Print Page Options
Previous Prev Day Next DayNext

Book of Common Prayer

Daily Old and New Testament readings based on the Book of Common Prayer.
Duration: 861 days
Icelandic Bible (ICELAND)
Version
Sálmarnir 140

140 Til söngstjórans. Davíðssálmur.

Frelsa mig, Drottinn, frá illmennum, vernda mig fyrir ofríkismönnum,

þeim er hyggja á illt í hjarta sínu og vekja ófrið á degi hverjum.

Þeir gjöra tungur sínar hvassar sem höggormar, nöðrueitur er undir vörum þeirra. [Sela]

Varðveit mig, Drottinn, fyrir hendi óguðlegra, vernda mig fyrir ofríkismönnum, er hyggja á að bregða fæti fyrir mig.

Ofstopamenn hafa lagt gildrur í leyni fyrir mig og þanið út snörur eins og net, hjá vegarbrúninni hafa þeir lagt möskva fyrir mig. [Sela]

Ég sagði við Drottin: Þú ert Guð minn, ljá eyra, Drottinn, grátbeiðni minni.

Drottinn Guð, mín máttuga hjálp, þú hlífir höfði mínu á orustudeginum.

Uppfyll eigi, Drottinn, óskir hins óguðlega, lát vélar hans eigi heppnast. [Sela]

10 Þeir skulu eigi hefja höfuðið umhverfis mig, ranglæti vara þeirra skal hylja sjálfa þá.

11 Lát rigna á þá eldsglóðum, hrind þeim í gryfjur, svo að þeir fái eigi upp staðið.

12 Illmáll maður skal eigi fá staðist í landinu, ofríkismanninn skal ógæfan elta með sífelldum höggum.

13 Ég veit, að Drottinn flytur mál hrjáðra, rekur réttar snauðra.

14 Vissulega skulu hinir réttlátu lofa nafn þitt, hinir hreinskilnu búa fyrir augliti þínu.

Sálmarnir 142

142 Maskíl eftir Davíð, er hann var í hellinum. Bæn.

Ég hrópa hátt til Drottins, hástöfum grátbæni ég Drottin.

Ég úthelli kveini mínu fyrir honum, tjái honum neyð mína.

Þegar andi minn örmagnast í mér, þekkir þú götu mína. Á leið þeirri er ég geng hafa þeir lagt snörur fyrir mig.

Ég lít til hægri handar og skyggnist um, en enginn kannast við mig. Mér er varnað sérhvers hælis, enginn spyr eftir mér.

Ég hrópa til þín, Drottinn, ég segi: Þú ert hæli mitt, hlutdeild mín á landi lifenda.

Veit athygli kveini mínu, því að ég er mjög þjakaður, bjarga mér frá ofsækjendum mínum, því að þeir eru mér yfirsterkari.

Leið mig út úr dýflissunni, að ég megi lofa nafn þitt, hinir réttlátu skipast í kringum mig, þegar þú gjörir vel til mín.

Sálmarnir 141

141 Davíðssálmur. Drottinn, ég ákalla þig, skunda þú til mín, ljá eyra raust minni, er ég ákalla þig.

Bæn mín sé fram borin sem reykelsisfórn fyrir auglit þitt, upplyfting handa minna sem kvöldfórn.

Set þú, Drottinn, vörð fyrir munn minn, gæslu fyrir dyr vara minna.

Lát eigi hjarta mitt hneigjast að neinu illu, að því að fremja óguðleg verk með illvirkjum, og lát mig eigi eta krásir þeirra.

Þótt réttlátur maður slái mig og trúaður hirti mig, mun ég ekki þiggja sæmd af illum mönnum. Bæn mín stendur gegn illsku þeirra.

Þegar höfðingjum þeirra verður hrundið niður af kletti, munu menn skilja, að orð mín voru sönn.

Eins og menn höggva við og kljúfa á jörðu, svo skal beinum þeirra tvístrað við gin Heljar.

Til þín, Drottinn, mæna augu mín, hjá þér leita ég hælis, sel þú eigi fram líf mitt.

Varðveit mig fyrir gildru þeirra, er sitja um mig, og fyrir snörum illvirkjanna.

10 Hinir óguðlegu falli í sitt eigið net, en ég sleppi heill á húfi.

Sálmarnir 143

143 Davíðssálmur. Drottinn, heyr þú bæn mína, ljá eyra grátbeiðni minni í trúfesti þinni, bænheyr mig í réttlæti þínu.

Gakk eigi í dóm við þjón þinn, því að enginn er réttlátur fyrir augliti þínu.

Óvinurinn eltir sál mína, slær líf mitt til jarðar, lætur mig búa í myrkri eins og þá sem löngu eru dánir.

Andi minn örmagnast í mér, hjarta mitt er agndofa hið innra í mér.

Ég minnist fornra daga, íhuga allar gjörðir þínar, ígrunda verk handa þinna.

Ég breiði út hendurnar í móti þér, sál mín er sem örþrota land fyrir þér. [Sela]

Flýt þér að bænheyra mig, Drottinn, andi minn örmagnast, byrg eigi auglit þitt fyrir mér, svo að ég verði ekki líkur þeim, er gengnir eru til grafar.

Lát þú mig heyra miskunn þína að morgni dags, því að þér treysti ég. Gjör mér kunnan þann veg, er ég á að ganga, því að til þín hef ég sál mína.

Frelsa mig frá óvinum mínum, Drottinn, ég flý á náðir þínar.

10 Kenn mér að gjöra vilja þinn, því að þú ert minn Guð. Þinn góði andi leiði mig um slétta braut.

11 Veit mér að lifa, Drottinn, sakir nafns þíns, leið mig úr nauðum sakir réttlætis þíns.

12 Lát þú óvini mína hverfa sakir trúfesti þinnar, ryð þeim öllum úr vegi, er að mér þrengja, því að ég er þjónn þinn.

Míka 3:9-4:5

Heyrið þetta, þér höfðingjar Jakobs húss og þér stjórnendur Ísraels húss, þér sem hafið viðbjóð á réttvísinni og gjörið allt bogið, sem beint er,

10 þér sem byggið Síon með manndrápum og Jerúsalem með glæpum.

11 Höfðingjar hennar dæma fyrir mútur og prestar hennar veita fræðslu fyrir kaup. Spámenn hennar spá fyrir peninga og reiða sig í því efni á Drottin og segja: "Er ekki Drottinn vor á meðal? Engin ógæfa kemur yfir oss!"

12 Fyrir því skal Síon plægð verða að akri yðar vegna og Jerúsalem verða að rúst og musterisfjallið að skógarhæðum.

Og það skal verða á hinum síðustu dögum, að fjall það, er hús Drottins stendur á, mun grundvallað verða á fjallatindi og gnæfa upp yfir hæðirnar, og þangað munu lýðirnir streyma.

Og margar þjóðir munu búast til ferðar og segja: "Komið, förum upp á fjall Drottins og til húss Jakobs Guðs, svo að hann kenni oss sína vegu og vér megum ganga á hans stigum." Því að frá Síon mun kenning út ganga og orð Drottins frá Jerúsalem.

Og hann mun dæma meðal margra lýða og skera úr málum voldugra þjóða langt í burtu. Og þær munu smíða plógjárn úr sverðum sínum og sniðla úr spjótum sínum. Engin þjóð skal sverð reiða að annarri þjóð, og ekki skulu þær temja sér hernað framar.

Hver mun búa undir sínu víntré og undir sínu fíkjutré og enginn hræða þá. Því að munnur Drottins allsherjar hefir talað það.

Því að allar þjóðirnar ganga hver í nafni síns guðs, en vér göngum í nafni Drottins, Guðs vors, æ og ævinlega.

Postulasagan 24:24-25:12

24 Nokkrum dögum seinna kom Felix með eiginkonu sinni, Drúsillu. Hún var Gyðingur. Hann lét sækja Pál og hlýddi á mál hans um trúna á Krist Jesú.

25 En er hann ræddi um réttlæti, sjálfsögun og komandi dóm, varð Felix skelkaður og mælti: "Far burt að sinni. Ég læt kalla þig, þegar ég fæ tóm til."

26 Meðfram gjörði hann sér von um, að Páll mundi gefa sér fé. Því var það, að hann lét alloft sækja hann og átti tal við hann.

27 Þegar tvö ár voru liðin, tók Porkíus Festus við landstjórn af Felix. Felix vildi koma sér vel við Gyðinga og lét því Pál eftir í haldi.

25 Þrem dögum eftir að Festus hafði tekið við umdæmi sínu, fór hann frá Sesareu upp til Jerúsalem.

Æðstu prestarnir og fyrirmenn Gyðinga báru þá sakir á Pál fyrir honum og báðu hann

að veita sér að málum gegn honum og gera sér þann greiða að senda hann til Jerúsalem. En þeir hugðust búa honum fyrirsát og vega hann á leiðinni.

Festus svaraði, að Páll væri í varðhaldi í Sesareu, en sjálfur mundi hann bráðlega fara þangað.

"Látið því," sagði hann, "ráðamenn yðar verða mér samferða ofan eftir og lögsækja manninn, ef hann er um eitthvað sekur."

Festus dvaldist þar ekki lengur en í átta daga eða tíu. Síðan fór hann ofan til Sesareu. Daginn eftir settist hann á dómstólinn og bauð að leiða Pál fram.

Þegar hann kom, umkringdu hann Gyðingar þeir, sem komnir voru ofan frá Jerúsalem, og báru á hann margar þungar sakir, sem þeir gátu ekki sannað.

En Páll varði sig og sagði: "Ekkert hef ég brotið, hvorki gegn lögmáli Gyðinga, helgidóminum né keisaranum."

Festus vildi koma sér vel við Gyðinga og mælti við Pál: "Vilt þú fara upp til Jerúsalem og hlíta þar dómi mínum í máli þessu?"

10 Páll svaraði: "Ég stend nú fyrir dómstóli keisarans, og hér á ég að dæmast. Gyðingum hef ég ekkert rangt gjört, það veistu fullvel.

11 Sé ég sekur og hafi framið eitthvað, sem dauða sé vert, mæli ég mig ekki undan því að deyja. En ef ekkert er hæft í því, sem þessir menn kæra mig um, á enginn með að selja mig þeim á vald. Ég skýt máli mínu til keisarans."

12 Festus ræddi þá við ráðunauta sína og mælti síðan: "Til keisarans hefur þú skotið máli þínu, til keisarans skaltu fara."

Lúkasarguðspjall 8:1-15

Eftir þetta fór hann um, borg úr borg og þorp úr þorpi, prédikaði og flutti fagnaðarerindið um Guðs ríki. Með honum voru þeir tólf

og konur nokkrar, er læknaðar höfðu verið af illum öndum og sjúkdómum. Það voru þær María, kölluð Magdalena, er sjö illir andar höfðu farið úr,

Jóhanna, kona Kúsa, ráðsmanns Heródesar, Súsanna og margar aðrar. Þær hjálpuðu þeim með fjármunum sínum.

Nú var mikill fjöldi saman kominn, og menn komu til hans úr hverri borg af annarri. Þá sagði hann þessa dæmisögu:

"Sáðmaður gekk út að sá sæði sínu. Og þá er hann sáði, féll sumt hjá götunni og varð fótum troðið, og fuglar himins átu það upp.

Sumt féll á klöpp. Það spratt, en skrælnaði, af því að það hafði ekki raka.

Og sumt féll meðal þyrna, og þyrnarnir spruttu einnig og kæfðu það.

En sumt féll í góða jörð, óx upp og bar hundraðfaldan ávöxt." Að svo mæltu hrópaði hann: "Hver sem eyru hefur að heyra, hann heyri."

En lærisveinar hans spurðu hann, hvað þessi dæmisaga þýddi.

10 Hann sagði: "Yður er gefið að þekkja leynda dóma Guðs ríkis, hinir fá þá í dæmisögum, ,að sjáandi sjái þeir ekki og heyrandi skilji þeir ekki.`

11 En dæmisagan þýðir þetta: Sæðið er Guðs orð.

12 Það er féll hjá götunni, merkir þá, sem heyra orðið, en síðan kemur djöfullinn og tekur það burt úr hjarta þeirra, til þess að þeir trúi ekki og verði hólpnir.

13 Það er féll á klöppina, merkir þá, sem taka orðinu með fögnuði, er þeir heyra það, en hafa enga rótfestu. Þeir trúa um stund, en falla frá á reynslutíma.

14 Það er féll meðal þyrna, merkir þá er heyra, en kafna síðan undir áhyggjum, auðæfum og nautnum lífsins og bera ekki þroskaðan ávöxt.

15 En það er féll í góða jörð, merkir þá sem heyra orðið og geyma það í göfugu, góðu hjarta og bera ávöxt með stöðuglyndi.

Icelandic Bible (ICELAND)

by Icelandic Bible Society