Print Page Options
Previous Prev Day Next DayNext

Book of Common Prayer

Daily Old and New Testament readings based on the Book of Common Prayer.
Duration: 861 days
Icelandic Bible (ICELAND)
Version
Sálmarnir 70-71

70 Til söngstjórans. Davíðssálmur. Minningarljóð.

Guð, lát þér þóknast að frelsa mig, Drottinn, skunda mér til hjálpar.

Lát þá verða til skammar og hljóta kinnroða, er sitja um líf mitt, lát þá hverfa aftur með skömm, er óska mér ógæfu.

Lát þá hörfa undan sakir smánar sinnar, er hrópa háð og spé.

En allir þeir er leita þín, skulu gleðjast og fagna yfir þér, þeir er unna hjálpræði þínu, skulu sífellt segja: "Vegsamaður sé Guð!"

Ég er þjáður og snauður, hraða þér til mín, ó Guð. Þú ert fulltingi mitt og frelsari, dvel eigi, Drottinn!

71 Hjá þér, Drottinn, leita ég hælis, lát mig aldrei verða til skammar.

Frelsa mig og bjarga mér eftir réttlæti þínu, hneig eyru þín til mín og hjálpa mér.

Ver mér verndarbjarg, vígi mér til hjálpar, því að þú ert bjarg mitt og vígi.

Guð minn, bjarga mér úr hendi illgjarnra, undan valdi illvirkja og harðstjóra.

Því að þú ert von mín, þú, Drottinn, ert athvarf mitt frá æsku.

Við þig hefi ég stuðst frá móðurlífi, frá móðurskauti hefir þú verið skjól mitt, um þig hljómar ætíð lofsöngur minn.

Ég er mörgum orðinn sem undur, en þú ert mér öruggt hæli.

Munnur minn er fullur af lofstír þínum, af dýrð þinni daginn allan.

Útskúfa mér eigi í elli minni, yfirgef mig eigi, þá er þróttur minn þverrar.

10 Því að óvinir mínir tala um mig, þeir er sitja um líf mitt, bera ráð sín saman:

11 "Guð hefir yfirgefið hann. Eltið hann og grípið hann, því að enginn bjargar."

12 Guð, ver eigi fjarri mér, Guð minn, skunda til liðs við mig.

13 Lát þá er sýna mér fjandskap farast með skömm, lát þá íklæðast háðung og svívirðing, er óska mér ógæfu.

14 En ég vil sífellt vona og auka enn á allan lofstír þinn.

15 Munnur minn skal segja frá réttlæti þínu, frá hjálpsemdum þínum allan daginn, því að ég veit eigi tölu á þeim.

16 Ég vil segja frá máttarverkum Drottins, ég vil boða réttlæti þitt, það eitt.

17 Guð, þú hefir kennt mér frá æsku, og allt til þessa kunngjöri ég dásemdarverk þín.

18 Yfirgef mig eigi, ó Guð, þegar ég er gamall orðinn og grár fyrir hærum, að ég megi kunngjöra styrkleik þinn komandi kynslóð.

19 Máttur þinn og réttlæti þitt, ó Guð, nær til himins, þú sem hefir framið stórvirki, Guð, hver er sem þú?

20 Þú sem hefir látið oss horfa upp á miklar nauðir og ógæfu, þú munt láta oss lifna við að nýju og láta oss aftur stíga upp úr undirdjúpum jarðar.

21 Þú munt auka við tign mína og aftur veita mér huggun.

22 Þá vil ég lofa trúfesti þína með hörpuleik, Guð minn, leika á gígju fyrir þér, þú Hinn heilagi í Ísrael.

23 Varir mínar skulu fagna, er ég leik fyrir þér, og sál mín er þú hefir leyst.

24 Þá skal og tunga mín tala um réttlæti þitt liðlangan daginn, því að þeir urðu til skammar, já hlutu kinnroða, er óskuðu mér ógæfu.

Sálmarnir 74

74 Asafs-maskíl. Hví hefir þú, Guð, hafnað oss að fullu, hví rýkur reiði þín gegn gæsluhjörð þinni?

Haf í minni söfnuð þinn, er þú aflaðir forðum og leystir til þess að vera kynkvísl óðals þíns, haf í minni Síonfjall, þar sem þú hefir tekið þér bústað.

Bein þú skrefum þínum til hinna endalausu rústa: Öllu hafa óvinirnir spillt í helgidóminum!

Fjandmenn þínir grenjuðu inni á samkomustað þínum, reistu upp hermerki sín.

Eins og menn sem reiða hátt axir í þykkum skógi,

höggva þeir allan útskurð, mölva með exi og hamri.

Þeir hafa lagt eld í helgidóm þinn, vanhelgað bústað nafns þíns til grunna.

Þeir hugsuðu með sjálfum sér: "Vér skulum tortíma þeim öllum." Þeir brenndu öll samkomuhús Guðs í landinu.

Vér sjáum eigi merki vor, þar er enginn spámaður framar, og enginn er hjá oss sem veit hve lengi.

10 Hversu lengi, ó Guð, á fjandmaðurinn að hæða, á óvinurinn að spotta nafn þitt um aldur?

11 Hví dregur þú að þér hönd þína, hví geymir þú hægri hönd þína í barmi þér?

12 Og þó er Guð konungur minn frá fornum tíðum, sá er framkvæmir hjálpræðisverk á jörðu.

13 Þú klaufst hafið með mætti þínum, þú braust sundur höfuð drekans á vatninu,

14 þú molaðir sundur hausa Levjatans, gafst hann dýrum eyðimerkurinnar að æti.

15 Þú lést lindir og læki spretta upp, þú þurrkaðir upp sírennandi ár.

16 Þinn er dagurinn og þín er nóttin, þú gjörðir ljós og sól.

17 Þú settir öll takmörk jarðarinnar, sumar og vetur hefir þú gjört.

18 Minnst þess, Drottinn, að óvinurinn lastmælir, og heimskur lýður smánar nafn þitt.

19 Ofursel eigi villidýrunum sál turtildúfu þinnar, gleym eigi um aldur lífi þinna hrjáðu.

20 Gef gætur að sáttmála þínum, því að skúmaskot landsins eru full af bælum ofríkisins.

21 Lát eigi þann er kúgun sætir, snúa aftur með svívirðing, lát hina hrjáðu og snauðu lofa nafn þitt.

22 Rís upp, Guð, berst fyrir málefni þínu, minnst þú háðungar þeirrar, er þú sætir af heimskingjum daginn á enda.

23 Gleym eigi hrópi fjenda þinna, glaumkæti andstæðinga þinna, þeirri er sífellt stígur upp.

Jobsbók 28

28 Að sönnu á silfrið upptökustað og gullið, sem menn hreinsa, fundarstað.

Járn er tekið úr jörðu, og steinn er bræddur að eiri.

Maðurinn hefir gjört enda á myrkrinu, og til ystu takmarka rannsakar hann steinana, sem faldir eru í kolniðamyrkri.

Hann brýtur námugöng fjarri þeim, sem í dagsbirtunni búa, gleymdur mannafótum, fjarlægur mönnum hangir hann, svífur hann.

Upp úr jörðinni sprettur brauð, en niðri í henni er öllu umturnað eins og af eldi.

Safírinn finnst í grjóti jarðarinnar, og gullkorn fær sá er grefur.

Örninn þekkir eigi veginn þangað, og valsaugað sér hann ekki,

hin drembnu rándýr ganga hann eigi, ekkert ljón fer hann.

Á tinnusteinana leggur maðurinn hönd sína, umturnar fjöllunum frá rótum.

10 Hann heggur göng í björgin, og auga hans sér alls konar dýrindi.

11 Hann bindur fyrir vatnsæðarnar, til þess að þær tárist ekki, og leiðir leynda hluti fram í dagsbirtuna.

12 En spekin, hvar er hana að finna, og hvar á viskan heima?

13 Enginn maður þekkir veginn til hennar, og hana er ekki að finna á landi lifenda.

14 Undirdjúpið segir: "Í mér er hún ekki!" og hafið segir: "Ekki er hún hjá mér!"

15 Hún fæst ekki fyrir skíragull, og ekki verður silfur reitt sem andvirði hennar.

16 Eigi verður hún Ófírgulli goldin né dýrum sjóam- og safírsteinum.

17 Gull og gler kemst ekki til jafns við hana, og hún fæst ekki í skiptum fyrir ker af skíragulli.

18 Kóralla og krystalla er ekki að nefna, og að eiga spekina er meira um vert en perlur.

19 Tópasar Blálands komast ekki til jafns við hana, hún verður ekki goldin með hreinasta gulli.

20 Já spekin, hvaðan kemur hún, og hvar á viskan heima?

21 Hún er falin augum allra þeirra er lifa, og fuglum loftsins er hún hulin.

22 Undirdjúpin og dauðinn segja: "Með eyrum vorum höfum vér heyrt hennar getið."

23 Guð veit veginn til hennar, og hann þekkir heimkynni hennar.

24 Því að hann sér til endimarka jarðar, lítur allt, sem undir himninum er.

25 Þá er hann ákvað þunga vindarins og ákvarðaði takmörk vatnsins,

26 þá er hann setti regninu lög og veg eldingunum,

27 þá sá hann hana og kunngjörði hana, fékk henni stað og rannsakaði hana einnig.

28 Og við manninn sagði hann: "Sjá, að óttast Drottin _ það er speki, og að forðast illt _ það er viska."

Postulasagan 16:25-40

25 Um miðnætti báðust þeir Páll og Sílas fyrir og lofsungu Guði, en bandingjarnir hlustuðu á þá.

26 Þá varð skyndilega landskjálfti mikill, svo að grunnur fangelsisins riðaði. Jafnskjótt opnuðust allar dyr, og fjötrarnir féllu af öllum.

27 Fangavörðurinn vaknaði við, og er hann sá fangelsisdyrnar opnar, dró hann sverð sitt og vildi fyrirfara sér, þar eð hann hugði fangana flúna.

28 Þá kallaði Páll hárri raustu: "Gjör þú sjálfum þér ekkert mein, vér erum hér allir!"

29 En hann bað um ljós, stökk inn og féll óttasleginn til fóta Páli og Sílasi.

30 Síðan leiddi hann þá út og sagði: "Herrar mínir, hvað á ég að gjöra til að verða hólpinn?"

31 En þeir sögðu: "Trú þú á Drottin Jesú, og þú munt verða hólpinn og heimili þitt."

32 Og þeir fluttu honum orð Drottins og öllum á heimili hans.

33 Á þessari sömu næturstund tók hann þá með sér og laugaði meiðsli þeirra eftir höggin, og var hann þegar skírður og allt hans fólk.

34 Síðan fór hann með þá upp í hús sitt, bar þeim mat, og var hann og allt heimafólk hans fagnandi yfir því að hafa tekið trú á Guð.

35 Þegar dagur rann, sendu höfuðsmennirnir vandsveina og sögðu: "Lát þú menn þessa lausa."

36 Fangavörðurinn flutti Páli þessi orð: "Höfuðsmennirnir hafa sent boð um, að þið skuluð látnir lausir. Gangið nú út og farið í friði."

37 En Páll sagði við þá: "Þeir hafa opinberlega látið húðstrýkja okkur, rómverska menn, án dóms og laga og varpa í fangelsi, og nú ætla þeir leynilega að hleypa okkur út. Ég held nú síður. Þeir skulu koma sjálfir og leiða okkur út."

38 Vandsveinarnir fluttu höfuðsmönnunum þessi orð. En þeir urðu hræddir, er þeir heyrðu, að þeir væru rómverskir,

39 og komu og friðmæltust við þá, leiddu þá út og báðu þá að fara burt úr borginni.

40 Þegar þeir voru komnir út úr fangelsinu, fóru þeir heim til Lýdíu, fundu bræðurna og hughreystu þá. Síðan héldu þeir af stað.

Jóhannesarguðspjall 12:27-36

27 Nú er sál mín skelfd, og hvað á ég að segja? Faðir, frelsa mig frá þessari stundu? Nei, til þessa er ég kominn að þessari stundu:

28 Faðir, gjör nafn þitt dýrlegt!" Þá kom rödd af himni: "Ég hef gjört það dýrlegt og mun enn gjöra það dýrlegt."

29 Mannfjöldinn, sem hjá stóð og hlýddi á, sagði, að þruma hefði riðið yfir. En aðrir sögðu: "Engill var að tala við hann."

30 Jesús svaraði þeim: "Þessi rödd kom ekki mín vegna, heldur yðar vegna.

31 Nú gengur dómur yfir þennan heim. Nú skal höfðingja þessa heims út kastað.

32 Og þegar ég verð hafinn upp frá jörðu, mun ég draga alla til mín."

33 Þetta sagði hann til að gefa til kynna, með hvaða hætti hann átti að deyja.

34 Mannfjöldinn svaraði honum: "Lögmálið segir oss, að Kristur muni verða til eilífðar. Hvernig getur þú sagt, að Mannssonurinn eigi að verða upp hafinn? Hver er þessi Mannssonur?"

35 Þá sagði Jesús við þá: "Skamma stund er ljósið enn á meðal yðar. Gangið, meðan þér hafið ljósið, svo að myrkrið hremmi yður ekki. Sá sem gengur í myrkri, veit ekki, hvert hann fer.

36 Trúið á ljósið, meðan þér hafið ljósið, svo að þér verðið börn ljóssins." Þetta mælti Jesús og fór burt og duldist þeim.

Icelandic Bible (ICELAND)

by Icelandic Bible Society