Print Page Options
Previous Prev Day Next DayNext

Book of Common Prayer

Daily Old and New Testament readings based on the Book of Common Prayer.
Duration: 861 days
Icelandic Bible (ICELAND)
Version
Sálmarnir 45

45 Til söngstjórans. Lag: Liljur. Kóraítamaskíl. Brúðkaupskvæði.

Hjarta mitt svellur af ljúfum orðum, ég flyt konungi kvæði mitt, tunga mín er sem penni hraðritarans.

Fegurri ert þú en mannanna börn, yndisleik er úthellt yfir varir þínar, fyrir því hefir Guð blessað þig að eilífu.

Gyrð lendar þínar sverði, þú hetja, ljóma þínum og vegsemd.

Sæk fram sigursæll sakir tryggðar og réttlætis, hægri hönd þín mun sýna þér ógurlega hluti.

Örvar þínar eru hvesstar, þjóðir falla að fótum þér, fjandmenn konungs eru horfnir.

Hásæti þitt er Guðs hásæti um aldur og ævi, sproti ríkis þíns er réttlætis-sproti.

Þú elskar réttlæti og hatar ranglæti, fyrir því hefir Guð, þinn Guð, smurt þig með fagnaðarolíu framar félögum þínum.

Myrra og alóe og kassía eru öll þín klæði, frá fílabeinshöllinni gleður strengleikurinn þig.

10 Konungadætur eru meðal vildarkvenna þinna, konungsbrúðurin stendur þér til hægri handar í skrúða Ófír-gulls.

11 "Heyr, dóttir, og hneig eyra þitt! Gleym þjóð þinni og föðurlandi,

12 að konungi megi renna hugur til fegurðar þinnar, því að hann er herra þinn og honum átt þú að lúta.

13 Frá Týrus munu menn koma með gjafir, auðugustu menn lýðsins leita hylli þinnar."

14 Eintómt skraut er konungsdóttirin, perlum sett og gullsaumi eru klæði hennar.

15 Í glitofnum klæðum er hún leidd fyrir konung, meyjar fylgja henni, vinkonur hennar eru færðar fram fyrir þig.

16 Þær eru leiddar inn með fögnuði og gleði, þær fara inn í höll konungs.

17 Í stað feðra þinna komi synir þínir, þú munt gjöra þá að höfðingjum um land allt.

18 Ég vil gjöra nafn þitt minnisstætt öllum komandi kynslóðum, þess vegna skulu þjóðir lofa þig um aldur og ævi.

Sálmarnir 47-48

47 Til söngstjórans. Kóraítasálmur.

Klappið saman lófum, allar þjóðir, fagnið fyrir Guði með gleðiópi.

Því að Drottinn, Hinn hæsti, er ógurlegur, voldugur konungur yfir gjörvallri jörðinni.

Hann leggur undir oss lýði og þjóðir fyrir fætur vora.

Hann útvaldi handa oss óðal vort, fremdarhnoss Jakobs, sem hann elskar. [Sela]

Guð er upp stiginn með fagnaðarópi, með lúðurhljómi er Drottinn upp stiginn.

Syngið Guði, syngið, syngið konungi vorum, syngið!

Því að Guð er konungur yfir gjörvallri jörðinni, syngið Guði lofsöng!

Guð er orðinn konungur yfir þjóðunum, Guð er setstur í sitt heilaga hásæti.

10 Göfugmenni þjóðanna safnast saman ásamt lýð Abrahams Guðs. Því að Guðs eru skildir jarðarinnar, hann er mjög hátt upphafinn.

48 Ljóð. Kóraítasálmur.

Mikill er Drottinn og mjög vegsamlegur í borg vors Guðs, á sínu helga fjalli.

Yndisleg rís hún, gleði alls landsins, Síonarhæð, yst í norðri, borg hins mikla konungs.

Guð hefir í höllum hennar kunngjört sig sem vígi.

Því sjá, konungarnir áttu með sér stefnu, héldu fram saman.

Óðara en þeir sáu, urðu þeir agndofa, skelfdust, flýðu.

Felmtur greip þá samstundis, angist sem jóðsjúka konu.

Með austanvindinum brýtur þú Tarsis-knörru.

Eins og vér höfum heyrt, svo höfum vér séð í borg Drottins hersveitanna, í borg vors Guðs. Guð lætur hana standa að eilífu. [Sela]

10 Guð, vér ígrundum elsku þína inni í musteri þínu.

11 Eins og nafn þitt, Guð, svo hljómi lofgjörð þín til endimarka jarðar. Hægri hönd þín er full réttlætis.

12 Síonfjall gleðst, Júdadætur fagna vegna dóma þinna.

13 Kringið um Síon, gangið umhverfis hana, teljið turna hennar.

14 Hyggið að múrgirðing hennar, skoðið hallir hennar, til þess að þér getið sagt komandi kynslóð,

15 að slíkur sé Drottinn, Guð vor. Um aldur og ævi mun hann leiða oss.

Error: Book name not found: Sir for the version: Icelandic Bible
Opinberun Jóhannesar 11:14-19

14 Veiið hið annað er liðið hjá. Sjá, veiið hið þriðja kemur brátt.

15 Og sjöundi engillinn básúnaði. Þá heyrðust raddir miklar á himni er sögðu: "Drottinn og Kristur hans hafa fengið vald yfir heiminum og hann mun ríkja um aldir alda."

16 Og öldungarnir tuttugu og fjórir, þeir er sitja frammi fyrir Guði í hásætum sínum, féllu fram á ásjónur sínar, tilbáðu Guð

17 og sögðu: Vér þökkum þér, Drottinn Guð, þú alvaldi, þú sem ert og þú sem varst, að þú hefur tekið valdið þitt hið mikla og gjörst konungur.

18 Heiðingjarnir reiddust, en reiði þín kom, sá tími, er dauðir skulu dæmdir verða, og tíminn til að gefa laun þjónum þínum, spámönnunum og hinum heilögu og þeim, sem óttast nafn þitt, smáum og stórum, og til að eyða þeim, sem jörðina eyða.

19 Og musteri Guðs opnaðist, það sem á himni er, og sáttmálsörk hans birtist í musteri hans. Og eldingar komu og dunur og þrumur og landskjálfti og hagl mikið.

Lúkasarguðspjall 11:27-36

27 Er hann mælti þetta, hóf kona ein í mannfjöldanum upp rödd sína og sagði við hann: "Sæll er sá kviður, er þig bar, og þau brjóst, er þú mylktir."

28 Hann sagði: "Já, því sælir eru þeir, sem heyra Guðs orð og varðveita það."

29 Þegar fólkið þyrptist þar að, tók hann svo til orða: "Þessi kynslóð er vond kynslóð. Hún heimtar tákn, en eigi verður henni annað tákn gefið en tákn Jónasar.

30 Því Jónas varð Ninívemönnum tákn, og eins mun Mannssonurinn verða þessari kynslóð.

31 Drottning Suðurlanda mun rísa upp í dóminum ásamt mönnum þessarar kynslóðar og sakfella þá, því að hún kom frá endimörkum jarðar að heyra speki Salómons, og hér er meira en Salómon.

32 Ninívemenn munu koma fram í dóminum ásamt kynslóð þessari og sakfella hana, því að þeir gjörðu iðrun við prédikun Jónasar, og hér er meira en Jónas.

33 Enginn kveikir ljós og setur það í felur né undir mæliker, heldur á ljósastiku, svo að þeir, sem inn koma, sjái ljósið.

34 Auga þitt er lampi líkamans. Þegar auga þitt er heilt, þá er og allur líkami þinn bjartur, en sé það spillt, þá er og líkami þinn dimmur.

35 Gæt því þess, að ljósið í þér sé ekki myrkur.

36 Sé því líkami þinn allur bjartur og hvergi myrkur í honum, verður hann allur í birtu, eins og þegar lampi lýsir á þig með loga sínum."

Icelandic Bible (ICELAND)

by Icelandic Bible Society