Book of Common Prayer
148 Halelúja. Lofið Drottin af himnum, lofið hann á hæðum.
2 Lofið hann, allir englar hans, lofið hann, allir herskarar hans.
3 Lofið hann, sól og tungl, lofið hann, allar lýsandi stjörnur.
4 Lofið hann, himnar himnanna og vötnin, sem eru yfir himninum.
5 Þau skulu lofa nafn Drottins, því að hans boði voru þau sköpuð.
6 Og hann fékk þeim stað um aldur og ævi, hann gaf þeim lög, sem þau mega eigi brjóta.
7 Lofið Drottin af jörðu, þér sjóskrímsl og allir hafstraumar,
8 eldur og hagl, snjór og reykur, stormbylurinn, sem framkvæmir orð hans,
9 fjöllin og allar hæðir, ávaxtartrén og öll sedrustrén,
10 villidýrin og allur fénaður, skriðkvikindin og fleygir fuglar,
11 konungar jarðarinnar og allar þjóðir, höfðingjar og allir dómendur jarðar,
12 bæði yngismenn og yngismeyjar, öldungar og ungir sveinar!
13 Þau skulu lofa nafn Drottins, því að hans nafn eitt er hátt upp hafið, tign hans er yfir jörð og himni.
14 Hann lyftir upp horni fyrir lýð sinn, lofsöngur hljómi hjá öllum dýrkendum hans, hjá sonum Ísraels, þjóðinni, sem er nálæg honum. Halelúja.
149 Halelúja. Syngið Drottni nýjan söng, lofsöngur hans hljómi í söfnuði trúaðra.
2 Ísrael gleðjist yfir skapara sínum, synir Síonar fagni yfir konungi sínum.
3 Þeir skulu lofa nafn hans með gleðidansi, leika fyrir honum á bumbur og gígjur.
4 Því að Drottinn hefir þóknun á lýð sínum, hann skrýðir hrjáða með sigri.
5 Hinir trúuðu skulu gleðjast með sæmd, syngja fagnandi í hvílum sínum
6 með lofgjörð Guðs á tungu og tvíeggjað sverð í höndum
7 til þess að framkvæma hefnd á þjóðunum, hirtingu á lýðunum,
8 til þess að binda konunga þeirra með fjötrum, þjóðhöfðingja þeirra með járnhlekkjum,
9 til þess að fullnægja á þeim skráðum dómi. Það er til vegsemdar öllum dýrkendum hans. Halelúja.
150 Halelúja. Lofið Guð í helgidómi hans, lofið hann í voldugri festingu hans!
2 Lofið hann fyrir máttarverk hans, lofið hann eftir mikilleik hátignar hans!
3 Lofið hann með lúðurhljómi, lofið hann með hörpu og gígju!
4 Lofið hann með bumbum og gleðidansi, lofið hann með strengleik og hjarðpípum!
5 Lofið hann með hljómandi skálabumbum, lofið hann með hvellum skálabumbum!
114 Þegar Ísrael fór út af Egyptalandi, Jakobs ætt frá þjóðinni, er mælti á erlenda tungu,
2 varð Júda helgidómur hans, Ísrael ríki hans.
3 Hafið sá það og flýði, Jórdan hörfaði undan.
4 Fjöllin hoppuðu sem hrútar, hæðirnar sem lömb.
5 Hvað er þér, haf, er þú flýr, Jórdan, er þú hörfar undan,
6 þér fjöll, er þér hoppið sem hrútar, þér hæðir sem lömb?
7 Titra þú, jörð, fyrir augliti Drottins, fyrir augliti Jakobs Guðs,
8 hans sem gjörir klettinn að vatnstjörn, tinnusteininn að vatnslind.
115 Gef eigi oss, Drottinn, eigi oss, heldur þínu nafni dýrðina sakir miskunnar þinnar og trúfesti.
2 Hví eiga heiðingjarnir að segja: "Hvar er Guð þeirra?"
3 En vor Guð er í himninum, allt sem honum þóknast, það gjörir hann.
4 Skurðgoð þeirra eru silfur og gull, handaverk manna.
5 Þau hafa munn, en tala ekki, augu, en sjá ekki,
6 þau hafa eyru, en heyra ekki, nef, en finna engan þef.
7 Þau hafa hendur, en þreifa ekki, fætur, en ganga ekki, þau tala eigi með barka sínum.
8 Eins og þau eru, verða smiðir þeirra, allir þeir er á þau treysta.
9 En Ísrael treystir Drottni, hann er hjálp þeirra og skjöldur.
10 Arons ætt treystir Drottni, hann er hjálp þeirra og skjöldur.
11 Þeir sem óttast Drottin treysta Drottni, hann er hjálp þeirra og skjöldur.
12 Drottinn minnist vor, hann mun blessa, hann mun blessa Ísraels ætt, hann mun blessa Arons ætt,
13 hann mun blessa þá er óttast Drottin, yngri sem eldri.
14 Drottinn mun fjölga yður, sjálfum yður og börnum yðar.
15 Þér eruð blessaðir af Drottni, skapara himins og jarðar.
16 Himinninn er himinn Drottins, en jörðina hefir hann gefið mannanna börnum.
17 Eigi lofa andaðir menn Drottin, né heldur neinn sá, sem hniginn er í dauðaþögn,
18 en vér viljum lofa Drottin, héðan í frá og að eilífu. Halelúja.
10 Ég vil ekki, bræður, að yður skuli vera ókunnugt um það, að feður vorir voru allir undir skýinu og fóru allir yfir um hafið.
2 Allir voru skírðir til Móse í skýinu og hafinu.
3 Allir neyttu hinnar sömu andlegu fæðu
4 og drukku allir hinn sama andlega drykk. Þeir drukku af hinum andlega kletti, sem fylgdi þeim. Kletturinn var Kristur.
5 En samt hafði Guð enga velþóknun á flestum þeirra og þeir féllu í eyðimörkinni.
6 Þessir hlutir hafa gjörst sem fyrirboðar fyrir oss, til þess að vér verðum ekki sólgnir í það, sem illt er, eins og þeir urðu sólgnir í það.
7 Verðið ekki skurðgoðadýrkendur, eins og nokkrir þeirra. Ritað er: "Lýðurinn settist niður til að eta og drekka, og þeir stóðu upp til að leika."
8 Drýgjum ekki heldur hórdóm, eins og nokkrir þeirra drýgðu hórdóm, og tuttugu og þrjár þúsundir féllu á einum degi.
9 Freistum ekki heldur Drottins, eins og nokkrir þeirra freistuðu hans, þeir biðu bana af höggormum.
10 Möglið ekki heldur eins og nokkrir þeirra mögluðu, þeir fórust fyrir eyðandanum.
11 Allt þetta kom yfir þá sem fyrirboði, og það er ritað til viðvörunar oss, sem endir aldanna er kominn yfir.
12 Sá, er hyggst standa, gæti því vel að sér, að hann falli ekki.
13 Þér hafið ekki reynt nema mannlega freistingu. Guð er trúr og lætur ekki freista yðar um megn fram, heldur mun hann, þegar hann reynir yður, einnig sjá um, að þér fáið staðist.
13 Þegar Jesús kom í byggðir Sesareu Filippí, spurði hann lærisveina sína: "Hvern segja menn Mannssoninn vera?"
14 Þeir svöruðu: "Sumir Jóhannes skírara, aðrir Elía og enn aðrir Jeremía eða einn af spámönnunum."
15 Hann spyr: "En þér, hvern segið þér mig vera?"
16 Símon Pétur svarar: "Þú ert Kristur, sonur hins lifanda Guðs."
17 Þá segir Jesús við hann: "Sæll ert þú, Símon Jónasson! Hold og blóð hefur ekki opinberað þér þetta, heldur faðir minn á himnum.
18 Og ég segi þér: Þú ert Pétur, kletturinn, og á þessum kletti mun ég byggja kirkju mína, og máttur heljar mun ekki á henni sigrast.
19 Ég mun fá þér lykla himnaríkis, og hvað sem þú bindur á jörðu, mun bundið á himnum, og hvað sem þú leysir á jörðu, mun leyst á himnum."
20 Þá lagði hann ríkt á við lærisveinana að segja engum, að hann væri Kristur.
by Icelandic Bible Society