Print Page Options
Previous Prev Day Next DayNext

Book of Common Prayer

Daily Old and New Testament readings based on the Book of Common Prayer.
Duration: 861 days
Icelandic Bible (ICELAND)
Version
Sálmarnir 107:33-108:13

33 Hann gjörir fljótin að eyðimörk og uppsprettur að þurrum lendum,

34 frjósamt land að saltsléttu sakir illsku íbúanna.

35 Hann gjörir eyðimörkina að vatnstjörnum og þurrlendið að uppsprettum

36 og lætur hungraða menn búa þar, að þeir megi grundvalla byggilega borg,

37 sá akra og planta víngarða og afla afurða.

38 Og hann blessar þá, svo að þeir margfaldast stórum og fénað þeirra lætur hann eigi fækka.

39 Og þótt þeir fækki og hnígi niður sakir þrengingar af böli og harmi,

40 þá hellir hann fyrirlitning yfir tignarmenn og lætur þá villast um veglaus öræfi,

41 en bjargar aumingjanum úr eymdinni og gjörir ættirnar sem hjarðir.

42 Hinir réttvísu sjá það og gleðjast, og öll illska lokar munni sínum.

43 Hver sem er vitur, gefi gætur að þessu, og menn taki eftir náðarverkum Drottins.

108 Ljóð. Davíðssálmur.

Hjarta mitt er stöðugt, ó Guð, ég vil syngja og leika, vakna þú, sála mín!

Vakna þú, harpa og gígja, ég vil vekja morgunroðann.

Ég vil lofa þig meðal lýðanna, Drottinn, vegsama þig meðal þjóðanna,

því að miskunn þín er himnum hærri, og trúfesti þín nær til skýjanna.

Sýn þig himnum hærri, ó Guð, og dýrð þín breiðist yfir gjörvalla jörðina,

til þess að ástvinir þínir megi frelsast. Hjálpa þú með hægri hendi þinni og bænheyr mig.

Guð hefir sagt í helgidómi sínum: "Ég vil fagna, ég vil skipta Síkem, mæla út Súkkót-dal.

Ég á Gíleað, ég á Manasse, og Efraím er hlíf höfði mínu, Júda veldissproti minn.

10 Móab er mundlaug mín, í Edóm fleygi ég skónum mínum, yfir Filisteu fagna ég."

11 Hver vill fara með mig í örugga borg, hver vill flytja mig til Edóm?

12 Þú hefir útskúfað oss, ó Guð, og þú, Guð, fer eigi út með hersveitum vorum.

13 Veit oss lið gegn fjandmönnunum, því að mannahjálp er ónýt.

Sálmarnir 33

33 Gleðjist, þér réttlátir, yfir Drottni! Hreinlyndum hæfir lofsöngur.

Lofið Drottin með gígjum, leikið fyrir honum á tístrengjaða hörpu.

Syngið honum nýjan söng, knýið strengina ákaft með fagnaðarópi.

Því að orð Drottins er áreiðanlegt, og öll verk hans eru í trúfesti gjörð.

Hann hefir mætur á réttlæti og rétti, jörðin er full af miskunn Drottins.

Fyrir orð Drottins voru himnarnir gjörðir og öll þeirra prýði fyrir anda munns hans.

Hann safnaði vatni hafsins sem í belg, lét straumana í forðabúr.

Öll jörðin óttist Drottin, allir heimsbúar hræðist hann,

því að hann talaði _ og það varð, hann bauð _ þá stóð það þar.

10 Drottinn ónýtir ráð þjóðanna, gjörir að engu áform lýðanna,

11 en ráð Drottins stendur stöðugt um aldur, áform hjarta hans frá kyni til kyns.

12 Sæl er sú þjóð er á Drottin að Guði, sá lýður er hann hefir kjörið sér til eignar.

13 Drottinn lítur niður af himni, sér öll mannanna börn,

14 frá bústað sínum virðir hann fyrir sér alla jarðarbúa,

15 hann sem myndað hefir hjörtu þeirra allra og gefur gætur að öllum athöfnum þeirra.

16 Eigi sigrar konungurinn fyrir gnótt herafla síns, eigi bjargast kappinn fyrir ofurafl sitt.

17 Svikull er víghestur til sigurs, með ofurafli sínu bjargar hann ekki.

18 En augu Drottins hvíla á þeim er óttast hann, á þeim er vona á miskunn hans.

19 Hann frelsar þá frá dauða og heldur lífinu í þeim í hallæri.

20 Sálir vorar vona á Drottin, hann er hjálp vor og skjöldur.

21 Já, yfir honum fagnar hjarta vort, hans heilaga nafni treystum vér.

22 Miskunn þín, Drottinn, sé yfir oss, svo sem vér vonum á þig.

Dómarabókin 16:1-14

16 Samson fór til Gasa. Þar sá hann portkonu eina og gekk inn til hennar.

Þá var Gasabúum sagt svo frá: "Samson er hér kominn." En þeir umkringdu hann og gjörðu honum fyrirsát alla nóttina í borgarhliðinu, en höfðu þó hljótt um sig alla nóttina, með því að þeir hugsuðu: Þegar birtir af degi, skulum vér drepa hann.

En Samson svaf til miðrar nætur. En um miðja nótt reis hann á fætur, þreif hurðirnar á borgarhliðinu, ásamt báðum dyrastöfunum, og kippti þeim upp ásamt slagbrandinum og lagði á herðar sér og bar þær efst upp á fjallið, sem er gegnt Hebron.

Eftir þetta bar svo við, að Samson felldi ástarhug til konu einnar í Sórekdal. Hún hét Dalíla.

Höfðingjar Filista komu til hennar og sögðu við hana: "Ginn þú hann og komstu að því, í hverju hið mikla afl hans er fólgið og með hverju móti vér fáum yfirbugað hann, svo að vér getum bundið hann og þjáð hann, og munum vér gefa þér hver um sig eitt þúsund sikla silfurs og hundraði betur."

Dalíla sagði þá við Samson: "Seg mér, í hverju hið mikla afl þitt er fólgið og með hverju þú verður bundinn, svo að menn eigi alls kostar við þig."

Samson svaraði henni: "Ef menn binda mig með sjö nýjum strengjum, sem ekki eru þurrir orðnir, þá gjörist ég linur og verð eins og hver annar maður."

Þá færðu höfðingjar Filista henni sjö nýja strengi, sem ekki voru þurrir orðnir, og hún batt hann með þeim.

En mennina, er um hann sátu, hafði hún hjá sér í svefnhúsinu. Því næst sagði hún við hann: "Filistar yfir þig, Samson!" Þá sleit hann sundur strengina, eins og hörþráður slitnar sundur, er hann kennir elds, og ekki varð komist fyrir afl hans.

10 Þá sagði Dalíla við Samson: "Sjá, þú hefir blekkt mig og logið að mér! Seg mér nú, með hverju þú verður bundinn."

11 Hann svaraði henni: "Ef menn binda mig með nýjum reipum, sem ekki hafa verið höfð til neinnar vinnu, þá gjörist ég linur og verð sem hver annar maður."

12 Þá tók Dalíla ný reipi og batt hann með þeim og sagði við hann: "Filistar yfir þig, Samson!" og mennirnir, er um hann sátu, voru í svefnhúsinu. En hann sleit þau af armleggjum sér sem þráður væri.

13 Og Dalíla sagði við Samson: "Enn hefir þú blekkt mig og logið að mér. Seg mér, með hverju þú verður bundinn." En hann sagði við hana: "Ef þú vefur hárlokkana sjö á höfði mér saman við uppistöðuna í vef."

14 Og hún festi þá með nagla og sagði við hann: "Filistar yfir þig, Samson!" Þá vaknaði hann af svefninum og kippti út vefjarnaglanum og uppistöðunni.

Postulasagan 7:30-43

30 Að fjörutíu árum liðnum ,birtist honum engill í eyðimörk Sínaífjalls í logandi þyrnirunna.`

31 Móse undraðist sýnina, gekk nær og vildi hyggja að. Þá hljómaði rödd Drottins:

32 ,Ég er Guð feðra þinna, Guð Abrahams, Ísaks og Jakobs.` En Móse skelfdist og þorði ekki að hyggja frekar að.

33 En Drottinn sagði við hann: ,Leys af þér skó þína, því að staðurinn, sem þú stendur á, er heilög jörð.

34 Ég hef sannlega séð áþján lýðs míns á Egyptalandi og heyrt andvörp þeirra og er ofan kominn að frelsa þá. Kom nú, ég vil senda þig til Egyptalands.`

35 Þennan Móse, er þeir afneituðu með því að segja: ,Hver skipaði þig höfðingja og dómara?` hann sendi Guð sem höfðingja og lausnara með fulltingi engilsins, er honum birtist í þyrnirunnanum.

36 Það var Móse, sem leiddi þá út og gjörði undur og tákn á Egyptalandi, í Rauðahafinu og á eyðimörkinni í fjörutíu ár.

37 Þessi er sá Móse, sem sagði við Ísraelsmenn: ,Spámann eins og mig mun Guð upp vekja yður, einn af bræðrum yðar.`

38 Hann er sá, sem var í söfnuðinum í eyðimörkinni, með englinum, er við hann talaði á Sínaífjalli, og með feðrum vorum. Hann tók á móti lifandi orðum að gefa oss.

39 Eigi vildu feður vorir hlýðnast honum, heldur hrundu honum frá sér og þráðu í hjörtum sínum Egyptaland.

40 Þeir sögðu við Aron: ,Gjör oss guði, er fyrir oss fari, því að ekki vitum vér, hvað orðið er af Móse þeim, sem leiddi oss brott af Egyptalandi.`

41 Og á þeim dögum smíðuðu þeir kálf, færðu skurðgoðinu fórn og kættust af verki handa sinna.

42 En Guð sneri sér frá þeim og lét þeim eftir að dýrka her himinsins, eins og ritað er í spámannabókinni: Hvort færðuð þér mér, Ísraels ætt, sláturdýr og fórnir árin fjörutíu í eyðimörkinni?

43 Nei, þér báruð búð Móloks og stjörnu guðsins Refans, myndirnar, sem þér smíðuðuð til þess að tilbiðja þær. Ég mun herleiða yður austur fyrir Babýlon.

Jóhannesarguðspjall 5:1-18

Þessu næst var hátíð Gyðinga. Þá fór Jesús upp til Jerúsalem.

Við Sauðahliðið í Jerúsalem er laug, sem kallast á hebresku Betesda. Þar eru fimm súlnagöng.

Í þeim lá fjöldi sjúkra manna, blindra, haltra og lamaðra [sem biðu hræringar vatnsins.

En engill Drottins fór öðru hverju niður í laugina og hrærði vatnið. Sá sem fyrstur fór ofan í eftir hræring vatnsins, varð heill, hvaða sjúkdómur sem þjáði hann.]

Þarna var maður nokkur, sem hafði verið sjúkur í þrjátíu og átta ár.

Jesús sá hann, þar sem hann lá, og vissi, að hann hafði lengi verið sjúkur. Hann segir við manninn: "Viltu verða heill?"

Hinn sjúki svaraði honum: "Herra, ég hef engan til að láta mig í laugina, þegar vatnið hrærist, og meðan ég er að komast, fer annar ofan í á undan mér."

Jesús segir við hann: "Statt upp, tak rekkju þína og gakk!"

Jafnskjótt varð maðurinn heill, tók rekkju sína og gekk. En þessi dagur var hvíldardagur,

10 og Gyðingarnir sögðu við hinn læknaða: "Í dag er hvíldardagur. Þú mátt ekki bera rekkjuna."

11 Hann svaraði þeim: "Sá sem læknaði mig, sagði við mig: ,Tak rekkju þína og gakk!"`

12 Þeir spurðu hann: "Hver er sá maður, sem sagði þér: ,Tak hana og gakk`?"

13 En læknaði maðurinn vissi ekki, hver hann var, því að Jesús hafði leynst brott, enda var þröng á staðnum.

14 Nokkru síðar hitti Jesús hann í helgidóminum og sagði við hann: "Nú ert þú orðinn heill. Syndga ekki framar, svo að eigi hendi þig annað verra."

15 Maðurinn fór og sagði Gyðingum, að Jesús væri sá sem læknaði hann.

16 Nú tóku Gyðingar að ofsækja Jesú fyrir það, að hann gjörði þetta á hvíldardegi.

17 En hann svaraði þeim: "Faðir minn starfar til þessarar stundar, og ég starfa einnig."

18 Nú sóttu Gyðingar enn fastar að taka hann af lífi, þar sem hann braut ekki aðeins hvíldardagshelgina, heldur kallaði líka Guð sinn eigin föður og gjörði sjálfan sig þannig Guði jafnan.

Icelandic Bible (ICELAND)

by Icelandic Bible Society