra.

Og þó fer hljómur þeirra um alla jörðina, og orð þeirra ná til endimarka heims. Þar reisti hann röðlinum tjald.

Hann er sem brúðguminn, er gengur út úr svefnhúsi sínu, hlakkar sem hetja til að renna skeið sitt.

Við takmörk himins rennur hann upp, og hringferð hans nær til enda himins, og ekkert dylst fyrir geislaglóð hans. _________

Lögmál Drottins er lýtalaust, hressir sálina, vitnisburður Drottins er áreiðanlegur, gjörir hinn fávísa vitran.

Fyrirmæli Drottins eru rétt, gleðja hjartað. Boðorð Drottins eru skír, hýrga augun.

10 Ótti Drottins er hreinn, varir að eilífu. Ákvæði Drottins eru sannleikur, eru öll réttlát.

11 Þau eru dýrmætari heldur en gull, já, gnóttir af skíru gulli, og sætari en hunang, já, hunangsseimur.

12 Þjónn þinn varðveitir þau kostgæfilega, að halda þau hefir mikil laun í för með sér.

13 En hver verður var við yfirsjónirnar? Sýkna mig af leyndum brotum!

14 Og varðveit þjón þinn fyrir ofstopamönnum, lát þá eigi drottna yfir mér. Þá verð ég lýtalaus og sýknaður af miklu afbroti.

15 Ó að orðin af munni mínum yrðu þér þóknanleg og hugsanir hjarta míns kæmu fram fyrir auglit þitt, þú Drottinn, hellubjarg mitt og frelsari!

Sálmarnir 46

46 Til söngstjórans. Eftir Kóraíta. Fyrir kvenraddir. Ljóð.

Guð er oss hæli og styrkur, örugg hjálp í nauðum.

Fyrir því hræðumst vér eigi, þótt jörðin haggist og fjöllin bifist og steypist í skaut sjávarins.

Látum vötnin gnýja og freyða, látum fjöllin gnötra fyrir æðigangi hafsins. [Sela]

Elfar-kvíslir gleðja Guðs borg, heilagan bústað Hins hæsta.

Guð býr í henni, eigi mun hún bifast, Guð hjálpar henni, þegar birtir af degi.

Þjóðir gnúðu, ríki riðuðu, raust hans þrumaði, jörðin nötraði.

Drottinn hersveitanna er með oss, Jakobs Guð vort vígi. [Sela]

Komið, skoðið dáðir Drottins, hversu hann framkvæmir furðuverk á jörðu.

10 Hann stöðvar styrjaldir til endimarka jarðar, brýtur bogann, slær af oddinn, brennir skjöldu í eldi.

11 "Verið kyrrir og viðurkennið, að ég er Guð, hátt upphafinn meðal þjóðanna, hátt upphafinn á jörðu."

12 Drottinn hersveitanna er með oss, Jakobs Guð vort vígi. [Sela]

Habakkuk 1:1-2

Spádómur, sem opinberaður var Habakkuk spámanni.

Hversu lengi hefi ég kallað, Drottinn, og þú heyrir ekki! Hversu lengi hefi ég hrópað til þín: "Ofríki!" og þú hjálpar ekki!

Hví lætur þú mig sjá rangindi, hví horfir þú upp á rangsleitni? Eyðing og ofríki standa fyrir augum mér. Af því koma þrætur, og deilur rísa upp.

Fyrir því verður lögmálið magnlaust og fyrir því kemur rétturinn aldrei fram. Hinir óguðlegu umkringja hina réttlátu, fyrir því kemur rétturinn fram rangsnúinn.

Lítið upp, þér hinir sviksömu, og litist um! Fallið í stafi og undrist! Því að ég framkvæmi verk á yðar dögum _ þér munduð ekki trúa því, ef sagt væri frá því.

Sjá, ég reisi upp Kaldea, hina harðgjöru og ofsafullu þjóð, sem fer um víða veröld til þess að leggja undir sig bústaði, sem hún á ekki.

Ægileg og hræðileg er hún, frá henni sjálfri út gengur réttur hennar og tign.

Hestar hennar eru frárri en pardusdýr og skjótari en úlfar að kveldi dags. Riddarar hennar þeysa áfram, riddarar hennar koma langt að. Þeir fljúga áfram eins og örn, sem hraðar sér að æti.

Allir koma þeir til þess að fremja ofbeldisverk, brjótast beint áfram og raka saman herteknum mönnum eins og sandi.

10 Þeir gjöra gys að konungum, og höfðingjar eru þeim að hlátri. Þeir hlæja að öllum virkjum, hrúga upp mold og vinna þau.

11 Þeir fá nýjan kraft og brjótast áfram og gjörast brotlegir, _ þeir sem trúa á mátt sinn og megin.

12 Ert þú, Drottinn, ekki Guð minn frá öndverðu, minn Heilagi, sem aldrei deyr? Drottinn, þú hefir falið þeim að framkvæma dóm. Bjargið mitt, þú hefir sett þá til að refsa.

13 Augu þín eru of hrein til þess að líta hið illa, og þú getur ekki horft upp á rangsleitni. Hví horfir þú á svikarana, hví þegir þú, þegar hinn óguðlegi uppsvelgir þann, sem honum er réttlátari?

14 Og þannig hefir þú látið mennina verða eins og fiska sjávarins, eins og skriðkvikindin, sem engan drottnara hafa.

15 Þeir draga þá alla upp á öngli sínum, hrífa þá í net sitt og safna þeim í vörpu sína. Fyrir því gleðjast þeir og fagna,

16 fyrir því færa þeir neti sínu sláturfórn og vörpu sinni reykelsisfórn. Því að þau afla þeim ríkulegs hlutskiptis og ríflegs matar.

17 Fyrir því bregða þeir sverði sínu án afláts til þess að drepa þjóðir vægðarlaust.

Ég ætla að nema staðar á varðbergi mínu og ganga út á virkisvegginn og skyggnast um til þess að sjá, hvað hann talar við mig og hverju hann svarar umkvartan minni.

Bréf Páls til Filippímann 3:13-4:1

13 Bræður, ekki tel ég sjálfan mig enn hafa höndlað það.

14 En eitt gjöri ég. Ég gleymi því, sem að baki er, en seilist eftir því, sem framundan er, og keppi þannig að markinu, til verðlaunanna á himnum, sem Guð hefur kallað oss til fyrir Krist Jesú.

15 Þetta hugarfar skulum vér því allir hafa, sem fullkomnir erum. Og ef þér hugsið í nokkru öðruvísi, þá mun Guð einnig opinbera yður þetta.

16 Fyrir alla muni skulum vér ganga þá götu, sem vér höfum komist á.

17 Bræður, breytið allir eftir mér og festið sjónir yðar á þeim, sem breyta eftir þeirri fyrirmynd, er vér höfum yður gefið.

18 Margir breyta, _ ég hef oft sagt yður það og nú segi ég það jafnvel grátandi _, eins og óvinir kross Krists.

19 Afdrif þeirra eru glötun. Guð þeirra er maginn, þeim þykir sómi að skömminni og þeir hafa hugann á jarðneskum munum.

20 En föðurland vort er á himni og frá himni væntum vér frelsarans, Drottins Jesú Krists.

21 Hann mun breyta veikum og forgengilegum líkama vorum og gjöra hann líkan dýrðarlíkama sínum. Því hann hefur kraftinn til að leggja allt undir sig.

Þess vegna, mínir elskuðu og þráðu bræður, gleði mín og kóróna, standið þá stöðugir í Drottni, þér elskuðu.

Matteusarguðspjall 23:13-24

13 Vei yður, fræðimenn og farísear, hræsnarar! Þér læsið himnaríki fyrir mönnum. Sjálfir gangið þér ekki þar inn, og þeim, sem inn vilja ganga, leyfið þér eigi inn að komast. [

14 Vei yður, fræðimenn og farísear, hræsnarar! Þér etið upp heimili ekkna og flytjið langar bænir að yfirskini. Þér munuð fá því þyngri dóm.]

15 Vei yður, fræðimenn og farísear, hræsnarar! Þér farið um láð og lög til að snúa einum til yðar trúar, og þegar það tekst, gjörið þér hann hálfu verra vítisbarn en þér sjálfir eruð.

16 Vei yður, blindir leiðtogar! Þér segið: ,Ef einhver sver við musterið, þá er það ógilt, en sverji menn við gullið í musterinu, þá er það gildur eiður.`

17 Blindu heimskingjar, hvort er meira gullið eða musterið, sem helgar gullið?

18 Þér segið: ,Ef einhver sver við altarið, þá er það ógilt, en sverji menn við fórnina, sem á því er, þá er það gildur eiður.`

19 Blindu menn, hvort er meira fórnin eða altarið, sem helgar fórnina?

20 Sá sem sver við altarið, sver við það og allt, sem á því er.

21 Sá sem sver við musterið, sver við það og við þann, sem í því býr.

22 Og sá sem sver við himininn, sver við hásæti Guðs og við þann, sem í því situr.

23 Vei yður, fræðimenn og farísear, hræsnarar! Þér gjaldið tíund af myntu, anís og kúmeni, en hirðið ekki um það, sem mikilvægast er í lögmálinu, réttlæti, miskunn og trúfesti. Þetta ber að gjöra og hitt eigi ógjört að láta.

24 Blindu leiðtogar, þér síið mýfluguna, en svelgið úlfaldann!

Icelandic Bible (ICELAND)

by Icelandic Bible Society