Print Page Options
Previous Prev Day Next DayNext

Book of Common Prayer

Daily Old and New Testament readings based on the Book of Common Prayer.
Duration: 861 days
Icelandic Bible (ICELAND)
Version
Sálmarnir 66-67

66 Til söngstjórans. Ljóð. Sálmur. Fagnið fyrir Guði, gjörvallt jarðríki,

syngið um hans dýrlega nafn, gjörið lofstír hans vegsamlegan.

Mælið til Guðs: Hversu óttaleg eru verk þín, sakir mikilleiks máttar þíns hræsna óvinir þínir fyrir þér.

Öll jörðin lúti þér og lofsyngi þér, lofsyngi nafni þínu. [Sela]

Komið og sjáið verkin Guðs, sem er óttalegur í breytni sinni gagnvart mönnunum.

Hann breytti hafinu í þurrlendi, þeir fóru fótgangandi yfir ána. Þá glöddumst vér yfir honum.

Hann ríkir um eilífð sakir veldis síns, augu hans gefa gætur að þjóðunum, uppreistarmenn mega eigi láta á sér bæra. [Sela]

Þér lýðir, lofið Guð vorn og látið hljóma lofsöng um hann.

Hann veitti sálum vorum lífið og lét oss eigi verða valta á fótum.

10 Því að þú hefir rannsakað oss, ó Guð, hreinsað oss, eins og silfur er hreinsað.

11 Þú hefir varpað oss í fangelsi, lagt byrði á lendar vorar.

12 Þú hefir látið menn ganga yfir höfuð vor, vér höfum farið gegnum eld og vatn, en nú hefir þú leitt oss út á víðan vang.

13 Ég kem í hús þitt með brennifórnir, efni heit mín við þig,

14 þau er varir mínar hétu og munnur minn nefndi, þá er ég var í nauðum staddur.

15 Ég færi þér brennifórn af feitum dýrum, ásamt fórnarilm af hrútum, ég fórna nautum og höfrum. [Sela]

16 Komið, hlýðið til, allir þér er óttist Guð, að ég megi segja frá, hvað hann hefir gjört fyrir mig.

17 Til hans hrópaði ég með munni mínum, en lofgjörð lá undir tungu minni.

18 Ef ég hygg á illt í hjarta mínu, þá heyrir Drottinn ekki.

19 En Guð hefir heyrt, gefið gaum að bænarópi mínu.

20 Lofaður sé Guð, er eigi vísaði bæn minni á bug né tók miskunn sína frá mér.

67 Til söngstjórans. Með strengjaleik. Sálmur. Ljóð.

Guð sé oss náðugur og blessi oss, hann láti ásjónu sína lýsa meðal vor, [Sela]

svo að þekkja megi veg þinn á jörðunni og hjálpræði þitt meðal allra þjóða.

Lýðirnir skulu lofa þig, ó Guð, þig skulu gjörvallir lýðir lofa.

Gleðjast og fagna skulu þjóðirnar, því að þú dæmir lýðina réttvíslega og leiðir þjóðirnar á jörðunni. [Sela]

Lýðirnir skulu lofa þig, ó Guð, þig skulu gjörvallir lýðir lofa.

Jörðin hefir gefið ávöxt sinn, Guð, vor Guð, blessar oss.

Guð blessi oss, svo að öll endimörk jarðar megi óttast hann.

Sálmarnir 19

19 Til söngstjórans. Davíðssálmur.

Himnarnir segja frá Guðs dýrð, og festingin kunngjörir verkin hans handa.

Hver dagurinn kennir öðrum, hver nóttin boðar annarri speki.

Engin ræða, engin orð, ekki heyrist raust þeirra.

Og þó fer hljómur þeirra um alla jörðina, og orð þeirra ná til endimarka heims. Þar reisti hann röðlinum tjald.

Hann er sem brúðguminn, er gengur út úr svefnhúsi sínu, hlakkar sem hetja til að renna skeið sitt.

Við takmörk himins rennur hann upp, og hringferð hans nær til enda himins, og ekkert dylst fyrir geislaglóð hans. _________

Lögmál Drottins er lýtalaust, hressir sálina, vitnisburður Drottins er áreiðanlegur, gjörir hinn fávísa vitran.

Fyrirmæli Drottins eru rétt, gleðja hjartað. Boðorð Drottins eru skír, hýrga augun.

10 Ótti Drottins er hreinn, varir að eilífu. Ákvæði Drottins eru sannleikur, eru öll réttlát.

11 Þau eru dýrmætari heldur en gull, já, gnóttir af skíru gulli, og sætari en hunang, já, hunangsseimur.

12 Þjónn þinn varðveitir þau kostgæfilega, að halda þau hefir mikil laun í för með sér.

13 En hver verður var við yfirsjónirnar? Sýkna mig af leyndum brotum!

14 Og varðveit þjón þinn fyrir ofstopamönnum, lát þá eigi drottna yfir mér. Þá verð ég lýtalaus og sýknaður af miklu afbroti.

15 Ó að orðin af munni mínum yrðu þér þóknanleg og hugsanir hjarta míns kæmu fram fyrir auglit þitt, þú Drottinn, hellubjarg mitt og frelsari!

Sálmarnir 46

46 Til söngstjórans. Eftir Kóraíta. Fyrir kvenraddir. Ljóð.

Guð er oss hæli og styrkur, örugg hjálp í nauðum.

Fyrir því hræðumst vér eigi, þótt jörðin haggist og fjöllin bifist og steypist í skaut sjávarins.

Látum vötnin gnýja og freyða, látum fjöllin gnötra fyrir æðigangi hafsins. [Sela]

Elfar-kvíslir gleðja Guðs borg, heilagan bústað Hins hæsta.

Guð býr í henni, eigi mun hún bifast, Guð hjálpar henni, þegar birtir af degi.

Þjóðir gnúðu, ríki riðuðu, raust hans þrumaði, jörðin nötraði.

Drottinn hersveitanna er með oss, Jakobs Guð vort vígi. [Sela]

Komið, skoðið dáðir Drottins, hversu hann framkvæmir furðuverk á jörðu.

10 Hann stöðvar styrjaldir til endimarka jarðar, brýtur bogann, slær af oddinn, brennir skjöldu í eldi.

11 "Verið kyrrir og viðurkennið, að ég er Guð, hátt upphafinn meðal þjóðanna, hátt upphafinn á jörðu."

12 Drottinn hersveitanna er með oss, Jakobs Guð vort vígi. [Sela]

Dómarabókin 11:1-11

11 Jefta Gíleaðíti var kappi mikill, en hann var skækjuson. Gíleað hafði getið Jefta,

og er kona Gíleaðs fæddi honum sonu og synir hennar uxu upp, þá ráku þeir Jefta burt og sögðu við hann: "Eigi skalt þú taka arf í ætt vorri, því að þú ert sonur annarrar konu."

Þá flýði Jefta burt frá bræðrum sínum og settist að í landinu Tób. Þá söfnuðust til Jefta lausingjar og fylgdu þeir honum.

Nokkrum tíma eftir þetta hófu Ammónítar hernað á hendur Ísrael.

En er Ammónítar herjuðu á Ísrael, lögðu öldungarnir í Gíleað af stað til þess að sækja Jefta í landið Tób.

Og þeir sögðu við Jefta: "Kom þú og ver þú fyrirliði vor, og munum vér berjast við Ammóníta."

Jefta sagði við öldungana í Gíleað: "Hafið þér ekki lagt hatur á mig og rekið mig burt úr ætt minni? Hví komið þér þá nú til mín, þá er þér eruð í nauðum staddir?"

Öldungarnir í Gíleað sögðu við Jefta: "Fyrir því erum vér nú aftur komnir til þín, og ef þú fer með oss og berst við Ammóníta, þá skalt þú vera höfðingi vor, allra þeirra er búa í Gíleað."

Þá sagði Jefta við öldungana í Gíleað: "Ef þér sækið mig til þess að berjast við Ammóníta, og Drottinn gefur þá á mitt vald, þá vil ég vera höfðingi yfir yður!"

10 Þá sögðu öldungarnir í Gíleað við Jefta: "Drottinn veri heyrnarvottur að tali voru og hegni oss, ef vér gjörum eigi það, sem þú hefir mælt."

11 Og Jefta fór með öldungunum í Gíleað, og lýðurinn tók hann til höfðingja yfir sig og fyrirliða. Og Jefta talaði öll orð sín frammi fyrir Drottni í Mispa.

Dómarabókin 11:29-40

29 Þá kom andi Drottins yfir Jefta, og hann fór um Gíleað og Manasse og hann fór til Mispe í Gíleað, og frá Mispe í Gíleað fór hann í móti Ammónítum.

30 Og Jefta gjörði Drottni heit og sagði: "Ef þú gefur Ammóníta í hendur mér,

31 þá skal sá, er fyrstur gengur út úr dyrum húss míns í móti mér, er ég sný aftur heilu og höldnu frá Ammónítum, heyra Drottni, og skal ég fórna honum að brennifórn."

32 Síðan fór Jefta í móti Ammónítum til þess að berjast við þá, og Drottinn gaf þá í hendur honum.

33 Hann vann mjög mikinn sigur á þeim frá Aróer alla leið til Minnít, tuttugu borgir, og til Abel-Keramím. Þannig urðu Ammónítar að lúta í lægra haldi fyrir Ísraelsmönnum.

34 En er Jefta kom heim til húss síns í Mispa, sjá, þá gekk dóttir hans út í móti honum með bumbum og dansi. Hún var einkabarnið hans. Hann átti engan son né dóttur nema hana.

35 Og er hann sá hana, reif hann klæði sín og sagði: "Æ, dóttir mín, mjög beygir þú mig nú. Sjálf veldur þú mér nú sárustum trega. Ég hefi upp lokið munni mínum gagnvart Drottni, og ég get ekki tekið það aftur."

36 En hún sagði við hann: "Faðir minn, ef þú hefir upp lokið munni þínum gagnvart Drottni, þá gjör þú við mig eins og fram gengið er af munni þínum, fyrst Drottinn hefir látið þig koma fram hefndum á óvinum þínum, Ammónítum."

37 Og enn sagði hún við föður sinn: "Gjör þetta fyrir mig: Lát mig fá tveggja mánaða frest, svo að ég geti farið hér ofan í fjöllin og grátið það með stallsystrum mínum, að ég verð að deyja ung mær."

38 Hann sagði: "Far þú!" og lét hana burt fara í tvo mánuði. Fór hún þá burt með stallsystrum sínum og grét það á fjöllunum, að hún varð að deyja ung mær.

39 En að tveim mánuðum liðnum sneri hún aftur til föður síns, og hann gjörði við hana samkvæmt heiti því, er hann hafði unnið. En hún hafði aldrei karlmann kennt. Og varð það siður í Ísrael:

40 Ár frá ári fara Ísraels dætur að lofsyngja dóttur Jefta Gíleaðíta, fjóra daga á ári hverju.

Síðara bréf Páls til Kori 11:21-31

21 Ég segi það mér til minnkunar, að í þessu höfum vér sýnt oss veika. En þar sem aðrir láta drýgindalega, _ ég tala fávíslega _, þar gjöri ég það líka.

22 Eru þeir Hebrear? Ég líka. Eru þeir Ísraelítar? Ég líka. Eru þeir Abrahams niðjar? Ég líka.

23 Eru þeir þjónar Krists? _ Nú tala ég eins og vitfirringur! _ Ég fremur. Meira hef ég unnið, oftar verið í fangelsi, fleiri högg þolað og oft dauðans hættu.

24 Af Gyðingum hef ég fimm sinnum fengið höggin þrjátíu og níu,

25 þrisvar verið húðstrýktur, einu sinni verið grýttur, þrisvar beðið skipbrot, verið sólarhring í sjó.

26 Ég hef verið á sífelldum ferðalögum, komist í hann krappan í ám, lent í háska af völdum ræningja, í háska af völdum samlanda og af völdum heiðingja, í háska í borgum og í óbyggðum, á sjó og meðal falsbræðra.

27 Ég hef stritað og erfiðað, átt margar svefnlausar nætur, verið hungraður og þyrstur og iðulega fastað, og ég hef verið kaldur og klæðlaus.

28 Og ofan á allt annað bætist það, sem mæðir á mér hvern dag, áhyggjan fyrir öllum söfnuðunum.

29 Hver er sjúkur, án þess að ég sé sjúkur? Hver hrasar, án þess að ég líði?

30 Ef ég á að hrósa mér, vil ég hrósa mér af veikleika mínum.

31 Guð og faðir Drottins Jesú, hann sem blessaður er að eilífu, veit að ég lýg ekki.

Markúsarguðspjall 4:35-41

35 Að kvöldi sama dags sagði hann við þá: "Förum yfir um!"

36 Þeir skildu þá við mannfjöldann og tóku hann með sér, þar sem hann var, í bátnum, en aðrir bátar voru með honum.

37 Þá brast á stormhrina mikil, og féllu öldurnar inn í bátinn, svo við lá, að hann fyllti.

38 Jesús var í skutnum og svaf á kodda. Þeir vöktu hann og sögðu við hann: "Meistari, hirðir þú ekki um, að vér förumst?"

39 Hann vaknaði, hastaði á vindinn og sagði við vatnið: "Þegi þú, haf hljótt um þig!" Þá lægði vindinn og gerði stillilogn.

40 Og hann sagði við þá: "Hví eruð þér hræddir, hafið þér enn enga trú?"

41 En þeir urðu miklum ótta lostnir og sögðu hver við annan: "Hver er þessi? Jafnvel vindur og vatn hlýða honum."

Icelandic Bible (ICELAND)

by Icelandic Bible Society