Book of Common Prayer
24 Davíðssálmur. Drottni heyrir jörðin og allt sem á henni er, heimurinn og þeir sem í honum búa.
2 Því að hann hefir grundvallað hana á hafinu og fest hana á vötnunum.
3 _ Hver fær að stíga upp á fjall Drottins, hver fær að dveljast á hans helga stað?
4 _ Sá er hefir óflekkaðar hendur og hreint hjarta, eigi sækist eftir hégóma og eigi vinnur rangan eið.
5 Hann mun blessun hljóta frá Drottni og réttlætingu frá Guði hjálpræðis síns.
6 _ Þessi er sú kynslóð er leitar Drottins, stundar eftir augliti þínu, þú Jakobs Guð. [Sela] _________
7 _ Þér hlið, lyftið höfðum yðar, hefjið yður, þér öldnu dyr, að konungur dýrðarinnar megi inn ganga.
8 _ Hver er þessi konungur dýrðarinnar? _ Það er Drottinn, hin volduga hetja, Drottinn, bardagahetjan.
9 _ Þér hlið, lyftið höfðum yðar, hefjið yður, þér öldnu dyr, að konungur dýrðarinnar megi inn ganga.
10 _ Hver er þessi konungur dýrðarinnar? _ Drottinn hersveitanna, hann er konungur dýrðarinnar. [Sela]
29 Davíðssálmur. Tjáið Drottni vegsemd, þér guðasynir, tjáið Drottni vegsemd og vald.
2 Tjáið Drottni dýrð þá er nafni hans hæfir, fallið fram fyrir Drottni í helgum skrúða.
3 Raust Drottins hljómar yfir vötnunum, Guð dýrðarinnar lætur þrumur drynja, Drottinn ríkir yfir hinum miklu vötnum.
4 Raust Drottins hljómar með krafti, raust Drottins hljómar með tign.
5 Raust Drottins brýtur sundur sedrustré, Drottinn brýtur sundur sedrustrén á Líbanon.
6 Hann lætur Líbanonfjöll hoppa eins og kálfa og Hermonfjall eins og ungan vísund.
7 Raust Drottins klýfur eldsloga.
8 Raust Drottins lætur eyðimörkina skjálfa, Drottinn lætur Kadeseyðimörk skjálfa.
9 Raust Drottins lætur hindirnar bera fyrir tímann og gjörir skógana nakta, og allt í helgidómi hans segir: Dýrð!
10 Drottinn situr í hásæti uppi yfir flóðinu, Drottinn mun ríkja sem konungur að eilífu.
11 Drottinn veitir lýð sínum styrkleik, Drottinn blessar lýð sinn með friði.
8 Til söngstjórans. Á gittít. Davíðssálmur.
2 Drottinn, Guð vor, hversu dýrlegt er nafn þitt um alla jörðina! Þú breiðir ljóma þinn yfir himininn.
3 Af munni barna og brjóstmylkinga hefir þú gjört þér vígi til varnar gegn óvinum þínum, til þess að þagga niður í hefndargirni óvinarins.
4 Þegar ég horfi á himininn, verk handa þinna, tunglið og stjörnurnar, er þú hefir skapað,
5 hvað er þá maðurinn þess, að þú minnist hans, og mannsins barn, að þú vitjir þess?
6 Þú lést hann verða litlu minni en Guð, með sæmd og heiðri krýndir þú hann.
7 Þú lést hann ríkja yfir handaverkum þínum, allt lagðir þú að fótum hans:
8 sauðfénað allan og uxa, og auk þess dýr merkurinnar,
9 fugla loftsins og fiska hafsins, allt það er fer hafsins vegu.
10 Drottinn, Guð vor, hversu dýrlegt er nafn þitt um alla jörðina!
84 Til söngstjórans. Á gittít. Kóraíta-sálmur.
2 Hversu yndislegir eru bústaðir þínir, Drottinn hersveitanna.
3 Sálu mína langaði til, já, hún þráði forgarða Drottins, nú fagnar hjarta mitt og hold fyrir hinum lifanda Guði.
4 Jafnvel fuglinn hefir fundið hús, og svalan á sér hreiður, þar sem hún leggur unga sína: ölturu þín, Drottinn hersveitanna, konungur minn og Guð minn!
5 Sælir eru þeir, sem búa í húsi þínu, þeir munu ætíð lofa þig. [Sela]
6 Sælir eru þeir menn, sem finna styrk hjá þér, er þeir hugsa til helgigöngu.
7 Er þeir fara gegnum táradalinn, umbreyta þeir honum í vatnsríka vin, og haustregnið færir honum blessun.
8 Þeim eykst æ kraftur á göngunni og fá að líta Guð á Síon.
9 Drottinn, Guð hersveitanna, heyr bæn mína, hlýð til, þú Jakobs Guð. [Sela]
10 Guð, skjöldur vor, sjá og lít á auglit þíns smurða!
11 Því að einn dagur í forgörðum þínum er betri en þúsund aðrir, heldur vil ég standa við þröskuldinn í húsi Guðs míns en dvelja í tjöldum óguðlegra.
12 Því að Drottinn Guð er sól og skjöldur, náð og vegsemd veitir Drottinn. Hann synjar þeim engra gæða, er ganga í grandvarleik.
13 Drottinn hersveitanna, sæll er sá maður, sem treystir þér.
38 Þá svaraði Drottinn Job úr stormviðrinu og sagði:
18 Hefir þú litið yfir breidd jarðarinnar? Seg fram, fyrst þú veist það allt saman.
19 Hvar er vegurinn þangað sem ljósið býr, og myrkrið _ hvar á það heima,
20 svo að þú gætir flutt það heim í landareign þess og þekktir göturnar heim að húsi þess?
21 Þú veist það, því að þá fæddist þú, og tala daga þinna er há!
22 Hefir þú komið til forðabúrs snjávarins og séð forðabúr haglsins,
23 sem ég hefi geymt til tíma neyðarinnar, til orustu- og ófriðardagsins?
24 Hvar er vegurinn þangað sem ljósið skiptist og austanvindurinn dreifist yfir jörðina?
25 Hver hefir búið til rennu fyrir steypiregnið og veg fyrir eldingarnar
26 til þess að láta rigna yfir mannautt land, yfir eyðimörkina, þar sem enginn býr,
27 til þess að metta auðnir og eyðilönd og láta grængresi spretta?
28 Á regnið föður eða hver hefir getið daggardropana?
29 Af kviði hverrar er ísinn útgenginn, og hrím himinsins _ hver fæddi það?
30 Vötnin þéttast eins og steinn, og yfirborð fljótsins verður samfrosta.
31 Getur þú þrengt sjöstirnis-böndin eða fær þú leyst fjötra Óríons?
32 Lætur þú stjörnumerki dýrahringsins koma fram á sínum tíma og leiðir þú Birnuna með húnum hennar?
33 Þekkir þú lög himinsins eða ákveður þú yfirráð hans yfir jörðunni?
34 Getur þú lyft raust þinni upp til skýsins, svo að vatnaflaumurinn hylji þig?
35 Getur þú sent eldingarnar, svo að þær fari og segi við þig: "Hér erum vér!"
36 Hver hefir lagt vísdóm í hin dimmu ský eða hver hefir gefið loftsjónunum vit?
37 Hver telur skýin með visku, og vatnsbelgir himinsins _ hver hellir úr þeim,
38 þegar moldin rennur saman í kökk og hnausarnir loða hver við annan?
39 Veiðir þú bráðina fyrir ljónynjuna, og seður þú græðgi ungljónanna,
40 þá er þau kúra í bæli sínu og vaka yfir veiði í þéttum runni?
41 Hver býr hrafninum fæðu hans, þá er ungar hans hrópa til Guðs, flögra til og frá ætislausir?
18 Eftir þetta sá ég annan engil stíga ofan af himni, og hafði hann mikið vald og jörðin ljómaði af dýrð hans.
2 Og hann hrópaði með sterkri röddu og sagði: "Fallin er, fallin er Babýlon hin mikla og orðin að djöfla heimkynni og fangelsi alls konar óhreinna anda og fangelsi alls konar óhreinna og viðbjóðslegra fugla.
3 Því að hún hefur byrlað öllum þjóðum af reiði-víni saurlifnaðar síns, og konungar jarðarinnar drýgðu saurlifnað með henni og kaupmenn jarðarinnar auðguðust af gnóttum munaðar hennar."
4 Og ég heyrði aðra rödd af himni, sem sagði: "Gangið út, mitt fólk, út úr henni, svo að þér eigið engan hlut í syndum hennar og hreppið ekki plágur hennar.
5 Því að syndir hennar hlóðust allt upp til himins og Guð minntist ranglætis hennar.
6 Gjaldið henni eins og hún hefur goldið og tvígjaldið henni eftir verkum hennar, byrlið henni tvöfalt í bikarinn, sem hún hefur byrlað.
7 Veitið henni eins mikla kvöl og sorg og hennar stærilæti og óhóf hefur verið. Hún segir í hjarta sínu: ,Hér sit ég og er drottning, ekkja er ég eigi, sorg mun ég aldrei sjá.`
8 Fyrir því munu plágur hennar koma á einum degi: Dauði, sorg og hungur, og í eldi mun hún verða brennd, því að máttugur er Drottinn Guð, sem hana dæmdi."
21 Þér hafið heyrt, að sagt var við forfeðurna: ,Þú skalt ekki morð fremja. Sá sem morð fremur, skal svara til saka fyrir dómi.`
22 En ég segi yður: Hver sem reiðist bróður sínum, skal svara til saka fyrir dómi. Sá sem hrakyrðir bróður sinn skal svara til saka fyrir ráðinu og hver sem svívirðir hann, hefur unnið til eldsvítis.
23 Sértu því að færa fórn þína á altarið og minnist þess þar, að bróðir þinn hefur eitthvað á móti þér,
24 þá skaltu skilja gjöf þína eftir fyrir framan altarið, fara fyrst og sættast við bróður þinn, koma síðan og færa fórn þína.
25 Vertu skjótur til sátta við andstæðing þinn, meðan þú ert enn á vegi með honum, til þess að hann selji þig ekki dómaranum í hendur og dómarinn þjóninum og þér verði varpað í fangelsi.
26 Sannlega segi ég þér: Eigi munt þú komast út þaðan, fyrr en þú hefur borgað síðasta eyri.
by Icelandic Bible Society