Print Page Options
Previous Prev Day Next DayNext

Book of Common Prayer

Daily Old and New Testament readings based on the Book of Common Prayer.
Duration: 861 days
Icelandic Bible (ICELAND)
Version
Sálmarnir 88

88 Ljóð. Kóraíta-sálmur. Til söngstjórans. Syngist með Makalat-lagi. Hemans-maskíl Esraíta.

Drottinn, Guð minn, ég kalla um daga, um nætur hrópa ég frammi fyrir þér.

Lát bæn mína koma fyrir þig, hneig eyra að hrópi mínu,

því að sál mín er mett orðin af böli, og líf mitt nálægist Hel.

Ég er talinn með þeim, sem gengnir eru til grafar, ég er sem magnþrota maður.

Mér er fenginn bústaður með framliðnum, eins og vegnum mönnum, er liggja í gröfinni, er þú minnist eigi framar, því að þeir eru hrifnir burt úr hendi þinni.

Þú hefir lagt mig í gryfju undirheima, í myrkrið niðri í djúpinu.

Reiði þín hvílir á mér, og alla boða þína hefir þú látið skella á mér. [Sela]

Þú hefir fjarlægt frá mér kunningja mína, gjört mig að andstyggð í augum þeirra. Ég er byrgður inni og kemst ekki út,

10 augu mín eru döpruð af eymd. Ég ákalla þig, Drottinn, dag hvern, breiði út hendurnar í móti þér.

11 Gjörir þú furðuverk vegna framliðinna, eða munu hinir dauðu rísa upp til þess að lofa þig? [Sela]

12 Er sagt frá miskunn þinni í gröfinni, frá trúfesti þinni í undirdjúpunum?

13 Eru furðuverk þín kunngjörð í myrkrinu eða réttlæti þitt í landi gleymskunnar?

14 En ég hrópa til þín, Drottinn, og á morgnana kemur bæn mín fyrir þig.

15 Hví útskúfar þú, Drottinn, sálu minni, hylur auglit þitt fyrir mér?

16 Ég er hrjáður og aðþrengdur frá æsku, ég ber skelfingar þínar og er ráðþrota.

17 Reiðiblossar þínir ganga yfir mig, ógnir þínar eyða mér.

18 Þær umkringja mig eins og vötn allan liðlangan daginn, lykja um mig allar saman.

19 Þú hefir fjarlægt frá mér ástvini og félaga og gjört myrkrið að kunningja mínum.

Sálmarnir 91-92

91 Sæll er sá, er situr í skjóli Hins hæsta, sá er gistir í skugga Hins almáttka,

sá er segir við Drottin: "Hæli mitt og háborg, Guð minn, er ég trúi á!"

Hann frelsar þig úr snöru fuglarans, frá drepsótt glötunarinnar,

hann skýlir þér með fjöðrum sínum, undir vængjum hans mátt þú hælis leita, trúfesti hans er skjöldur og verja.

Eigi þarft þú að óttast ógnir næturinnar, eða örina, sem flýgur um daga,

drepsóttina, er reikar um í dimmunni, eða sýkina, er geisar um hádegið.

Þótt þúsund falli þér við hlið og tíu þúsund þér til hægri handar, þá nær það ekki til þín.

Þú horfir aðeins á með augunum, sér hversu óguðlegum er endurgoldið.

Þitt hæli er Drottinn, þú hefir gjört Hinn hæsta að athvarfi þínu.

10 Engin ógæfa hendir þig, og engin plága nálgast tjald þitt.

11 Því að þín vegna býður hann út englum sínum til þess að gæta þín á öllum vegum þínum.

12 Þeir munu bera þig á höndum sér, til þess að þú steytir ekki fót þinn við steini.

13 Þú skalt stíga ofan á höggorma og nöðrur, troða fótum ljón og dreka.

14 "Af því að hann leggur ást á mig, mun ég frelsa hann, ég bjarga honum, af því að hann þekkir nafn mitt.

15 Ákalli hann mig, mun ég bænheyra hann, ég er hjá honum í neyðinni, ég frelsa hann og gjöri hann vegsamlegan.

16 Ég metta hann með fjöld lífdaga og læt hann sjá hjálpræði mitt."

92 Gott er að lofa Drottin og lofsyngja nafni þínu, þú Hinn hæsti,

að kunngjöra miskunn þína að morgni og trúfesti þína um nætur

á tístrengjað hljóðfæri og hörpu með strengjaleik gígjunnar.

Þú hefir glatt mig, Drottinn, með dáð þinni, yfir handaverkum þínum fagna ég.

Hversu mikil eru verk þín, Drottinn, harla djúpar hugsanir þínar.

Fíflið eitt skilur eigi, og fáráðlingurinn einn skynjar eigi þetta.

Þegar óguðlegir greru sem gras og allir illgjörðamennirnir blómguðust, þá var það til þess að þeir skyldu afmáðir verða að eilífu,

en þú sem ert á hæðum, ert til að eilífu, Drottinn.

Því sjá, óvinir þínir, Drottinn, því sjá, óvinir þínir farast, allir illgjörðamennirnir tvístrast.

10 En mig lætur þú bera hornið hátt eins og vísundinn, mig hressir þú með ferskri olíu.

11 Auga mitt lítur með gleði á fjandmenn mína, eyra mitt heyrir með gleði um níðingana, er rísa gegn mér.

12 Hinir réttlátu gróa sem pálminn, vaxa sem sedrustréð á Líbanon.

13 Þeir eru gróðursettir í húsi Drottins, gróa í forgörðum Guðs vors.

14 Jafnvel í hárri elli bera þeir ávöxt, þeir eru safamiklir og grænir.

15 Þeir kunngjöra, að Drottinn er réttlátur, klettur minn, sem ekkert ranglæti er hjá.

Jóel 2:28-3:8

En síðar meir mun ég úthella anda mínum yfir allt hold. Synir yðar og dætur yðar munu spá, gamalmenni yðar mun drauma dreyma, ungmenni yðar munu sjá sjónir.

Já, einnig yfir þræla og ambáttir mun ég á þeim dögum úthella anda mínum.

Og ég mun láta tákn verða á himni og á jörðu: blóð, eld og reykjarstróka.

Sólin mun snúast í myrkur og tunglið í blóð, áður en hinn mikli og ógurlegi dagur Drottins kemur.

Og hver sem ákallar nafn Drottins, mun frelsast. Því að á Síonfjalli og í Jerúsalem mun frelsun verða, eins og Drottinn hefir sagt, meðal flóttamannanna, sem Drottinn kallar.

Sjá, á þeim dögum og í þann tíð, er ég sný við högum Júda og Jerúsalem,

vil ég saman safna öllum þjóðum og færa þær ofan í Jósafatsdal og ganga þar í dóm við þær vegna lýðs míns og arfleifðar minnar Ísraels, af því að þeir hafa dreift henni meðal heiðingjanna og skipt sundur landi mínu.

Þeir köstuðu hlutum um lýð minn og gáfu svein fyrir skækju og seldu mey fyrir vín og drukku.

Hið almenna bréf Jakobs 1:16-27

16 Villist ekki, bræður mínir elskaðir!

17 Sérhver góð gjöf og sérhver fullkomin gáfa er ofan að og kemur niður frá föður ljósanna. Hjá honum er engin umbreyting né skuggar, sem koma og fara.

18 Eftir ráðsályktun sinni fæddi hann oss með orði sannleikans, til þess að vér skyldum vera frumgróði sköpunar hans.

19 Vitið, bræður mínir elskaðir: Hver maður skal vera fljótur til að heyra, seinn til að tala, seinn til reiði.

20 Því að reiði manns ávinnur ekki það, sem rétt er fyrir Guði.

21 Leggið því af hvers konar saurugleik og alla vonsku og takið með hógværð á móti hinu gróðursetta orði, er frelsað getur sálir yðar.

22 Verðið gjörendur orðsins og eigi aðeins heyrendur þess, ella svíkið þér sjálfa yður.

23 Því að ef einhver er heyrandi orðsins og ekki gjörandi, þá er hann líkur manni, er skoðar andlit sitt í spegli.

24 Hann skoðar sjálfan sig, fer burt og gleymir jafnskjótt, hvernig hann var.

25 En sá sem skyggnist inn í hið fullkomna lögmál frelsisins og heldur sér við það og gleymir ekki því, sem hann heyrir, heldur framkvæmir það, hann mun sæll verða í verkum sínum.

26 Sá sem þykist vera guðrækinn, en hefur ekki taumhald á tungu sinni, blekkir sjálfan sig og guðrækni hans er fánýt.

27 Hrein og flekklaus guðrækni fyrir Guði og föður er þetta, að vitja munaðarlausra og ekkna í þrengingu þeirra og varðveita sjálfan sig óflekkaðan af heiminum.

Lúkasarguðspjall 16:1-9

16 Enn sagði hann við lærisveina sína: "Maður nokkur ríkur hafði ráðsmann, og var sá sakaður við hann um það, að hann sóaði eigum hans.

Hann kallaði hann fyrir sig og sagði við hann: ,Hvað er þetta, er ég heyri um þig? Gjör reikningsskil ráðsmennsku þinnar, því þú getur ekki verið ráðsmaður lengur.`

Ráðsmaðurinn sagði þá við sjálfan sig: ,Hvað á ég að gjöra, fyrst húsbóndi minn sviptir mig ráðsmennskunni? Ekki orka ég að grafa og skömm þykir mér að betla.

Nú sé ég, hvað ég gjöri, til þess að menn taki við mér í hús sín, þegar ég verð sviptur ráðsmennskunni.`

Hann kallaði nú á skuldunauta húsbónda síns, hvern og einn. Við þann fyrsta sagði hann: ,Hve mikið skuldar þú húsbónda mínum?`

Hann svaraði: ,Hundrað kvartil viðsmjörs.` Hann mælti þá við hann: ,Tak skuldabréf þitt, set þig niður og skrifa sem skjótast fimmtíu.`

Síðan sagði hann við annan: ,En hvað skuldar þú?` Hann svaraði: ,Hundrað tunnur hveitis.` Og hann sagði honum: ,Tak þú skuldabréf þitt og skrifa áttatíu.`

Og húsbóndinn hrósaði rangláta ráðsmanninum fyrir að hafa breytt kænlega. Því að börn þessa heims eru kænni í skiptum við sína kynslóð en börn ljóssins.

Og ég segi yður: Aflið yður vina með hinum rangláta mammón, svo að þeir taki við yður í eilífar tjaldbúðir, þegar honum sleppir.

Icelandic Bible (ICELAND)

by Icelandic Bible Society