Book of Common Prayer
70 Til söngstjórans. Davíðssálmur. Minningarljóð.
2 Guð, lát þér þóknast að frelsa mig, Drottinn, skunda mér til hjálpar.
3 Lát þá verða til skammar og hljóta kinnroða, er sitja um líf mitt, lát þá hverfa aftur með skömm, er óska mér ógæfu.
4 Lát þá hörfa undan sakir smánar sinnar, er hrópa háð og spé.
5 En allir þeir er leita þín, skulu gleðjast og fagna yfir þér, þeir er unna hjálpræði þínu, skulu sífellt segja: "Vegsamaður sé Guð!"
6 Ég er þjáður og snauður, hraða þér til mín, ó Guð. Þú ert fulltingi mitt og frelsari, dvel eigi, Drottinn!
71 Hjá þér, Drottinn, leita ég hælis, lát mig aldrei verða til skammar.
2 Frelsa mig og bjarga mér eftir réttlæti þínu, hneig eyru þín til mín og hjálpa mér.
3 Ver mér verndarbjarg, vígi mér til hjálpar, því að þú ert bjarg mitt og vígi.
4 Guð minn, bjarga mér úr hendi illgjarnra, undan valdi illvirkja og harðstjóra.
5 Því að þú ert von mín, þú, Drottinn, ert athvarf mitt frá æsku.
6 Við þig hefi ég stuðst frá móðurlífi, frá móðurskauti hefir þú verið skjól mitt, um þig hljómar ætíð lofsöngur minn.
7 Ég er mörgum orðinn sem undur, en þú ert mér öruggt hæli.
8 Munnur minn er fullur af lofstír þínum, af dýrð þinni daginn allan.
9 Útskúfa mér eigi í elli minni, yfirgef mig eigi, þá er þróttur minn þverrar.
10 Því að óvinir mínir tala um mig, þeir er sitja um líf mitt, bera ráð sín saman:
11 "Guð hefir yfirgefið hann. Eltið hann og grípið hann, því að enginn bjargar."
12 Guð, ver eigi fjarri mér, Guð minn, skunda til liðs við mig.
13 Lát þá er sýna mér fjandskap farast með skömm, lát þá íklæðast háðung og svívirðing, er óska mér ógæfu.
14 En ég vil sífellt vona og auka enn á allan lofstír þinn.
15 Munnur minn skal segja frá réttlæti þínu, frá hjálpsemdum þínum allan daginn, því að ég veit eigi tölu á þeim.
16 Ég vil segja frá máttarverkum Drottins, ég vil boða réttlæti þitt, það eitt.
17 Guð, þú hefir kennt mér frá æsku, og allt til þessa kunngjöri ég dásemdarverk þín.
18 Yfirgef mig eigi, ó Guð, þegar ég er gamall orðinn og grár fyrir hærum, að ég megi kunngjöra styrkleik þinn komandi kynslóð.
19 Máttur þinn og réttlæti þitt, ó Guð, nær til himins, þú sem hefir framið stórvirki, Guð, hver er sem þú?
20 Þú sem hefir látið oss horfa upp á miklar nauðir og ógæfu, þú munt láta oss lifna við að nýju og láta oss aftur stíga upp úr undirdjúpum jarðar.
21 Þú munt auka við tign mína og aftur veita mér huggun.
22 Þá vil ég lofa trúfesti þína með hörpuleik, Guð minn, leika á gígju fyrir þér, þú Hinn heilagi í Ísrael.
23 Varir mínar skulu fagna, er ég leik fyrir þér, og sál mín er þú hefir leyst.
24 Þá skal og tunga mín tala um réttlæti þitt liðlangan daginn, því að þeir urðu til skammar, já hlutu kinnroða, er óskuðu mér ógæfu.
74 Asafs-maskíl. Hví hefir þú, Guð, hafnað oss að fullu, hví rýkur reiði þín gegn gæsluhjörð þinni?
2 Haf í minni söfnuð þinn, er þú aflaðir forðum og leystir til þess að vera kynkvísl óðals þíns, haf í minni Síonfjall, þar sem þú hefir tekið þér bústað.
3 Bein þú skrefum þínum til hinna endalausu rústa: Öllu hafa óvinirnir spillt í helgidóminum!
4 Fjandmenn þínir grenjuðu inni á samkomustað þínum, reistu upp hermerki sín.
5 Eins og menn sem reiða hátt axir í þykkum skógi,
6 höggva þeir allan útskurð, mölva með exi og hamri.
7 Þeir hafa lagt eld í helgidóm þinn, vanhelgað bústað nafns þíns til grunna.
8 Þeir hugsuðu með sjálfum sér: "Vér skulum tortíma þeim öllum." Þeir brenndu öll samkomuhús Guðs í landinu.
9 Vér sjáum eigi merki vor, þar er enginn spámaður framar, og enginn er hjá oss sem veit hve lengi.
10 Hversu lengi, ó Guð, á fjandmaðurinn að hæða, á óvinurinn að spotta nafn þitt um aldur?
11 Hví dregur þú að þér hönd þína, hví geymir þú hægri hönd þína í barmi þér?
12 Og þó er Guð konungur minn frá fornum tíðum, sá er framkvæmir hjálpræðisverk á jörðu.
13 Þú klaufst hafið með mætti þínum, þú braust sundur höfuð drekans á vatninu,
14 þú molaðir sundur hausa Levjatans, gafst hann dýrum eyðimerkurinnar að æti.
15 Þú lést lindir og læki spretta upp, þú þurrkaðir upp sírennandi ár.
16 Þinn er dagurinn og þín er nóttin, þú gjörðir ljós og sól.
17 Þú settir öll takmörk jarðarinnar, sumar og vetur hefir þú gjört.
18 Minnst þess, Drottinn, að óvinurinn lastmælir, og heimskur lýður smánar nafn þitt.
19 Ofursel eigi villidýrunum sál turtildúfu þinnar, gleym eigi um aldur lífi þinna hrjáðu.
20 Gef gætur að sáttmála þínum, því að skúmaskot landsins eru full af bælum ofríkisins.
21 Lát eigi þann er kúgun sætir, snúa aftur með svívirðing, lát hina hrjáðu og snauðu lofa nafn þitt.
22 Rís upp, Guð, berst fyrir málefni þínu, minnst þú háðungar þeirrar, er þú sætir af heimskingjum daginn á enda.
23 Gleym eigi hrópi fjenda þinna, glaumkæti andstæðinga þinna, þeirri er sífellt stígur upp.
4 Kona hét Debóra. Hún var spákona og eiginkona manns þess, er Lapídót hét. Hún var dómari í Ísrael um þessar mundir.
5 Hún sat undir Debórupálma milli Rama og Betel á Efraímfjöllum, og Ísraelsmenn fóru þangað upp til hennar, að hún legði dóm á mál þeirra.
6 Hún sendi boð og lét kalla til sín Barak Abínóamsson frá Kedes í Naftalí og sagði við hann: "Sannlega hefir Drottinn, Ísraels Guð, boðið svo: ,Far þú og hald til Taborfjalls og haf með þér tíu þúsundir manna af Naftalí sonum og Sebúlons sonum.
7 Og ég mun leiða Sísera, hershöfðingja Jabíns, með vögnum hans og liði til þín að Kísonlæk, og ég mun gefa hann í hendur þínar."`
8 Barak sagði við hana: "Fara mun ég, ef þú fer með mér, en viljir þú eigi fara með mér, mun ég hvergi fara."
9 Hún svaraði: "Víst mun ég með þér fara. En enga frægð munt þú hafa af för þessari, sem þú fer, því að Drottinn mun selja Sísera í konu hendur." Síðan tók Debóra sig upp og fór með Barak til Kedes.
10 Þá kallaði Barak saman Sebúlon og Naftalí í Kedes, og tíu þúsundir manna fóru með honum, og Debóra var í för með honum.
11 Heber Keníti hafði skilist við Kain, við niðja Hóbabs, tengdaföður Móse, og sló hann tjöldum sínum allt að eikinni hjá Saanaím, sem er hjá Kedes.
12 Nú var Sísera sagt frá því, að Barak Abínóamsson væri farinn upp á Taborfjall.
13 Dró Sísera þá saman alla vagna sína, níu hundruð járnvagna, og allt það lið, er með honum var, frá Haróset Hagojím til Kísonlækjar.
14 Þá sagði Debóra við Barak: "Rís þú nú upp, því að nú er sá dagur kominn, er Drottinn mun selja Sísera í þínar hendur. Sannlega er Drottinn farinn á undan þér." Fór Barak þá ofan af Taborfjalli, og tíu þúsundir manna fylgdu honum.
15 Og Drottinn gjörði Sísera felmtsfullan og alla vagna hans og allan hans her með sverðseggjum frammi fyrir Barak, svo að Sísera hljóp af vagni sínum og flýði undan á fæti.
16 En Barak elti vagnana og herinn allt til Haróset Hagojím, og allur her Sísera féll fyrir sverðseggjum. Enginn komst undan.
17 Sísera flýði á fæti til tjalds Jaelar, konu Hebers Keníta, því að friður var milli Jabíns, konungs í Hasór, og húss Hebers Keníta.
18 Þá gekk Jael út í móti Sísera og sagði við hann: "Gakk inn, herra minn, gakk inn til mín, vertu óhræddur." Og hann gekk inn til hennar í tjaldið, og hún lagði ábreiðu yfir hann.
19 Þá sagði hann við hana: "Gef mér vatnssopa að drekka, því að ég er þyrstur." Hún leysti þá frá mjólkurbelg og gaf honum að drekka, og breiddi síðan ofan á hann aftur.
20 Þá sagði hann við hana: "Stattu í tjalddyrunum, og ef einhver kemur og spyr þig og segir: ,Er nokkur hér?` þá seg þú: ,Nei."`
21 Jael, kona Hebers, þreif tjaldhæl og tók hamar í hönd sér og gekk hljóðlega inn til hans og rak hælinn gegnum þunnvangann, svo að hann gekk í jörð niður, en Sísera var sofnaður fastasvefni, því að hann var þreyttur. Varð þetta hans bani.
22 Í sama bili kom Barak og var að elta Sísera. Jael gekk þá út í móti honum og sagði við hann: "Kom þú hingað, og mun ég sýna þér þann mann, sem þú leitar að." Og hann gekk inn til hennar, og lá þá Sísera þar dauður með hælinn gegnum þunnvangann.
23 Þannig lægði Guð á þeim degi Jabín, Kanaans konung, fyrir Ísraelsmönnum.
15 Á þessum dögum stóð Pétur upp meðal bræðranna. Þar var saman kominn flokkur manna, um eitt hundrað og tuttugu að tölu. Hann mælti:
16 "Bræður, rætast hlaut ritning sú, er heilagur andi sagði fyrir munn Davíðs um Júdas, sem vísaði leið þeim, er tóku Jesú höndum.
17 Hann var í vorum hópi, og honum var falin sama þjónusta.
18 Hann keypti reit fyrir laun ódæðis síns, steyptist á höfuðið og brast sundur í miðju, svo að iðrin öll féllu út.
19 Þetta varð kunnugt öllum Jerúsalembúum, og er reitur sá kallaður á tungu þeirra Akeldamak, það er Blóðreitur.
20 Ritað er í Sálmunum: Bústaður hans skal í eyði verða, enginn skal í honum búa, og: Annar taki embætti hans.
21 Einhver þeirra manna, sem með oss voru alla tíð, meðan Drottinn Jesús gekk inn og út vor á meðal,
22 allt frá skírn Jóhannesar til þess dags, er hann varð upp numinn frá oss, verður nú að gjörast vottur upprisu hans ásamt oss."
23 Og þeir tóku tvo til, Jósef, kallaðan Barsabbas, öðru nafni Jústus, og Mattías,
24 báðust fyrir og sögðu: "Drottinn, þú sem þekkir hjörtu allra. Sýn þú, hvorn þessara þú hefur valið
25 til að taka þessa þjónustu og postuladóm, sem Júdas vék frá til að fara til síns eigin staðar."
26 Þeir hlutuðu um þá, og kom upp hlutur Mattíasar. Var hann tekinn í tölu postulanna með þeim ellefu.
55 Þar voru og margar konur, sem álengdar horfðu á, þær höfðu fylgt Jesú frá Galíleu og þjónað honum.
56 Meðal þeirra var María Magdalena, María, móðir þeirra Jakobs og Jósefs, og móðir Sebedeussona.
57 Um kvöldið kom auðugur maður frá Arímaþeu, Jósef að nafni, er sjálfur var orðinn lærisveinn Jesú.
58 Hann gekk til Pílatusar og bað hann um líkama Jesú. Pílatus bauð þá að fá Jósef hann.
59 Jósef tók líkið, sveipaði það hreinu línklæði
60 og lagði í nýja gröf, sem hann átti og hafði látið höggva í klett, velti síðan stórum steini fyrir grafarmunnann og fór burt.
61 María Magdalena var þar og María hin, og sátu þær gegnt gröfinni.
62 Næsta dag, daginn eftir aðfangadag, gengu æðstu prestarnir og farísearnir saman fyrir Pílatus
63 og sögðu: "Herra, vér minnumst þess, að svikari þessi sagði í lifanda lífi: ,Eftir þrjá daga rís ég upp.`
64 Bjóð því, að grafarinnar sé vandlega gætt allt til þriðja dags, ella gætu lærisveinar hans komið og stolið honum og sagt fólkinu: ,Hann er risinn frá dauðum.` Þá verða síðari svikin verri hinum fyrri."
65 Pílatus sagði við þá: "Hér hafið þér varðmenn, farið og búið svo tryggilega um sem best þér kunnið."
66 Þeir fóru og gengu tryggilega frá gröfinni og innsigluðu steininn með aðstoð varðmannanna.
by Icelandic Bible Society