Print Page Options
Previous Prev Day Next DayNext

Book of Common Prayer

Daily Old and New Testament readings based on the Book of Common Prayer.
Duration: 861 days
Icelandic Bible (ICELAND)
Version
Sálmarnir 119:97-120

97 Hve mjög elska ég lögmál þitt, allan liðlangan daginn íhuga ég það.

98 Boð þín hafa gjört mig vitrari en óvinir mínir eru, því að þau heyra mér til um eilífð.

99 Ég er hyggnari en allir kennarar mínir, því að ég íhuga reglur þínar.

100 Ég er skynsamari en öldungar, því að ég held fyrirmæli þín.

101 Ég held fæti mínum frá hverjum vondum vegi til þess að gæta orðs þíns.

102 Frá ákvæðum þínum hefi ég eigi vikið, því að þú hefir frætt mig.

103 Hversu sæt eru fyrirheit þín gómi mínum, hunangi betri munni mínum.

104 Af fyrirmælum þínum er ég skynsamur orðinn, fyrir því hata ég sérhvern lygaveg.

105 Þitt orð er lampi fóta minna og ljós á vegum mínum.

106 Ég hefi svarið og haldið það að varðveita þín réttlátu ákvæði.

107 Ég er mjög beygður, Drottinn, lát mig lífi halda eftir orði þínu.

108 Haf þóknun á sjálfviljafórnum munns míns, Drottinn, og kenn mér ákvæði þín.

109 Líf mitt er ætíð í hættu, en þínu lögmáli hefi ég eigi gleymt.

110 Óguðlegir hafa lagt snöru fyrir mig, en ég hefi eigi villst frá fyrirmælum þínum.

111 Reglur þínar eru eign mín um aldur, því að þær eru yndi hjarta míns.

112 Ég hneigi hjarta mitt að því að breyta eftir lögum þínum, um aldur og allt til enda.

113 Ég hata þá, er haltra til beggja hliða, en lögmál þitt elska ég.

114 Þú ert skjól mitt og skjöldur, ég vona á orð þitt.

115 Burt frá mér, þér illgjörðamenn, að ég megi halda boð Guðs míns.

116 Styð mig samkvæmt fyrirheiti þínu, að ég megi lifa, og lát mig eigi til skammar verða í von minni.

117 Styð þú mig, að ég megi frelsast og ætíð líta til laga þinna.

118 Þú hafnar öllum þeim, er villast frá lögum þínum, því að svik þeirra eru til einskis.

119 Sem sora metur þú alla óguðlega á jörðu, þess vegna elska ég reglur þínar.

120 Hold mitt nötrar af hræðslu fyrir þér, og dóma þína óttast ég.

Sálmarnir 81-82

81 Til söngstjórans. Á gittít. Asafs-sálmur.

Fagnið fyrir Guði, styrkleika vorum, látið gleðióp gjalla Guði Jakobs.

Hefjið lofsöng og berjið bumbur, knýið hinar hugljúfu gígjur og hörpur.

Þeytið lúðurinn á tunglkomudögum, við tunglfylling á hátíðisdegi vorum.

Því að þetta eru lög fyrir Ísrael, boðorð Jakobs Guðs.

Hann gjörði það að reglu í Jósef, þá er hann fór út í móti Egyptalandi. Ég heyri mál, sem ég þekki eigi:

"Ég hefi losað herðar hans við byrðina, hendur hans eru sloppnar við burðarkörfuna.

Þú kallaðir í neyðinni, og ég frelsaði þig, ég bænheyrði þig í þrumuskýi, reyndi þig hjá Meríbavötnum. [Sela]

Heyr, lýður minn, að ég megi áminna þig, ó, að þú, Ísrael, vildir heyra mig!

10 Enginn annar guð má vera meðal þín, og engan útlendan guð mátt þú tilbiðja.

11 Ég er Drottinn, Guð þinn, sem leiddi þig út af Egyptalandi, opna munn þinn, að ég megi seðja þig.

12 En lýður minn heyrði eigi raust mína, og Ísrael var mér eigi auðsveipur.

13 Þá sleppti ég þeim í þrjósku hjartna þeirra, þeir fengu að ganga eftir eigin geðþótta.

14 Ó, að lýður minn vildi heyra mig, Ísrael ganga á mínum vegum,

15 þá skyldi ég skjótt lægja óvini þeirra, og snúa hendi minni gegn fjendum þeirra.

16 Hatursmenn Drottins skyldu hræsna fyrir honum og ógæfutími þeirra vara að eilífu.

17 Ég skyldi gefa þér hið kjarnbesta hveiti að eta og seðja þig á hunangi úr klettunum."

82 Asafs-sálmur. Guð stendur á guðaþingi, heldur dóm mitt á meðal guðanna:

"Hversu lengi ætlið þér að dæma með rangsleitni og draga taum hinna óguðlegu? [Sela]

Rekið réttar bágstaddra og föðurlausra, látið hinn þjáða og fátæka ná rétti sínum,

bjargið bágstöddum og snauðum, frelsið þá af hendi óguðlegra."

Þeir hafa eigi skyn né skilning, þeir ráfa í myrkri, allar undirstöður jarðarinnar riða.

Ég hefi sagt: "Þér eruð guðir og allir saman synir Hins hæsta,

en sannlega skuluð þér deyja sem menn, falla sem einn af höfðingjunum."

Rís upp, ó Guð, dæm þú jörðina, því að þú ert erfðahöfðingi yfir öllum þjóðum.

Jóel 2:12-19

12 En snúið yður nú til mín _ segir Drottinn _ af öllu hjarta, með föstum, gráti og kveini.

13 Sundurrífið hjörtu yðar en ekki klæði yðar, og hverfið aftur til Drottins Guðs yðar, því að hann er líknsamur og miskunnsamur, þolinmóður og gæskuríkur og iðrast hins illa.

14 Hver veit nema hann iðrist aftur og láti blessun eftir sig: matfórn og dreypifórn handa Drottni, Guði yðar!

15 Þeytið lúðurinn í Síon, stofnið til helgrar föstu, boðið hátíðarstefnu.

16 Kveðjið saman lýðinn, helgið söfnuðinn, stefnið saman gamalmennum, safnið saman börnum og brjóstmylkingum. Brúðguminn gangi út úr herbergi sínu og brúðurin út úr brúðarsal sínum.

17 Milli forsals og altaris skulu prestarnir, þjónar Drottins, gráta og segja: "Þyrm þjóð þinni, Drottinn, og lát eigi arfleifð þína verða að spotti, svo að heiðingjarnir drottni yfir þeim. Hví skulu menn segja meðal þjóðanna: ,Hvar er Guð þeirra?"`

18 Þá varð Drottinn fullur umhyggju vegna lands síns, og hann þyrmdi lýð sínum.

19 Drottinn tók til máls og sagði við lýð sinn: Sjá, ég sendi yður korn, vínberjalög og olíu, svo að yður skal nægja til saðnings. Og ég vil eigi láta yður verða framar að spotti meðal heiðingjanna.

Opinberun Jóhannesar 19:11-21

11 Þá sá ég himininn opinn, og sjá: Hvítur hestur. Sá, sem á honum sat, heitir Trúr og Sannur, hann dæmir og berst með réttvísi.

12 Augu hans eru sem eldslogi og á höfði hans eru mörg ennisdjásn. Og hann ber nafn ritað, sem enginn þekkir nema hann sjálfur.

13 Hann er skrýddur skikkju, blóði drifinni, og nafn hans er: Orðið Guðs.

14 Og hersveitirnar, sem á himni eru, fylgdu honum á hvítum hestum, klæddar hvítu og hreinu líni.

15 Og af munni hans gengur út biturt sverð að slá þjóðirnar með, og hann stjórnar þeim með járnsprota. Og hann treður vínþröng heiftarreiði Guðs hins alvalda.

16 Og á skikkju sinni og lend sinni hefur hann ritað nafn: "Konungur konunga og Drottinn drottna."

17 Og ég sá einn engil, sem stóð á sólunni. Hann hrópaði hárri röddu til allra fuglanna, sem flugu um himinhvolfið: "Komið, safnist saman til hinnar miklu máltíðar Guðs

18 til þess að eta hold konunga og hold herforingja og hold kappa og hold hesta og þeirra, sem á þeim sitja, og hold allra, bæði frjálsra og ófrjálsra, smárra og stórra."

19 Og ég sá dýrið og konunga jarðarinnar og hersveitir þeirra safnaðar saman til að heyja stríð við þann, sem á hestinum sat, og við herlið hans.

20 Og dýrið var handtekið og ásamt því falsspámaðurinn, sem táknin gjörði í augsýn þess, en með þeim leiddi hann afvega þá, sem tekið höfðu við merki dýrsins, og þá, sem tilbeðið höfðu líkneski þess. Báðum þeim var kastað lifandi í eldsdíkið, sem logar af brennisteini.

21 Og hinir voru drepnir með sverði þess, er á hestinum sat, sverðinu, sem út gekk af munni hans, og allir fuglarnir söddust af hræjum þeirra.

Lúkasarguðspjall 15:1-10

15 Allir tollheimtumenn og bersyndugir komu til Jesú að hlýða á hann,

en farísear og fræðimenn ömuðust við því og sögðu: "Þessi maður tekur að sér syndara og samneytir þeim."

En hann sagði þeim þessa dæmisögu:

"Nú á einhver yðar hundrað sauði og týnir einum þeirra. Skilur hann ekki þá níutíu og níu eftir í óbyggðinni og fer eftir þeim, sem týndur er, þar til hann finnur hann?

Og glaður leggur hann sauðinn á herðar sér, er hann finnur hann.

Þegar hann kemur heim, kallar hann saman vini sína og nágranna og segir við þá: ,Samgleðjist mér, því að ég hef fundið sauðinn minn, sem týndur var.`

Ég segi yður, þannig verður meiri fögnuður á himni yfir einum syndara, sem gjörir iðrun, en yfir níutíu og níu réttlátum, sem ekki hafa iðrunar þörf.

Eða kona, sem á tíu drökmur og týnir einni drökmu, kveikir hún þá ekki á lampa, sópar húsið og leitar vandlega, uns hún finnur hana?

Og er hún hefur fundið hana, kallar hún saman vinkonur sínar og grannkonur og segir: ,Samgleðjist mér, því að ég hef fundið drökmuna, sem ég týndi.`

10 Ég segi yður: Þannig verður fögnuður með englum Guðs yfir einum syndara, sem gjörir iðrun."

Icelandic Bible (ICELAND)

by Icelandic Bible Society