Book of Common Prayer
119 Sælir eru þeir sem breyta grandvarlega, þeir er fram ganga í lögmáli Drottins.
2 Sælir eru þeir er halda reglur hans, þeir er leita hans af öllu hjarta
3 og eigi fremja ranglæti, en ganga á vegum hans.
4 Þú hefir gefið skipanir þínar, til þess að menn skuli halda þær vandlega.
5 Ó að breytni mín mætti vera staðföst, svo að ég varðveiti lög þín.
6 Þá mun ég eigi til skammar verða, er ég gef gaum að öllum boðum þínum.
7 Ég skal þakka þér af einlægu hjarta, er ég hefi numið þín réttlátu ákvæði.
8 Ég vil gæta laga þinna, þá munt þú alls ekki yfirgefa mig.
9 Með hverju getur ungur maður haldið vegi sínum hreinum? Með því að gefa gaum að orði þínu.
10 Ég leita þín af öllu hjarta, lát mig eigi villast frá boðum þínum.
11 Ég geymi orð þín í hjarta mínu, til þess að ég skuli eigi syndga gegn þér.
12 Lofaður sért þú, Drottinn, kenn mér lög þín.
13 Með vörum mínum tel ég upp öll ákvæði munns þíns.
14 Yfir vegi vitnisburða þinna gleðst ég eins og yfir alls konar auði.
15 Fyrirmæli þín vil ég íhuga og skoða vegu þína.
16 Ég leita unaðar í lögum þínum, gleymi eigi orði þínu.
17 Veit þjóni þínum að lifa, að ég megi halda orð þín.
18 Ljúk upp augum mínum, að ég megi skoða dásemdirnar í lögmáli þínu.
19 Ég er útlendingur á jörðunni, dyl eigi boð þín fyrir mér.
20 Sál mín er kvalin af þrá eftir ákvæðum þínum alla tíma.
21 Þú hefir ógnað ofstopamönnunum, bölvaðir eru þeir, sem víkja frá boðum þínum.
22 Velt þú af mér háðung og skömm, því að ég hefi haldið reglur þínar.
23 Þótt þjóðhöfðingjar sitji og taki saman ráð sín gegn mér, þá íhugar þjónn þinn lög þín.
24 Og reglur þínar eru unun mín, boð þín eru ráðgjafar mínir.
12 Til söngstjórans. Á áttstrengjað hljóðfæri. Davíðssálmur.
2 Hjálpa þú, Drottinn, því að hinir trúuðu eru á brottu, hinir dygglyndu horfnir frá mönnunum.
3 Lygi tala þeir hver við annan, með mjúkfláum vörum og tvískiptu hjarta tala þeir.
4 Ó að Drottinn vildi eyða öllum mjúkfláum vörum, öllum tungum er tala drambsamleg orð,
5 þeim er segja: "Með tungunni munum vér sigra, varir vorar hjálpa oss, hver er drottnari yfir oss?"
6 "Sakir kúgunar hinna hrjáðu, sakir andvarpa hinna fátæku vil ég nú rísa upp," segir Drottinn. "Ég vil veita hjálp þeim, er þrá hana."
7 Orð Drottins eru hrein orð, skírt silfur, sjöhreinsað gull.
8 Þú, Drottinn, munt vernda oss, varðveita oss fyrir þessari kynslóð um aldur.
9 Hinir guðlausu vaða alls staðar uppi, og hrakmenni komast til vegs meðal mannanna.
13 Til söngstjórans. Davíðssálmur.
2 Hversu lengi, Drottinn, ætlar þú að gleyma mér með öllu? Hversu lengi ætlar þú að hylja auglit þitt fyrir mér?
3 Hversu lengi á ég að bera sút í sál, harm í hjarta dag frá degi? Hversu lengi á óvinur minn að hreykja sér upp yfir mig?
4 Lít til, svara mér, Drottinn, Guð minn, hýrga augu mín, að ég sofni ekki svefni dauðans,
5 að óvinur minn geti ekki sagt: "Ég hefi borið af honum!" að fjandmenn mínir geti ekki fagnað yfir því, að mér skriðni fótur.
6 Ég treysti á miskunn þína; hjarta mitt fagnar yfir hjálp þinni. Ég vil syngja fyrir Drottni, því að hann hefir gjört vel til mín.
14 Til söngstjórans. Davíðssálmur. Heimskinginn segir í hjarta sínu: "Guð er ekki til." Ill og andstyggileg er breytni þeirra, enginn gjörir það sem gott er.
2 Drottinn lítur af himni niður á mennina til þess að sjá, hvort nokkur sé hygginn, nokkur sem leiti Guðs.
3 Allir eru viknir af leið, allir spilltir, enginn gjörir það sem gott er _ ekki einn.
4 Skyldu þeir ekki fá að kenna á því, allir illgjörðamennirnir, þeir er eta lýð minn sem brauð væri og ákalla eigi Drottin?
5 Þá skulu þeir verða mjög óttaslegnir, því að Guð er hjá kynslóð réttlátra.
6 Þér megið láta ráð hinna hrjáðu til skammar verða, því að Drottinn er samt athvarf þeirra.
7 Ó að hjálpræði Ísraels komi frá Síon! Þegar Drottinn snýr við hag lýðs síns, skal Jakob fagna og Ísrael gleðjast.
6 Þá svaraði Job og sagði:
7 Er ekki líf mannsins á jörðinni herþjónusta og dagar hans sem dagar daglaunamanns?
2 Eins og þræll, sem þráir forsælu, og eins og daglaunamaður, sem bíður eftir kaupi sínu,
3 svo hafa mér hlotnast mæðumánuðir og kvalanætur orðið hlutskipti mitt.
4 Þegar ég leggst til hvíldar, hugsa ég: "Nær mun ég rísa á fætur?" Og kveldið er langt, og ég fæ mig fullsaddan á að bylta mér uns aftur eldir.
5 Líkami minn er þakinn ormum og moldarskánum, húð mín skorpnar og rifnar upp aftur.
6 Dagar mínir eru hraðfleygari en vefjarskyttan, og þeir hverfa án vonar.
7 Minnstu þess, Guð, að líf mitt er andgustur! Aldrei framar mun auga mitt gæfu líta.
8 Það auga, sem nú sér mig, mun eigi líta mig framar, augu þín leita mín, en ég er horfinn.
9 Eins og skýið eyðist og hverfur, svo kemur og sá eigi aftur, er niður stígur til Heljar.
10 Hann hverfur aldrei aftur til húss síns, og heimili hans þekkir hann eigi framar.
11 Ég ætla þá ekki heldur að hafa taum á tungu minni, ég ætla að tala í hugarangist minni, ég ætla að kveina í sálarkvöl minni.
12 Er ég haf eða sjóskrímsl, svo að þú þurfir að setja vörð yfir mig?
13 Þegar ég hugsa með sjálfum mér: "Rúmið mitt skal hugga mig, hvílan mín létta mér hörmung mína"
14 þá hræðir þú mig með draumum og skelfir mig með sýnum,
15 svo að ég kýs heldur að kafna, heldur að deyja en að vera slík beinagrind.
16 Ég er leiður á þessu _ ekki lifi ég eilíflega _, slepptu mér, því að dagar mínir eru andartak.
17 Hvað er maðurinn, að þú metir hann svo mikils og að þú snúir huga þínum til hans?
18 að þú heimsækir hann á hverjum morgni og reynir hann á hverri stundu?
19 Hvenær ætlar þú loks að líta af mér, loks að sleppa mér, meðan ég renni niður munnvatninu?
20 Hafi ég syndgað _ hvað get ég gert þér, þú vörður manna? Hvers vegna hefir þú mig þér að skotspæni, svo að ég er sjálfum mér byrði?
21 Og hví fyrirgefur þú mér eigi synd mína og nemur burt sekt mína? Því að nú leggst ég til hvíldar í moldu, og leitir þú mín, þá er ég eigi framar til.
10 Maður nokkur var í Sesareu, Kornelíus að nafni, hundraðshöfðingi í ítölsku hersveitinni.
2 Hann var trúmaður og dýrkaði Guð og heimafólk hans allt. Gaf hann lýðnum miklar ölmusur og var jafnan á bæn til Guðs.
3 Dag einn um nón sá hann berlega í sýn engil Guðs koma inn til sín, er sagði við hann: "Kornelíus!"
4 Hann starði á hann, varð óttasleginn og sagði: "Hvað er það, herra?" Engillinn svaraði: "Bænir þínar og ölmusur eru stignar upp til Guðs, og hann minnist þeirra.
5 Send þú nú menn til Joppe og lát sækja Símon nokkurn, er kallast Pétur.
6 Hann gistir hjá Símoni nokkrum sútara, sem á hús við sjóinn."
7 Þegar engillinn, sem talaði við hann, var farinn, kallaði hann á tvo heimamenn sína og guðrækinn hermann, einn þeirra, er honum voru handgengnir,
8 sagði þeim frá öllu og sendi þá til Joppe.
9 Daginn eftir, er þeir voru á leiðinni og nálguðust bæinn, gekk Pétur upp á húsþakið um hádegi til að biðjast fyrir.
10 Kenndi hann þá hungurs og vildi matast. En meðan verið var að matreiða, varð hann frá sér numinn,
11 sá himininn opinn og hlut nokkurn koma niður, líkan stórum dúki. Var hann látinn síga til jarðar á fjórum skautum.
12 Þar voru á alls kyns ferfætt dýr, skriðdýr jarðar, svo og fuglar himins.
13 Og honum barst rödd: "Slátra nú, Pétur, og et!"
14 Pétur sagði: "Nei, Drottinn, engan veginn, aldrei hef ég etið neitt vanheilagt né óhreint."
15 Aftur barst honum rödd: "Eigi skalt þú kalla það vanheilagt, sem Guð hefur lýst hreint!"
16 Þetta gjörðist þrem sinnum, og jafnskjótt var hluturinn upp numinn til himins.
7 Eftir þetta fór Jesús um Galíleu. Hann vildi ekki fara um Júdeu, sökum þess að Gyðingar sátu um líf hans.
2 Nú fór að hátíð Gyðinga, laufskálahátíðin.
3 Þá sögðu bræður hans við hann: "Flyt þig héðan og farðu til Júdeu, til þess að lærisveinar þínir sjái líka verkin þín, sem þú gjörir.
4 Því enginn starfar í leynum, ef hann vill verða alkunnur. Fyrst þú vinnur slík verk, þá opinbera sjálfan þig heiminum."
5 Því jafnvel bræður hans trúðu ekki á hann.
6 Jesús sagði við þá: "Minn tími er ekki enn kominn, en yður hentar allur tími.
7 Heimurinn getur ekki hatað yður. Mig hatar hann, af því ég vitna um hann, að verk hans eru vond.
8 Þér skuluð fara upp eftir á hátíðina. Ég fer ekki til þessarar hátíðar, því minn tími er ekki enn kominn."
9 Þetta sagði hann þeim og var kyrr í Galíleu.
10 Þegar bræður hans voru farnir upp eftir til hátíðarinnar, fór hann samt líka upp eftir, ekki svo menn vissu, heldur nánast á laun.
11 Gyðingar voru að leita að honum á hátíðinni og spurðu, hvar hann væri.
12 Manna á meðal var margt um hann talað. Sumir sögðu: "Hann er góður," en aðrir sögðu: "Nei, hann leiðir fjöldann í villu."
13 Þó talaði enginn opinskátt um hann af ótta við Gyðinga.
by Icelandic Bible Society