Book of Common Prayer
20 Til söngstjórans. Davíðssálmur.
2 Drottinn bænheyri þig á degi neyðarinnar, nafn Jakobs Guðs bjargi þér.
3 Hann sendi þér hjálp frá helgidóminum, styðji þig frá Síon.
4 Hann minnist allra fórnargjafa þinna og taki brennifórn þína gilda. [Sela]
5 Hann veiti þér það er hjarta þitt þráir, og veiti framgang öllum áformum þínum.
6 Ó að vér mættum fagna yfir sigri þínum og veifa fánanum í nafni Guðs vors. Drottinn uppfylli allar óskir þínar.
7 Nú veit ég, að Drottinn veitir hjálp sínum smurða, svarar honum frá sínum helga himni, í máttarverkum kemur fulltingi hægri handar hans fram.
8 Hinir stæra sig af vögnum sínum og stríðshestum, en vér af nafni Drottins, Guðs vors.
9 Þeir fá knésig og falla, en vér rísum og stöndum uppréttir.
10 Drottinn! Hjálpa konunginum og bænheyr oss, er vér hrópum.
21 Til söngstjórans. Davíðssálmur.
2 Drottinn, yfir veldi þínu fagnar konungurinn, hve mjög kætist hann yfir hjálp þinni!
3 Þú hefir gefið honum það er hjarta hans þráði, um það sem varir hans báðu, neitaðir þú honum eigi. [Sela]
4 Því að þú kemur í móti honum með hamingjublessunum, setur gullna kórónu á höfuð honum.
5 Um líf bað hann þig, það veittir þú honum, fjöld lífdaga um aldur og ævi.
6 Mikil er sæmd hans fyrir þína hjálp, vegsemd og heiður veittir þú honum.
7 Já, þú hefir veitt honum blessun að eilífu, þú gleður hann með fögnuði fyrir augliti þínu.
8 Því að konungurinn treystir Drottni, og vegna elsku Hins hæsta bifast hann eigi.
9 Hönd þín nær til allra óvina þinna, hægri hönd þín nær til allra hatursmanna þinna.
10 Þú gjörir þá sem glóandi ofn, er þú lítur á þá. Drottinn tortímir þeim í reiði sinni, og eldurinn eyðir þeim.
11 Ávöxtu þeirra afmáir þú af jörðunni og afkvæmi þeirra úr mannheimi,
12 því að þeir hafa stofnað ill ráð í gegn þér, búið fánýtar vélar.
13 Því að þú rekur þá á flótta, miðar á andlit þeirra með boga þínum.
14 Hef þig, Drottinn, í veldi þínu! Vér viljum syngja og kveða um máttarverk þín!
110 Davíðssálmur. Svo segir Drottinn við herra minn: "Sest þú mér til hægri handar, þá mun ég leggja óvini þína sem fótskör að fótum þér."
2 Drottinn réttir út þinn volduga sprota frá Síon, drottna þú mitt á meðal óvina þinna!
3 Þjóð þín kemur sjálfboða á valdadegi þínum. Í helgu skrauti frá skauti morgunroðans kemur dögg æskuliðs þíns til þín.
4 Drottinn hefir svarið, og hann iðrar þess eigi: "Þú ert prestur að eilífu, að hætti Melkísedeks."
5 Drottinn er þér til hægri handar, hann knosar konunga á degi reiði sinnar.
6 Hann heldur dóm meðal þjóðanna, fyllir allt líkum, hann knosar höfuð um víðan vang.
7 Á leiðinni drekkur hann úr læknum, þess vegna ber hann höfuðið hátt.
116 Ég elska Drottin, af því að hann heyrir grátbeiðni mína.
2 Hann hefir hneigt eyra sitt að mér, og alla ævi vil ég ákalla hann.
3 Snörur dauðans umkringdu mig, angist Heljar mætti mér, ég mætti nauðum og harmi.
4 Þá ákallaði ég nafn Drottins: "Ó, Drottinn, bjarga sál minni!"
5 Náðugur er Drottinn og réttlátur, og vor Guð er miskunnsamur.
6 Drottinn varðveitir varnarlausa, þegar ég var máttvana hjálpaði hann mér.
7 Verð þú aftur róleg, sála mín, því að Drottinn gjörir vel til þín.
8 Já, þú hreifst sál mína frá dauða, auga mitt frá gráti, fót minn frá hrösun.
9 Ég geng frammi fyrir Drottni á landi lifenda.
10 Ég trúði, þó ég segði: "Ég er mjög beygður."
11 Ég sagði í angist minni: "Allir menn ljúga."
12 Hvað á ég að gjalda Drottni fyrir allar velgjörðir hans við mig?
13 Ég lyfti upp bikar hjálpræðisins og ákalla nafn Drottins.
14 Ég greiði Drottni heit mín, og það í augsýn alls lýðs hans.
15 Dýr er í augum Drottins dauði dýrkenda hans.
16 Æ, Drottinn, víst er ég þjónn þinn, ég er þjónn þinn, sonur ambáttar þinnar, þú leystir fjötra mína.
17 Þér færi ég þakkarfórn og ákalla nafn Drottins.
18 Ég greiði Drottni heit mín, og það í augsýn alls lýðs hans,
19 í forgörðum húss Drottins, í þér, Jerúsalem. Halelúja.
117 Lofið Drottin, allar þjóðir, vegsamið hann, allir lýðir,
2 því að miskunn hans er voldug yfir oss, og trúfesti Drottins varir að eilífu. Halelúja.
17 Eftir þrjá daga stefndi hann saman helstu mönnum Gyðinga. Þegar þeir voru saman komnir, sagði hann við þá: "Bræður, ekkert hef ég brotið gegn lýðnum eða siðum feðranna, en samt er ég fangi, framseldur Rómverjum í Jerúsalem.
18 Þeir yfirheyrðu mig og vildu láta mig lausan, af því á mér hvíldi engin dauðasök.
19 En Gyðingar mæltu á móti, og neyddist ég til að skjóta máli mínu til keisarans, þó eigi svo að skilja, að ég sé að kæra þjóð mína.
20 Sakir þessa hef ég kallað yður hingað, að ég mætti sjá yður og tala við yður, því vegna vonar Ísraels ber ég þessa hlekki."
21 Þeir svöruðu: "Vér höfum ekki fengið bréf um þig frá Júdeu, og eigi hefur heldur neinn bræðranna komið hingað og birt eða talað nokkuð illt um þig.
22 Rétt þykir oss að heyra hjá þér, hvað þér býr í huga, en það er oss kunnugt um flokk þennan, að honum er alls staðar mótmælt."
23 Þeir tóku til dag við hann, og komu þá mjög margir til hans í herbergi hans. Frá morgni til kvölds skýrði hann og vitnaði fyrir þeim um Guðs ríki og reyndi að sannfæra þá um Jesú, bæði eftir lögmáli Móse og spámönnunum.
24 Sumir létu sannfærast af orðum hans, en aðrir trúðu ekki.
25 Fóru þeir burt, ósamþykkir sín í milli, en Páll sagði þetta eitt: "Rétt er það, sem heilagur andi mælti við feður yðar fyrir munn Jesaja spámanns:
26 Far til lýðs þessa og seg þú: Með eyrum munuð þér heyra og alls eigi skilja, og sjáandi munuð þér horfa og ekkert sjá.
27 Því að hjarta lýðs þessa er sljótt orðið, og illa heyra þeir með eyrum sínum, og augunum hafa þeir lokað, svo að þeir sjái ekki með augunum né heyri með eyrunum og skynji með hjartanu og snúi sér, og ég lækni þá.
28 Nú skuluð þér vita, að þetta hjálpræði Guðs hefur verið sent heiðingjunum, og þeir munu hlusta."
30 Full tvö ár var Páll þar í húsnæði, sem hann hafði leigt sér, og tók á móti öllum þeim, sem komu til hans.
37 Daginn eftir, er þeir fóru ofan af fjallinu, kom mikill mannfjöldi á móti honum.
38 Og maður nokkur úr mannfjöldanum hrópar: "Meistari, ég bið þig að líta á son minn, því að hann er einkabarnið mitt.
39 Það er andi, sem grípur hann, og þá æpir hann skyndilega. Hann teygir hann svo að hann froðufellir, og víkur varla frá honum og er að gjöra út af við hann.
40 Ég bað lærisveina þína að reka hann út, en þeir gátu það ekki."
41 Jesús svaraði: "Ó, þú vantrúa og rangsnúna kynslóð, hversu lengi á ég að vera hjá yður og umbera yður? Fær þú hingað son þinn."
42 Þegar hann var að koma, slengdi illi andinn honum flötum og teygði hann ákaflega. En Jesús hastaði á óhreina andann, læknaði sveininn og gaf hann aftur föður hans.
43 Og allir undruðust stórum veldi Guðs. Þá er allir dáðu allt það, er hann gjörði, sagði hann við lærisveina sína:
44 "Festið þessi orð í huga: ,Mannssonurinn verður framseldur í manna hendur."`
45 En þeir skildu ekki þessi orð, og þetta var þeim hulið, svo að þeir skynjuðu það ekki. Og þeir þorðu ekki að spyrja hann um þetta.
46 Sú spurning kom fram meðal þeirra, hver þeirra væri mestur.
47 Jesús vissi, hvað þeir hugsuðu í hjörtum sínum, og tók lítið barn, setti það hjá sér
48 og sagði við þá: "Hver sem tekur við þessu barni í mínu nafni, tekur við mér, og hver sem tekur við mér, tekur við þeim, er sendi mig. Því að sá sem minnstur er meðal yðar allra, hann er mestur."
49 Jóhannes tók til máls: "Meistari, vér sáum mann reka út illa anda í þínu nafni, og vildum vér varna honum þess, af því að hann fylgir oss ekki."
50 En Jesús sagði við hann: "Varnið þess ekki. Sá sem er ekki á móti yður, er með yður."
by Icelandic Bible Society