Print Page Options
Previous Prev Day Next DayNext

Book of Common Prayer

Daily Old and New Testament readings based on the Book of Common Prayer.
Duration: 861 days
Icelandic Bible (ICELAND)
Version
Sálmarnir 83

83 Ljóð. Asafs-sálmur.

Guð, ver eigi hljóður, ver eigi þögull og hald eigi kyrru fyrir, ó Guð!

Því sjá, óvinir þínir gjöra hark, og hatursmenn þínir hefja höfuðið,

þeir bregða á slæg ráð gegn lýð þínum, bera ráð sín saman gegn þeim er þú geymir.

Þeir segja: "Komið, látum oss uppræta þá, svo að þeir séu ekki þjóð framar, og nafns Ísraels verði eigi framar minnst!"

Því að þeir hafa einhuga borið saman ráð sín, gegn þér hafa þeir gjört bandalag:

Edómtjöld og Ísmaelítar, Móab og Hagrítar,

Gebal, Ammon og Amalek, Filistea ásamt Týrusbúum.

Assúr hefir einnig gjört bandalag við þá og ljær armlegg sinn Lots-sonum. [Sela]

10 Far með þá eins og Midían, eins og Sísera, eins og Jabín við Kísonlæk,

11 þeim var útrýmt hjá Endór, urðu að áburði á jörðina.

12 Gjör þá, göfugmenni þeirra, eins og Óreb og Seeb, og alla höfðingja þeirra eins og Seba og Salmúna,

13 þá er sögðu: "Vér viljum kasta eign vorri á vengi Guðs."

14 Guð vor, gjör þá sem rykmökk, sem hálmleggi fyrir vindi.

15 Eins og eldur, sem brennir skóginn, eins og logi, sem bálast upp um fjöllin,

16 svo skalt þú elta þá með ofviðri þínu, skelfa þá með fellibyl þínum.

17 Lát andlit þeirra fyllast sneypu, að þeir megi leita nafns þíns, Drottinn!

18 Lát þá verða til skammar og skelfast um aldur, lát þá sæta háðung og tortímast,

19 að þeir megi komast að raun um, að þú einn heitir Drottinn, Hinn hæsti yfir allri jörðunni.

Sálmarnir 145

145 Davíðs-lofsöngur. Ég vil vegsama þig, ó Guð minn, þú konungur, og prísa nafn þitt um aldur og ævi.

Á hverjum degi vil ég prísa þig og lofa nafn þitt um aldur og ævi.

Mikill er Drottinn og mjög vegsamlegur, mikilleikur hans er órannsakanlegur.

Ein kynslóðin vegsamar verk þín fyrir annarri og kunngjörir máttarverk þín.

Þær segja frá tign og dýrð vegsemdar þinnar: "Ég vil syngja um dásemdir þínar."

Og um mátt ógnarverka þinna tala þær: "Ég vil segja frá stórvirkjum þínum."

Þær minna á þína miklu gæsku og fagna yfir réttlæti þínu.

Náðugur og miskunnsamur er Drottinn, þolinmóður og mjög gæskuríkur.

Drottinn er öllum góður, og miskunn hans er yfir öllu, sem hann skapar.

10 Öll sköpun þín lofar þig, Drottinn, og dýrkendur þínir prísa þig.

11 Þeir tala um dýrð konungdóms þíns, segja frá veldi þínu.

12 Þeir kunngjöra mönnum veldi þitt, hina dýrlegu tign konungdóms þíns.

13 Konungdómur þinn er konungdómur um allar aldir og ríki þitt stendur frá kyni til kyns. Drottinn er trúfastur í öllum orðum sínum og miskunnsamur í öllum verkum sínum.

14 Drottinn styður alla þá, er ætla að hníga, og reisir upp alla niðurbeygða.

15 Allra augu vona á þig, og þú gefur þeim fæðu þeirra á réttum tíma.

16 Þú lýkur upp hendi þinni og seður allt sem lifir með blessun.

17 Drottinn er réttlátur á öllum sínum vegum og miskunnsamur í öllum sínum verkum.

18 Drottinn er nálægur öllum sem ákalla hann, öllum sem ákalla hann í einlægni.

19 Hann uppfyllir ósk þeirra er óttast hann, og hróp þeirra heyrir hann og hjálpar þeim.

20 Drottinn varðveitir alla þá er elska hann, en útrýmir öllum níðingum.

21 Munnur minn skal mæla orðstír Drottins, allt hold vegsami hans heilaga nafn um aldur og ævi.

Sálmarnir 85-86

85 Til söngstjórans. Kóraíta-sálmur.

Þú hefir haft þóknun á landi þínu, Drottinn, snúið við hag Jakobs,

þú hefir fyrirgefið misgjörð lýðs þíns, hulið allar syndir þeirra. [Sela]

Þú hefir dregið að þér alla bræði þína, látið af heiftarreiði þinni.

Snú þér til vor aftur, þú Guð hjálpræðis vors, og lát af gremju þinni í gegn oss.

Ætlar þú að vera oss reiður um eilífð, láta reiði þína haldast við frá kyni til kyns?

Vilt þú eigi láta oss lifna við aftur, svo að lýður þinn megi gleðjast yfir þér?

Lát oss, Drottinn, sjá miskunn þína og veit oss hjálpræði þitt!

Ég vil hlýða á það sem Guð Drottinn talar. Hann talar frið til lýðs síns og til dýrkenda sinna og til þeirra, er snúa hjarta sínu til hans.

10 Já, hjálp hans er nálæg þeim er óttast hann, og vegsemdir munu búa í landi voru.

11 Elska og trúfesti mætast, réttlæti og friður kyssast.

12 Trúfesti sprettur upp úr jörðunni, og réttlæti lítur niður af himni.

13 Þá gefur og Drottinn gæði, og land vort veitir afurðir sínar.

14 Réttlæti fer fyrir honum, og friður fylgir skrefum hans.

86 Davíðs-bæn. Hneig eyra þitt, Drottinn, og bænheyr mig, því að ég er hrjáður og snauður.

Vernda líf mitt, því að ég er helgaður þér, hjálpa þú, Guð minn, þjóni þínum, er treystir þér.

Ver mér náðugur, Drottinn, því þig ákalla ég allan daginn.

Gleð þú sál þjóns þíns, því að til þín, Drottinn, hef ég sál mína.

Þú, Drottinn, ert góður og fús til að fyrirgefa, gæskuríkur öllum þeim er ákalla þig.

Hlýð, Drottinn, á bæn mína og gef gaum grátbeiðni minni.

Þegar ég er í nauðum staddur ákalla ég þig, því að þú bænheyrir mig.

Enginn er sem þú meðal guðanna, Drottinn, og ekkert er sem þín verk.

Allar þjóðir, er þú hefir skapað, munu koma og falla fram fyrir þér, Drottinn, og tigna nafn þitt.

10 Því að þú ert mikill og gjörir furðuverk, þú einn, ó Guð!

11 Vísa mér veg þinn, Drottinn, lát mig ganga í sannleika þínum, gef mér heilt hjarta, að ég tigni nafn þitt.

12 Ég vil lofa þig, Drottinn, Guð minn, af öllu hjarta og heiðra nafn þitt að eilífu,

13 því að miskunn þín er mikil við mig, og þú hefir frelsað sál mína frá djúpi Heljar.

14 Ofstopamenn hefjast gegn mér, ó Guð, og hópur ofríkismanna sækist eftir lífi mínu, eigi hafa þeir þig fyrir augum.

15 En þú, Drottinn, ert miskunnsamur og líknsamur Guð, þolinmóður og gæskuríkur og harla trúfastur.

16 Snú þér að mér og ver mér náðugur, veit þjóni þínum kraft þinn og hjálpa syni ambáttar þinnar.

17 Gjör þú tákn til góðs fyrir mig, að hatursmenn mínir megi horfa á það sneyptir, að þú, Drottinn, hjálpar mér og huggar mig.

Dómarabókin 8:22-35

22 Þá sögðu Ísraelsmenn við Gídeon: "Drottna þú yfir oss, bæði þú og sonur þinn og sonarsonur þinn, því að þú hefir frelsað oss af hendi Midíans."

23 En Gídeon sagði við þá: "Eigi mun ég drottna yfir yður, og eigi mun sonur minn heldur drottna yfir yður. Drottinn skal yfir yður drottna."

24 Þá sagði Gídeon við þá: "Bónar vil ég biðja yður. Gefið mér allir eyrnahringa þá, er þér hafið fengið að herfangi," _ en Ísmaelítar báru eyrnahringa af gulli.

25 Þeir svöruðu: "Vér viljum fúslega gefa þér þá." Og þeir breiddu út skikkju og köstuðu þangað hver og einn eyrnahringum þeim, er þeir höfðu fengið að herfangi.

26 En þyngd þessara eyrnahringa af gulli, er hann beiðst hafði, var eitt þúsund og sjö hundruð siklar gulls, fyrir utan tinglin, eyrnaperlurnar og purpuraklæðin, sem Midíanskonungarnir báru, og fyrir utan festar þær, sem voru um hálsana á úlföldum þeirra.

27 Og Gídeon gjörði úr því hökul og reisti hann upp í borg sinni, í Ofra, og allur Ísrael tók þar fram hjá með honum, og það varð Gídeon og húsi hans að tálsnöru.

28 Þannig urðu Midíanítar að lúta í lægra haldi fyrir Ísraelsmönnum og máttu aldrei síðan höfuð hefja. Var nú friður í landi í fjörutíu ár, meðan Gídeon var á lífi.

29 Því næst hélt Jerúbbaal Jóasson heim til sín og bjó í sínu húsi.

30 Gídeon átti sjötíu sonu, sem út gengnir voru af lendum hans, því að hann átti margar konur.

31 Og hjákona hans, sú er hann átti í Síkem, fæddi honum og son, og hann nefndi hann Abímelek.

32 Gídeon Jóasson dó í góðri elli og var grafinn í gröf Jóasar, föður síns, í Ofra Abíesrítanna.

33 En er Gídeon var dáinn, tóku Ísraelsmenn enn af nýju fram hjá með Baölum, og gjörðu Sáttmála-Baal að guði sínum.

34 Og Ísraelsmenn minntust ekki Drottins, Guðs síns, sem frelsað hafði þá úr höndum allra óvina þeirra hringinn í kring,

35 og ekki auðsýndu þeir heldur kærleika húsi Jerúbbaals, Gídeons, fyrir allt hið góða, sem hann hafði gjört Ísrael.

Postulasagan 4:1-12

Meðan þeir voru að tala til fólksins, komu að þeim prestarnir, varðforingi helgidómsins og saddúkearnir.

Þeir voru æfir af því að postularnir voru að kenna fólkinu og boða upprisu dauðra í Jesú.

Lögðu þeir hendur á þá og settu þá í varðhald til næsta morguns, því að kvöld var komið.

En margir þeirra, er heyrt höfðu orðið, tóku trú, og tala karlmanna varð um fimm þúsundir.

Næsta morgun komu höfðingjarnir, öldungarnir og fræðimennirnir saman í Jerúsalem.

Þar voru Annas, æðsti prestur, Kaífas, Jóhannes, Alexander og allir, sem voru af æðsta prests ættum.

Þeir létu leiða postulana fram og spurðu þá: "Með hvaða krafti eða í hvers nafni gjörðuð þið þetta?"

Þá sagði Pétur við þá, fylltur heilögum anda: "Þér höfðingjar lýðsins og öldungar,

með því að við eigum í dag að svara til saka vegna góðverks við sjúkan mann og gera grein fyrir því, hvernig hann sé heill orðinn,

10 þá sé yður öllum kunnugt og öllum Ísraelslýð, að í nafni Jesú Krists frá Nasaret, þess er þér krossfestuð, en Guð uppvakti frá dauðum, í hans nafni stendur þessi maður heilbrigður fyrir augum yðar.

11 Jesús er steinninn, sem þér, húsasmiðirnir, virtuð einskis, hann er orðinn hyrningarsteinn.

12 Ekki er hjálpræðið í neinum öðrum. Og ekkert annað nafn er mönnum gefið um víða veröld, sem getur frelsað oss."

Jóhannesarguðspjall 1:43-51

43 Næsta dag hugðist Jesús fara til Galíleu. Hann hitti þá Filippus og sagði við hann: "Fylg þú mér!"

44 Filippus var frá Betsaídu, sömu borg og Andrés og Pétur.

45 Filippus fann Natanael og sagði við hann: "Vér höfum fundið þann, sem Móse skrifar um í lögmálinu og spámennirnir, Jesú frá Nasaret, son Jósefs."

46 Natanael sagði: "Getur nokkuð gott komið frá Nasaret?" Filippus svaraði: "Kom þú og sjá."

47 Jesús sá Natanael koma til sín og sagði við hann: "Hér er sannur Ísraelíti, sem engin svik eru í."

48 Natanael spyr: "Hvaðan þekkir þú mig?" Jesús svarar: "Ég sá þig undir fíkjutrénu, áður en Filippus kallaði á þig."

49 Þá segir Natanael: "Rabbí, þú ert sonur Guðs, þú ert konungur Ísraels."

50 Jesús spyr hann: "Trúir þú, af því að ég sagði við þig: ,Ég sá þig undir fíkjutrénu`? Þú munt sjá það, sem þessu er meira."

51 Og hann segir við hann: "Sannlega, sannlega segi ég yður: Þér munuð sjá himininn opinn og engla Guðs stíga upp og stíga niður yfir Mannssoninn."

Icelandic Bible (ICELAND)

by Icelandic Bible Society