Print Page Options
Previous Prev Day Next DayNext

Book of Common Prayer

Daily Old and New Testament readings based on the Book of Common Prayer.
Duration: 861 days
Icelandic Bible (ICELAND)
Version
Sálmarnir 119:41-64

41 Lát náð þína koma yfir mig, Drottinn, hjálpræði þitt, samkvæmt fyrirheiti þínu,

42 að ég fái andsvör veitt þeim er smána mig, því að þínu orði treysti ég.

43 Og tak aldrei sannleikans orð burt úr munni mínum, því að ég bíð dóma þinna.

44 Ég vil stöðugt varðveita lögmál þitt, um aldur og ævi,

45 þá mun ég ganga um víðlendi, því að ég leita fyrirmæla þinna,

46 þá mun ég tala um reglur þínar frammi fyrir konungum, og eigi skammast mín,

47 og leita unaðar í boðum þínum, þeim er ég elska,

48 og rétta út hendurnar eftir boðum þínum, þeim er ég elska, og íhuga lög þín.

49 Minnst þú þess orðs við þjón þinn, sem þú lést mig vona á.

50 Þetta er huggun mín í eymd minni, að orð þitt lætur mig lífi halda.

51 Ofstopamenn spotta mig ákaflega, en ég vík eigi frá lögmáli þínu.

52 Ég minnist dóma þinna frá öndverðu, Drottinn, og læt huggast.

53 Heiftarreiði við óguðlega hrífur mig, við þá er yfirgefa lögmál þitt.

54 Lög þín eru efni ljóða minna á þessum stað, þar sem ég er gestur.

55 Um nætur minnist ég nafns þíns, Drottinn, og geymi laga þinna.

56 Þetta er orðin hlutdeild mín, að halda fyrirmæli þín.

57 Drottinn er hlutskipti mitt, ég hefi ákveðið að varðveita orð þín.

58 Ég hefi leitað hylli þinnar af öllu hjarta, ver mér náðugur samkvæmt fyrirheiti þínu.

59 Ég hefi athugað vegu mína og snúið fótum mínum að reglum þínum.

60 Ég hefi flýtt mér og eigi tafið að varðveita boð þín.

61 Snörur óguðlegra lykja um mig, en lögmáli þínu hefi ég eigi gleymt.

62 Um miðnætti rís ég upp til þess að þakka þér þín réttlátu ákvæði.

63 Ég er félagi allra þeirra er óttast þig og varðveita fyrirmæli þín.

64 Jörðin er full af miskunn þinni, Drottinn, kenn mér lög þín.

Jesaja 8:11-20

11 Svo mælti Drottinn við mig, þá er hönd hans hreif mig og hann varaði mig við því að ganga sama veg og þetta fólk gengur:

12 Þér skuluð ekki kalla allt það ,samsæri`, sem þetta fólk kallar ,samsæri`, og ekki óttast það, sem það óttast, og eigi skelfast.

13 Drottinn allsherjar, hann skuluð þér telja heilagan, hann sé yður ótti, hann sé yður skelfing.

14 Og hann skal verða helgidómur og ásteytingarsteinn og hrösunarhella fyrir báðar ættþjóðir Ísraels og snara og gildra fyrir Jerúsalembúa.

15 Og margir af þeim munu hrasa, falla og meiðast, festast í snörunni og verða veiddir.

16 Ég bind saman vitnisburðinn og innsigla kenninguna hjá lærisveinum mínum.

17 Ég treysti Drottni, þótt hann byrgi nú auglit sitt fyrir Jakobs niðjum, og ég bíð hans.

18 Sjá, ég og synirnir, sem Drottinn hefir gefið mér, vér erum til tákns og jarteikna í Ísrael frá Drottni allsherjar, sem býr á Síonfjalli.

19 Ef þeir segja við yður: "Leitið til andasæringarmanna og spásagnarmanna, sem hvískra og umla! _ Á ekki fólk að leita frétta hjá guðum sínum og leita til hinna dauðu vegna hinna lifandi?" _

20 þá svarið þeim: "Til kenningarinnar og vitnisburðarins!" Ef menn tala ekki samkvæmt þessu orði, hafa þeir engan morgunroða

Bréf Páls til Rómverja 10:1-15

10 Bræður, það er hjartans ósk mín og bæn til Guðs, að þeir megi hólpnir verða.

Það ber ég þeim, að þeir eru kappsfullir Guðs vegna, en ekki með réttum skilningi.

Með því þeir þekkja ekki réttlæti Guðs og leitast við að koma til vegar eigin réttlæti, hafa þeir ekki gefið sig undir réttlæti Guðs.

En Kristur er endalok lögmálsins, svo að nú réttlætist sérhver sá, sem trúir.

Því að Móse ritar um réttlætið, sem lögmálið veitir: "Sá maður, sem breytir eftir lögmálinu, mun lifa fyrir það."

En réttlætið af trúnni mælir þannig: "Seg þú ekki í hjarta þínu: Hver mun fara upp í himininn?" _ það er: til að sækja Krist ofan, _

eða: "Hver mun stíga niður í undirdjúpið?" _ það er: til að sækja Krist upp frá dauðum.

Hvað segir það svo? "Nálægt þér er orðið, í munni þínum og í hjarta þínu." Það er: Orð trúarinnar, sem vér prédikum.

Ef þú játar með munni þínum: Jesús er Drottinn _ og trúir í hjarta þínu, að Guð hafi uppvakið hann frá dauðum, muntu hólpinn verða.

10 Með hjartanu er trúað til réttlætis, en með munninum játað til hjálpræðis.

11 Ritningin segir: "Hver sem trúir á hann, mun ekki til skammar verða."

12 Ekki er munur á Gyðingi og grískum manni, því að hinn sami er Drottinn allra, fullríkur fyrir alla þá sem ákalla hann;

13 því að "hver sem ákallar nafn Drottins, mun hólpinn verða."

14 En hvernig eiga þeir að ákalla þann, sem þeir trúa ekki á? Og hvernig eiga þeir að trúa á þann, sem þeir hafa ekki heyrt um? Og hvernig eiga þeir að heyra, án þess að einhver prédiki?

15 Og hver getur prédikað, nema hann sé sendur? Svo er og ritað: "Hversu fagurt er fótatak þeirra, sem færa fagnaðarboðin góðu."

Sálmarnir 19

19 Til söngstjórans. Davíðssálmur.

Himnarnir segja frá Guðs dýrð, og festingin kunngjörir verkin hans handa.

Hver dagurinn kennir öðrum, hver nóttin boðar annarri speki.

Engin ræða, engin orð, ekki heyrist raust þeirra.

Og þó fer hljómur þeirra um alla jörðina, og orð þeirra ná til endimarka heims. Þar reisti hann röðlinum tjald.

Hann er sem brúðguminn, er gengur út úr svefnhúsi sínu, hlakkar sem hetja til að renna skeið sitt.

Við takmörk himins rennur hann upp, og hringferð hans nær til enda himins, og ekkert dylst fyrir geislaglóð hans. _________

Lögmál Drottins er lýtalaust, hressir sálina, vitnisburður Drottins er áreiðanlegur, gjörir hinn fávísa vitran.

Fyrirmæli Drottins eru rétt, gleðja hjartað. Boðorð Drottins eru skír, hýrga augun.

10 Ótti Drottins er hreinn, varir að eilífu. Ákvæði Drottins eru sannleikur, eru öll réttlát.

11 Þau eru dýrmætari heldur en gull, já, gnóttir af skíru gulli, og sætari en hunang, já, hunangsseimur.

12 Þjónn þinn varðveitir þau kostgæfilega, að halda þau hefir mikil laun í för með sér.

13 En hver verður var við yfirsjónirnar? Sýkna mig af leyndum brotum!

14 Og varðveit þjón þinn fyrir ofstopamönnum, lát þá eigi drottna yfir mér. Þá verð ég lýtalaus og sýknaður af miklu afbroti.

15 Ó að orðin af munni mínum yrðu þér þóknanleg og hugsanir hjarta míns kæmu fram fyrir auglit þitt, þú Drottinn, hellubjarg mitt og frelsari!

Sálmarnir 112

112 Halelúja. Sæll er sá maður, sem óttast Drottin og hefir mikla unun af boðum hans.

Niðjar hans verða voldugir á jörðunni, ætt réttvísra mun blessun hljóta.

Nægtir og auðæfi eru í húsi hans, og réttlæti hans stendur stöðugt að eilífu.

Hann upprennur réttvísum sem ljós í myrkrinu, mildur og meðaumkunarsamur og réttlátur.

Vel farnast þeim manni, sem er mildur og fús að lána, sem framkvæmir málefni sín með réttvísi,

því að hann mun eigi haggast að eilífu, hins réttláta mun minnst um eilífð.

Hann óttast eigi ill tíðindi, hjarta hans er stöðugt og treystir Drottni.

Hjarta hans er öruggt, hann óttast eigi, og loks fær hann að horfa á fjendur sína auðmýkta.

Hann hefir miðlað mildilega, gefið fátækum, réttlæti hans stendur stöðugt að eilífu, horn hans gnæfir hátt í vegsemd.

10 Hinn óguðlegi sér það, og honum gremst, nístir tönnum og tortímist. Ósk óguðlegra verður að engu.

Matteusarguðspjall 13:44-52

44 Líkt er himnaríki fjársjóði, sem fólginn var í jörðu og maður fann og leyndi. Í fögnuði sínum fór hann, seldi allar eigur sínar og keypti akur þann.

45 Enn er himnaríki líkt kaupmanni, sem leitaði að fögrum perlum.

46 Og er hann fann eina dýrmæta perlu, fór hann, seldi allt, sem hann átti, og keypti hana.

47 Enn er himnaríki líkt neti, sem lagt er í sjó og safnar alls kyns fiski.

48 Þegar það er fullt, draga menn það á land, setjast við og safna þeim góðu í ker, en kasta þeim óætu burt.

49 Svo mun verða, þegar veröld endar: Englarnir munu fara til, skilja vonda menn frá réttlátum

50 og kasta þeim í eldsofninn. Þar verður grátur og gnístran tanna.

51 Hafið þér skilið allt þetta?" "Já," svöruðu þeir.

52 Hann sagði við þá: "Þannig er sérhver fræðimaður, sem orðinn er lærisveinn himnaríkis, líkur húsföður, sem ber fram nýtt og gamalt úr forðabúri sínu."

Icelandic Bible (ICELAND)

by Icelandic Bible Society