Book of Common Prayer
119 Sælir eru þeir sem breyta grandvarlega, þeir er fram ganga í lögmáli Drottins.
2 Sælir eru þeir er halda reglur hans, þeir er leita hans af öllu hjarta
3 og eigi fremja ranglæti, en ganga á vegum hans.
4 Þú hefir gefið skipanir þínar, til þess að menn skuli halda þær vandlega.
5 Ó að breytni mín mætti vera staðföst, svo að ég varðveiti lög þín.
6 Þá mun ég eigi til skammar verða, er ég gef gaum að öllum boðum þínum.
7 Ég skal þakka þér af einlægu hjarta, er ég hefi numið þín réttlátu ákvæði.
8 Ég vil gæta laga þinna, þá munt þú alls ekki yfirgefa mig.
9 Með hverju getur ungur maður haldið vegi sínum hreinum? Með því að gefa gaum að orði þínu.
10 Ég leita þín af öllu hjarta, lát mig eigi villast frá boðum þínum.
11 Ég geymi orð þín í hjarta mínu, til þess að ég skuli eigi syndga gegn þér.
12 Lofaður sért þú, Drottinn, kenn mér lög þín.
13 Með vörum mínum tel ég upp öll ákvæði munns þíns.
14 Yfir vegi vitnisburða þinna gleðst ég eins og yfir alls konar auði.
15 Fyrirmæli þín vil ég íhuga og skoða vegu þína.
16 Ég leita unaðar í lögum þínum, gleymi eigi orði þínu.
17 Veit þjóni þínum að lifa, að ég megi halda orð þín.
18 Ljúk upp augum mínum, að ég megi skoða dásemdirnar í lögmáli þínu.
19 Ég er útlendingur á jörðunni, dyl eigi boð þín fyrir mér.
20 Sál mín er kvalin af þrá eftir ákvæðum þínum alla tíma.
21 Þú hefir ógnað ofstopamönnunum, bölvaðir eru þeir, sem víkja frá boðum þínum.
22 Velt þú af mér háðung og skömm, því að ég hefi haldið reglur þínar.
23 Þótt þjóðhöfðingjar sitji og taki saman ráð sín gegn mér, þá íhugar þjónn þinn lög þín.
24 Og reglur þínar eru unun mín, boð þín eru ráðgjafar mínir.
12 Til söngstjórans. Á áttstrengjað hljóðfæri. Davíðssálmur.
2 Hjálpa þú, Drottinn, því að hinir trúuðu eru á brottu, hinir dygglyndu horfnir frá mönnunum.
3 Lygi tala þeir hver við annan, með mjúkfláum vörum og tvískiptu hjarta tala þeir.
4 Ó að Drottinn vildi eyða öllum mjúkfláum vörum, öllum tungum er tala drambsamleg orð,
5 þeim er segja: "Með tungunni munum vér sigra, varir vorar hjálpa oss, hver er drottnari yfir oss?"
6 "Sakir kúgunar hinna hrjáðu, sakir andvarpa hinna fátæku vil ég nú rísa upp," segir Drottinn. "Ég vil veita hjálp þeim, er þrá hana."
7 Orð Drottins eru hrein orð, skírt silfur, sjöhreinsað gull.
8 Þú, Drottinn, munt vernda oss, varðveita oss fyrir þessari kynslóð um aldur.
9 Hinir guðlausu vaða alls staðar uppi, og hrakmenni komast til vegs meðal mannanna.
13 Til söngstjórans. Davíðssálmur.
2 Hversu lengi, Drottinn, ætlar þú að gleyma mér með öllu? Hversu lengi ætlar þú að hylja auglit þitt fyrir mér?
3 Hversu lengi á ég að bera sút í sál, harm í hjarta dag frá degi? Hversu lengi á óvinur minn að hreykja sér upp yfir mig?
4 Lít til, svara mér, Drottinn, Guð minn, hýrga augu mín, að ég sofni ekki svefni dauðans,
5 að óvinur minn geti ekki sagt: "Ég hefi borið af honum!" að fjandmenn mínir geti ekki fagnað yfir því, að mér skriðni fótur.
6 Ég treysti á miskunn þína; hjarta mitt fagnar yfir hjálp þinni. Ég vil syngja fyrir Drottni, því að hann hefir gjört vel til mín.
14 Til söngstjórans. Davíðssálmur. Heimskinginn segir í hjarta sínu: "Guð er ekki til." Ill og andstyggileg er breytni þeirra, enginn gjörir það sem gott er.
2 Drottinn lítur af himni niður á mennina til þess að sjá, hvort nokkur sé hygginn, nokkur sem leiti Guðs.
3 Allir eru viknir af leið, allir spilltir, enginn gjörir það sem gott er _ ekki einn.
4 Skyldu þeir ekki fá að kenna á því, allir illgjörðamennirnir, þeir er eta lýð minn sem brauð væri og ákalla eigi Drottin?
5 Þá skulu þeir verða mjög óttaslegnir, því að Guð er hjá kynslóð réttlátra.
6 Þér megið láta ráð hinna hrjáðu til skammar verða, því að Drottinn er samt athvarf þeirra.
7 Ó að hjálpræði Ísraels komi frá Síon! Þegar Drottinn snýr við hag lýðs síns, skal Jakob fagna og Ísrael gleðjast.
2 Þá sendi Drottinn stórfisk til þess að svelgja Jónas. Og Jónas var í kviði fisksins þrjá daga og þrjár nætur.
2 Og Jónas bað til Drottins Guðs síns í kviði fisksins
3 og sagði: Ég kallaði til Drottins í neyð minni, og hann svaraði mér. Frá skauti Heljar hrópaði ég, og þú heyrðir raust mína.
4 Þú varpaðir mér í djúpið, út í mitt hafið, svo að straumurinn umkringdi mig. Allir boðar þínir og bylgjur gengu yfir mig.
5 Ég hugsaði: Ég er burt rekinn frá augum þínum. Mun ég nokkurn tíma framar líta þitt heilaga musteri?
6 Vötnin luktu um mig og ætluðu að sálga mér, hyldýpið umkringdi mig, höfði mínu var faldað með marhálmi.
7 Ég steig niður að grundvöllum fjallanna, slagbrandar jarðarinnar voru lokaðir á eftir mér að eilífu. Þá færðir þú líf mitt upp úr gröfinni, Drottinn, Guð minn!
8 Þegar sál mín örmagnaðist í mér, þá minntist ég Drottins, og bæn mín kom til þín, í þitt heilaga musteri.
9 Þeir sem dýrka fánýt falsgoð, þeir hafna hjálpræði sínu.
10 En ég vil færa þér fórnir með lofgjörðarsöng. Ég vil greiða það er ég hefi heitið. Hjálpin kemur frá Drottni.
9 Enn leið drjúgur tími, og sjóferðir voru orðnar hættulegar, enda komið fram yfir föstu. Páll vildi því vara þá við
10 og sagði við þá: "Það sé ég, góðir menn, að sjóferðin muni kosta hrakninga og mikið tjón, ekki einungis á farmi og skipi, heldur og á lífi voru."
11 En hundraðshöfðinginn treysti betur skipstjóra og skipseiganda en því, er Páll sagði.
12 Höfnin var óhentug til vetrarlegu. Því var það flestra ráð að halda þaðan, ef þeir mættu ná Fönix og hafa þar vetrarlegu. Sú höfn er á Krít og veit til útsuðurs og útnorðurs.
13 Nú rann á hægur sunnanvindur. Hugðust þeir þá hafa ráð þetta í hendi sér, léttu akkerum og sigldu fram með Krít nærri landi.
14 En áður en langt leið, skall á af landi ofan fárviðri, hinn illræmdi landnyrðingur.
15 Skipið hrakti, og varð ekki beitt upp í vindinn. Slógum vér undan og létum reka.
16 Vér hleyptum undir litla ey, sem nefnist Káda. Þar gátum vér með naumindum bjargað skipsbátnum.
17 Þeir náðu honum upp og gripu til þeirra ráða, sem helst máttu til bjargar verða, og reyrðu skipið köðlum. Þeir óttuðust, að þá mundi bera inn í Syrtuflóa; því felldu þeir segl og létu reka.
18 Daginn eftir hrakti oss mjög undan ofviðrinu. Þá tóku þeir að ryðja skipið.
19 Og á þriðja degi vörpuðu þeir út með eigin höndum búnaði skipsins.
20 Dögum saman sá hvorki til sólar né stjarna, og ekkert lát varð á ofviðrinu. Tók þá að þrjóta öll von um það, að vér kæmumst af.
21 Nú höfðu menn lengi einskis matar neytt. Þá stóð Páll upp meðal þeirra og mælti: "Góðir menn, þér hefðuð átt að hlíta mínu ráði og leggja ekki út frá Krít. Þá hefðuð þér komist hjá hrakningum þessum og tjóni.
22 En nú hvet ég yður að vera vonglaðir, því enginn yðar mun lífi týna, en skipið mun farast.
23 Því að á þessari nóttu stóð hjá mér engill þess Guðs, sem ég heyri til og þjóna, og mælti:
24 ,Óttast þú eigi, Páll, fyrir keisarann átt þú að koma. Og sjá, Guð hefur gefið þér alla þá, sem þér eru samskipa.`
25 Verið því vonglaðir, góðir menn. Ég treysti Guði, að svo muni fara sem við mig hefur verið mælt.
26 Oss mun bera upp á einhverja eyju."
9 Hann kallaði saman þá tólf og gaf þeim mátt og vald yfir öllum illum öndum og til að lækna sjúkdóma.
2 Hann sendi þá að boða Guðs ríki og græða sjúka
3 og sagði við þá: "Takið ekkert til ferðarinnar, hvorki staf né mal, brauð né silfur, og enginn hafi tvo kyrtla.
4 Og hvar sem þér fáið inni, þar sé aðsetur yðar og þaðan skuluð þér leggja upp að nýju.
5 En taki menn ekki við yður, þá farið úr borg þeirra og hristið dustið af fótum yðar til vitnisburðar gegn þeim."
6 Þeir lögðu af stað og fóru um þorpin, fluttu fagnaðarerindið og læknuðu hvarvetna.
7 En Heródes fjórðungsstjóri frétti allt, sem gjörst hafði, og vissi ekki, hvað hann átti að halda, því sumir sögðu, að Jóhannes væri risinn upp frá dauðum,
8 aðrir, að Elía væri kominn fram, enn aðrir, að einn hinna fornu spámanna væri risinn upp.
9 Heródes sagði: "Jóhannes lét ég hálshöggva, en hver er þessi, er ég heyri þvílíkt um?" Og hann leitaði færis að sjá hann.
10 Postularnir komu aftur og skýrðu Jesú frá öllu því, er þeir höfðu gjört, en hann tók þá með sér og vék brott til bæjar, sem heitir Betsaída, að þeir væru einir saman.
11 Mannfjöldinn varð þess var og fór á eftir honum. Hann tók þeim vel og talaði við þá um Guðs ríki og læknaði þá, er lækningar þurftu.
12 Nú tók degi að halla. Komu þá þeir tólf að máli við hann og sögðu: "Lát þú mannfjöldann fara, að þeir geti náð til þorpa og býla hér í kring og náttað sig og fengið mat, því að hér erum vér á óbyggðum stað."
13 En hann sagði við þá: "Gefið þeim sjálfir að eta." Þeir svöruðu: "Vér eigum ekki meira en fimm brauð og tvo fiska, nema þá vér förum og kaupum vistir handa öllu þessu fólki."
14 En þar voru um fimm þúsund karlmenn. Hann sagði þá við lærisveina sína: "Látið þá setjast í hópa, um fimmtíu í hverjum."
15 Þeir gjörðu svo og létu alla setjast.
16 En hann tók brauðin fimm og fiskana tvo, leit upp til himins, þakkaði Guði fyrir þau og braut og gaf lærisveinunum að bera fram fyrir mannfjöldann.
17 Og þeir neyttu allir og urðu mettir. En leifarnar eftir þá voru teknar saman, tólf körfur brauðbita.
by Icelandic Bible Society