Print Page Options
Previous Prev Day Next DayNext

Book of Common Prayer

Daily Old and New Testament readings based on the Book of Common Prayer.
Duration: 861 days
Icelandic Bible (ICELAND)
Version
Sálmarnir 1-4

Sæll er sá maður, er eigi fer að ráðum óguðlegra, eigi gengur á vegi syndaranna og eigi situr í hópi þeirra, er hafa Guð að háði,

heldur hefir yndi af lögmáli Drottins og hugleiðir lögmál hans dag og nótt.

Hann er sem tré, gróðursett hjá rennandi lækjum, er ber ávöxt sinn á réttum tíma, og blöð þess visna ekki. Allt er hann gjörir lánast honum.

Svo fer eigi hinum óguðlega, heldur sem sáðum, er vindur feykir.

Þess vegna munu hinir óguðlegu eigi standast í dóminum og syndugir eigi í söfnuði réttlátra.

Því að Drottinn þekkir veg réttlátra, en vegur óguðlegra endar í vegleysu.

Hví geisa heiðingjarnir og hví hyggja þjóðirnar á fánýt ráð?

Konungar jarðarinnar ganga fram, og höfðingjarnir bera ráð sín saman gegn Drottni og hans smurða:

"Vér skulum brjóta sundur fjötra þeirra, vér skulum varpa af oss viðjum þeirra."

Hann sem situr á himni hlær. Drottinn gjörir gys að þeim.

Því næst talar hann til þeirra í reiði sinni, skelfir þá í bræði sinni:

"Ég hefi skipað konung minn á Síon, fjallið mitt helga."

Ég vil kunngjöra ályktun Drottins: Hann mælti við mig: "Þú ert sonur minn. Í dag gat ég þig.

Bið þú mig, og ég mun gefa þér þjóðirnar að erfð og endimörk jarðar að óðali.

Þú skalt mola þá með járnsprota, mölva þá sem leirsmiðs ker."

10 Verið því hyggnir, þér konungar, látið yður segjast, þér dómarar á jörðu.

11 Þjónið Drottni með ótta og fagnið með lotningu.

12 Hyllið soninn, að hann reiðist eigi og vegur yðar endi í vegleysu,

13 því að skjótt bálast upp reiði hans. Sæll er hver sá er leitar hælis hjá honum.

Sálmur Davíðs, þá er hann flýði fyrir Absalon syni sínum.

Drottinn, hversu margir eru mótstöðumenn mínir, margir eru þeir er rísa upp í móti mér.

Margir segja um mig: "Hann fær enga hjálp hjá Guði!" [Sela]

En þú, Drottinn, ert hlífiskjöldur minn, þú ert sæmd mín og lætur mig bera höfuð mitt hátt.

Þá er ég hrópa til Drottins, svarar hann mér frá fjallinu sínu helga. [Sela]

Ég leggst til hvíldar og sofna, ég vakna aftur, því að Drottinn hjálpar mér.

Ég óttast eigi hinn óteljandi manngrúa, er fylkir sér gegn mér á allar hliðar.

Rís þú upp, Drottinn, hjálpa mér, Guð minn, því að þú hefir lostið fjandmenn mína kinnhest, brotið tennur illvirkjanna.

Hjá Drottni er hjálpin, blessun þín komi yfir lýð þinn! [Sela]

Til söngstjórans. Með strengjaleik. Davíðssálmur.

Svara mér, er ég hrópa, þú Guð réttlætis míns! Þá er að mér kreppti, rýmkaðir þú um mig, ver mér náðugur og heyr bæn mína.

Þér menn! Hversu lengi á sæmd mín að sæta smán? Hversu lengi ætlið þér að elska hégómann og leita til lyginnar? [Sela]

Þér skuluð samt komast að raun um, að Drottinn sýnir mér dásamlega náð, að Drottinn heyrir, er ég hrópa til hans.

Skelfist og syndgið ekki. Hugsið yður um í hvílum yðar og verið hljóðir. [Sela]

Færið réttar fórnir og treystið Drottni.

Margir segja: "Hver lætur oss hamingju líta?" Lyft yfir oss ljósi auglitis þíns, Drottinn.

Þú hefir veitt hjarta mínu meiri gleði en menn hafa af gnægð korns og vínlagar.

Í friði leggst ég til hvíldar og sofna, því að þú, Drottinn, lætur mig búa óhultan í náðum.

Sálmarnir 7

Davíðssálmur, er hann kvað fyrir Drottni sakir Kús Benjamíníta.

Drottinn, Guð minn, hjá þér leita ég hælis, hjálpa mér undan öllum ofsækjendum mínum og bjarga mér,

svo að þeir rífi mig ekki í sundur eins og ljón, tæti mig í sundur og enginn bjargi mér.

Drottinn, Guð minn, hafi ég gjört þetta: sé ranglæti í höndum mínum,

hafi ég illt gjört þeim er lifðu í friði við mig, eða gjört fjandmönnum mínum mein að ástæðulausu,

þá elti mig óvinur minn og nái mér, troði líf mitt til jarðar og varpi sæmd minni í duftið. [Sela]

Rís þú upp, Drottinn, í reiði þinni, hef þig gegn ofsa fjandmanna minna og vakna mér til hjálpar, þú sem hefir fyrirskipað réttan dóm.

Söfnuður þjóðanna umkringi þig, og tak þú sæti uppi yfir honum á hæðum.

Þú Drottinn, sem dæmir þjóðirnar, lát mig ná rétti mínum, Drottinn, samkvæmt réttlæti mínu og ráðvendni.

10 Lát endi á verða illsku óguðlegra, en styrk hina réttlátu, þú, sem rannsakar hjörtun og nýrun, réttláti Guð!

11 Guð heldur skildi fyrir mér, hann hjálpar hinum hjartahreinu.

12 Guð er réttlátur dómari, hann reiðist illskunni dag hvern.

13 Vissulega hvetur hinn óguðlegi aftur sverð sitt, bendir boga sinn og leggur til hæfis,

14 en sjálfum sér hefir hann búið hin banvænu vopn, skotið brennandi örvum.

15 Já, hann getur illsku, er þungaður af ranglæti og elur tál.

16 Hann gróf gröf og gjörði hana djúpa, en sjálfur fellur hann í gryfjuna er hann gjörði.

17 Ranglæti hans kemur sjálfum honum í koll, og ofbeldi hans fellur í höfuð honum sjálfum.

18 Ég vil lofa Drottin fyrir réttlæti hans og lofsyngja nafni Drottins hins hæsta.

Míka 7:1-7

Vei mér, því að það hefir farið fyrir mér eins og þegar ávöxtum er safnað, eins og við eftirtíning vínberjatekju: ekkert vínber eftir til að eta, engin árfíkja, er mig langaði í.

Guðhræddir menn eru horfnir úr landinu, og ráðvandir eru ekki til meðal mannanna, þeir sitja allir um að fremja morð og reyna að veiða hver annan í net.

Til ills eru báðar hendur fram réttar. Höfðinginn heimtar og dómarinn dæmir gegn endurgjaldi. Og stórmennið er bermált um það, sem hjarta hans girnist, og þeir flækja málin.

Hinn besti meðal þeirra er sem þyrnir og hinn ráðvandasti verri en þyrnigerði. Dagurinn sem varðmenn þínir hafa talað um, hegningardagur þinn, kemur. Þá verða þeir úrræðalausir.

Trúið eigi kunningja yðar, treystið eigi vini, gæt dyra munns þíns fyrir henni, sem hvílir í faðmi þínum.

Því að sonurinn fyrirlítur föður sinn, dóttirin setur sig upp á móti móður sinni, tengdadóttirin á móti tengdamóður sinni, heimilismennirnir eru óvinir húsbónda síns.

Ég vil mæna til Drottins, bíða eftir Guði hjálpræðis míns! Guð minn mun heyra mig!

Postulasagan 26:1-23

26 En Agrippa sagði við Pál: "Nú er þér leyft að tala þínu máli." Páll rétti þá út höndina og bar fram vörn sína:

"Lánsamur þykist ég, Agrippa konungur, að eiga í dag í þinni áheyrn að verja mig gegn öllu því, sem Gyðingar saka mig um,

því heldur sem þú þekkir alla siðu Gyðinga og ágreiningsmál. Því bið ég þig að hlýða þolinmóður á mig.

Allir Gyðingar þekkja líf mitt frá upphafi, hvernig ég hef lifað með þjóð minni, fyrst í æsku og síðan í Jerúsalem.

Það vita þeir um mig, vilji þeir unna mér sannmælis, að ég var farísei frá fyrstu tíð, fylgdi strangasta flokki trúarbragða vorra.

Og hér stend ég nú lögsóttur vegna vonarinnar um fyrirheitið, sem Guð gaf feðrum vorum

og vorar tólf kynkvíslir vona að öðlast með því að dýrka Guð án afláts nótt sem dag. Fyrir þessa von er ég nú ákærður, konungur, og það af Gyðingum.

Hvers vegna teljið þér það ótrúlegt, að Guð veki upp dauða?

Sjálfur taldi ég mér skylt að vinna af öllu megni gegn nafni Jesú frá Nasaret.

10 Það gjörði ég og í Jerúsalem, hneppti marga hinna heilögu í fangelsi með valdi frá æðstu prestunum og galt því jákvæði, að þeir væru teknir af lífi.

11 Og í öllum samkundunum reyndi ég þrásinnis með pyndingum að neyða þá til að afneita trú sinni. Svo freklega æddi ég gegn þeim, að ég fór til borga erlendis að ofsækja þá.

12 Þá er ég var á leið til Damaskus slíkra erinda með vald og umboð frá æðstu prestunum,

13 sá ég, konungur, á veginum um miðjan dag ljós af himni sólu bjartara leiftra um mig og þá, sem mér voru samferða.

14 Vér féllum allir til jarðar, og ég heyrði rödd, er sagði við mig á hebresku: ,Sál, Sál, hví ofsækir þú mig? Erfitt verður þér að spyrna móti broddunum.`

15 En ég sagði: ,Hver ert þú, herra?` Og Drottinn sagði: ,Ég er Jesús, sem þú ofsækir.

16 Rís nú upp og statt á fætur þína. Til þess birtist ég þér, að ég vel þig til þess að vera þjónn minn og vitni þess, að þú hefur séð mig bæði nú og síðar, er ég mun birtast þér.

17 Ég mun frelsa þig frá lýðnum og frá heiðingjunum, og til þeirra sendi ég þig

18 að opna augu þeirra og snúa þeim frá myrkri til ljóss, frá Satans valdi til Guðs, svo að þeir öðlist fyrir trú á mig fyrirgefningu syndanna og arf með þeim, sem helgaðir eru.`

19 Fyrir því gjörðist ég, Agrippa konungur, eigi óhlýðinn hinni himnesku vitrun,

20 heldur boðaði ég fyrst þeim í Damaskus og í Jerúsalem, síðan um alla Júdeubyggð og heiðingjunum að iðrast og snúa sér til Guðs og vinna verk samboðin iðruninni.

21 Sakir þessa gripu Gyðingar mig í helgidóminum og reyndu að ráða mér bana.

22 En Guð hefur hjálpað mér, og því stend ég allt til þessa dags og vitna bæði fyrir háum og lágum. Mæli ég ekki annað en það, sem bæði spámennirnir og Móse hafa sagt að verða mundi,

23 að Kristur ætti að líða og fyrstur rísa upp frá dauðum og boða bæði lýðnum og heiðingjunum ljósið."

Lúkasarguðspjall 8:26-39

26 Þeir tóku land í byggð Gerasena, sem er gegnt Galíleu.

27 Er hann sté á land, kom á móti honum maður nokkur úr borginni, sem haldinn var illum öndum. Langan tíma hafði hann ekki farið í föt né dvalist í húsi, heldur í gröfunum.

28 Þegar hann sá Jesú, æpti hann, féll fram fyrir honum og hrópaði hárri röddu: "Hvað vilt þú mér, Jesús, sonur Guðs hins hæsta? Ég bið þig, kvel þú mig eigi!"

29 Því að hann hafði boðið óhreina andanum að fara út af manninum. En margsinnis hafði hann gripið hann, og höfðu menn fjötrað hann á höndum og fótum og haft í gæslu, en hann hafði slitið böndin og illi andinn hrakið hann út í óbyggðir.

30 Jesús spurði hann: "Hvað heitir þú?" En hann sagði: "Hersing", því að margir illir andar höfðu farið í hann.

31 Og þeir báðu Jesú að skipa sér ekki að fara í undirdjúpið.

32 En þar var stór svínahjörð á beit í fjallinu. Þeir báðu hann að leyfa sér að fara í þau, og hann leyfði þeim það.

33 Illu andarnir fóru þá úr manninum og í svínin, og hjörðin ruddist fram af hamrinum í vatnið og drukknaði.

34 En er hirðarnir sáu, hvað orðið var, flýðu þeir og sögðu tíðindin í borginni og sveitinni.

35 Menn fóru þá að sjá, hvað gjörst hafði, komu til Jesú og fundu manninn, sem illu andarnir höfðu farið úr, sitja klæddan og heilvita við fætur Jesú. Og þeir urðu hræddir.

36 Sjónarvottar sögðu þeim frá, hvernig sá, sem haldinn var illum öndum, hafði orðið heill.

37 Allt fólk í héruðum Gerasena bað hann þá fara burt frá sér, því menn voru slegnir miklum ótta. Og hann sté í bátinn og sneri aftur.

38 Maðurinn, sem illu andarnir höfðu farið úr, bað hann að mega vera með honum, en Jesús lét hann fara og mælti:

39 "Far aftur heim til þín, og seg þú frá, hve mikið Guð hefur fyrir þig gjört." Hann fór og kunngjörði um alla borgina, hve mikið Jesús hafði fyrir hann gjört.

Icelandic Bible (ICELAND)

by Icelandic Bible Society