Book of Common Prayer
30 Musterisvígsluljóð. Davíðssálmur.
2 Ég tigna þig, Drottinn, því að þú hefir bjargað mér og eigi látið óvini mína hlakka yfir mér.
3 Drottinn, Guð minn, ég hrópaði til þín og þú læknaðir mig.
4 Drottinn, þú heimtir sál mína úr Helju, lést mig halda lífi, er aðrir gengu til grafar.
5 Syngið Drottni lof, þér hans trúuðu, vegsamið hans heilaga nafn.
6 Andartak stendur reiði hans, en alla ævi náð hans. Að kveldi gistir oss grátur, en gleðisöngur að morgni.
7 En ég uggði eigi að mér og hugsaði: "Aldrei skriðnar mér fótur."
8 Drottinn, af náð þinni hafðir þú gjört bjarg mitt stöðugt, en nú huldir þú auglit þitt og ég skelfdist.
9 Til þín, Drottinn, kallaði ég, og Drottin grátbændi ég:
10 "Hver ávinningur er í dauða mínum, í því að ég gangi til grafar? Getur duftið lofað þig, kunngjört trúfesti þína?
11 Heyr, Drottinn, og líkna mér, ó Drottinn, ver þú hjálpari minn!"
12 Þú breyttir grát mínum í gleðidans, leystir af mér hærusekkinn og gyrtir mig fögnuði,
13 að sál mín megi lofsyngja þér og eigi þagna. Drottinn, Guð minn, ég vil þakka þér að eilífu.
32 Davíðsmaskíl. Sæll er sá er afbrotin eru fyrirgefin, synd hans hulin.
2 Sæll er sá maður er Drottinn tilreiknar eigi misgjörð, sá er eigi geymir svik í anda.
3 Meðan ég þagði, tærðust bein mín, allan daginn kveinaði ég,
4 því að dag og nótt lá hönd þín þungt á mér, lífsvökvi minn þvarr sem í sumarbreiskju. [Sela]
5 Þá játaði ég synd mína fyrir þér og fól eigi misgjörð mína. Ég mælti: "Ég vil játa afbrot mín fyrir Drottni," og þú fyrirgafst syndasekt mína. [Sela]
6 Þess vegna biðji þig sérhver trúaður, meðan þig er að finna. Þótt vatnsflóðið komi, nær það honum eigi.
7 Þú ert skjól mitt, þú leysir mig úr nauðum, með frelsisfögnuði umkringir þú mig. [Sela]
8 Ég vil fræða þig og vísa þér veginn, er þú átt að ganga, ég vil kenna þér og hafa augun á þér:
9 Verið eigi sem hestar eða skynlausir múlar; með taum og beisli verður að temja þrjósku þeirra, annars nálgast þeir þig ekki.
10 Miklar eru þjáningar óguðlegs manns, en þann er treystir Drottni umlykur hann elsku.
11 Gleðjist yfir Drottni og fagnið, þér réttlátir, kveðið fagnaðarópi, allir hjartahreinir!
42 Til söngstjórans. Kóraítamaskíl.
2 Eins og hindin, sem þráir vatnslindir, þráir sál mín þig, ó Guð.
3 Sál mína þyrstir eftir Guði, hinum lifanda Guði. Hvenær mun ég fá að koma og birtast fyrir augliti Guðs?
4 Tár mín urðu fæða mín dag og nótt, af því menn segja við mig allan daginn: "Hvar er Guð þinn?"
5 Um það vil ég hugsa og úthella sál minni, sem í mér er, hversu ég gekk fram í mannþrönginni, leiddi þá til Guðs húss með fagnaðarópi og lofsöng, með hátíðaglaumi.
6 Hví ert þú beygð, sál mín, og ólgar í mér? Vona á Guð, því að enn mun ég fá að lofa hann, hjálpræði auglitis míns og Guð minn.
7 Guð minn, sál mín er beygð í mér, fyrir því vil ég minnast þín frá Jórdan- og Hermonlandi, frá litla fjallinu.
8 Eitt flóðið kallar á annað, þegar fossar þínir duna, allir boðar þínir og bylgjur ganga yfir mig.
9 Um daga býður Drottinn út náð sinni, og um nætur syng ég honum ljóð, bæn til Guðs lífs míns.
10 Ég mæli til Guðs: "Þú bjarg mitt, hví hefir þú gleymt mér? hví verð ég að ganga harmandi, kúgaður af óvinum?"
11 Háð fjandmanna minna er sem rotnun í beinum mínum, er þeir segja við mig allan daginn: "Hvar er Guð þinn?"
12 Hví ert þú beygð, sál mín, og ólgar í mér? Vona á Guð, því að enn mun ég fá að lofa hann, hjálpræði auglitis míns og Guð minn.
43 Lát mig ná rétti mínum, Guð, berst fyrir málefni mínu gegn miskunnarlausri þjóð, bjarga mér frá svikulum og ranglátum mönnum.
2 Því að þú ert sá Guð, sem er mér vígi, hví hefir þú útskúfað mér? hví verð ég að ganga um harmandi, kúgaður af óvinum?
3 Send ljós þitt og trúfesti þína, þau skulu leiða mig, þau skulu fara með mig til fjallsins þíns helga, til bústaðar þíns,
4 svo að ég megi inn ganga að altari Guðs, til Guðs minnar fagnandi gleði, og lofa þig með gígjuhljómi, ó Guð, þú Guð minn.
5 Hví ert þú beygð, sál mín, og ólgar í mér? Vona á Guð, því að enn mun ég fá að lofa hann, hjálpræði auglitis míns og Guð minn.
22 Þá svaraði Elífas frá Teman og sagði:
2 Vinnur maðurinn Guði gagn? Nei, sjálfum sér vinnur vitur maður gagn.
3 Er það ábati fyrir hinn Almáttka, að þú ert réttlátur, eða ávinningur, að þú lifir grandvöru lífi?
4 Er það vegna guðsótta þíns, að hann refsar þér, að hann dregur þig fyrir dóm?
21 Vingast þú við Guð, þá muntu vera í friði, við það mun blessun yfir þig koma.
22 Tak á móti kenning af munni hans, og fest þér orð hans í hjarta.
23 Ef þú snýr þér til hins Almáttka, auðmýkir þig, ef þú rekur ranglætið langt burt frá tjaldi þínu _
24 já, varpaðu gullinu í duftið og skíragullinu ofan í lækjamölina! _
25 þá skal hinn Almáttki vera gull þitt, vera þér hið skærasta silfur.
26 Já, þá munt þú hafa yndi af hinum Almáttka og lyfta augliti þínu til Guðs.
27 Biðjir þú til hans, bænheyrir hann þig, og heit þín munt þú greiða.
28 Og áformir þú eitthvað, mun þér heppnast það, og birta skína yfir vegu þína.
29 Þegar þeir liggja niður á við, þá kallar þú "Upp á við!" og hinum auðmjúka hjálpar hann.
30 Hann bjargar jafnvel þeim, sem ekki er saklaus, já, hann bjargast fyrir hreinleik handa þinna.
23 Þá svaraði Job og sagði:
2 Enn sem fyrr munu kveinstafir mínir verða taldir uppreisn, hönd Guðs hvílir þungt á andvörpum mínum.
3 Ég vildi að ég vissi, hvernig ég ætti að finna hann, hvernig ég gæti komist fram fyrir dómstól hans!
4 Þá mundi ég útskýra málið fyrir honum og fylla munn minn sönnunum.
5 Ég mundi fá að vita, hverju hann svaraði mér, og heyra hvað hann segði við mig.
6 Mundi hann deila við mig í mikilleik máttar síns? Nei, hann mundi veita mér óskipta athygli.
7 Þá mundi hreinskilinn maður þreyta málsókn við hann, og ég mundi að eilífu losna við dómara minn.
26 Bræður, niðjar Abrahams, og aðrir yðar á meðal, sem óttist Guð, oss er sent orð þessa hjálpræðis.
27 Þeir, sem í Jerúsalem búa, og höfðingjar þeirra þekktu hann eigi né skildu orð spámannanna, sem upp eru lesin hvern hvíldardag, en uppfylltu þau með því að dæma hann.
28 Þótt þeir fyndu enga dauðasök hjá honum, báðu þeir Pílatus að láta lífláta hann.
29 En er þeir höfðu fullnað allt, sem um hann var ritað, tóku þeir hann ofan af krossinum og lögðu í gröf.
30 En Guð vakti hann frá dauðum.
31 Marga daga birtist hann þeim, sem með honum fóru frá Galíleu upp til Jerúsalem, og eru þeir nú vottar hans hjá fólkinu.
32 Og vér flytjum yður þau gleðiboð,
33 að fyrirheitið, sem Guð gaf feðrum vorum, hefur hann efnt við oss börn þeirra með því að reisa Jesú upp. Svo er ritað í öðrum sálminum: Þú ert sonur minn, í dag hef ég fætt þig.
34 En um það, að hann reisti hann frá dauðum, svo að hann hverfur aldrei aftur í greipar dauðans, hefur hann talað þannig: Yður mun ég veita heilögu, óbrigðulu fyrirheitin, sem Davíð voru gefin.
35 Á öðrum stað segir: Eigi munt þú láta þinn heilaga verða rotnun að bráð.
36 Davíð þjónaði sinni kynslóð að Guðs ráði. Síðan sofnaði hann, safnaðist til feðra sinna og varð rotnun að bráð.
37 En sá, sem Guð uppvakti, varð ekki rotnun að bráð.
38 Það skuluð þér því vita, bræður, að yður er fyrir hann boðuð fyrirgefning syndanna
39 og að sérhver, er trúir, réttlætist í honum af öllu því, er lögmál Móse gat ekki réttlætt yður af.
40 Gætið nú þess, að eigi komi það yfir yður, sem sagt er hjá spámönnunum:
41 Sjáið, þér spottarar, undrist, og verðið að engu, því að verk vinn ég á dögum yðar, verk, sem þér alls ekki munduð trúa, þótt einhver segði yður frá því."
42 Þegar þeir gengu út, báðu menn um, að mál þetta yrði rætt við þá aftur næsta hvíldardag.
43 Og er samkomunni var slitið, fylgdu margir Gyðingar og guðræknir menn, sem tekið höfðu trú Gyðinga, þeim Páli og Barnabasi. En þeir töluðu við þá og brýndu fyrir þeim að halda sér fast við náð Guðs.
10 "Sannlega, sannlega segi ég yður: Sá sem kemur ekki um dyrnar inn í sauðabyrgið, heldur fer yfir annars staðar, hann er þjófur og ræningi,
2 en sá sem kemur inn um dyrnar, er hirðir sauðanna.
3 Dyravörðurinn lýkur upp fyrir honum, og sauðirnir heyra raust hans, og hann kallar á sína sauði með nafni og leiðir þá út.
4 Þegar hann hefur látið út alla sauði sína, fer hann á undan þeim, og þeir fylgja honum, af því að þeir þekkja raust hans.
5 En ókunnugum fylgja þeir ekki, heldur flýja frá honum, því þeir þekkja ekki raust ókunnugra."
6 Þessa líkingu sagði Jesús þeim. En þeir skildu ekki hvað það þýddi, sem hann var að tala við þá.
7 Því sagði Jesús aftur: "Sannlega, sannlega segi ég yður: Ég er dyr sauðanna.
8 Allir þeir, sem á undan mér komu, eru þjófar og ræningjar, enda hlýddu sauðirnir þeim ekki.
9 Ég er dyrnar. Sá sem kemur inn um mig, mun frelsast, og hann mun ganga inn og út og finna haga.
10 Þjófurinn kemur ekki nema til að stela og slátra og eyða. Ég er kominn til þess, að þeir hafi líf, líf í fullri gnægð.
11 Ég er góði hirðirinn. Góði hirðirinn leggur líf sitt í sölurnar fyrir sauðina.
12 Leiguliðinn, sem hvorki er hirðir né sjálfur á sauðina, sér úlfinn koma og yfirgefur sauðina og flýr, og úlfurinn hremmir þá og tvístrar þeim.
13 Enda er hann leiguliði og lætur sér ekki annt um sauðina.
14 Ég er góði hirðirinn og þekki mína, og mínir þekkja mig,
15 eins og faðirinn þekkir mig og ég þekki föðurinn. Ég legg líf mitt í sölurnar fyrir sauðina.
16 Ég á líka aðra sauði, sem eru ekki úr þessu sauðabyrgi. Þá ber mér einnig að leiða, þeir munu heyra raust mína. Og það verður ein hjörð, einn hirðir.
17 Fyrir því elskar faðirinn mig, að ég legg líf mitt í sölurnar, svo að ég fái það aftur.
18 Enginn tekur það frá mér, heldur legg ég það sjálfur í sölurnar. Ég hef vald til að leggja það í sölurnar og vald til að taka það aftur. Þessa skipan fékk ég frá föður mínum."
by Icelandic Bible Society