Print Page Options
Previous Prev Day Next DayNext

Book of Common Prayer

Daily Old and New Testament readings based on the Book of Common Prayer.
Duration: 861 days
Icelandic Bible (ICELAND)
Version
Sálmarnir 102

102 Bæn hrjáðs manns, þá er hann örmagnast og úthellir kveini sínu fyrir Drottni.

Drottinn, heyr þú bæn mína og hróp mitt berist til þín.

Byrg eigi auglit þitt fyrir mér, þegar ég er í nauðum staddur, hneig að mér eyra þitt, þegar ég kalla, flýt þér að bænheyra mig.

Því að dagar mínir hverfa sem reykur, bein mín brenna sem eldur.

Hjarta mitt er mornað og þornað sem gras, því að ég gleymi að neyta brauðs míns.

Sakir kveinstafa minna er ég sem skinin bein.

Ég líkist pelíkan í eyðimörkinni, er sem ugla í rústum.

Ég ligg andvaka og styn eins og einmana fugl á þaki.

Daginn langan smána óvinir mínir mig, fjandmenn mínir formæla með nafni mínu.

10 Ég et ösku sem brauð og blanda drykk minn tárum

11 sakir reiði þinnar og bræði, af því að þú hefir tekið mig upp og varpað mér burt.

12 Dagar mínir eru sem hallur skuggi, og ég visna sem gras.

13 En þú, Drottinn, ríkir að eilífu, og nafn þitt varir frá kyni til kyns.

14 Þú munt rísa upp til þess að miskunna Síon, því að tími er kominn til þess að líkna henni, já, stundin er komin.

15 Þjónar þínir elska steina hennar og harma yfir öskuhrúgum hennar.

16 Þá munu þjóðirnar óttast nafn Drottins og allir konungar jarðarinnar dýrð þína,

17 því að Drottinn byggir upp Síon og birtist í dýrð sinni.

18 Hann snýr sér að bæn hinna nöktu og fyrirlítur eigi bæn þeirra.

19 Þetta skal skráð fyrir komandi kynslóð, og þjóð, sem enn er ósköpuð, skal lofa Drottin.

20 Því að Drottinn lítur niður af sínum helgu hæðum, horfir frá himni til jarðar

21 til þess að heyra andvarpanir bandingjanna og leysa börn dauðans,

22 að þau mættu kunngjöra nafn Drottins í Síon og lofstír hans í Jerúsalem,

23 þegar þjóðirnar safnast saman og konungsríkin til þess að þjóna Drottni.

24 Hann hefir bugað kraft minn á ferð minni, stytt daga mína.

25 Ég segi: Guð minn, tak mig eigi burt á miðri ævinni. Ár þín vara frá kyni til kyns.

26 Í öndverðu grundvallaðir þú jörðina, og himnarnir eru verk handa þinna.

27 Þeir líða undir lok, en þú varir. Þeir fyrnast sem fat, þú skiptir þeim sem klæðum, og þeir hverfa.

28 En þú ert hinn sami, og þín ár fá engan enda.

29 Synir þjóna þinna munu búa kyrrir og niðjar þeirra standa stöðugir fyrir augliti þínu.

Sálmarnir 107:1-32

107 Þakkið Drottni, því að hann er góður, því að miskunn hans varir að eilífu.

Svo skulu hinir endurleystu Drottins segja, þeir er hann hefir leyst úr nauðum

og safnað saman úr löndunum, frá austri og vestri, frá norðri og suðri.

Þeir reikuðu um eyðimörkina, um veglaus öræfin, og fundu eigi byggilegar borgir,

þá hungraði og þyrsti, sál þeirra vanmegnaðist í þeim.

Þá hrópuðu þeir til Drottins í neyð sinni, hann bjargaði þeim úr angist þeirra

og leiddi þá um slétta leið, svo að þeir komust til byggilegrar borgar.

Þeir skulu þakka Drottni miskunn hans og dásemdarverk hans við mannanna börn,

því að hann mettaði magnþrota sál og fyllti hungraða sál gæðum.

10 Þeir sem sátu í myrkri og niðdimmu, bundnir eymd og járnum,

11 af því að þeir höfðu þrjóskast við orðum Guðs og fyrirlitið ráð Hins hæsta,

12 svo að hann beygði hug þeirra með mæðu, þeir hrösuðu, og enginn liðsinnti þeim.

13 Þá hrópuðu þeir til Drottins í neyð sinni, hann frelsaði þá úr angist þeirra,

14 hann leiddi þá út úr myrkrinu og niðdimmunni og braut sundur fjötra þeirra.

15 Þeir skulu þakka Drottni miskunn hans og dásemdarverk hans við mannanna börn,

16 því að hann braut eirhliðin og mölvaði járnslárnar.

17 Heimskingjar, er vegna sinnar syndsamlegu breytni og vegna misgjörða sinna voru þjáðir,

18 þeim bauð við hverri fæðu og voru komnir nálægt hliðum dauðans.

19 Þá hrópuðu þeir til Drottins í neyð sinni, hann frelsaði þá úr angist þeirra,

20 hann sendi út orð sitt og læknaði þá og bjargaði þeim frá gröfinni.

21 Þeir skulu þakka Drottni miskunn hans og dásemdarverk hans við mannanna börn,

22 og færa þakkarfórnir og kunngjöra verk hans með fögnuði.

23 Þeir sem fóru um hafið á skipum, ráku verslun á hinum miklu vötnum,

24 þeir hafa séð verk Drottins og dásemdir hans á djúpinu.

25 Því að hann bauð og þá kom stormviðri, sem hóf upp bylgjur þess.

26 Þeir hófust til himins, sigu niður í djúpið, þeim féllst hugur í neyðinni.

27 Þeir römbuðu og skjögruðu eins og drukkinn maður, og öll kunnátta þeirra var þrotin.

28 Þá hrópuðu þeir til Drottins í neyð sinni, og hann leiddi þá úr angist þeirra.

29 Hann breytti stormviðrinu í blíðan blæ, svo að bylgjur hafsins urðu hljóðar.

30 Þá glöddust þeir, af því að þær kyrrðust, og hann lét þá komast í höfn þá, er þeir þráðu.

31 Þeir skulu þakka Drottni miskunn hans og dásemdarverk hans við mannanna börn,

32 vegsama hann á þjóðarsamkomunni og lofa hann í hóp öldunganna.

Dómarabókin 14:20-15

20 En kona Samsonar giftist brúðarsveini hans, þeim er hann hafði valið sér að svaramanni.

15 Að nokkrum tíma liðnum kom Samson um hveitiuppskerutímann að vitja konu sinnar og hafði með sér hafurkið. Og hann sagði við föður hennar: "Leyf mér að ganga inn í afhýsið til konu minnar!" En faðir hennar vildi ekki leyfa honum inn að ganga.

Og faðir hennar sagði: "Ég var fullviss um, að þú hefðir fengið megna óbeit á henni og gifti hana því brúðarsveini þínum, en yngri systir hennar er fríðari en hún, hana skalt þú fá í hennar stað."

Þá sagði Samson við þá: "Nú ber ég enga sök á því við Filista, þó að ég vinni þeim mein."

Síðan fór Samson og veiddi þrjú hundruð refi, tók blys, sneri hölunum saman og batt eitt blys millum hverra tveggja hala.

Síðan kveikti hann í blysunum og sleppti því næst refunum inn á kornakra Filista og brenndi þannig bæði kerfaskrúf, óslegið korn, víngarða og olíugarða.

Þá sögðu Filistar: "Hver hefir gjört þetta?" Og menn svöruðu: "Samson, tengdasonur Timnítans, því að hann hefir tekið frá honum konuna og gift hana brúðarsveini hans." Þá fóru Filistar upp þangað og brenndu hana inni og föður hennar.

En Samson sagði við þá: "Fyrst þér aðhafist slíkt, mun ég ekki hætta fyrr en ég hefi hefnt mín á yður."

Síðan barði hann svo óþyrmilega á þeim, að sundur gengu lær og leggir. Og hann fór þaðan og settist að í Etamklettaskoru.

Þá fóru Filistar upp eftir og settu herbúðir sínar í Júda og dreifðu sér um Lekí.

10 Og Júdamenn sögðu: "Hví hafið þér farið í móti oss?" En þeir svöruðu: "Vér erum hingað komnir til þess að binda Samson, svo að vér megum með hann fara sem hann hefir farið með oss."

11 Þá fóru þrjú þúsund manns frá Júda ofan til Etamklettaskoru og sögðu við Samson: "Veist þú ekki, að Filistar drottna yfir oss? Hví hefir þú þá gjört oss þetta?" Hann svaraði þeim: "Eins og þeir fóru með mig, svo hefi ég farið með þá."

12 Þeir sögðu við hann: "Vér erum hingað komnir til að binda þig, svo að vér getum selt þig í hendur Filista." Þá sagði Samson við þá: "Vinnið mér eið að því, að þér sjálfir skulið ekki drepa mig."

13 Þeir svöruðu honum: "Nei, vér munum aðeins binda þig og selja þig í hendur þeirra _ en drepa þig munum vér ekki." Og þeir bundu hann með tveimur reipum nýjum og fóru með hann burt frá klettinum.

14 En er Samson kom til Lekí, fóru Filistar með ópi miklu í móti honum. Þá kom andi Drottins yfir hann, og urðu reipin, sem voru um armleggi hans, sem þræðir í eldi brunnir, og hrukku fjötrarnir sundur af höndum hans.

15 Og hann fann nýjan asnakjálka, rétti út höndina og tók hann og laust með honum þúsund manns.

16 Þá sagði Samson: "Með asnakjálka hefi ég gjörsamlega flegið þá, með asnakjálka hefi ég banað þúsund manns!"

17 Og er hann hafði mælt þetta, varpaði hann kjálkanum úr hendi sér, og var þessi staður upp frá því nefndur Ramat Lekí.

18 En Samson var mjög þyrstur og hrópaði því til Drottins og mælti: "Þú hefir veitt þennan mikla sigur fyrir hönd þjóns þíns, en nú hlýt ég að deyja af þorsta og falla í hendur óumskorinna manna!"

19 Þá klauf Guð holuna, sem var í Lekí, svo að vatn rann fram úr henni. En er hann hafði drukkið, kom andi hans aftur og hann lifnaði við. Fyrir því var hún nefnd Hrópandans lind. Hún er í Lekí fram á þennan dag.

20 En Samson var dómari í Ísrael um daga Filista í tuttugu ár.

Postulasagan 7:17-29

17 Nú tók að nálgast sá tími, er rætast skyldi fyrirheitið, sem Guð hafði gefið Abraham. Fólkið hafði vaxið og margfaldast í Egyptalandi.

18 ,Þá hófst til ríkis þar annar konungur, er eigi vissi skyn á Jósef.`

19 Hann beitti kyn vort slægð og lék feður vora illa. Hann lét þá bera út ungbörn sín, til þess að þjóðin skyldi eigi lífi halda.

20 Um þessar mundir fæddist Móse og var forkunnar fríður. Þrjá mánuði var hann fóstraður í húsi föður síns.

21 En er hann var út borinn, tók dóttir Faraós hann og fóstraði sem sinn son.

22 Móse var fræddur í allri speki Egypta, og hann var máttugur í orðum sínum og verkum.

23 Þegar hann var fertugur að aldri, kom honum í hug að vitja bræðra sinna, Ísraelsmanna.

24 Hann sá einn þeirra verða fyrir ójöfnuði, og rétti hann hlut hans, hefndi þess, sem meingjörðina þoldi, og drap Egyptann.

25 Hann hugði, að bræður hans mundu skilja, að Guð ætlaði að nota hann til að bjarga þeim, en þeir skildu það ekki.

26 Næsta dag kom hann að tveim þeirra, sem slógust. Hann reyndi að stilla til friðar með þeim og sagði: ,Góðir menn, þið eruð bræður, hví eigist þið illt við?`

27 En sá sem beitti náunga sinn órétti, hratt honum frá sér og sagði: ,Hver skipaði þig höfðingja og dómara yfir okkur?

28 Þú munt þó ekki vilja drepa mig, eins og þú drapst Egyptann í gær?`

29 Við þessi orð flýði Móse og settist að sem útlendingur í Midíanslandi. Þar gat hann tvo sonu.

Jóhannesarguðspjall 4:43-54

43 Eftir þessa tvo daga fór hann þaðan til Galíleu.

44 En sjálfur hafði Jesús sagt, að spámaður væri ekki metinn í föðurlandi sínu.

45 Þegar hann kom nú til Galíleu, tóku Galíleumenn honum vel, þar eð þeir höfðu séð allt sem hann gjörði á hátíðinni í Jerúsalem, enda höfðu þeir sjálfir sótt hátíðina.

46 Nú kom hann aftur til Kana í Galíleu, þar sem hann hafði gjört vatn að víni. Í Kapernaum var konungsmaður nokkur, sem átti sjúkan son.

47 Þegar hann frétti, að Jesús væri kominn frá Júdeu til Galíleu, fór hann til hans og bað hann að koma niður eftir og lækna son sinn. En hann var dauðvona.

48 Þá sagði Jesús við hann: "Þér trúið ekki, nema þér sjáið tákn og stórmerki."

49 Konungsmaður bað hann: "Herra, kom þú áður en barnið mitt andast."

50 Jesús svaraði: "Far þú, sonur þinn lifir." Maðurinn trúði því orði, sem Jesús mælti til hans, og fór af stað.

51 En meðan hann var á leiðinni ofan eftir, mættu honum þjónar hans og sögðu, að sonur hans væri á lífi.

52 Hann spurði þá, hvenær honum hefði farið að létta, og þeir svöruðu: "Í gær upp úr hádegi fór hitinn úr honum."

53 Þá sá faðirinn, að það var á þeirri stundu, þegar Jesús hafði sagt við hann: "Sonur þinn lifir." Og hann tók trú og allt hans heimafólk.

54 Þetta var annað táknið, sem Jesús gjörði, þegar hann kom frá Júdeu til Galíleu.

Icelandic Bible (ICELAND)

by Icelandic Bible Society