Print Page Options
Previous Prev Day Next DayNext

Book of Common Prayer

Daily Old and New Testament readings based on the Book of Common Prayer.
Duration: 861 days
Icelandic Bible (ICELAND)
Version
Sálmarnir 18

18 Til söngstjórans. Eftir Davíð, þjón Drottins, er flutti Drottni orð þessara ljóða, þá er Drottinn frelsaði hann af hendi allra óvina hans og af hendi Sáls.

Hann mælti: Ég elska þig, Drottinn, þú styrkur minn.

Drottinn, bjarg mitt og vígi og frelsari minn, Guð minn, hellubjarg mitt, þar sem ég leita hælis, skjöldur minn og horn hjálpræðis míns, háborg mín!

Lofaður sé Drottinn, hrópa ég, og ég frelsast frá óvinum mínum.

Brimöldur dauðans umkringdu mig, elfur glötunarinnar skelfdu mig,

snörur Heljar luktu um mig, möskvar dauðans féllu yfir mig.

Í angist minni kallaði ég á Drottin, og til Guðs míns hrópaði ég. Hann heyrði raust mína í helgidómi sínum, og óp mitt barst til eyrna honum.

Jörðin bifaðist og nötraði, undirstöður fjallanna skulfu, þær bifuðust, því að hann var reiður,

reykur gekk fram úr nösum hans og eyðandi eldur af munni hans, glóðir brunnu út frá honum.

10 Hann sveigði himininn og steig niður, og skýsorti var undir fótum hans.

11 Hann steig á bak kerúb og flaug af stað og sveif á vængjum vindarins.

12 Hann gjörði myrkur að skýli sínu, regnsorta og skýþykkni að fylgsni sínu allt um kring.

13 Frá ljómanum fyrir honum brutust hagl og eldglæringar gegnum ský hans.

14 Þá þrumaði Drottinn á himnum, og Hinn hæsti lét raust sína gjalla.

15 Hann skaut örvum sínum og tvístraði óvinum sínum, lét eldingar leiftra og hræddi þá.

16 Þá sá í mararbotn, og undirstöður jarðarinnar urðu berar fyrir ógnun þinni, Drottinn, fyrir andgustinum úr nösum þínum.

17 Hann seildist niður af hæðum og greip mig, dró mig upp úr hinum miklu vötnum.

18 Hann frelsaði mig frá hinum sterku óvinum mínum, frá fjandmönnum mínum, er voru mér yfirsterkari.

19 Þeir réðust á mig á mínum óheilladegi, en Drottinn var mín stoð.

20 Hann leiddi mig út á víðlendi, frelsaði mig, af því að hann hafði þóknun á mér.

21 Drottinn fer með mig eftir réttlæti mínu, eftir hreinleik handa minna geldur hann mér,

22 því að ég hefi varðveitt vegu Drottins og hefi ekki reynst ótrúr Guði mínum.

23 Allar skipanir hans hefi ég fyrir augum, og boðorðum hans þokaði ég eigi burt frá mér.

24 Ég var lýtalaus fyrir honum og gætti mín við misgjörðum.

25 Fyrir því galt Drottinn mér eftir réttlæti mínu, eftir hreinleik handa minna fyrir augliti hans.

26 Gagnvart ástríkum ert þú ástríkur, gagnvart ráðvöndum ráðvandur,

27 gagnvart hreinum hreinn, en gagnvart rangsnúnum ert þú afundinn.

28 Þú hjálpar þjáðum lýð, en gjörir hrokafulla niðurlúta.

29 Já, þú lætur lampa minn skína, Drottinn, Guð minn, þú lýsir mér í myrkrinu.

30 Því að fyrir þína hjálp brýt ég múra, fyrir hjálp Guðs míns stekk ég yfir borgarveggi.

31 Vegur Guðs er lýtalaus, orð Drottins er hreint, skjöldur er hann öllum þeim sem leita hælis hjá honum.

32 Hver er Guð nema Drottinn, og hver er hellubjarg utan vor Guð?

33 Sá Guð sem gyrðir mig styrkleika og gjörir veg minn sléttan,

34 sem gjörir fætur mína sem hindanna og veitir mér fótfestu á hæðunum,

35 sem æfir hendur mínar til hernaðar, svo að armar mínir benda eirbogann.

36 Og þú gafst mér skjöld hjálpræðis þíns, og hægri hönd þín studdi mig, og lítillæti þitt gjörði mig mikinn.

37 Þú rýmdir til fyrir skrefum mínum, og ökklar mínir riðuðu ekki.

38 Ég elti óvini mína og náði þeim og sneri ekki aftur, fyrr en ég hafði gjöreytt þeim.

39 Ég molaði þá sundur, þeir máttu eigi upp rísa, þeir hnigu undir fætur mér.

40 Þú gyrtir mig styrkleika til ófriðarins, beygðir fjendur mína undir mig.

41 Þú lést mig sjá bak óvina minna, og fjendum mínum eyddi ég.

42 Þeir hrópuðu, en enginn kom til hjálpar, þeir hrópuðu til Drottins, en hann svaraði þeim ekki.

43 Og ég muldi þá sem mold á jörð, tróð þá fótum sem saur á strætum.

44 Þú frelsaðir mig úr fólkorustum, gjörðir mig að höfðingja þjóðanna, lýður sem ég þekkti ekki þjónar mér.

45 Óðara en þeir heyra mín getið, hlýða þeir mér, útlendingar smjaðra fyrir mér.

46 Útlendingar dragast upp og koma skjálfandi fram úr fylgsnum sínum.

47 Lifi Drottinn, lofað sé mitt bjarg, og hátt upp hafinn sé Guð hjálpræðis míns,

48 sá Guð sem veitti mér hefndir og braut þjóðir undir mig,

49 sem hreif mig úr höndum óvina minna. Og yfir mótstöðumenn mína hófst þú mig, frá ójafnaðarmönnum frelsaðir þú mig.

50 Fyrir því vil ég vegsama þig, Drottinn, meðal þjóðanna og lofsyngja þínu nafni.

51 Hann veitir konungi sínum mikla hjálp og auðsýnir miskunn sínum smurða, Davíð og niðjum hans að eilífu.

Jobsbók 8:1-10

Þá svaraði Bildad frá Súa og sagði:

Hversu lengi ætlar þú slíkt að mæla og orðin í munni þínum að vera hvass vindur?

Hallar þá Guð réttinum, eða hallar hinn Almáttki réttlætinu?

Hafi börn þín syndgað móti honum, þá hefir hann selt þau misgjörð þeirra á vald.

En ef þú leitar Guðs og biður hinn Almáttka miskunnar _

ef þú ert hreinn og einlægur _ já, þá mun hann þegar vakna til að sinna þér og endurreisa bústað þíns réttlætis.

Þá mun þinn fyrri hagur virðast lítilfjörlegur, en framtíðarhagur þinn vaxa stórum.

Spyr þú hina fyrri kynslóð og gef þú gaum að reynslu feðranna.

Vér erum síðan í gær og vitum ekkert, því að skuggi eru dagar vorir á jörðunni.

10 En þeir munu fræða þig, segja þér það og bera fram orð úr sjóði hjarta síns:

Jobsbók 8:20-22

20 Sjá, Guð hafnar ekki hinum ráðvanda og heldur ekki í hönd illgjörðamanna.

21 Enn mun hann fylla munn þinn hlátri og varir þínar fagnaðarópi.

22 Þeir sem hata þig, munu skömminni klæðast, og tjald hinna óguðlegu mun horfið vera.

Postulasagan 10:17-33

17 Meðan Pétur var að reyna að ráða í, hvað þessi sýn ætti að merkja, höfðu sendimenn Kornelíusar spurt uppi hús Símonar. Nú stóðu þeir fyrir dyrum úti

18 og kölluðu: "Er Símon sá, er nefnist Pétur, gestur hér?"

19 Pétur var enn að hugsa um sýnina, þegar andinn sagði við hann: "Menn eru að leita þín.

20 Flýt þér nú ofan og far hiklaust með þeim, því að ég hef sent þá."

21 Pétur gekk þá niður til mannanna og sagði: "Ég er sá sem þér leitið að. Hvers vegna eruð þér komnir hér?"

22 Þeir sögðu: "Kornelíus hundraðshöfðingi, réttlátur maður og guðhræddur og orðsæll af allri Gyðinga þjóð, fékk bendingu frá heilögum engli að senda eftir þér og fá þig heim til sín og heyra, hvað þú hefðir að flytja."

23 Þá bauð hann þeim inn og lét þá gista. Daginn eftir tók hann sig upp og fór með þeim og nokkrir bræður frá Joppe með honum.

24 Næsta dag komu þeir til Sesareu. Kornelíus bjóst við þeim og hafði boðið til sín frændum og virktavinum.

25 Þegar Pétur kom, fór Kornelíus á móti honum, féll til fóta honum og veitti honum lotningu.

26 Pétur reisti hann upp og sagði: "Statt upp, ég er maður sem þú."

27 Og hann ræddi við hann og gekk inn og fann þar marga menn saman komna.

28 Hann sagði við þá: "Þér vitið, að Gyðingi er bannað að eiga samneyti við annarrar þjóðar mann eða koma til hans. En Guð hefur sýnt mér, að ég á engan að kalla vanheilagan eða óhreinan.

29 Fyrir því kom ég mótmælalaust, er eftir mér var sent. Nú spyr ég, hvers vegna þér senduð eftir mér."

30 Kornelíus mælti: "Í þetta mund fyrir fjórum dögum var ég að biðjast fyrir að nóni í húsi mínu. Þá stóð maður frammi fyrir mér í skínandi klæðum

31 og mælti: ,Kornelíus, bæn þín er heyrð, og Guð hefur minnst ölmusugjörða þinna.

32 Nú skalt þú senda til Joppe eftir Símoni, er kallast Pétur. Hann gistir í húsi Símonar sútara við sjóinn.`

33 Því sendi ég jafnskjótt til þín, og vel gjörðir þú að koma. Nú erum vér hér allir fyrir augsýn Guðs til að heyra allt, sem Drottinn hefur boðið þér."

Jóhannesarguðspjall 7:14-36

14 Er hátíðin var þegar hálfnuð, fór Jesús upp í helgidóminn og tók að kenna.

15 Gyðingar urðu forviða og sögðu: "Hvernig hefur þessi maður orðið lærður og hefur þó ekki fræðslu notið?"

16 Jesús svaraði þeim: "Kenning mín er ekki mín, heldur hans, er sendi mig.

17 Sá sem vill gjöra vilja hans, mun komast að raun um, hvort kenningin er frá Guði eða ég tala af sjálfum mér.

18 Sá sem talar af sjálfum sér, leitar eigin heiðurs, en sá sem leitar heiðurs þess, er sendi hann, er sannorður og í honum ekkert ranglæti.

19 Gaf Móse yður ekki lögmálið? Samt heldur enginn yðar lögmálið. Hví sitjið þér um líf mitt?"

20 Fólkið ansaði: "Þú ert haldinn illum anda. Hver situr um líf þitt?"

21 Jesús svaraði þeim: "Eitt verk gjörði ég, og þér undrist það allir.

22 Móse gaf yður umskurnina _ hún er að vísu ekki frá Móse, heldur feðrunum _ og þér umskerið mann jafnvel á hvíldardegi.

23 Fyrst maður er umskorinn á hvíldardegi, til þess að lögmál Móse verði ekki brotið, hví reiðist þér mér, að ég gjörði manninn allan heilan á hvíldardegi?

24 Dæmið ekki eftir útliti, dæmið réttlátan dóm."

25 Þá sögðu nokkrir Jerúsalembúar: "Er þetta ekki sá, sem þeir sitja um að lífláta?

26 Og nú er hann að tala á almannafæri, og þeir segja ekkert við hann. Skyldu nú höfðingjarnir hafa komist að raun um, að hann sé Kristur?

27 Nei, vér vitum, hvaðan þessi maður er. Þegar Kristur kemur, veit enginn, hvaðan hann er."

28 Jesús var að kenna í helgidóminum, og nú kallaði hann: "Bæði þekkið þér mig og vitið hvaðan ég er. Þó er ég ekki kominn af sjálfum mér. En sá er sannur, sem sendi mig, og hann þekkið þér ekki.

29 Ég þekki hann, því ég er frá honum og hann sendi mig."

30 Nú ætluðu þeir að grípa hann, en enginn lagði hendur á hann, því stund hans var enn ekki komin.

31 En af alþýðu manna tóku margir að trúa á hann og sögðu: "Mun Kristur gjöra fleiri tákn, þegar hann kemur, en þessi maður hefur gjört?"

32 Farísear heyrðu, að fólk var að skrafa þetta um hann, og æðstu prestar og farísear sendu þjóna að taka hann höndum.

33 Þá sagði Jesús: "Enn verð ég hjá yður skamma stund, og þá fer ég aftur til þess, sem sendi mig.

34 Þér munuð leita mín og eigi finna. Þér getið ekki komist þangað sem ég er."

35 Þá sögðu Gyðingar sín á milli: "Hvert skyldi hann ætla að fara, svo að vér finnum hann ekki? Hann ætlar þó ekki að fara til Gyðinga, sem dreifðir eru meðal Grikkja og kenna Grikkjum?

36 Hvað var hann að segja: ,Þér munuð leita mín og eigi finna, og þér getið ekki komist þangað sem ég er`?"

Icelandic Bible (ICELAND)

by Icelandic Bible Society