Print Page Options
Previous Prev Day Next DayNext

Book of Common Prayer

Daily Old and New Testament readings based on the Book of Common Prayer.
Duration: 861 days
Icelandic Bible (ICELAND)
Version
Sálmarnir 55

55 Til söngstjórans. Með strengjaleik. Davíðs-maskíl.

Hlýð, ó Guð, á bæn mína, fel þig eigi fyrir grátbeiðni minni.

Veit mér athygli og svara mér. Ég kveina í harmi mínum og styn

sakir háreysti óvinarins, sakir hróps hins óguðlega, því að þeir steypa yfir mig ógæfu og ofsækja mig grimmilega.

Hjartað berst ákaft í brjósti mér, ógnir dauðans falla yfir mig,

ótti og skelfing er yfir mig komin, og hryllingur fer um mig allan,

svo að ég segi: "Ó að ég hefði vængi eins og dúfan, þá skyldi ég fljúga burt og finna hvíldarstað,

já, ég skyldi svífa langt burt, ég skyldi gista í eyðimörkinni. [Sela]

Ég skyldi flýta mér að leita mér hælis fyrir þjótandi vindum og veðri."

10 Rugla, Drottinn, sundra tungum þeirra, því að ég sé kúgun og deilur í borginni.

11 Dag og nótt ganga þær um á múrum hennar, en ógæfa og armæða eru þar inni fyrir.

12 Glötun er inni í henni, ofbeldi og svik víkja eigi burt frá torgi hennar.

13 Því að það er eigi óvinur sem hæðir mig _ það gæti ég þolað, og eigi hatursmaður minn er hreykir sér yfir mig _ fyrir honum gæti ég farið í felur,

14 heldur þú, jafningi minn, vinur minn og kunningi,

15 við sem vorum ástúðarvinir, sem gengum í eindrægni saman í Guðs hús.

16 Dauðinn komi yfir þá; stígi þeir lifandi niður til Heljar, því að illska er í bústöðum þeirra, í hjörtum þeirra.

17 En ég hrópa til Guðs, og Drottinn mun hjálpa mér.

18 Kvöld og morgna og um miðjan dag harma ég og styn, og hann heyrir raust mína.

19 Hann endurleysir sál mína og gefur mér frið, svo að þeir geta eigi nálgast mig, því að mótstöðumenn mínir eru margir.

20 Guð mun heyra, og hann er ríkir frá eilífð mun lægja þá. [Sela] Þeir breytast ekki og óttast eigi Guð.

21 Vinur minn lagði hendur á þann er lifði í sátt við hann, hann rauf sáttmál sitt.

22 Hálli en smjör er tunga hans, en ófriður er í hjarta hans, mýkri en olía eru orð hans, og þó brugðin sverð.

23 Varpa áhyggjum þínum á Drottin, hann mun bera umhyggju fyrir þér, hann mun eigi að eilífu láta réttlátan mann verða valtan á fótum.

24 Og þú, ó Guð, munt steypa þeim niður í grafardjúpið. Morðingjar og svikarar munu eigi ná hálfum aldri, en ég treysti þér.

Sálmarnir 138:1-139:23

138 Eftir Davíð. Ég vil lofa þig af öllu hjarta, lofsyngja þér frammi fyrir guðunum.

Ég vil falla fram fyrir þínu heilaga musteri og lofa nafn þitt sakir miskunnar þinnar og trúfesti, því að þú hefir gjört nafn þitt og orð þitt meira öllu öðru.

Þegar ég hrópaði, bænheyrðir þú mig, þú veittir mér hugmóð, er ég fann kraft hjá mér.

Allir konungar á jörðu skulu lofa þig, Drottinn, er þeir heyra orðin af munni þínum.

Þeir skulu syngja um vegu Drottins, því að mikil er dýrð Drottins.

Því að Drottinn er hár og sér þó hina lítilmótlegu og þekkir hinn drambláta í fjarska.

Þótt ég sé staddur í þrengingu, lætur þú mig lífi halda, þú réttir út hönd þína gegn reiði óvina minna, og hægri hönd þín hjálpar mér.

Drottinn mun koma öllu vel til vegar fyrir mig, Drottinn, miskunn þín varir að eilífu. Yfirgef eigi verk handa þinna.

139 Til söngstjórans. Davíðssálmur. Drottinn, þú rannsakar og þekkir mig.

Hvort sem ég sit eða stend, þá veist þú það, þú skynjar hugrenningar mínar álengdar.

Hvort sem ég geng eða ligg, þá athugar þú það, og alla vegu mína gjörþekkir þú.

Því að eigi er það orð á tungu minni, að þú, Drottinn, þekkir það eigi til fulls.

Þú umlykur mig á bak og brjóst, og hönd þína hefir þú lagt á mig.

Þekking þín er undursamlegri en svo, að ég fái skilið, of háleit, ég er henni eigi vaxinn.

Hvert get ég farið frá anda þínum og hvert flúið frá augliti þínu?

Þótt ég stigi upp í himininn, þá ertu þar, þótt ég gjörði undirheima að hvílu minni, sjá, þú ert þar.

Þótt ég lyfti mér á vængi morgunroðans og settist við hið ysta haf,

10 einnig þar mundi hönd þín leiða mig og hægri hönd þín halda mér.

11 Og þótt ég segði: "Myrkrið hylji mig og ljósið í kringum mig verði nótt,"

12 þá myndi þó myrkrið eigi verða þér of myrkt og nóttin lýsa eins og dagur, myrkur og ljós eru jöfn fyrir þér.

13 Því að þú hefir myndað nýru mín, ofið mig í móðurlífi.

14 Ég lofa þig fyrir það, að ég er undursamlega skapaður, undursamleg eru verk þín, það veit ég næsta vel.

15 Beinin í mér voru þér eigi hulin, þegar ég var gjörður í leyni, myndaður í djúpum jarðar.

16 Augu þín sáu mig, er ég enn var ómyndað efni, ævidagar voru ákveðnir og allir skráðir í bók þína, áður en nokkur þeirra var til orðinn.

17 En hversu torskildar eru mér hugsanir þínar, ó Guð, hversu stórkostlegar eru þær allar samanlagðar.

18 Ef ég vildi telja þær, væru þær fleiri en sandkornin, ég mundi vakna og vera enn með hugann hjá þér.

19 Ó að þú, Guð, vildir fella níðingana. Morðingjar! Víkið frá mér.

20 Þeir þrjóskast gegn þér með svikum og leggja nafn þitt við hégóma.

21 Ætti ég eigi, Drottinn, að hata þá, er hata þig, og hafa viðbjóð á þeim, er rísa gegn þér?

22 Ég hata þá fullu hatri, þeir eru orðnir óvinir mínir.

23 Prófa mig, Guð, og þekktu hjarta mitt, rannsaka mig og þekktu hugsanir mínar,

Jobsbók 38:1-17

38 Þá svaraði Drottinn Job úr stormviðrinu og sagði:

Hver er sá, sem myrkvar ráðsályktun Guðs með óskynsamlegum orðum?

Gyrð lendar þínar eins og maður, þá mun ég spyrja þig, og þú skalt fræða mig.

Hvar varst þú, þegar ég grundvallaði jörðina? Seg fram, ef þú hefir þekkingu til.

Hver ákvað mál hennar _ þú veist það! _ eða hver þandi mælivaðinn yfir hana?

Á hvað var stólpum hennar hleypt niður, eða hver lagði hornstein hennar,

þá er morgunstjörnurnar sungu gleðisöng allar saman og allir guðssynir fögnuðu?

Og hver byrgði hafið inni með hurðum, þá er það braust fram, gekk út af móðurkviði,

þá er ég fékk því skýin að klæðnaði og svartaþykknið að reifum?

10 þá er ég braut því takmörk og setti slagbranda fyrir og hurðir

11 og mælti: "Hingað skaltu komast og ekki lengra, hér skulu þínar hreyknu hrannir brotna!"

12 Hefir þú nokkurn tíma á ævi þinni boðið út morgninum, vísað morgunroðanum á stað hans,

13 til þess að hann gripi í jaðar jarðarinnar og hinir óguðlegu yrðu hristir af henni?

14 Hún breytist eins og leir undir signeti, og allt kemur fram eins og á klæði.

15 Og hinir óguðlegu verða sviptir ljósinu og hinn upplyfti armleggur sundur brotinn.

16 Hefir þú komið að uppsprettum hafsins og gengið á botni undirdjúpsins?

17 Hafa hlið dauðans opnast fyrir þér og hefir þú séð hlið svartamyrkursins?

Postulasagan 15:22-35

22 Postularnir og öldungarnir, ásamt öllum söfnuðinum, samþykktu þá að kjósa menn úr sínum hópi og senda með Páli og Barnabasi til Antíokkíu þá Júdas, er kallaður var Barsabbas, og Sílas, forystumenn meðal bræðranna.

23 Þeir rituðu með þeim: "Postularnir og öldungarnir, bræður yðar, senda bræðrunum í Antíokkíu, Sýrlandi og Kilikíu, er áður voru heiðnir, kveðju sína.

24 Vér höfum heyrt, að nokkrir frá oss hafi óróað yður með orðum sínum og komið róti á hugi yðar, án þess vér hefðum þeim neitt um boðið.

25 Því höfum vér einróma ályktað að kjósa menn og senda til yðar með vorum elskuðu Barnabasi og Páli,

26 mönnum, er lagt hafa líf sitt í hættu vegna nafns Drottins vors Jesú Krists.

27 Vér sendum því Júdas og Sílas, og boða þeir yður munnlega hið sama.

28 Það er ályktun heilags anda og vor að leggja ekki frekari byrðar á yður en þetta, sem nauðsynlegt er,

29 að þér haldið yður frá kjöti fórnuðu skurðgoðum, blóði, kjöti af köfnuðum dýrum og saurlifnaði. Ef þér varist þetta, gjörið þér vel. Verið sælir."

30 Þeir voru nú sendir af stað og komu norður til Antíokkíu, kölluðu saman söfnuðinn og skiluðu bréfinu.

31 En er menn lásu það, urðu þeir glaðir yfir þessari uppörvun.

32 Júdas og Sílas, sem sjálfir voru spámenn, hvöttu bræðurna með mörgum orðum og styrktu þá.

33 Þegar þeir höfðu dvalist þar um hríð, kvöddu þeir bræðurna og báðu þeim friðar og héldu aftur til þeirra, sem höfðu sent þá.

35 En Páll og Barnabas héldu kyrru fyrir í Antíokkíu, kenndu og boðuðu ásamt mörgum öðrum orð Drottins.

Jóhannesarguðspjall 11:45-54

45 Margir Gyðingar, sem komnir voru til Maríu og sáu það, sem Jesús gjörði, tóku nú að trúa á hann.

46 En nokkrir þeirra fóru til farísea og sögðu þeim, hvað hann hafði gjört.

47 Æðstu prestarnir og farísearnir kölluðu þá saman ráðið og sögðu: "Hvað eigum vér að gjöra? Þessi maður gjörir mörg tákn.

48 Ef vér leyfum honum að halda svo áfram, munu allir trúa á hann, og þá koma Rómverjar og taka bæði helgidóm vorn og þjóð."

49 En einn þeirra, Kaífas, sem það ár var æðsti prestur, sagði við þá: "Þér vitið ekkert

50 og hugsið ekkert um það, að yður er betra, að einn maður deyi fyrir lýðinn, en að öll þjóðin tortímist."

51 Þetta sagði hann ekki af sjálfum sér, en þar sem hann var æðsti prestur það ár, gat hann spáð því, að Jesús mundi deyja fyrir þjóðina,

52 og ekki fyrir þjóðina eina, heldur og til að safna saman í eitt dreifðum börnum Guðs.

53 Upp frá þeim degi voru þeir ráðnir í að taka hann af lífi.

54 Jesús gekk því ekki lengur um meðal Gyðinga á almannafæri, heldur fór hann þaðan til staðar í grennd við eyðimörkina, í þorp sem heitir Efraím, og þar dvaldist hann með lærisveinum sínum.

Icelandic Bible (ICELAND)

by Icelandic Bible Society