Print Page Options
Previous Prev Day Next DayNext

Book of Common Prayer

Daily Old and New Testament readings based on the Book of Common Prayer.
Duration: 861 days
Icelandic Bible (ICELAND)
Version
Sálmarnir 78

78 Asafs-maskíl. Hlýð þú, lýður minn, á kenning mína, hneigið eyrun að orðum munns míns.

Ég vil opna munn minn með orðskviði, mæla fram gátur frá fornum tíðum.

Það sem vér höfum heyrt og skilið og feður vorir sögðu oss,

það viljum vér eigi dylja fyrir niðjum þeirra, er vér segjum seinni kynslóð frá lofstír Drottins og mætti hans og dásemdarverkum og þeim undrum er hann gjörði.

Hann setti reglu í Jakob og skipaði lögmál í Ísrael, sem hann bauð feðrum vorum að kunngjöra sonum þeirra,

til þess að seinni kynslóð mætti skilja það og synir þeir er fæðast mundu, mættu ganga fram og segja sonum sínum frá því,

og setja traust sitt á Guð og eigi gleyma stórvirkjum Guðs, heldur varðveita boðorð hans,

og eigi verða sem feður þeirra, þrjósk og ódæl kynslóð, kynslóð með óstöðugu hjarta og anda sem var Guði ótrúr.

Niðjar Efraíms, herbúnir bogmenn, sneru við á orustudeginum.

10 Þeir héldu eigi sáttmála Guðs og færðust undan að fylgja lögmáli hans.

11 Þeir gleymdu stórvirkjum hans og dásemdum hans, er hann hafði látið þá horfa á.

12 Í augsýn feðra þeirra hafði hann framið furðuverk í Egyptalandi og Sóanhéraði.

13 Hann klauf hafið og lét þá fara yfir og lét vatnið standa sem vegg.

14 Hann leiddi þá með skýinu um daga og alla nóttina með eldskini.

15 Hann klauf björg í eyðimörkinni og gaf þeim gnóttir að drekka eins og úr stórvötnum,

16 hann lét læki spretta upp úr klettinum og vatnið streyma niður sem fljót.

17 Þó héldu þeir áfram að syndga í gegn honum, að rísa í gegn Hinum hæsta í eyðimörkinni.

18 Þeir freistuðu Guðs í hjörtum sínum, er þeir kröfðust matar þess er þeir girntust

19 og töluðu gegn Guði og sögðu: "Skyldi Guð geta búið borð í eyðimörkinni?

20 Víst sló hann á klettinn, svo að vatnið vall upp og lækir streymdu, en skyldi hann líka geta gefið brauð eða veitt lýð sínum kjöt?"

21 Fyrir því reiddist Drottinn, er hann heyrði þetta, eldur bálaði upp gegn Jakob og reiði steig upp gegn Ísrael,

22 af því að þeir trúðu eigi á Guð né treystu hjálp hans.

23 Og hann bauð skýjunum að ofan og opnaði hurðir himinsins,

24 lét manna rigna yfir þá til matar og gaf þeim himnakorn;

25 englabrauð fengu menn að eta, fæði sendi hann þeim til saðningar.

26 Hann lét austanvindinn taka sig upp í himninum og leiddi sunnanvindinn að með mætti sínum.

27 Hann lét kjöti rigna yfir þá sem dufti og vængjuðum fuglum sem sjávarsandi,

28 og hann lét þá falla niður í búðir sínar, umhverfis bústað sinn.

29 Átu þeir og urðu vel saddir, og græðgi þeirra sefaði hann.

30 En meðan þeir voru eigi horfnir frá græðgi sinni, meðan fæðan enn var í munni þeirra,

31 þá steig reiði Guðs upp í gegn þeim. Hann deyddi hina gildustu meðal þeirra og lagði að velli æskumenn Ísraels.

32 Þrátt fyrir allt þetta héldu þeir áfram að syndga og trúðu eigi á dásemdarverk hans.

33 Þá lét hann daga þeirra hverfa í hégóma og ár þeirra enda í skelfingu.

34 Þegar hann deyddi þá, leituðu þeir hans, sneru sér og spurðu eftir Guði

35 og minntust þess, að Guð var klettur þeirra og Guð hinn hæsti frelsari þeirra.

36 Þeir beittu við hann fagurgala með munni sínum og lugu að honum með tungum sínum.

37 En hjarta þeirra var eigi stöðugt gagnvart honum, og þeir voru eigi trúir sáttmála hans.

38 En hann er miskunnsamur, hann fyrirgefur misgjörðir og tortímir eigi, hann stillir reiði sína hvað eftir annað og hleypir eigi fram allri bræði sinni.

39 Hann minntist þess, að þeir voru hold, andgustur, sem líður burt og snýr eigi aftur.

40 Hversu oft þrjóskuðust þeir við hann í eyðimörkinni, hryggðu hann á öræfunum.

41 Og aftur freistuðu þeir Guðs og móðguðu Hinn heilaga í Ísrael.

42 Þeir minntust eigi handar hans, eður dags þess, er hann frelsaði þá frá fjandmönnum þeirra,

43 hann sem gjörði tákn sín í Egyptalandi og undur sín í Sóanhéraði.

44 Hann breytti ám þeirra í blóð og lækjum þeirra, svo að þeir fengu eigi drukkið.

45 Hann sendi flugur meðal þeirra, er bitu þá, og froska, er eyddu þeim.

46 Hann gaf engisprettunum afurðir þeirra og jarðvörgunum uppskeru þeirra.

47 Hann eyddi vínvið þeirra með haglhríð og mórberjatré þeirra með frosti.

48 Hann ofurseldi haglhríðinni fénað þeirra og eldingunni hjarðir þeirra.

49 Hann sendi heiftarreiði sína í gegn þeim, æði, bræði og nauðir, sveitir af sendiboðum ógæfunnar.

50 Hann ruddi braut reiði sinni, þyrmdi eigi sálum þeirra við dauðanum og ofurseldi drepsóttinni líf þeirra.

51 Hann laust alla frumburði í Egyptalandi, frumgróða styrkleikans í tjöldum Kams.

52 Hann lét lýð sinn leggja af stað sem sauði og leiddi þá eins og hjörð í eyðimörkinni.

53 Hann leiddi þá öruggt, svo að þeir óttuðust eigi, en óvini þeirra huldi hafið.

54 Hann fór með þá til síns helga héraðs, til fjalllendis þess, er hægri hönd hans hafði aflað.

55 Hann stökkti þjóðum undan þeim, skipti þeim niður eins og erfðahlut og lét kynkvíslir Ísraels setjast að í tjöldum þeirra.

56 En þeir freistuðu í þrjósku sinni Guðs hins hæsta og gættu eigi vitnisburða hans.

57 Þeir viku af leið, rufu trúnað sinn, eins og feður þeirra, brugðust eins og svikull bogi.

58 Þeir egndu hann til reiði með fórnarhæðum sínum, vöktu vandlæti hans með skurðgoðum sínum.

59 Guð heyrði það og reiddist og fékk mikla óbeit á Ísrael.

60 Hann hafnaði bústaðnum í Síló, tjaldi því, er hann hafði reist meðal mannanna,

61 hann ofurseldi hernáminu vegsemd sína og fjandmannshendi prýði sína.

62 Hann seldi lýð sinn undir sverðseggjar og reiddist arfleifð sinni.

63 Æskumönnum hans eyddi eldurinn og meyjar hans misstu brúðsöngs síns.

64 Prestar hans féllu fyrir sverðseggjum, og ekkjur hans fengu engan líksöng flutt.

65 Þá vaknaði Drottinn eins og af svefni, eins og hetja, sem hefir látið sigrast af víni.

66 Hann barði fjandmenn sína á bakhlutina, lét þá sæta eilífri háðung.

67 Samt hafnaði hann tjaldi Jósefs og útvaldi eigi kynkvísl Efraíms,

68 heldur útvaldi hann Júda kynkvísl, Síonfjall, sem hann elskar.

69 Hann reisti helgidóm sinn sem himinhæðir, grundvallaði hann að eilífu eins og jörðina.

70 Hann útvaldi þjón sinn Davíð og tók hann frá fjárbyrgjunum.

71 Hann sótti hann frá lambánum til þess að vera hirðir fyrir Jakob, lýð sinn, og fyrir Ísrael, arfleifð sína.

72 Og Davíð var hirðir fyrir þá af heilum hug og leiddi þá með hygginni hendi.

Jóel 1:15-2:11

15 Æ, sá dagur! Því að dagur Drottins er nálægur, og hann kemur sem eyðing frá hinum Almáttka.

16 Hefir ekki fæðan verið hrifin burt fyrir augum vorum og er ekki gleði og fögnuður horfinn úr húsi Guðs vors?

17 Frækornin liggja skorpnuð undir moldarkökkunum, forðabúrin eru eydd, kornhlöðurnar niðurrifnar, því að kornið er uppskrælnað.

18 Ó, hversu skepnurnar stynja, nautahjarðirnar rása ærðar, af því að þær hafa engan haga, sauðahjarðirnar þola og nauð.

19 Til þín, Drottinn, kalla ég, því að eldur hefir eytt hagaspildum eyðimerkurinnar og logi sviðið öll tré merkurinnar.

20 Jafnvel dýr merkurinnar mæna til þín, því að vatnslækirnir eru uppþornaðir og eldur hefir eytt hagaspildum eyðimerkurinnar.

Þeytið lúðurinn í Síon og æpið óp á mínu heilaga fjalli, svo að allir íbúar landsins nötri. Því að dagur Drottins kemur, já, hann er í nánd,

dagur myrkurs og dimmu, dagur skýþykknis og skýsorta. Eins og sorti breiðist yfir fjallahnjúkana mikil og voldug þjóð. Hennar líki hefir ekki verið frá eilífð, og hennar líki mun ekki koma eftir hana allt fram á ár ókominna alda.

Fyrir henni fer eyðandi eldur og eftir henni logi brennandi. Þótt landið fram undan henni hafi verið eins og Edensgarður, er það á bak henni sem eyðiöræfi. Enginn hlutur komst undan henni.

Ásýndum eru þeir sem hestar að sjá, og þeir eru fráir sem riddarar.

Eins og glamrandi vagnar stökkva þeir yfir fjallahnjúkana, eins og eldslogi, sem snarkar í hálmleggjum, eins og voldug þjóð, sem búin er til bardaga.

Fyrir henni skjálfa þjóðirnar, öll andlit blikna.

Þeir hlaupa sem hetjur, stíga upp á borgarvegginn sem hermenn, sérhver þeirra gengur sína leið og enginn riðlast á annars braut.

Enginn þeirra þrengir öðrum, hver gengur sína braut, jafnvel mót skotspjótum þeytast þeir áfram án þess að stöðva ferð sína.

Þeir ráðast inn í borgina, hlaupa á borgarvegginn, stíga upp í húsin, fara inn um gluggana sem þjófar.

10 Fyrir henni nötrar jörðin, himnarnir skjálfa, sól og tungl myrkvast og stjörnurnar missa birtu sína.

11 Og Drottinn lætur raust sína þruma fyrir öndverðu liði sínu. Því að herlið hans er afar mikið, því að voldugur er sá, sem framkvæmir hans boð. Já, mikill er dagur Drottins og mjög ógurlegur, hver getur afborið hann?

Opinberun Jóhannesar 19:1-10

19 Eftir þetta heyrði ég sem sterkan ym mikils fjölda á himni. Þeir sögðu: "Hallelúja! Hjálpræðið og dýrðin og mátturinn er Guðs vors.

Sannir og réttlátir eru dómar hans. Hann hefur dæmt skækjuna miklu, sem jörðunni spillti með saurlifnaði sínum, og hann hefur látið hana sæta hefnd fyrir blóð þjóna sinna."

Og aftur var sagt: "Hallelúja! Reykurinn frá henni stígur upp um aldir alda."

Og öldungarnir tuttugu og fjórir og verurnar fjórar féllu fram og tilbáðu Guð, sem í hásætinu situr, og sögðu: "Amen, hallelúja!"

Og frá hásætinu barst rödd, er sagði: "Lofsyngið Guði vorum, allir þér þjónar hans, þér sem hann óttist, smáir og stórir."

Þá heyrði ég raddir sem frá miklum mannfjölda og sem nið margra vatna og sem gný frá sterkum þrumum. Þær sögðu: "Hallelúja, Drottinn Guð vor, hinn alvaldi, er konungur orðinn.

Gleðjumst og fögnum og gefum honum dýrðina, því að komið er að brúðkaupi lambsins og brúður hans hefur búið sig.

Henni var fengið skínandi og hreint lín til að skrýðast í. Línið er réttlætisverk heilagra."

Og hann segir við mig: "Rita þú: Sælir eru þeir, sem boðnir eru í brúðkaupsveislu lambsins." Og hann segir við mig: "Þetta eru hin sönnu orð Guðs."

10 Og ég féll fram fyrir fætur honum til að tilbiðja hann og hann segir við mig: "Varastu þetta! Ég er samþjónn þinn og bræðra þinna, sem hafa vitnisburð Jesú. Tilbið þú Guð. Vitnisburður Jesú er andi spádómsgáfunnar."

Lúkasarguðspjall 14:25-35

25 Mikill fjöldi fólks var honum samferða. Hann sneri sér við og sagði við þá:

26 "Ef einhver kemur til mín og hatar ekki föður sinn og móður, konu og börn, bræður og systur og enda sitt eigið líf, sá getur ekki verið lærisveinn minn.

27 Hver sem ber ekki sinn kross og fylgir mér, getur ekki verið lærisveinn minn.

28 Hver yðar sest ekki fyrst við, ef hann ætlar að reisa turn, og reiknar kostnaðinn, hvort hann eigi nóg til að ljúka verkinu?

29 Ella má svo fara, að hann leggi undirstöðu, en fái ekki við lokið, og allir, sem það sjá, taki að spotta hann

30 og segja: ,Þessi maður fór að byggja, en gat ekki lokið.`

31 Eða hvaða konungur fer með hernaði gegn öðrum konungi og sest ekki fyrst við og ráðgast um, hvort honum sé fært að mæta með tíu þúsundum þeim er fer á móti honum með tuttugu þúsundir?

32 Sé svo ekki, gerir hann menn á fund hans, meðan hann er enn langt undan, og spyr um friðarkosti.

33 Þannig getur enginn yðar verið lærisveinn minn, nema hann segi skilið við allt sem hann á.

34 Saltið er gott, en ef saltið sjálft dofnar, með hverju á þá að krydda það?

35 Hvorki er það hæft á tún né taðhaug. Því er fleygt. Hver sem eyru hefur að heyra, hann heyri."

Icelandic Bible (ICELAND)

by Icelandic Bible Society