Book of Common Prayer
26 Davíðssálmur. Lát mig ná rétti mínum, Drottinn, því að ég geng fram í grandvarleik og þér treysti ég óbifanlega.
2 Rannsaka mig, Drottinn, og reyn mig, prófa hug minn og hjarta.
3 Því að ég hefi elsku þína fyrir augum, og ég geng í sannleika þínum.
4 Ég tek mér eigi sæti hjá lygurum og hefi eigi umgengni við fláráða menn.
5 Ég hata söfnuð illvirkjanna, sit eigi meðal óguðlegra.
6 Ég þvæ hendur mínar í sakleysi og geng í kringum altari þitt, Drottinn,
7 til þess að láta lofsönginn hljóma og segja frá öllum þínum dásemdarverkum.
8 Drottinn, ég elska bústað húss þíns og staðinn þar sem dýrð þín býr.
9 Hríf eigi sál mína burt með syndurum né líf mitt með morðingjum,
10 þeim er hafa svívirðing í höndum sér og hægri höndina fulla af mútugjöfum.
11 En ég geng fram í grandvarleik, frelsa mig og líkna mér.
12 Fótur minn stendur á sléttri grund, í söfnuðunum vil ég lofa Drottin.
28 Davíðssálmur. Til þín, Drottinn, hrópa ég, þú bjarg mitt, ver eigi hljóður gagnvart mér. Ef þú þegir við mér, verð ég sem þeir, er til grafar eru gengnir.
2 Heyr þú á grátbeiðni mína, er ég hrópa til þín, er ég lyfti höndum mínum til Hins allrahelgasta í musteri þínu.
3 Hríf mig eigi á burt með óguðlegum og með illgjörðamönnum, þeim er tala vinsamlega við náunga sinn, en hafa illt í hyggju.
4 Launa þeim eftir verkum þeirra, eftir þeirra illu breytni, launa þeim eftir verkum handa þeirra, endurgjald þeim það er þeir hafa aðhafst.
5 Því að þeir hyggja eigi á verk Drottins né handaverk hans, hann rífi þá niður og reisi þá eigi við aftur.
6 Lofaður sé Drottinn, því að hann hefir heyrt grátbeiðni mína.
7 Drottinn er vígi mitt og skjöldur, honum treysti hjarta mitt. Ég hlaut hjálp, því fagnar hjarta mitt, og með ljóðum mínum lofa ég hann.
8 Drottinn er vígi lýð sínum og hjálparhæli sínum smurða.
9 Hjálpa lýð þínum og blessa eign þína, gæt þeirra og ber þá að eilífu.
36 Til söngstjórans. Eftir Davíð, þjón Drottins.
2 Rödd syndarinnar talar til hins guðlausa í fylgsnum hjarta hans, enginn guðsótti býr í huga hans.
3 Hún smjaðrar fyrir honum í augum hans og misgjörð hans verður uppvís og hann verður fyrir hatri.
4 Orðin af munni hans eru tál og svik, hann er hættur að vera hygginn og breyta vel.
5 Í hvílu sinni hyggur hann á tál, hann fetar vonda vegu, forðast eigi hið illa.
6 Drottinn, til himna nær miskunn þín, til skýjanna trúfesti þín.
7 Réttlæti þitt er sem fjöll Guðs, dómar þínir sem reginhaf. Mönnum og skepnum hjálpar þú, Drottinn.
8 Hversu dýrmæt er miskunn þín, ó Guð, mannanna börn leita hælis í skugga vængja þinna.
9 Þau seðjast af feiti húss þíns, og þú lætur þau drekka úr lækjum unaðsemda þinna.
10 Hjá þér er uppspretta lífsins, í þínu ljósi sjáum vér ljós.
11 Lát miskunn þína haldast við þá er þekkja þig, og réttlæti þitt við þá sem hjartahreinir eru.
12 Lát eigi fót hins hrokafulla troða á mér né hönd óguðlegra hrekja mig burt.
13 Þar eru illgjörðamennirnir fallnir, þeim er varpað um koll og þeir fá eigi risið upp aftur.
39 Til söngstjórans, eftir Jedútún. Davíðssálmur.
2 Ég sagði: "Ég vil gefa gætur að vegum mínum, að ég drýgi eigi synd með tungunni, ég vil leggja haft á munn minn, meðan hinn illgjarni er í nánd við mig."
3 Ég var hljóður og þagði, en kvöl mín ýfðist.
4 Hjartað brann í brjósti mér, við andvörp mín logaði eldurinn upp, ég sagði:
5 "Lát mig, Drottinn, sjá afdrif mín og hvað mér er útmælt af dögum, lát mig sjá, hversu skammær ég er.
6 Sjá, örfáar þverhendur hefir þú gjört daga mína, og ævi mín er sem ekkert fyrir þér. Andgustur einn eru allir menn. [Sela]
7 Sem tómur skuggi gengur maðurinn um, gjörir háreysti um hégómann einan, hann safnar í hrúgur, en veit eigi hver þær hlýtur."
8 Hvers vona ég þá, Drottinn? Von mín er öll á þér.
9 Frelsa mig frá öllum syndum mínum, lát mig eigi verða heimskingjum að spotti.
10 Ég þegi, ég opna eigi munninn, því að þú hefir talað.
11 Lát plágu þína víkja frá mér, ég verð að engu fyrir krafti handar þinnar.
12 Þá er þú beitir hirtingu við manninn fyrir misgjörð hans, lætur þú yndisleik hans eyðast, sem mölur væri. Andgustur einn eru allir menn. [Sela]
13 Heyr bæn mína, Drottinn, og hlýð á kvein mitt, ver eigi hljóður við tárum mínum, því að ég er aðkomandi hjá þér, útlendingur eins og allir feður mínir.
14 Lít af mér, svo að hýrna megi yfir mér, áður en ég fer burt og er eigi til framar.
12 Þá svaraði Job og sagði:
3 En ég vil tala til hins Almáttka og mig langar til að þreyta málsókn við Guð.
4 Því að sannlega samtvinnið þér lygar og eruð gagnslausir gutlarar allir saman.
5 Ó að þér vilduð steinþegja, þá mætti meta yður það til mannvits.
6 Heyrið átölur mínar og hlustið á ásakanir vara minna.
7 Viljið þér mæla það, sem rangt er, Guði til varnar, og honum til varnar mæla svik?
8 Viljið þér draga taum hans, eða viljið þér taka málstað Guðs?
9 Ætli það fari vel, þegar hann rannsakar yður, eða ætlið þér að leika á hann, eins og leikið er á menn?
10 Nei, hegna, hegna mun hann yður, ef þér eruð hlutdrægir í leyni.
11 Hátign hans mun skelfa yður, og ógn hans mun falla yfir yður.
12 Spakmæli yðar eru ösku-orðskviðir, vígi yðar eru leirvígi.
13 Þegið og látið mig í friði, þá mun ég mæla, og komi yfir mig hvað sem vill.
14 Ég stofna sjálfum mér í hættu og legg lífið undir.
15 Sjá, hann mun deyða mig _ ég bíð hans, aðeins vil ég verja breytni mína fyrir augliti hans.
16 Það skal og verða mér til sigurs, því að guðlaus maður kemur ekki fyrir auglit hans.
17 Hlýðið því gaumgæfilega á ræðu mína, og vörn mín gangi yður í eyru.
21 Tak hönd þína burt frá mér, og lát ekki skelfing þína hræða mig.
22 Kalla því næst, og mun ég svara, eða ég skal tala, og veit þú mér andsvör í móti.
23 Hversu margar eru þá misgjörðir mínar og syndir? Kunngjör mér afbrot mín og synd mína!
24 Hvers vegna byrgir þú auglit þitt og ætlar, að ég sé óvinur þinn?
25 Ætlar þú að skelfa vindþyrlað laufblað og ofsækja þurrt hálmstrá,
26 er þú dæmir mér beiskar kvalir og lætur mig erfa misgjörðir æsku minnar,
27 er þú setur fætur mína í stokk og aðgætir alla vegu mína og markar hring kringum iljar mínar?
12 Um þessar mundir lét Heródes konungur leggja hendur á nokkra úr söfnuðinum og misþyrma þeim.
2 Hann lét höggva Jakob bróður Jóhannesar með sverði.
3 Og er hann sá, að Gyðingum líkaði vel, lét hann einnig taka Pétur. Þá voru dagar ósýrðu brauðanna.
4 Þegar hann hafði handtekið hann, lét hann setja hann í fangelsi og fól fjórum fjögurra hermanna varðflokkum að gæta hans. Ætlaði hann eftir páska að leiða hann fram fyrir lýðinn.
5 Sat nú Pétur í fangelsinu, en söfnuðurinn bað heitt til Guðs fyrir honum.
6 Nóttina áður en Heródes ætlaði að leiða hann fram svaf Pétur milli tveggja hermanna, bundinn tveim fjötrum, og varðmenn fyrir dyrum úti gættu fangelsisins.
7 Allt í einu stóð engill Drottins hjá honum og ljós skein í klefanum. Laust hann á síðu Pétri, vakti hann og mælti: "Rís upp skjótt!" Og fjötrarnir féllu af höndum hans.
8 Þá sagði engillinn við hann: "Gyrð þig og bind á þig skóna!" Hann gjörði svo. Síðan segir engillinn: "Far þú í yfirhöfn þína og fylg mér!"
9 Hann gekk út og fylgdi honum. En ekki vissi hann, að það var raunverulegt, sem gjörst hafði við komu engilsins, hann hélt sig sjá sýn.
10 Þeir gengu nú fram hjá innri og ytri verðinum og komu að járnhliðinu, sem farið er um til borgarinnar. Laukst það upp af sjálfu sér fyrir þeim. Þeir fóru út um það og gengu eitt stræti, en þá hvarf engillinn allt í einu frá honum.
11 Þegar Pétur kom til sjálfs sín, sagði hann: "Nú veit ég sannlega, að Drottinn hefur sent engil sinn og bjargað mér úr hendi Heródesar og frá allri ætlan Gyðingalýðs."
12 Og er hann hafði áttað sig, gekk hann að húsi Maríu, móður Jóhannesar, er kallast Markús. Þar höfðu margir safnast saman og voru á bæn.
13 Hann knúði hurð fordyrisins, og stúlka að nafni Róde gekk til dyra.
14 Þegar hún þekkti málróm Péturs, gáði hún eigi fyrir fögnuði að ljúka upp fordyrinu, heldur hljóp inn og sagði, að Pétur stæði fyrir dyrum úti.
15 Þeir sögðu við hana: "Þú ert frávita." En hún stóð fast á því, að svo væri sem hún sagði. "Það er þá engill hans," sögðu þeir.
16 En Pétur hélt áfram að berja, og þegar þeir luku upp, sáu þeir hann og urðu furðu lostnir.
17 Hann benti þeim með hendinni að vera hljóðir, skýrði þeim frá, hvernig Drottinn hafði leitt hann út úr fangelsinu, og bað þá segja Jakobi og bræðrunum frá þessu. Síðan gekk hann út og fór í annan stað.
33 Þeir svöruðu honum: "Vér erum niðjar Abrahams og höfum aldrei verið nokkurs manns þrælar. Hvernig getur þú þá sagt: ,Þér munuð verða frjálsir`?"
34 Jesús svaraði þeim: "Sannlega, sannlega segi ég yður: Hver sem syndina drýgir, er þræll syndarinnar.
35 En þrællinn dvelst ekki um aldur í húsinu, sonurinn dvelst þar um aldur og ævi.
36 Ef sonurinn gjörir yður frjálsa, munuð þér sannarlega verða frjálsir.
37 Ég veit, að þér eruð niðjar Abrahams. Þó leitist þér við að lífláta mig, því að orð mitt fær ekki rúm hjá yður.
38 Ég tala það, sem ég hef séð hjá föður mínum, og þér gjörið það, sem þér hafið heyrt hjá föður yðar."
39 Þeir svöruðu honum: "Faðir vor er Abraham." Jesús segir við þá: "Ef þér væruð börn Abrahams, munduð þér vinna verk Abrahams.
40 En nú leitist þér við að lífláta mig, mann sem hefur sagt yður sannleikann, sem ég heyrði hjá Guði. Slíkt gjörði Abraham aldrei.
41 Þér vinnið verk föður yðar." Þeir sögðu við hann: "Vér erum ekki hórgetnir. Einn föður eigum vér, Guð."
42 Jesús svaraði: "Ef Guð væri faðir yðar, munduð þér elska mig, því frá Guði er ég út genginn og kominn. Ekki er ég sendur af sjálfum mér. Það er hann, sem sendi mig.
43 Hví skiljið þér ekki mál mitt? Af því að þér getið ekki hlustað á orð mitt.
44 Þér eigið djöfulinn að föður og viljið gjöra það, sem faðir yðar girnist. Hann var manndrápari frá upphafi og aldrei í sannleikanum, því í honum finnst enginn sannleikur. Þegar hann lýgur fer hann að eðli sínu, því hann er lygari og lyginnar faðir.
45 En af því að ég segi sannleikann, trúið þér mér ekki.
46 Hver yðar getur sannað á mig synd? Ef ég segi sannleikann, hví trúið þér mér ekki?
47 Sá sem er af Guði, heyrir Guðs orð. Þér heyrið ekki, vegna þess að þér eruð ekki af Guði."
by Icelandic Bible Society