Print Page Options
Previous Prev Day Next DayNext

Book of Common Prayer

Daily Old and New Testament readings based on the Book of Common Prayer.
Duration: 861 days
Icelandic Bible (ICELAND)
Version
Sálmarnir 119:49-72

49 Minnst þú þess orðs við þjón þinn, sem þú lést mig vona á.

50 Þetta er huggun mín í eymd minni, að orð þitt lætur mig lífi halda.

51 Ofstopamenn spotta mig ákaflega, en ég vík eigi frá lögmáli þínu.

52 Ég minnist dóma þinna frá öndverðu, Drottinn, og læt huggast.

53 Heiftarreiði við óguðlega hrífur mig, við þá er yfirgefa lögmál þitt.

54 Lög þín eru efni ljóða minna á þessum stað, þar sem ég er gestur.

55 Um nætur minnist ég nafns þíns, Drottinn, og geymi laga þinna.

56 Þetta er orðin hlutdeild mín, að halda fyrirmæli þín.

57 Drottinn er hlutskipti mitt, ég hefi ákveðið að varðveita orð þín.

58 Ég hefi leitað hylli þinnar af öllu hjarta, ver mér náðugur samkvæmt fyrirheiti þínu.

59 Ég hefi athugað vegu mína og snúið fótum mínum að reglum þínum.

60 Ég hefi flýtt mér og eigi tafið að varðveita boð þín.

61 Snörur óguðlegra lykja um mig, en lögmáli þínu hefi ég eigi gleymt.

62 Um miðnætti rís ég upp til þess að þakka þér þín réttlátu ákvæði.

63 Ég er félagi allra þeirra er óttast þig og varðveita fyrirmæli þín.

64 Jörðin er full af miskunn þinni, Drottinn, kenn mér lög þín.

65 Þú hefir gjört vel til þjóns þíns eftir orði þínu, Drottinn.

66 Kenn mér góð hyggindi og þekkingu, því að ég trúi á boð þín.

67 Áður en ég var beygður, villtist ég, en nú varðveiti ég orð þitt.

68 Þú ert góður og gjörir vel, kenn mér lög þín.

69 Ofstopamenn spinna upp lygar gegn mér, en ég held fyrirmæli þín af öllu hjarta.

70 Hjarta þeirra er tilfinningarlaust sem mör væri, en ég leita unaðar í lögmáli þínu.

71 Það varð mér til góðs, að ég var beygður, til þess að ég mætti læra lög þín.

72 Lögmálið af munni þínum er mér mætara en þúsundir af gulli og silfri.

Sálmarnir 49

49 Fyrir kvenraddir. Til söngstjórans. Kóraítasálmur.

Heyrið þetta, allar þjóðir, hlustið á, allir heimsbúar,

bæði lágir og háir, jafnt ríkir sem fátækir!

Munnur minn talar speki, og ígrundun hjarta míns er hyggindi.

Ég hneigi eyra mitt að spakmæli, ræð gátu mína við gígjuhljóm.

Hví skyldi ég óttast á mæðudögunum, þá er hinir lævísu óvinir mínir umkringja mig með illsku,

þeir sem reiða sig á auðæfi sín og stæra sig af sínu mikla ríkidæmi.

Enginn maður fær keypt bróður sinn lausan né greitt Guði lausnargjald fyrir hann.

Lausnargjaldið fyrir líf þeirra mundi verða of hátt, svo að hann yrði að hætta við það að fullu,

10 ætti hann að halda áfram að lifa ævinlega og líta ekki í gröfina.

11 Nei, hann sér, að vitrir menn deyja, að fífl og fáráðlingar farast hver með öðrum og láta öðrum eftir auðæfi sín.

12 Grafir verða heimkynni þeirra að eilífu, bústaðir þeirra frá kyni til kyns, jafnvel þótt þeir hafi kennt lendur við nafn sitt.

13 Maðurinn í allri sinni vegsemd stenst ekki, hann verður jafn skepnunum sem farast.

14 Svo fer þeim sem eru þóttafullir, og þeim sem fylgja þeim og hafa þóknun á tali þeirra. [Sela]

15 Þeir stíga niður til Heljar eins og sauðahjörð, dauðinn heldur þeim á beit, og hinir hreinskilnu drottna yfir þeim, þá er morgnar, og mynd þeirra eyðist, Hel verður bústaður þeirra.

16 En mína sál mun Guð endurleysa, því að hann mun hrífa mig úr greipum Heljar. [Sela]

17 Óttast þú ekki, þegar einhver verður ríkur, þegar dýrð húss hans verður mikil,

18 því að hann tekur ekkert af því með sér, þegar hann deyr, auður hans fer ekki niður þangað á eftir honum.

19 Hann telur sig sælan meðan hann lifir: "Menn lofa þig, af því að þér farnast vel."

20 _ Hann verður þó að fara til kynslóðar feðra sinna, sem aldrei að eilífu sjá ljósið.

21 Maðurinn í vegsemd, en hyggindalaus, verður jafn skepnunum sem farast.

Sálmarnir 53

53 Til söngstjórans. Með makalatlagi. Davíðs-maskíl.

Heimskinginn segir í hjarta sínu: "Enginn Guð er til!" Ill og andstyggileg er breytni þeirra, enginn gjörir það sem gott er.

Guð lítur af himni niður á mennina til þess að sjá, hvort nokkur sé hygginn, nokkur sem leiti Guðs.

Allir eru viknir af leið, allir spilltir, enginn gjörir það sem gott er, ekki einn.

Skyldu þeir ekki fá að kenna á því, illgjörðamennirnir, þeir er eta lýð minn sem brauð væri og ákalla eigi Guð?

Þá skulu þeir verða mjög óttaslegnir, þar sem ekkert er að óttast, því að Guð tvístrar beinum þeirra, er setja herbúðir móti þér. Þú lætur þá verða til skammar, því að Guð hefir hafnað þeim.

Ó að hjálpræði Ísraels komi frá Síon! Þegar Guð snýr við hag lýðs síns, skal Jakob fagna, Ísrael gleðjast.

Jobsbók 29:1

29 Og Job hélt áfram að flytja ræðu sína og mælti:

Jobsbók 30:1-2

30 En nú hlæja þeir að mér, sem yngri eru en ég, mundi ég þó ekki hafa virt feður þeirra þess að setja þá hjá fjárhundum mínum.

Hvað hefði og kraftur handa þeirra stoðað mig, þar sem þeir aldrei verða fullþroska?

Jobsbók 30:16-31

16 Og nú rennur sála mín sundur í tárum, eymdardagar halda mér föstum.

17 Nóttin nístir bein mín, svo að þau losna frá mér, og hinar nagandi kvalir mínar hvílast ekki.

18 Fyrir mikilleik máttar hans er klæðnaður minn aflagaður, hann lykur fast um mig, eins og hálsmál kyrtils míns.

19 Guð hefir kastað mér ofan í saurinn, svo að ég er orðinn eins og mold og aska.

20 Ég hrópa til þín, en þú svarar ekki, ég stend þarna, en þú starir á mig.

21 Þú ert orðinn grimmur við mig, með krafti handar þinnar ofsækir þú mig.

22 Þú lyftir mér upp á vindinn, lætur mig þeytast áfram, og þú lætur mig farast í stormgný.

23 Því að ég veit, að þú vilt leiða mig til Heljar, í samkomustað allra þeirra er lifa.

24 En _ rétta menn ekki út höndina, þegar allt hrynur? eða hrópa menn ekki á hjálp, þegar þeir eru að farast?

25 Eða grét ég ekki yfir þeim, sem átti illa daga, og hryggðist ekki sál mín vegna fátæklingsins?

26 Já, ég bjóst við góðu, en þá kom illt, vænti ljóss, en þá kom myrkur.

27 Það sýður í innýflum mínum án afláts, eymdardagar eru yfir mig komnir.

28 Svartur geng ég um, þó ekki af sólarhita, ég stend upp, í söfnuðinum hrópa ég á hjálp.

29 Ég er orðinn bróðir sjakalanna og félagi strútsfuglanna.

30 Hörund mitt er orðið svart og flagnar af mér, og bein mín eru brunnin af hita.

31 Og fyrir því varð gígja mín að gráti og hjarðpípa mín að harmakveini.

Postulasagan 14:19-28

19 Þá komu Gyðingar frá Antíokkíu og Íkóníum. Töldu þeir fólkið á sitt mál, og menn grýttu Pál, drógu hann út úr borginni og hugðu hann dáinn.

20 En lærisveinarnir slógu hring um hann, og reis hann þá upp og gekk inn í borgina. Daginn eftir fór hann þaðan með Barnabasi til Derbe.

21 Þegar þeir höfðu boðað fagnaðarerindið í þeirri borg og gjört marga að lærisveinum, sneru þeir aftur til Lýstru, Íkóníum og Antíokkíu,

22 styrktu lærisveinana og hvöttu þá til að vera staðfastir í trúnni. Þeir sögðu: "Vér verðum að ganga inn í Guðs ríki gegnum margar þrengingar."

23 Þeir völdu þeim öldunga í hverjum söfnuði, fólu þá síðan með föstum og bænahaldi Drottni, sem þeir höfðu fest trú á.

24 Þá fóru þeir um Pisidíu og komu til Pamfýlíu.

25 Þeir fluttu orðið í Perge, fóru til Attalíu

26 og sigldu þaðan til Antíokkíu, en þar höfðu þeir verið faldir náð Guðs til þess verks, sem þeir höfðu nú fullnað.

27 Þegar þeir voru þangað komnir, stefndu þeir saman söfnuðinum og greindu frá, hversu mikið Guð hafði látið þá gjöra og að hann hefði upp lokið dyrum trúarinnar fyrir heiðingjum.

28 Dvöldust þeir nú alllengi hjá lærisveinunum.

Jóhannesarguðspjall 11:1-16

11 Maður sá var sjúkur, er Lasarus hét, frá Betaníu, þorpi Maríu og Mörtu, systur hennar.

En María var sú er smurði Drottin smyrslum og þerraði fætur hans með hári sínu. Bróðir hennar, Lasarus, var sjúkur.

Nú gjörðu systurnar Jesú orðsending: "Herra, sá sem þú elskar, er sjúkur."

Þegar hann heyrði það, mælti hann: "Þessi sótt er ekki banvæn, heldur Guði til dýrðar, að Guðs sonur vegsamist hennar vegna."

Jesús elskaði þau Mörtu og systur hennar og Lasarus.

Þegar hann frétti, að hann væri veikur, var hann samt um kyrrt á sama stað í tvo daga.

Að þeim liðnum sagði hann við lærisveina sína: "Förum aftur til Júdeu."

Lærisveinarnir sögðu við hann: "Rabbí, nýlega voru Gyðingar að því komnir að grýta þig, og þú ætlar þangað aftur?"

Jesús svaraði: "Eru ekki stundir dagsins tólf? Sá sem gengur um að degi, hrasar ekki, því hann sér ljós þessa heims.

10 En sá sem gengur um að nóttu, hrasar, því hann hefur ekki ljósið í sér."

11 Þetta mælti hann, og sagði síðan við þá: "Lasarus, vinur vor, er sofnaður. En nú fer ég að vekja hann."

12 Þá sögðu lærisveinar hans: "Herra, ef hann er sofnaður, batnar honum."

13 En Jesús talaði um dauða hans. Þeir héldu hins vegar, að hann ætti við venjulegan svefn.

14 Þá sagði Jesús þeim berum orðum: "Lasarus er dáinn,

15 og yðar vegna fagna ég því, að ég var þar ekki, til þess að þér skuluð trúa. En förum nú til hans."

16 Tómas, sem nefndist tvíburi, sagði þá við hina lærisveinana: "Vér skulum fara líka til að deyja með honum."

Icelandic Bible (ICELAND)

by Icelandic Bible Society