Book of Common Prayer
118 Þakkið Drottni, því að hann er góður, því að miskunn hans varir að eilífu.
2 Það mæli Ísrael: "Því að miskunn hans varir að eilífu!"
3 Það mæli Arons ætt: "Því að miskunn hans varir að eilífu!"
4 Það mæli þeir sem óttast Drottin: "Því að miskunn hans varir að eilífu!"
5 Í þrengingunni ákallaði ég Drottin, hann bænheyrði mig og rýmkaði um mig.
6 Drottinn er með mér, ég óttast eigi, hvað geta menn gjört mér?
7 Drottinn er með mér með hjálp sína, og ég mun fá að horfa á ófarir hatursmanna minna.
8 Betra er að leita hælis hjá Drottni en að treysta mönnum,
9 betra er að leita hælis hjá Drottni en að treysta tignarmönnum.
10 Allar þjóðir umkringdu mig, en í nafni Drottins hefi ég sigrast á þeim.
11 Þær umkringdu mig á alla vegu, en í nafni Drottins hefi ég sigrast á þeim.
12 Þær umkringdu mig eins og býflugur vax, brunnu sem eldur í þyrnum, en í nafni Drottins hefi ég sigrast á þeim.
13 Mér var hrundið, til þess að ég skyldi falla, en Drottinn veitti mér lið.
14 Drottinn er styrkur minn og lofsöngur, og hann varð mér til hjálpræðis.
15 Fagnaðar- og siguróp kveður við í tjöldum réttlátra: Hægri hönd Drottins vinnur stórvirki,
16 hægri hönd Drottins upphefur, hægri hönd Drottins vinnur stórvirki.
17 Ég mun eigi deyja, heldur lifa og kunngjöra verk Drottins.
18 Drottinn hefir hirt mig harðlega, en eigi ofurselt mig dauðanum.
19 Ljúkið upp fyrir mér hliðum réttlætisins, að ég megi fara inn um þau og lofa Drottin.
20 Þetta er hlið Drottins, réttlátir menn fara inn um það.
21 Ég lofa þig, af því að þú bænheyrðir mig og ert orðinn mér hjálpræði.
22 Steinninn sem smiðirnir höfnuðu er orðinn að hyrningarsteini.
23 Að tilhlutun Drottins er þetta orðið, það er dásamlegt í augum vorum.
24 Þetta er dagurinn sem Drottinn hefir gjört, fögnum, verum glaðir á honum.
25 Drottinn, hjálpa þú, Drottinn, gef þú gengi!
26 Blessaður sé sá sem kemur í nafni Drottins, frá húsi Drottins blessum vér yður.
27 Drottinn er Guð, hann lætur oss skína ljós. Tengið saman dansraðirnar með laufgreinum, allt inn að altarishornunum.
28 Þú ert Guð minn, og ég þakka þér, Guð minn, ég vegsama þig.
29 Þakkið Drottni, því að hann er góður, því að miskunn hans varir að eilífu.
145 Davíðs-lofsöngur. Ég vil vegsama þig, ó Guð minn, þú konungur, og prísa nafn þitt um aldur og ævi.
2 Á hverjum degi vil ég prísa þig og lofa nafn þitt um aldur og ævi.
3 Mikill er Drottinn og mjög vegsamlegur, mikilleikur hans er órannsakanlegur.
4 Ein kynslóðin vegsamar verk þín fyrir annarri og kunngjörir máttarverk þín.
5 Þær segja frá tign og dýrð vegsemdar þinnar: "Ég vil syngja um dásemdir þínar."
6 Og um mátt ógnarverka þinna tala þær: "Ég vil segja frá stórvirkjum þínum."
7 Þær minna á þína miklu gæsku og fagna yfir réttlæti þínu.
8 Náðugur og miskunnsamur er Drottinn, þolinmóður og mjög gæskuríkur.
9 Drottinn er öllum góður, og miskunn hans er yfir öllu, sem hann skapar.
10 Öll sköpun þín lofar þig, Drottinn, og dýrkendur þínir prísa þig.
11 Þeir tala um dýrð konungdóms þíns, segja frá veldi þínu.
12 Þeir kunngjöra mönnum veldi þitt, hina dýrlegu tign konungdóms þíns.
13 Konungdómur þinn er konungdómur um allar aldir og ríki þitt stendur frá kyni til kyns. Drottinn er trúfastur í öllum orðum sínum og miskunnsamur í öllum verkum sínum.
14 Drottinn styður alla þá, er ætla að hníga, og reisir upp alla niðurbeygða.
15 Allra augu vona á þig, og þú gefur þeim fæðu þeirra á réttum tíma.
16 Þú lýkur upp hendi þinni og seður allt sem lifir með blessun.
17 Drottinn er réttlátur á öllum sínum vegum og miskunnsamur í öllum sínum verkum.
18 Drottinn er nálægur öllum sem ákalla hann, öllum sem ákalla hann í einlægni.
19 Hann uppfyllir ósk þeirra er óttast hann, og hróp þeirra heyrir hann og hjálpar þeim.
20 Drottinn varðveitir alla þá er elska hann, en útrýmir öllum níðingum.
21 Munnur minn skal mæla orðstír Drottins, allt hold vegsami hans heilaga nafn um aldur og ævi.
15 Þá sagði hún við hann: "Hvernig getur þú sagt: Ég elska þig! þar sem þú ert ekki einlægur við mig? Þrisvar sinnum hefir þú nú blekkt mig og ekki sagt mér, í hverju hið mikla afl þitt sé fólgið."
16 En er hún nauðaði á honum alla daga með orðum sínum og gekk á hann fastlega, þá varð hann dauðleiður á því
17 og sagði henni allt hjarta sitt og mælti til hennar: "Aldrei hefir rakhnífur komið á höfuð mitt, því að ég er Guði helgaður í frá móðurlífi. Væri nú hár mitt skorið, þá hyrfi afl mitt frá mér og ég gjörðist linur og yrði sem allir menn aðrir."
18 Þegar Dalíla sá, að hann hafði sagt henni allt hjarta sitt, þá sendi hún og lét kalla höfðingja Filista, og lét hún segja þeim: "Nú skuluð þér koma, því að hann hefir sagt mér allt hjarta sitt." Þá fóru höfðingjar Filista til hennar og höfðu silfrið með sér.
19 En hún svæfði hann á skauti sínu og kallaði á mann og lét hann skera hárlokkana sjö af höfði honum. Og hún tók að þjá hann, en afl hans var frá honum horfið.
20 Þá sagði hún: "Filistar yfir þig, Samson!" Þá vaknaði hann af svefninum og hugsaði: Ég slepp í þetta sinn sem hin fyrri og slít mig lausan! En hann vissi ekki, að Drottinn var vikinn frá honum.
21 Filistar tóku hann höndum og stungu úr honum augun og fóru með hann niður til Gasa og bundu hann eirfjötrum, og varð hann að draga kvörn í dýflissunni.
22 En höfuðhár hans tók aftur að vaxa, eftir að það hafði verið skorið.
23 Nú söfnuðust höfðingjar Filista saman til þess að færa Dagón, guði sínum, fórn mikla og til þess að gjöra sér glatt, með því að þeir sögðu: "Guð vor hefir gefið Samson, óvin vorn, í vorar hendur."
24 Og er fólkið sá hann, vegsömuðu þeir guð sinn, því að þeir sögðu: "Guð vor hefir gefið óvin vorn í vorar hendur, hann sem eytt hefir land vort og drepið hefir marga menn af oss."
25 En er þeir nú gjörðust glaðir, sögðu þeir: "Látið sækja Samson, til þess að hann skemmti oss." Létu þeir nú sækja Samson úr dýflissunni, og varð hann að skemmta þeim. Og þeir höfðu sett hann milli súlnanna.
26 Þá sagði Samson við sveininn, sem leiddi hann: "Slepptu mér og leyfðu mér að þreifa á súlunum, sem húsið hvílir á, svo að ég geti stutt mig upp við þær."
27 En húsið var fullt af körlum og konum. Þar voru og allir höfðingjar Filista, og uppi á þakinu voru um þrjú þúsund karla og kvenna, sem horfðu á, er Samson skemmti.
28 Þá hrópaði Samson til Drottins og sagði: "Drottinn Guð! Minnstu mín! Styrk mig nú, Guð, í þetta eina sinn, svo að ég geti hefnt mín á Filistum fyrir bæði augun mín í einu!"
29 Því næst þreif Samson í báðar miðsúlurnar, sem húsið hvíldi á, hægri hendinni í aðra og vinstri hendinni í hina, og treysti á.
30 Þá mælti Samson: "Deyi nú sála mín með Filistum!" Síðan lagðist hann á af öllu afli, svo að húsið féll ofan á höfðingjana og allt fólkið, er í því var, og þeir dauðu, sem hann drap um leið og hann beið bana, voru fleiri en þeir, er hann hafði drepið um ævina.
31 Bræður hans fóru ofan og allt ættfólk hans, og tóku þeir hann og fóru upp þaðan með hann og jörðuðu hann millum Sorea og Estaól, í gröf Manóa föður hans. En hann hafði verið dómari í Ísrael í tuttugu ár.
13 Þetta er nú í þriðja sinn, sem ég kem til yðar. Því "aðeins skal framburður gildur vera, að tveir eða þrír beri."
2 Það sem ég sagði yður við aðra komu mína, það segi ég yður nú aftur fjarstaddur, bæði þeim, sem hafa brotlegir orðið, og öðrum: Næsta sinn, sem ég kem, mun ég ekki hlífa neinum,
3 enda krefjist þér sönnunar þess, að Kristur tali í mér. Hann er ekki veikur gagnvart yður, heldur máttugur á meðal yðar.
4 Hann var krossfestur í veikleika, en hann lifir fyrir Guðs kraft. Og einnig vér erum veikir í honum, en munum þó lifa með honum fyrir Guðs kraft, sem hann sýnir yður.
5 Reynið yður sjálfa, hvort þér eruð í trúnni, prófið yður sjálfa. Gjörið þér yður ekki grein fyrir, að Jesús Kristur er í yður? Það skyldi vera, að þér stæðust ekki prófið.
6 En ég vona, að þér komist að raun um, að vér höfum staðist prófið.
7 Vér biðjum til Guðs, að þér gjörið ekki neitt illt, ekki til þess að það sýni ágæti vort, heldur til þess að þér gjörið hið góða. Vér gætum eins sýnst óhæfir.
8 Því að ekki megnum vér neitt gegn sannleikanum, heldur fyrir sannleikann.
9 Vér gleðjumst, þegar vér erum veikir, en þér eruð styrkir. Það, sem vér biðjum um, er að þér verðið fullkomnir.
10 Þess vegna rita ég þetta fjarverandi, til þess að ég þurfi ekki, þegar ég er kominn, að beita hörku, samkvæmt því valdi, sem Drottinn hefur gefið mér. Það er til uppbyggingar, en ekki til niðurbrots.
11 Að öðru leyti, bræður, verið glaðir. Verið fullkomnir, áminnið hver annan, verið samhuga, verið friðsamir. Þá mun Guð kærleikans og friðarins vera með yður.
25 Þar var kona, sem hafði haft blóðlát í tólf ár.
26 Hún hafði orðið margt að þola hjá mörgum læknum, kostað til aleigu sinni, en engan bata fengið, öllu heldur versnað.
27 Hún heyrði um Jesú og kom nú í mannþrönginni að baki honum og snart klæði hans.
28 Hún hugsaði: "Ef ég fæ aðeins snert klæði hans, mun ég heil verða."
29 Jafnskjótt þvarr blóðlát hennar, og hún fann það á sér, að hún var heil af meini sínu.
30 Jesús fann þegar á sjálfum sér, að kraftur hafði farið út frá honum, og hann sneri sér við í mannþrönginni og sagði: "Hver snart klæði mín?"
31 Lærisveinar hans sögðu við hann: "Þú sérð, að mannfjöldinn þrengir að þér, og spyrð þó: Hver snart mig?"
32 Hann litaðist um til að sjá, hver þetta hefði gjört,
33 en konan, sem vissi, hvað fram við sig hafði farið, kom hrædd og skjálfandi, féll til fóta honum og sagði honum allan sannleikann.
34 Jesús sagði við hana: "Dóttir, trú þín hefur bjargað þér. Far þú í friði, og ver heil meina þinna."
by Icelandic Bible Society