Print Page Options
Previous Prev Day Next DayNext

Book of Common Prayer

Daily Old and New Testament readings based on the Book of Common Prayer.
Duration: 861 days
Icelandic Bible (ICELAND)
Version
Sálmarnir 40

40 Til söngstjórans. Davíðssálmur.

Ég hefi sett alla von mína á Drottin, og hann laut niður að mér og heyrði kvein mitt.

Hann dró mig upp úr glötunargröfinni, upp úr hinni botnlausu leðju, og veitti mér fótfestu á kletti, gjörði mig styrkan í gangi.

Hann lagði mér ný ljóð í munn, lofsöng um Guð vorn. Margir sjá það og óttast og treysta Drottni.

Sæll er sá maður, er gjörir Drottin að athvarfi sínu og snýr sér eigi til hinna dramblátu né þeirra er snúist hafa afleiðis til lygi.

Mörg hefir þú, Drottinn, Guð minn, gjört dásemdarverk þín og áform þín oss til handa, ekkert kemst í samjöfnuð við þig. Ef ég ætti að boða þau og kunngjöra, eru þau fleiri en tölu verði á komið.

Á sláturfórnum og matfórnum hefir þú enga þóknun, _ þú hefir gefið mér opin eyru _ brennifórnir og syndafórnir heimtar þú eigi.

Þá mælti ég: "Sjá, ég kem, í bókrollunni eru mér reglur settar.

Að gjöra vilja þinn, Guð minn, er mér yndi, og lögmál þitt er hið innra í mér."

10 Ég hefi boðað réttlætið í miklum söfnuði, ég hefi eigi haldið vörunum aftur, það veist þú, Drottinn!

11 Ég leyndi eigi réttlæti þínu í hjarta mér, ég kunngjörði trúfesti þína og hjálpræði og dró eigi dul á náð þína og tryggð í hinum mikla söfnuði.

12 Tak þá eigi miskunn þína frá mér, Drottinn, lát náð þína og trúfesti ætíð vernda mig.

13 Því að ótal hættur umkringja mig, misgjörðir mínar hafa náð mér, svo að ég má eigi sjá, þær eru fleiri en hárin á höfði mér, mér fellst hugur.

14 Lát þér, Drottinn, þóknast að frelsa mig, skunda, Drottinn, mér til hjálpar.

15 Lát þá verða til skammar og hljóta kinnroða, er sitja um líf mitt, lát þá hverfa aftur með skömm, er óska mér ógæfu.

16 Lát þá verða forviða yfir smán sinni, er hrópa háð og spé.

17 En allir þeir er leita þín skulu gleðjast og fagna yfir þér, þeir er unna hjálpræði þínu skulu sífellt segja: "Vegsamaður sé Drottinn!"

18 Ég er hrjáður og snauður, en Drottinn ber umhyggju fyrir mér. Þú ert fulltingi mitt og frelsari, tef eigi, Guð minn!

Sálmarnir 54

54 Til söngstjórans. Með strengjaleik. Maskíl eftir Davíð,

þá er Sifítar komu og sögðu við Sál: Veistu að Davíð felur sig hjá oss?

Hjálpa mér, Guð, með nafni þínu, rétt hlut minn með mætti þínum.

Guð, heyr þú bæn mína, ljá eyra orðum munns míns.

Því að erlendir fjandmenn hefjast gegn mér og ofríkismenn sækjast eftir lífi mínu, eigi hafa þeir Guð fyrir augum. [Sela]

Sjá, Guð er mér hjálpari, það er Drottinn er styður mig.

Hið illa mun fjandmönnum mínum í koll koma, lát þá hverfa af trúfesti þinni.

Þá vil ég færa þér sjálfviljafórnir, lofa nafn þitt, Drottinn, að það sé gott,

því að það hefir frelsað mig úr hverri neyð, og auga mitt hefir svalað sér á að horfa á óvini mína.

Sálmarnir 51

51 Til söngstjórans. Sálmur Davíðs,

þá er Natan spámaður kom til hans, eftir að hann hafði gengið inn til Batsebu.

Guð, vertu mér náðugur sakir elsku þinnar, afmá brot mín sakir þinnar miklu miskunnsemi.

Þvo mig hreinan af misgjörð minni, hreinsa mig af synd minni,

því að ég þekki sjálfur afbrot mín, og synd mín stendur mér stöðugt fyrir hugskotssjónum.

Gegn þér einum hefi ég syndgað og gjört það sem illt er í augum þínum. Því ert þú réttlátur, er þú talar, hreinn, er þú dæmir.

Sjá, sekur var ég, er ég varð til, syndugur, er móðir mín fæddi mig.

Sjá, þú hefir þóknun á hreinskilni hið innra, og í fylgsnum hjartans kennir þú mér visku!

Hreinsa mig með ísóp, svo að ég verði hreinn, þvo mig, svo að ég verði hvítari en mjöll.

10 Lát mig heyra fögnuð og gleði, lát kætast beinin sem þú hefir sundurmarið.

11 Byrg auglit þitt fyrir syndum mínum og afmá allar misgjörðir mínar.

12 Skapa í mér hreint hjarta, ó Guð, og veit mér nýjan, stöðugan anda.

13 Varpa mér ekki burt frá augliti þínu og tak ekki þinn heilaga anda frá mér.

14 Veit mér aftur fögnuð þíns hjálpræðis og styð mig með fúsleiks anda,

15 að ég megi kenna afbrotamönnum vegu þína og syndarar megi hverfa aftur til þín.

16 Frelsa mig frá dauðans háska, Guð hjálpræðis míns, lát tungu mína fagna yfir réttlæti þínu.

17 Drottinn, opna varir mínar, svo að munnur minn kunngjöri lof þitt!

18 Þú hefir ekki þóknun á sláturfórnum _ annars mundi ég láta þær í té _ og að brennifórnum er þér ekkert yndi.

19 Guði þekkar fórnir eru sundurmarinn andi, sundurmarið og sundurkramið hjarta munt þú, ó Guð, eigi fyrirlíta.

20 Gjör vel við Síon sakir náðar þinnar, reis múra Jerúsalem!

21 Þá munt þú hafa þóknun á réttum fórnum, á brennifórn og alfórn, þá munu menn bera fram uxa á altari þitt.

Error: Book name not found: Sir for the version: Icelandic Bible
Error: Book name not found: Sir for the version: Icelandic Bible
Opinberun Jóhannesar 13:1-10

13 Þá sá ég dýr stíga upp af hafinu. Það hafði tíu horn og sjö höfuð, og á hornum þess voru tíu ennisdjásn og á höfðum þess voru guðlöstunar nöfn.

Dýrið, sem ég sá, var líkt pardusdýri, fætur þess voru sem bjarnarfætur og munnur þess eins og ljónsmunnur. Drekinn gaf því mátt sinn og hásæti sitt og vald mikið.

Eitt af höfðum þess virtist sært til ólífis, en banasár þess varð heilt. Öll jörðin fylgdi dýrinu með undrun,

og þeir tilbáðu drekann, af því að hann hafði gefið dýrinu vald sitt. Og þeir tilbáðu dýrið og sögðu: "Hver jafnast við dýrið og hver getur barist við það?"

Og því var gefinn munnur, er talaði stóryrði og guðlastanir, og lofað að fara því fram í fjörutíu og tvo mánuði.

Og það lauk upp munni sínum til lastmæla gegn Guði, til að lastmæla nafni hans og tjaldbúð hans og þeim, sem á himni búa.

Og því var leyft að heyja stríð við hina heilögu og sigra þá, og því var gefið vald yfir sérhverri kynkvísl og lýð, tungu og þjóð.

Og allir þeir, sem á jörðunni búa, munu tilbiðja það, hver og einn sá er eigi á nafn sitt ritað frá grundvöllun veraldar í lífsins bók lambsins, sem slátrað var.

Sá sem hefur eyra, hann heyri.

10 Sá sem ætlaður er til herleiðingar verður herleiddur. Sá sem sverði er ætlaður verður deyddur með sverði. Hér reynir á þolgæði og trú hinna heilögu.

Lúkasarguðspjall 12:13-31

13 Einn úr mannfjöldanum sagði við hann: "Meistari, seg þú bróður mínum að skipta með mér arfinum."

14 Hann svaraði honum: "Maður, hver hefur sett mig dómara eða skiptaráðanda yfir ykkur?"

15 Og hann sagði við þá: "Gætið yðar, og varist alla ágirnd. Enginn þiggur líf af eigum sínum, þótt auðugur sé."

16 Þá sagði hann þeim dæmisögu þessa: "Maður nokkur ríkur átti land, er hafði borið mikinn ávöxt.

17 Hann hugsaði með sér: ,Hvað á ég að gjöra? Nú get ég hvergi komið fyrir afurðum mínum.`

18 Og hann sagði: ,Þetta gjöri ég: Ég ríf hlöður mínar og reisi aðrar stærri, og þangað safna ég öllu korni mínu og auðæfum.

19 Og ég segi við sálu mína: Sála mín, nú átt þú mikinn auð til margra ára, hvíl þig nú, et og drekk og ver glöð.`

20 En Guð sagði við hann: ,Heimskingi, á þessari nóttu verður sál þín af þér heimtuð, og hver fær þá það, sem þú hefur aflað?`

21 Svo fer þeim er safnar sér fé, en er ekki ríkur hjá Guði."

22 Og hann sagði við lærisveina sína: "Því segi ég yður: Verið ekki áhyggjufullir um líf yðar, hvað þér eigið að eta, né heldur um líkama yðar, hverju þér eigið að klæðast.

23 Lífið er meira en fæðan og líkaminn meira en klæðin.

24 Hyggið að hröfnunum. Hvorki sá þeir né uppskera, eigi hafa þeir forðabúr eða hlöðu, og Guð fæðir þá. Hve miklum mun eruð þér fremri fuglunum!

25 Og hver yðar getur með áhyggjum aukið spönn við aldur sinn?

26 Fyrst þér nú orkið ekki svo litlu, hví látið þér allt hitt valda yður áhyggjum?

27 Hyggið að liljunum, hversu þær vaxa. Hvorki vinna þær né spinna. En ég segi yður: Jafnvel Salómon í allri sinni dýrð var ekki svo búinn sem ein þeirra.

28 Fyrst Guð skrýðir svo grasið á vellinum, sem í dag stendur, en á morgun verður í ofn kastað, hve miklu fremur mun hann þá klæða yður, þér trúlitlir!

29 Hafið ekki hugann við, hvað þér eigið að eta og hvað að drekka, og kvíðið engu.

30 Allt þetta stunda heiðingjar heimsins, en faðir yðar veit, að þér þarfnist þessa.

31 Leitið heldur ríkis hans, og þá mun þetta veitast yður að auki.

Icelandic Bible (ICELAND)

by Icelandic Bible Society