Book of Common Prayer
105 Þakkið Drottni, ákallið nafn hans, gjörið máttarverk hans kunn meðal þjóðanna!
2 Syngið fyrir honum, leikið fyrir honum, talið um öll hans dásemdarverk.
3 Hrósið yður af hans helga nafni, hjarta þeirra er leita Drottins gleðjist.
4 Leitið Drottins og máttar hans, stundið sífellt eftir augliti hans.
5 Minnist dásemdarverka hans, þeirra er hann gjörði, tákna hans og refsidóma munns hans,
6 þér niðjar Abrahams, þjónar hans, þér synir Jakobs, hans útvöldu.
7 Hann er Drottinn, vor Guð, um víða veröld ganga dómar hans.
8 Hann minnist að eilífu sáttmála síns, orðs þess, er hann hefir gefið þúsundum kynslóða,
9 sáttmálans, er hann gjörði við Abraham, og eiðs síns við Ísak,
10 þess er hann setti sem lög fyrir Jakob, eilífan sáttmála fyrir Ísrael,
11 þá er hann mælti: Þér mun ég gefa Kanaanland sem erfðahlut yðar.
12 Þegar þeir voru fámennur hópur, örfáir og bjuggu þar útlendingar,
13 þá fóru þeir frá einni þjóð til annarrar og frá einu konungsríki til annars lýðs.
14 Hann leið engum að kúga þá og hegndi konungum þeirra vegna.
15 "Snertið eigi við mínum smurðu og gjörið eigi spámönnum mínum mein."
16 Þá er hann kallaði hallæri yfir landið, braut í sundur hverja stoð brauðsins,
17 þá sendi hann mann á undan þeim, Jósef var seldur sem þræll.
18 Þeir þjáðu fætur hans með fjötrum, hann var lagður í járn,
19 allt þar til er orð hans rættust, og orð Drottins létu hann standast raunina.
20 Konungur sendi boð og lét hann lausan, drottnari þjóðanna leysti fjötra hans.
21 Hann gjörði hann að herra yfir húsi sínu og að drottnara yfir öllum eigum sínum,
22 að hann gæti fjötrað höfðingja eftir vild og kennt öldungum hans speki.
23 Síðan kom Ísrael til Egyptalands, Jakob var gestur í landi Kams.
24 Og Guð gjörði lýð sinn mjög mannmargan og lét þá verða fleiri en fjendur þeirra.
25 Hann sneri hjörtum Egypta til haturs við lýð sinn, til lævísi við þjóna sína.
26 Hann sendi Móse, þjón sinn, og Aron, er hann hafði útvalið,
27 hann gjörði tákn sín á þeim og undur í landi Kams.
28 Hann sendi sorta og myrkvaði landið, en þeir gáfu orðum hans engan gaum,
29 hann breytti vötnum þeirra í blóð og lét fiska þeirra deyja,
30 land þeirra varð kvikt af froskum, alla leið inn í svefnherbergi konungs,
31 hann bauð, þá komu flugur, mývargur um öll héruð þeirra,
32 hann gaf þeim hagl fyrir regn, bálandi eld í land þeirra,
33 hann laust vínvið þeirra og fíkjutré og braut sundur trén í héruðum þeirra,
34 hann bauð, þá kom jarðvargur og óteljandi engisprettur,
35 sem átu upp allar jurtir í landi þeirra og átu upp ávöxtinn af jörð þeirra,
36 hann laust alla frumburði í landi þeirra, frumgróða alls styrkleiks þeirra.
37 Síðan leiddi hann þá út með silfri og gulli, enginn hrasaði af kynkvíslum hans.
38 Egyptaland gladdist yfir burtför þeirra, því að ótti við þá var fallinn yfir þá.
39 Hann breiddi út ský sem hlíf og eld til þess að lýsa um nætur.
40 Þeir báðu, þá lét hann lynghæns koma og mettaði þá með himnabrauði.
41 Hann opnaði klett, svo að vatn vall upp, rann sem fljót um eyðimörkina.
42 Hann minntist síns heilaga heits við Abraham þjón sinn
43 og leiddi lýð sinn út með gleði, sína útvöldu með fögnuði.
44 Og hann gaf þeim lönd þjóðanna, það sem þjóðirnar höfðu aflað með striti, fengu þeir til eignar,
45 til þess að þeir skyldu halda lög hans og varðveita lögmál hans. Halelúja.
14 Samson fór niður til Timna og sá konu eina þar í Timna. Var hún ein af dætrum Filista.
2 Síðan fór hann heim aftur og sagði föður sínum og móður frá þessu og mælti: "Ég hefi séð konu eina í Timna. Er hún ein af dætrum Filista. Takið þið hana nú mér til handa að eiginkonu."
3 En faðir hans og móðir sögðu við hann: "Er þá engin kona meðal dætra frænda þinna og í öllu fólki mínu, að þú þurfir að fara og taka þér konu af Filistum, sem eru óumskornir?" Samson svaraði föður sínum: "Tak hana mér til handa, því að hún geðjast augum mínum."
4 En faðir hans og móðir vissu ekki, að þetta var frá Drottni, og að hann leitaði færis við Filistana. Um þær mundir drottnuðu Filistar yfir Ísrael.
5 Þá fóru þau Samson og faðir hans og móðir niður til Timna. Og er þau komu að víngörðum Timna, þá kom ungt ljón öskrandi í móti honum.
6 Þá kom andi Drottins yfir hann, svo að hann sleit það sundur, eins og menn slíta sundur hafurkið, og hann hafði þó ekkert í hendinni. En eigi sagði hann föður sínum né móður frá því, er hann hafði gjört.
7 Síðan fór Samson ofan og talaði við konuna, og hún geðjaðist augum hans.
8 Eftir nokkurn tíma kom hann aftur að sækja hana. Vék hann þá af leið til þess að sjá dauða ljónið, og sjá, býflugur voru í ljónshræinu og hunang.
9 Og hann tók það í lófa sér, hélt síðan áfram og át, og hann fór til föður síns og móður og gaf þeim, og þau átu. En ekki sagði hann þeim frá því, að hann hefði tekið hunangið úr ljónshræinu.
10 Því næst fór faðir hans ofan til konunnar, og gjörði Samson þar veislu, því að sá var háttur ungra manna.
11 En er þeir sáu hann, fengu þeir honum þrjátíu brúðarsveina, er vera skyldu með honum.
12 Og Samson sagði við þá: "Ég mun bera upp fyrir yður gátu eina. Ef þér fáið ráðið hana á þessum sjö veisludögum og getið hennar, þá mun ég gefa yður þrjátíu kyrtla og þrjátíu hátíðaklæðnaði.
13 En ef þér getið ekki ráðið hana, þá skuluð þér gefa mér þrjátíu kyrtla og þrjátíu hátíðaklæðnaði." Þeir svöruðu honum: "Ber þú upp gátu þína, svo að vér megum heyra hana."
14 Þá sagði hann við þá: "Æti gekk út af etanda og sætleiki gekk út af hinum sterka." Og liðu svo þrír dagar að þeir gátu ekki ráðið gátuna.
15 Á fjórða degi sögðu þeir við konu Samsonar: "Ginn þú bónda þinn til að segja oss ráðningu gátunnar, ella munum vér þig í eldi brenna og hús föður þíns. Hafið þér boðið oss til þess að féfletta oss? Er ekki svo?"
16 Þá grét kona Samsonar og sagði við hann: "Hatur hefir þú á mér, en enga ást, þú hefir borið upp gátu fyrir samlöndum mínum, en ekki sagt mér ráðningu hennar." Hann svaraði henni: "Sjá, ég hefi ekki sagt föður mínum og móður minni ráðningu hennar og ætti þó að segja þér hana?"
17 Og hún grét og barmaði sér við hann sjö dagana, sem veislan stóð yfir, og á sjöunda degi sagði hann henni ráðninguna, af því að hún gekk svo fast á hann. En hún sagði samlöndum sínum ráðningu gátunnar.
18 Þá sögðu borgarmenn við hann á sjöunda degi, áður sól settist: "Hvað er sætara en hunang? Og hvað er sterkara en ljón?" Samson sagði við þá: "Ef þér hefðuð ekki erjað með kvígu minni, munduð þér ekki hafa ráðið gátu mína."
19 Þá kom andi Drottins yfir hann, svo að hann fór ofan til Askalon og drap þrjátíu menn af þeim, tók klæðnaði þeirra og gaf þá þeim að hátíðaklæðum, er ráðið höfðu gátuna. Og hann varð ákaflega reiður og fór upp til húss föður síns.
15 Allir sem í ráðinu sátu, störðu á hann og sáu, að ásjóna hans var sem engils ásjóna.
7 Þá spurði æðsti presturinn: "Er þessu svo farið?"
2 Stefán svaraði: "Heyrið mig, bræður og feður. Guð dýrðarinnar birtist föður vorum, Abraham, er hann var enn í Mesópótamíu, áður en hann settist að í Haran,
3 og sagði við hann: ,Far þú burt úr landi þínu og frá ættfólki þínu til landsins, sem ég mun vísa þér á.`
4 Þá fór hann burt úr Kaldealandi og settist að í Haran. En eftir lát föður hans leiddi Guð hann þaðan til þessa lands, sem þér nú byggið.
5 Ekki gaf hann honum óðal hér, ekki eitt fótmál. En hann hét honum að gefa honum landið til eignar og niðjum hans eftir hann, þótt hann væri enn barnlaus.
6 Guð sagði, að niðjar hans mundu búa sem útlendingar í ókunnu landi og verða þjáðir og þrælkaðir í fjögur hundruð ár.
7 ,En þjóðina, sem þrælkar þá, mun ég dæma,` sagði Guð, ,og eftir það munu þeir fara þaðan og þjóna mér á þessum stað.`
8 Þá gaf hann honum sáttmála umskurnarinnar. Síðan gat Abraham Ísak og umskar hann á áttunda degi, og Ísak gat Jakob og Jakob ættfeðurna tólf.
9 Og ættfeðurnir öfunduðu Jósef og seldu hann til Egyptalands. En Guð var með honum,
10 frelsaði hann úr öllum þrengingum hans og veitti honum hylli og visku í augum Faraós, Egyptalandskonungs, svo að hann skipaði hann höfðingja yfir Egyptaland og yfir allt sitt hús.
11 Nú kom hallæri á öllu Egyptalandi og Kanaan og mikil þrenging, og feður vorir höfðu ekki lífsbjörg.
12 En er Jakob heyrði, að korn væri til á Egyptalandi, sendi hann feður vora þangað hið fyrra sinn.
13 Og í síðara skiptið gaf Jósef sig fram við bræður sína, og Faraó varð kunn ætt Jósefs.
14 En Jósef sendi eftir Jakobi föður sínum og öllu ættfólki sínu, sjötíu og fimm manns,
15 og Jakob fór suður til Egyptalands. Þar andaðist hann og feður vorir.
16 Þeir voru fluttir til Síkem og lagðir í grafreitinn, er Abraham hafði keypt fyrir silfur af sonum Hemors í Síkem.
27 Í sama bili komu lærisveinar hans og furðuðu sig á því, að hann var að tala við konu. Þó sagði enginn: "Hvað viltu?" eða: "Hvað ertu að tala við hana?"
28 Nú skildi konan eftir skjólu sína, fór inn í borgina og sagði við menn:
29 "Komið og sjáið mann, er sagði mér allt, sem ég hef gjört. Skyldi hann vera Kristur?"
30 Þeir fóru úr borginni og komu til hans.
31 Meðan þessu fór fram, báðu lærisveinarnir hann: "Rabbí, fá þér að eta."
32 Hann svaraði þeim: "Ég hef mat að eta, sem þér vitið ekki um."
33 Þá sögðu lærisveinarnir sín á milli: "Skyldi nokkur hafa fært honum að eta?"
34 Jesús sagði við þá: "Minn matur er að gjöra vilja þess, sem sendi mig, og fullna verk hans.
35 Segið þér ekki: Enn eru fjórir mánuðir, þá kemur uppskeran? En ég segi yður: Lítið upp og horfið á akrana, þeir eru hvítir til uppskeru.
36 Sá sem upp sker, tekur þegar laun og safnar ávexti til eilífs lífs, svo að sá gleðjist, er sáir, og með honum hinn, sem upp sker.
37 Hér sannast orðtakið: Einn sáir, og annar sker upp.
38 Ég sendi yður að skera upp það sem þér hafið ekki unnið við. Aðrir hafa erfiðað, en þér eruð gengnir inn í erfiði þeirra."
39 Margir Samverjar úr þessari borg trúðu á hann vegna orða konunnar, sem vitnaði um það, að hann hefði sagt henni allt, sem hún hafði gjört.
40 Þegar því Samverjarnir komu til hans, báðu þeir hann að staldra við hjá sér. Var hann þar um kyrrt tvo daga.
41 Og miklu fleiri tóku trú, þegar þeir heyrðu hann sjálfan.
42 Þeir sögðu við konuna: "Það er ekki lengur sakir orða þinna, að vér trúum, því að vér höfum sjálfir heyrt hann og vitum, að hann er sannarlega frelsari heimsins."
by Icelandic Bible Society