Print Page Options
Previous Prev Day Next DayNext

Book of Common Prayer

Daily Old and New Testament readings based on the Book of Common Prayer.
Duration: 861 days
Icelandic Bible (ICELAND)
Version
Sálmarnir 70-71

70 Til söngstjórans. Davíðssálmur. Minningarljóð.

Guð, lát þér þóknast að frelsa mig, Drottinn, skunda mér til hjálpar.

Lát þá verða til skammar og hljóta kinnroða, er sitja um líf mitt, lát þá hverfa aftur með skömm, er óska mér ógæfu.

Lát þá hörfa undan sakir smánar sinnar, er hrópa háð og spé.

En allir þeir er leita þín, skulu gleðjast og fagna yfir þér, þeir er unna hjálpræði þínu, skulu sífellt segja: "Vegsamaður sé Guð!"

Ég er þjáður og snauður, hraða þér til mín, ó Guð. Þú ert fulltingi mitt og frelsari, dvel eigi, Drottinn!

71 Hjá þér, Drottinn, leita ég hælis, lát mig aldrei verða til skammar.

Frelsa mig og bjarga mér eftir réttlæti þínu, hneig eyru þín til mín og hjálpa mér.

Ver mér verndarbjarg, vígi mér til hjálpar, því að þú ert bjarg mitt og vígi.

Guð minn, bjarga mér úr hendi illgjarnra, undan valdi illvirkja og harðstjóra.

Því að þú ert von mín, þú, Drottinn, ert athvarf mitt frá æsku.

Við þig hefi ég stuðst frá móðurlífi, frá móðurskauti hefir þú verið skjól mitt, um þig hljómar ætíð lofsöngur minn.

Ég er mörgum orðinn sem undur, en þú ert mér öruggt hæli.

Munnur minn er fullur af lofstír þínum, af dýrð þinni daginn allan.

Útskúfa mér eigi í elli minni, yfirgef mig eigi, þá er þróttur minn þverrar.

10 Því að óvinir mínir tala um mig, þeir er sitja um líf mitt, bera ráð sín saman:

11 "Guð hefir yfirgefið hann. Eltið hann og grípið hann, því að enginn bjargar."

12 Guð, ver eigi fjarri mér, Guð minn, skunda til liðs við mig.

13 Lát þá er sýna mér fjandskap farast með skömm, lát þá íklæðast háðung og svívirðing, er óska mér ógæfu.

14 En ég vil sífellt vona og auka enn á allan lofstír þinn.

15 Munnur minn skal segja frá réttlæti þínu, frá hjálpsemdum þínum allan daginn, því að ég veit eigi tölu á þeim.

16 Ég vil segja frá máttarverkum Drottins, ég vil boða réttlæti þitt, það eitt.

17 Guð, þú hefir kennt mér frá æsku, og allt til þessa kunngjöri ég dásemdarverk þín.

18 Yfirgef mig eigi, ó Guð, þegar ég er gamall orðinn og grár fyrir hærum, að ég megi kunngjöra styrkleik þinn komandi kynslóð.

19 Máttur þinn og réttlæti þitt, ó Guð, nær til himins, þú sem hefir framið stórvirki, Guð, hver er sem þú?

20 Þú sem hefir látið oss horfa upp á miklar nauðir og ógæfu, þú munt láta oss lifna við að nýju og láta oss aftur stíga upp úr undirdjúpum jarðar.

21 Þú munt auka við tign mína og aftur veita mér huggun.

22 Þá vil ég lofa trúfesti þína með hörpuleik, Guð minn, leika á gígju fyrir þér, þú Hinn heilagi í Ísrael.

23 Varir mínar skulu fagna, er ég leik fyrir þér, og sál mín er þú hefir leyst.

24 Þá skal og tunga mín tala um réttlæti þitt liðlangan daginn, því að þeir urðu til skammar, já hlutu kinnroða, er óskuðu mér ógæfu.

Sálmarnir 74

74 Asafs-maskíl. Hví hefir þú, Guð, hafnað oss að fullu, hví rýkur reiði þín gegn gæsluhjörð þinni?

Haf í minni söfnuð þinn, er þú aflaðir forðum og leystir til þess að vera kynkvísl óðals þíns, haf í minni Síonfjall, þar sem þú hefir tekið þér bústað.

Bein þú skrefum þínum til hinna endalausu rústa: Öllu hafa óvinirnir spillt í helgidóminum!

Fjandmenn þínir grenjuðu inni á samkomustað þínum, reistu upp hermerki sín.

Eins og menn sem reiða hátt axir í þykkum skógi,

höggva þeir allan útskurð, mölva með exi og hamri.

Þeir hafa lagt eld í helgidóm þinn, vanhelgað bústað nafns þíns til grunna.

Þeir hugsuðu með sjálfum sér: "Vér skulum tortíma þeim öllum." Þeir brenndu öll samkomuhús Guðs í landinu.

Vér sjáum eigi merki vor, þar er enginn spámaður framar, og enginn er hjá oss sem veit hve lengi.

10 Hversu lengi, ó Guð, á fjandmaðurinn að hæða, á óvinurinn að spotta nafn þitt um aldur?

11 Hví dregur þú að þér hönd þína, hví geymir þú hægri hönd þína í barmi þér?

12 Og þó er Guð konungur minn frá fornum tíðum, sá er framkvæmir hjálpræðisverk á jörðu.

13 Þú klaufst hafið með mætti þínum, þú braust sundur höfuð drekans á vatninu,

14 þú molaðir sundur hausa Levjatans, gafst hann dýrum eyðimerkurinnar að æti.

15 Þú lést lindir og læki spretta upp, þú þurrkaðir upp sírennandi ár.

16 Þinn er dagurinn og þín er nóttin, þú gjörðir ljós og sól.

17 Þú settir öll takmörk jarðarinnar, sumar og vetur hefir þú gjört.

18 Minnst þess, Drottinn, að óvinurinn lastmælir, og heimskur lýður smánar nafn þitt.

19 Ofursel eigi villidýrunum sál turtildúfu þinnar, gleym eigi um aldur lífi þinna hrjáðu.

20 Gef gætur að sáttmála þínum, því að skúmaskot landsins eru full af bælum ofríkisins.

21 Lát eigi þann er kúgun sætir, snúa aftur með svívirðing, lát hina hrjáðu og snauðu lofa nafn þitt.

22 Rís upp, Guð, berst fyrir málefni þínu, minnst þú háðungar þeirrar, er þú sætir af heimskingjum daginn á enda.

23 Gleym eigi hrópi fjenda þinna, glaumkæti andstæðinga þinna, þeirri er sífellt stígur upp.

Error: Book name not found: Sir for the version: Icelandic Bible
Opinberun Jóhannesar 16:12-21

12 Og hinn sjötti hellti úr sinni skál yfir fljótið mikla, Efrat. Og vatnið í því þornaði upp, svo að vegur yrði búinn fyrir konungana, þá er koma úr austri.

13 Og ég sá koma út af munni drekans og munni dýrsins og munni falsspámannsins þrjá óhreina anda, sem froskar væru,

14 því að þeir eru djöfla andar, sem gjöra tákn. Þeir ganga út til konunga allrar heimsbyggðarinnar til að safna þeim saman til stríðsins á hinum mikla degi Guðs hins alvalda.

15 "Sjá, ég kem eins og þjófur. Sæll er sá sem vakir og varðveitir klæði sín, til þess að hann gangi ekki nakinn um og menn sjái blygðun hans."

16 Og þeir söfnuðu þeim saman á þann stað, sem á hebresku kallast Harmagedón.

17 Og hinn sjöundi hellti úr sinni skál yfir loftið og raust mikil kom út úr musterinu, frá hásætinu og sagði: "Það er fram komið."

18 Og eldingar komu og brestir og þrumur og mikill landskjálfti, svo að slíkur hefur eigi komið frá því menn urðu til á jörðunni. Svo mikill var sá jarðskjálfti.

19 Og borgin mikla fór í þrjá hluta, og borgir þjóðanna hrundu. Og Guð gleymdi ekki hinni miklu Babýlon og gaf henni vínbikar heiftarreiði sinnar.

20 Og allar eyjar hurfu og fjöllin voru ekki lengur til.

21 Og stór högl, vættarþung, féllu niður af himni yfir mennina. Og mennirnir lastmæltu Guði fyrir haglpláguna, því að sú plága var mikil.

Lúkasarguðspjall 13:18-30

18 Hann sagði nú: "Hverju er Guðs ríki líkt? Við hvað á ég að líkja því?

19 Líkt er það mustarðskorni, sem maður tók og sáði í jurtagarð sinn. Það óx og varð tré og fuglar himins hreiðruðu sig í greinum þess."

20 Og aftur sagði hann: "Við hvað á ég að líkja Guðs ríki?

21 Líkt er það súrdeigi, er kona tók og fól í þrem mælum mjöls, uns það sýrðist allt."

22 Og hann hélt áfram til Jerúsalem, fór um borgir og þorp og kenndi.

23 Einhver sagði við hann: "Herra, eru þeir fáir, sem hólpnir verða?" Hann sagði við þá:

24 "Kostið kapps um að komast inn um þröngu dyrnar, því margir, segi ég yður, munu reyna að komast inn og ekki geta.

25 Þegar húsbóndinn stendur upp og lokar dyrum og þér takið þá að standa fyrir utan og knýja á dyr og segja: ,Herra, ljúk þú upp fyrir oss!` mun hann svara yður: ,Ég veit ekki, hvaðan þér eruð.`

26 Þá munuð þér segja: ,Vér höfum þó etið og drukkið með þér, og þú kenndir á götum vorum.`

27 Og hann mun svara: ,Ég segi yður, ég veit ekki, hvaðan þér eruð, farið frá mér allir illgjörðamenn!`

28 Þar verður grátur og gnístran tanna, er þér sjáið Abraham, Ísak og Jakob og alla spámennina í Guðs ríki, en yður út rekna.

29 Þá munu menn koma frá austri og vestri, frá norðri og suðri og sitja til borðs í Guðs ríki.

30 En til eru síðastir, er verða munu fyrstir, og til eru fyrstir, er verða munu síðastir."

Icelandic Bible (ICELAND)

by Icelandic Bible Society