Book of Common Prayer
148 Halelúja. Lofið Drottin af himnum, lofið hann á hæðum.
2 Lofið hann, allir englar hans, lofið hann, allir herskarar hans.
3 Lofið hann, sól og tungl, lofið hann, allar lýsandi stjörnur.
4 Lofið hann, himnar himnanna og vötnin, sem eru yfir himninum.
5 Þau skulu lofa nafn Drottins, því að hans boði voru þau sköpuð.
6 Og hann fékk þeim stað um aldur og ævi, hann gaf þeim lög, sem þau mega eigi brjóta.
7 Lofið Drottin af jörðu, þér sjóskrímsl og allir hafstraumar,
8 eldur og hagl, snjór og reykur, stormbylurinn, sem framkvæmir orð hans,
9 fjöllin og allar hæðir, ávaxtartrén og öll sedrustrén,
10 villidýrin og allur fénaður, skriðkvikindin og fleygir fuglar,
11 konungar jarðarinnar og allar þjóðir, höfðingjar og allir dómendur jarðar,
12 bæði yngismenn og yngismeyjar, öldungar og ungir sveinar!
13 Þau skulu lofa nafn Drottins, því að hans nafn eitt er hátt upp hafið, tign hans er yfir jörð og himni.
14 Hann lyftir upp horni fyrir lýð sinn, lofsöngur hljómi hjá öllum dýrkendum hans, hjá sonum Ísraels, þjóðinni, sem er nálæg honum. Halelúja.
149 Halelúja. Syngið Drottni nýjan söng, lofsöngur hans hljómi í söfnuði trúaðra.
2 Ísrael gleðjist yfir skapara sínum, synir Síonar fagni yfir konungi sínum.
3 Þeir skulu lofa nafn hans með gleðidansi, leika fyrir honum á bumbur og gígjur.
4 Því að Drottinn hefir þóknun á lýð sínum, hann skrýðir hrjáða með sigri.
5 Hinir trúuðu skulu gleðjast með sæmd, syngja fagnandi í hvílum sínum
6 með lofgjörð Guðs á tungu og tvíeggjað sverð í höndum
7 til þess að framkvæma hefnd á þjóðunum, hirtingu á lýðunum,
8 til þess að binda konunga þeirra með fjötrum, þjóðhöfðingja þeirra með járnhlekkjum,
9 til þess að fullnægja á þeim skráðum dómi. Það er til vegsemdar öllum dýrkendum hans. Halelúja.
150 Halelúja. Lofið Guð í helgidómi hans, lofið hann í voldugri festingu hans!
2 Lofið hann fyrir máttarverk hans, lofið hann eftir mikilleik hátignar hans!
3 Lofið hann með lúðurhljómi, lofið hann með hörpu og gígju!
4 Lofið hann með bumbum og gleðidansi, lofið hann með strengleik og hjarðpípum!
5 Lofið hann með hljómandi skálabumbum, lofið hann með hvellum skálabumbum!
114 Þegar Ísrael fór út af Egyptalandi, Jakobs ætt frá þjóðinni, er mælti á erlenda tungu,
2 varð Júda helgidómur hans, Ísrael ríki hans.
3 Hafið sá það og flýði, Jórdan hörfaði undan.
4 Fjöllin hoppuðu sem hrútar, hæðirnar sem lömb.
5 Hvað er þér, haf, er þú flýr, Jórdan, er þú hörfar undan,
6 þér fjöll, er þér hoppið sem hrútar, þér hæðir sem lömb?
7 Titra þú, jörð, fyrir augliti Drottins, fyrir augliti Jakobs Guðs,
8 hans sem gjörir klettinn að vatnstjörn, tinnusteininn að vatnslind.
115 Gef eigi oss, Drottinn, eigi oss, heldur þínu nafni dýrðina sakir miskunnar þinnar og trúfesti.
2 Hví eiga heiðingjarnir að segja: "Hvar er Guð þeirra?"
3 En vor Guð er í himninum, allt sem honum þóknast, það gjörir hann.
4 Skurðgoð þeirra eru silfur og gull, handaverk manna.
5 Þau hafa munn, en tala ekki, augu, en sjá ekki,
6 þau hafa eyru, en heyra ekki, nef, en finna engan þef.
7 Þau hafa hendur, en þreifa ekki, fætur, en ganga ekki, þau tala eigi með barka sínum.
8 Eins og þau eru, verða smiðir þeirra, allir þeir er á þau treysta.
9 En Ísrael treystir Drottni, hann er hjálp þeirra og skjöldur.
10 Arons ætt treystir Drottni, hann er hjálp þeirra og skjöldur.
11 Þeir sem óttast Drottin treysta Drottni, hann er hjálp þeirra og skjöldur.
12 Drottinn minnist vor, hann mun blessa, hann mun blessa Ísraels ætt, hann mun blessa Arons ætt,
13 hann mun blessa þá er óttast Drottin, yngri sem eldri.
14 Drottinn mun fjölga yður, sjálfum yður og börnum yðar.
15 Þér eruð blessaðir af Drottni, skapara himins og jarðar.
16 Himinninn er himinn Drottins, en jörðina hefir hann gefið mannanna börnum.
17 Eigi lofa andaðir menn Drottin, né heldur neinn sá, sem hniginn er í dauðaþögn,
18 en vér viljum lofa Drottin, héðan í frá og að eilífu. Halelúja.
11 Þá svaraði Sófar frá Naama og sagði:
2 Á ekki að svara orðagjálfrinu, og á málskrafsmaðurinn að hafa rétt fyrir sér?
3 Ættu stóryrði þín að koma mönnum til að þegja, og ættir þú að spotta og enginn sneypa þig,
4 þar sem þú segir: "Kenning mín er rétt, og ég er hreinn í augum Guðs"?
5 En _ ó að Guð vildi tala og ljúka upp vörum sínum í móti þér
6 og kunngjöra þér leyndardóma spekinnar, að í þeim felast margföld hyggindi, þá mundir þú kannast við, að Guð hegnir ekki til fulls misgjörð þinni.
7 Getur þú náð til botns í Guði eða komist til ystu takmarka hins Almáttka?
8 Himinhá er speki hans _ hvað fær þú gjört? dýpri en undirheimar _ hvað fær þú vitað?
9 Hún er lengri en jörðin að víðáttu og breiðari en hafið.
13 Ef þú undirbýr hjarta þitt og breiðir út lófa þína til hans,
14 _ ef misgjörð er í hendi þinni, þá fjarlæg hana, og lát eigi órétt búa í tjöldum þínum _
15 já, þá munt þú flekklaus hefja höfuð þitt, munt standa fastur og eigi þurfa að óttast.
16 Já, þá munt þú gleyma mæðu þinni, þú munt minnast hennar sem vatns, er runnið er fram hjá.
17 Og lífið mun renna upp bjartara en hádegið, þótt dimmi, þá mun það verða sem morgunn.
18 Og þú munt vera öruggur, því að enn er von, og skyggnist þú um, getur þú lagst óhultur til hvíldar.
19 Og þú hvílist, og enginn hræðir þig, og margir munu reyna að koma sér í mjúkinn hjá þér.
20 En augu hinna óguðlegu daprast, fyrir þá er fokið í öll skjól, og þeirra eina von er að gefa upp andann.
5 Í hægri hendi hans, er í hásætinu sat, sá ég bók, skrifaða innan og utan, innsiglaða sjö innsiglum.
2 Og ég sá sterkan engil, sem kallaði hárri röddu: "Hver er maklegur að ljúka upp bókinni og leysa innsigli hennar?"
3 En enginn var sá á himni eða jörðu eða undir jörðunni, sem lokið gæti upp bókinni og litið í hana.
4 Og ég grét stórum af því að enginn reyndist maklegur að ljúka upp bókinni og líta í hana.
5 En einn af öldungunum segir við mig: "Grát þú eigi! Sjá, sigrað hefur ljónið af Júda ættkvísl, rótarkvistur Davíðs, hann getur lokið upp bókinni og innsiglum hennar sjö."
6 Þá sá ég fyrir miðju hásætinu og fyrir verunum fjórum og öldungunum lamb standa, sem slátrað væri. Það hafði sjö horn og sjö augu, og eru það sjö andar Guðs, sendir út um alla jörðina.
7 Og það kom og tók við bókinni úr hægri hendi hans, er í hásætinu sat.
8 Þegar það hafði tekið við henni, féllu verurnar fjórar og öldungarnir tuttugu og fjórir niður frammi fyrir lambinu. Þeir höfðu hver um sig hörpu og gullskálar, fullar af reykelsi, það eru bænir hinna heilögu.
9 Og þeir syngja nýjan söng: Verður ert þú að taka við bókinni og ljúka upp innsiglum hennar, því að þér var slátrað og þú keyptir menn Guði til handa með blóði þínu af sérhverri kynkvísl og tungu, lýð og þjóð.
10 Og þú gjörðir þá, Guði vorum til handa, að konungsríki og prestum. Og þeir munu ríkja á jörðunni.
11 Þá sá ég og heyrði raust margra engla, sem stóðu hringinn í kringum hásætið og verurnar og öldungana, og tala þeirra var tíu þúsundir tíu þúsunda og þúsundir þúsunda.
12 Þeir sögðu með hárri röddu: Maklegt er lambið hið slátraða að fá máttinn og ríkdóminn, visku og kraft, heiður og dýrð og lofgjörð.
13 Og allt skapað, sem er á himni og jörðu og undir jörðunni og á hafinu, allt sem í þeim er, heyrði ég segja: Honum, sem í hásætinu situr, og lambinu, sé lofgjörðin og heiðurinn, dýrðin og krafturinn um aldir alda.
14 Og verurnar fjórar sögðu: "Amen." Og öldungarnir féllu fram og veittu lotningu.
5 Þegar hann sá mannfjöldann, gekk hann upp á fjallið. Þar settist hann, og lærisveinar hans komu til hans.
2 Þá lauk hann upp munni sínum, kenndi þeim og sagði:
3 "Sælir eru fátækir í anda, því að þeirra er himnaríki.
4 Sælir eru sorgbitnir, því að þeir munu huggaðir verða.
5 Sælir eru hógværir, því að þeir munu jörðina erfa.
6 Sælir eru þeir, sem hungrar og þyrstir eftir réttlætinu, því að þeir munu saddir verða.
7 Sælir eru miskunnsamir, því að þeim mun miskunnað verða.
8 Sælir eru hjartahreinir, því að þeir munu Guð sjá.
9 Sælir eru friðflytjendur, því að þeir munu Guðs börn kallaðir verða.
10 Sælir eru þeir, sem ofsóttir eru fyrir réttlætis sakir, því að þeirra er himnaríki.
11 Sælir eruð þér, þá er menn smána yður, ofsækja og ljúga á yður öllu illu mín vegna.
12 Verið glaðir og fagnið, því að laun yðar eru mikil á himnum. Þannig ofsóttu þeir spámennina, sem voru á undan yður.
by Icelandic Bible Society