Book of Common Prayer
88 Ljóð. Kóraíta-sálmur. Til söngstjórans. Syngist með Makalat-lagi. Hemans-maskíl Esraíta.
2 Drottinn, Guð minn, ég kalla um daga, um nætur hrópa ég frammi fyrir þér.
3 Lát bæn mína koma fyrir þig, hneig eyra að hrópi mínu,
4 því að sál mín er mett orðin af böli, og líf mitt nálægist Hel.
5 Ég er talinn með þeim, sem gengnir eru til grafar, ég er sem magnþrota maður.
6 Mér er fenginn bústaður með framliðnum, eins og vegnum mönnum, er liggja í gröfinni, er þú minnist eigi framar, því að þeir eru hrifnir burt úr hendi þinni.
7 Þú hefir lagt mig í gryfju undirheima, í myrkrið niðri í djúpinu.
8 Reiði þín hvílir á mér, og alla boða þína hefir þú látið skella á mér. [Sela]
9 Þú hefir fjarlægt frá mér kunningja mína, gjört mig að andstyggð í augum þeirra. Ég er byrgður inni og kemst ekki út,
10 augu mín eru döpruð af eymd. Ég ákalla þig, Drottinn, dag hvern, breiði út hendurnar í móti þér.
11 Gjörir þú furðuverk vegna framliðinna, eða munu hinir dauðu rísa upp til þess að lofa þig? [Sela]
12 Er sagt frá miskunn þinni í gröfinni, frá trúfesti þinni í undirdjúpunum?
13 Eru furðuverk þín kunngjörð í myrkrinu eða réttlæti þitt í landi gleymskunnar?
14 En ég hrópa til þín, Drottinn, og á morgnana kemur bæn mín fyrir þig.
15 Hví útskúfar þú, Drottinn, sálu minni, hylur auglit þitt fyrir mér?
16 Ég er hrjáður og aðþrengdur frá æsku, ég ber skelfingar þínar og er ráðþrota.
17 Reiðiblossar þínir ganga yfir mig, ógnir þínar eyða mér.
18 Þær umkringja mig eins og vötn allan liðlangan daginn, lykja um mig allar saman.
19 Þú hefir fjarlægt frá mér ástvini og félaga og gjört myrkrið að kunningja mínum.
91 Sæll er sá, er situr í skjóli Hins hæsta, sá er gistir í skugga Hins almáttka,
2 sá er segir við Drottin: "Hæli mitt og háborg, Guð minn, er ég trúi á!"
3 Hann frelsar þig úr snöru fuglarans, frá drepsótt glötunarinnar,
4 hann skýlir þér með fjöðrum sínum, undir vængjum hans mátt þú hælis leita, trúfesti hans er skjöldur og verja.
5 Eigi þarft þú að óttast ógnir næturinnar, eða örina, sem flýgur um daga,
6 drepsóttina, er reikar um í dimmunni, eða sýkina, er geisar um hádegið.
7 Þótt þúsund falli þér við hlið og tíu þúsund þér til hægri handar, þá nær það ekki til þín.
8 Þú horfir aðeins á með augunum, sér hversu óguðlegum er endurgoldið.
9 Þitt hæli er Drottinn, þú hefir gjört Hinn hæsta að athvarfi þínu.
10 Engin ógæfa hendir þig, og engin plága nálgast tjald þitt.
11 Því að þín vegna býður hann út englum sínum til þess að gæta þín á öllum vegum þínum.
12 Þeir munu bera þig á höndum sér, til þess að þú steytir ekki fót þinn við steini.
13 Þú skalt stíga ofan á höggorma og nöðrur, troða fótum ljón og dreka.
14 "Af því að hann leggur ást á mig, mun ég frelsa hann, ég bjarga honum, af því að hann þekkir nafn mitt.
15 Ákalli hann mig, mun ég bænheyra hann, ég er hjá honum í neyðinni, ég frelsa hann og gjöri hann vegsamlegan.
16 Ég metta hann með fjöld lífdaga og læt hann sjá hjálpræði mitt."
92 Gott er að lofa Drottin og lofsyngja nafni þínu, þú Hinn hæsti,
2 að kunngjöra miskunn þína að morgni og trúfesti þína um nætur
3 á tístrengjað hljóðfæri og hörpu með strengjaleik gígjunnar.
4 Þú hefir glatt mig, Drottinn, með dáð þinni, yfir handaverkum þínum fagna ég.
5 Hversu mikil eru verk þín, Drottinn, harla djúpar hugsanir þínar.
6 Fíflið eitt skilur eigi, og fáráðlingurinn einn skynjar eigi þetta.
7 Þegar óguðlegir greru sem gras og allir illgjörðamennirnir blómguðust, þá var það til þess að þeir skyldu afmáðir verða að eilífu,
8 en þú sem ert á hæðum, ert til að eilífu, Drottinn.
9 Því sjá, óvinir þínir, Drottinn, því sjá, óvinir þínir farast, allir illgjörðamennirnir tvístrast.
10 En mig lætur þú bera hornið hátt eins og vísundinn, mig hressir þú með ferskri olíu.
11 Auga mitt lítur með gleði á fjandmenn mína, eyra mitt heyrir með gleði um níðingana, er rísa gegn mér.
12 Hinir réttlátu gróa sem pálminn, vaxa sem sedrustréð á Líbanon.
13 Þeir eru gróðursettir í húsi Drottins, gróa í forgörðum Guðs vors.
14 Jafnvel í hárri elli bera þeir ávöxt, þeir eru safamiklir og grænir.
15 Þeir kunngjöra, að Drottinn er réttlátur, klettur minn, sem ekkert ranglæti er hjá.
9 Abímelek Jerúbbaalsson fór til Síkem til móðurbræðra sinna og talaði við þá og við allt frændlið móðurættar sinnar á þessa leið:
2 "Talið svo í eyru allra Síkembúa: ,Hvort mun yður betra, að sjötíu menn, allir synir Jerúbbaals, drottni yfir yður, eða að einn maður drottni yfir yður?` Minnist þess og, að ég er yðar hold og bein."
3 Móðurbræður hans töluðu öll þessi orð um hann í eyru Síkembúa, svo að hugur þeirra hneigðist að Abímelek, því að þeir sögðu: "Hann er bróðir vor."
4 Þeir gáfu honum sjötíu sikla silfurs úr musteri Sáttmála-Baals, og Abímelek leigði fyrir það lausingja og óvendismenn og gjörðist fyrirliði þeirra.
5 Því næst fór hann til húss föður síns í Ofra og drap bræður sína, sonu Jerúbbaals, sjötíu manns á einum steini. Jótam, yngsti sonur Jerúbbaals, varð einn eftir, því að hann hafði falið sig.
6 En allir Síkembúar söfnuðust nú saman og allir þeir, sem bjuggu í Síkemkastala, og fóru til og tóku Abímelek til konungs hjá merkisteinseikinni, sem er hjá Síkem.
7 Er Jótam spurði þetta, fór hann og nam staðar á tindi Garísímfjalls, hóf upp raust sína, kallaði og mælti til þeirra: "Heyrið mig, Síkembúar, svo að Guð heyri yður!
8 Einu sinni fóru trén að smyrja konung sér til handa. Og þau sögðu við olíutréð: Ver þú konungur yfir oss!
9 En olíutréð sagði við þau: Á ég að yfirgefa feiti mína, sem Guð og menn virða mig fyrir, og fara að sveima uppi yfir trjánum?
10 Þá sögðu trén við fíkjutréð: Kom þú og ver þú konungur yfir oss!
11 En fíkjutréð sagði við þau: Á ég að yfirgefa sætleik minn og ágætan ávöxt minn og fara að sveima uppi yfir trjánum?
12 Þá sögðu trén við vínviðinn: Kom þú og ver þú konungur yfir oss!
13 En vínviðurinn sagði við þau: Á ég að yfirgefa vínlög minn, sem gleður bæði Guð og menn, og fara að sveima uppi yfir trjánum?
14 Þá sögðu öll trén við þyrninn: Kom þú og ver þú konungur yfir oss!
15 En þyrnirinn sagði við trén: Ef það er alvara yðar að smyrja mig til konungs, þá komið og fáið yður skjól í skugga mínum. En ef svo er eigi, þá gangi eldur út frá þyrninum og eyði sedrustrjánum á Líbanon.
16 Nú ef þér hafið sýnt hreinskilni og einlægni í því að taka Abímelek til konungs, og ef þér hafið gjört vel við Jerúbbaal og hús hans og ef þér hafið breytt við hann, eins og hann hafði til unnið _
19 ef þér því hafið sýnt Jerúbbaal og húsi hans hreinskilni og einlægni í dag, þá gleðjist yfir Abímelek, og hann gleðjist þá og yfir yður.
20 En ef svo er eigi, þá gangi eldur út frá Abímelek og eyði Síkembúum og þeim, sem búa í Síkemkastala, og þá gangi eldur út frá Síkembúum og þeim, sem búa í Síkemkastala, og eyði Abímelek."
21 Síðan lagði Jótam á flótta og flýði burt og fór til Beer. Þar settist hann að, til þess að vera óhultur fyrir Abímelek bróður sínum.
13 Þegar þeir sáu djörfung Péturs og Jóhannesar og skildu, að þeir voru ólærðir leikmenn, undruðust þeir. Þeir könnuðust og við, að þeir höfðu verið með Jesú.
14 Og er þeir sáu manninn, sem læknaður hafði verið, standa hjá þeim, máttu þeir ekki í móti mæla.
15 Þeir skipuðu þeim að ganga út frá ráðinu, tóku saman ráð sín og sögðu:
16 "Hvað eigum vér að gjöra við þessa menn? Því að augljóst er öllum Jerúsalembúum, að ótvírætt tákn er orðið af þeirra völdum. Vér getum ekki neitað því.
17 Þetta má ekki berast frekar út meðal lýðsins. Vér skulum því hóta þeim hörðu, að þeir tali aldrei framar í þessu nafni við nokkurn mann."
18 Síðan kölluðu þeir þá fyrir sig og skipuðu þeim að hætta með öllu að tala eða kenna í Jesú nafni.
19 Pétur og Jóhannes svöruðu: "Dæmið sjálfir, hvort það sé rétt í augum Guðs að hlýðnast yður fremur en honum.
20 Vér getum ekki annað en talað það, sem vér höfum séð og heyrt."
21 En þeir ógnuðu þeim enn frekar og slepptu þeim síðan, þar sem þeir sáu enga leið vegna fólksins að hegna þeim, því allir lofuðu Guð fyrir þennan atburð.
22 En maðurinn, sem læknast hafði með þessu tákni, var yfir fertugt.
23 Er þeim hafði verið sleppt, fóru þeir til félaga sinna og greindu þeim frá öllu því, sem æðstu prestarnir og öldungarnir höfðu við þá talað.
24 Þegar þeir heyrðu það, hófu þeir einum huga raust sína til Guðs og sögðu: "Herra, þú sem gjörðir himin, jörð og haf og allt, sem í þeim er,
25 þú, sem lést heilagan anda mæla af munni Davíðs, föður vors, þjóns þíns: Hví geisuðu heiðingjarnir, og hví hugðu lýðirnir á hégómleg ráð?
26 Konungar jarðarinnar risu upp, og höfðingjarnir söfnuðust saman gegn Drottni og gegn hans Smurða.
27 Því að sannarlega söfnuðust saman í borg þessari gegn hinum heilaga þjóni þínum, Jesú, er þú smurðir, þeir Heródes og Pontíus Pílatus ásamt heiðingjunum og lýðum Ísraels
28 til að gjöra allt það, er hönd þín og ráð hafði fyrirhugað, að verða skyldi.
29 Og nú, Drottinn, lít á hótanir þeirra og veit þjónum þínum fulla djörfung að tala orð þitt.
30 Rétt þú út hönd þína til að lækna og lát tákn og undur verða fyrir nafn þíns heilaga þjóns, Jesú."
31 Þegar þeir höfðu beðist fyrir, hrærðist staðurinn, þar sem þeir voru saman komnir, og þeir fylltust allir heilögum anda og töluðu orð Guðs af djörfung.
2 Á þriðja degi var brúðkaup í Kana í Galíleu. Móðir Jesú var þar.
2 Jesú var og boðið til brúðkaupsins og lærisveinum hans.
3 En er vín þraut segir móðir Jesú við hann: "Þeir hafa ekki vín."
4 Jesús svarar: "Hvað varðar það mig og þig, kona? Minn tími er ekki enn kominn."
5 Móðir hans sagði þá við þjónana: "Gjörið það, sem hann kann að segja yður."
6 Nú voru þar sex vatnsker úr steini samkvæmt reglum Gyðinga um hreinsun, og tók hvert þeirra tvo mæla eða þrjá.
7 Jesús segir við þá: "Fyllið kerin vatni." Þeir fylltu þau á barma.
8 Síðan segir hann: "Ausið nú af og færið veislustjóra." Þeir gjörðu svo.
9 Veislustjóri bragðaði vatnið, sem var orðið vín, og vissi ekki, hvaðan það var, en þjónarnir, sem vatnið höfðu ausið, vissu það. Þá kallaði veislustjóri á brúðgumann
10 og sagði: "Allir menn bera fyrst fram góða vínið og síðan hið lakara, er menn gjörast ölvaðir. Þú hefur geymt góða vínið þar til nú."
11 Þetta fyrsta tákn sitt gjörði Jesús í Kana í Galíleu og opinberaði dýrð sína, og lærisveinar hans trúðu á hann.
12 Eftir þetta fór hann ofan til Kapernaum ásamt móður sinni, bræðrum og lærisveinum. Þar voru þau nokkra daga.
by Icelandic Bible Society