Book of Common Prayer
72 Eftir Salómon. Guð, sel konungi í hendur dóma þína og konungssyni réttlæti þitt,
2 að hann dæmi lýð þinn með réttvísi og þína þjáðu með sanngirni.
3 Fjöllin beri lýðnum frið og hálsarnir réttlæti.
4 Hann láti hina þjáðu meðal lýðsins ná rétti sínum, hann hjálpi hinum snauðu og kremji kúgarann.
5 Þá mun hann lifa meðan sólin skín og tunglið ber birtu, frá kyni til kyns.
6 Hann mun falla sem regn á slægjuland, sem regnskúrir, er vökva landið.
7 Um hans daga skal réttlætið blómgast og gnóttir friðar, uns tunglið er eigi framar til.
8 Og hann skal ríkja frá hafi til hafs, frá Fljótinu til endimarka jarðar.
9 Fjandmenn hans skulu beygja kné fyrir honum og óvinir hans sleikja duftið.
10 Konungarnir frá Tarsis og eylöndunum skulu koma með gjafir, konungarnir frá Saba og Seba skulu færa skatt.
11 Og allir konungar skulu lúta honum, allar þjóðir þjóna honum.
12 Hann bjargar hinum snauða, er hrópar á hjálp, og hinum þjáða, er enginn liðsinnir.
13 Hann aumkast yfir bágstadda og snauða, og fátækum hjálpar hann.
14 Frá ofbeldi og ofríki leysir hann þá, og blóð þeirra er dýrmætt í augum hans.
15 Hann mun lifa og menn munu gefa honum Saba-gull, menn munu sífellt biðja fyrir honum, blessa hann liðlangan daginn.
16 Gnóttir korns munu vera í landinu, á fjallatindunum, í gróðri þess mun þjóta eins og í Líbanon, og menn skulu spretta upp í borgunum eins og gras úr jörðu.
17 Nafn hans mun vara að eilífu, meðan sólin skín mun nafn hans gróa. Og með honum skulu allar ættkvíslir jarðarinnar óska sér blessunar, allar þjóðir munu hann sælan segja.
18 Lofaður sé Drottinn, Guð, Ísraels Guð, sem einn gjörir furðuverk,
19 og lofað sé hans dýrlega nafn um eilífð, og öll jörðin fyllist dýrð hans. Amen, amen.
20 Bænir Davíðs Ísaísonar eru á enda.
73 Hendur þínar hafa gjört mig og skapað, veit mér skyn, að ég megi læra boð þín.
74 Þeir er óttast þig sjá mig og gleðjast, því að ég vona á orð þitt.
75 Ég veit, Drottinn, að dómar þínir eru réttlátir og að þú hefir lægt mig í trúfesti þinni.
76 Lát miskunn þína verða mér til huggunar, eins og þú hefir heitið þjóni þínum.
77 Lát miskunn þína koma yfir mig, að ég megi lifa, því að lögmál þitt er unun mín.
78 Lát ofstopamennina verða til skammar, af því að þeir kúga mig með rangsleitni, en ég íhuga fyrirmæli þín.
79 Til mín snúi sér þeir er óttast þig og þeir er þekkja reglur þínar.
80 Hjarta mitt sé grandvart í lögum þínum, svo að ég verði eigi til skammar.
81 Sál mín tærist af þrá eftir hjálpræði þínu, ég bíð eftir orði þínu.
82 Augu mín tærast af þrá eftir fyrirheiti þínu: Hvenær munt þú hugga mig?
83 Því að ég er orðinn eins og belgur í reykhúsi, en lögum þínum hefi ég eigi gleymt.
84 Hversu margir eru dagar þjóns þíns? Hvenær munt þú heyja dóm á ofsækjendum mínum?
85 Ofstopamenn hafa grafið mér grafir, menn, er eigi hlýða lögmáli þínu.
86 Öll boð þín eru trúfesti. Menn ofsækja mig með lygum, veit þú mér lið.
87 Nærri lá, að þeir gjörðu út af við mig á jörðunni, og þó hafði ég eigi yfirgefið fyrirmæli þín.
88 Lát mig lífi halda sakir miskunnar þinnar, að ég megi varðveita reglurnar af munni þínum.
89 Orð þitt, Drottinn, varir að eilífu, það stendur stöðugt á himnum.
90 Frá kyni til kyns varir trúfesti þín, þú hefir grundvallað jörðina, og hún stendur.
91 Eftir ákvæðum þínum stendur hún enn í dag, því að allt lýtur þér.
92 Ef lögmál þitt hefði eigi verið unun mín, þá hefði ég farist í eymd minni.
93 Ég skal eigi gleyma fyrirmælum þínum að eilífu, því að með þeim hefir þú látið mig lífi halda.
94 Þinn er ég, hjálpa þú mér, því að ég leita fyrirmæla þinna.
95 Óguðlegir bíða mín til þess að tortíma mér, en ég gef gætur að reglum þínum.
96 Á allri fullkomnun hefi ég séð endi, en þín boð eiga sér engin takmörk.
12 Ísraelsmenn gjörðu enn af nýju það, sem illt var í augum Drottins. Þá efldi Drottinn Eglón, konung í Móab, móti Ísrael, af því að þeir gjörðu það, sem illt var í augum Drottins.
13 Hann safnaði að sér Ammónítum og Amalekítum, fór því næst og vann sigur á Ísrael, og þeir náðu pálmaborginni á sitt vald.
14 Ísraelsmenn þjónuðu Eglón, konungi í Móab, í átján ár.
15 Þá hrópuðu Ísraelsmenn til Drottins, og Drottinn vakti þeim upp hjálparmann, Ehúð, son Gera Benjamíníta, en hann var maður örvhentur. Ísraelsmenn sendu hann með skatt á fund Eglóns, konungs í Móab.
16 Ehúð hafði smíðað sér sax tvíeggjað, spannarlangt. Hann gyrti sig því undir klæðum á hægri hlið.
17 Og hann færði Eglón, konungi í Móab, skattinn, en Eglón var maður digur mjög.
18 Er hann hafði borið fram skattinn, lét hann mennina fara, er borið höfðu skattinn.
19 En sjálfur sneri hann aftur hjá skurðmyndunum í Gilgal. Ehúð sagði við konung: "Leyndarmál hefi ég að segja þér, konungur." Konungur sagði: "Þei!" og allir þeir gengu út, er kringum hann stóðu.
20 Þá gekk Ehúð til hans, þar sem hann sat aleinn í hinum svala þaksal sínum, og mælti: "Ég hefi erindi frá Guði við þig." Stóð konungur þá upp úr sæti sínu.
21 En Ehúð greip til vinstri hendinni og þreif sverðið á hægri hlið sér og lagði því í kvið honum.
22 Gekk blaðið á kaf og upp yfir hjöltu, svo að fal blaðið í ístrunni, því að eigi dró hann saxið úr kviði honum. Gekk hann þá út á þakið.
23 Síðan gekk Ehúð út í gegnum forsalinn og lukti dyrunum á þaksalnum á eftir sér og skaut loku fyrir.
24 En er hann var út genginn, komu þjónar konungs og sáu þeir að dyrnar á þaksalnum voru lokaðar og sögðu: "Hann hefir víst setst niður erinda sinna inni í svala herberginu."
25 Biðu þeir nú, þar til er þeim leiddist biðin. Og er hann enn ekki lauk upp dyrunum á þaksalnum, þá tóku þeir lykilinn og luku upp, og lá þá herra þeirra dauður á gólfinu.
26 Ehúð hafði komist undan meðan þeir hinkruðu við. Hann var kominn út að skurðmyndunum og komst undan til Seíra.
27 Og er hann var þangað kominn, lét hann þeyta lúður á Efraímfjöllum. Fóru Ísraelsmenn þá með honum ofan af fjöllunum, en hann var fyrir þeim.
28 Og hann sagði við þá: "Fylgið mér, því að Drottinn hefir gefið óvini yðar, Móabítana, í hendur yður." Fóru þeir þá ofan á eftir honum og náðu öllum vöðum á Jórdan yfir til Móab og létu engan komast þar yfir.
29 Og þá felldu þeir af Móabítum um tíu þúsundir manna, og voru það allt sterkir menn og hraustir. Enginn komst undan.
30 Þannig urðu Móabítar á þeim degi að beygja sig undir vald Ísraels. Var nú friður í landi um áttatíu ár.
1 Fyrri sögu mína, Þeófílus, samdi ég um allt, sem Jesús gjörði og kenndi frá upphafi,
2 allt til þess dags, er hann gaf postulunum, sem hann hafði valið, fyrirmæli sín fyrir heilagan anda og varð upp numinn.
3 Þeim birti hann sig lifandi eftir písl sína með mörgum órækum kennimerkjum, lét þá sjá sig í fjörutíu daga og talaði um Guðs ríki.
4 Er hann var með þeim, bauð hann þeim að fara ekki burt úr Jerúsalem, heldur bíða eftir fyrirheiti föðurins, "sem þér," sagði hann, "hafið heyrt mig tala um.
5 Því að Jóhannes skírði með vatni, en þér skuluð skírðir verða með heilögum anda, nú innan fárra daga."
6 Meðan þeir voru saman, spurðu þeir hann: "Herra, ætlar þú á þessum tíma að endurreisa ríkið handa Ísrael?"
7 Hann svaraði: "Ekki er það yðar að vita tíma eða tíðir, sem faðirinn setti af sjálfs sín valdi.
8 En þér munuð öðlast kraft, er heilagur andi kemur yfir yður, og þér munuð verða vottar mínir í Jerúsalem og allri Júdeu, í Samaríu og allt til endimarka jarðarinnar."
9 Þegar hann hafði þetta mælt, varð hann upp numinn að þeim ásjáandi, og ský huldi hann sjónum þeirra.
10 Er þeir störðu til himins á eftir honum, þegar hann hvarf, þá stóðu hjá þeim allt í einu tveir menn í hvítum klæðum
11 og sögðu: "Galíleumenn, hví standið þér og horfið til himins? Þessi Jesús, sem varð upp numinn frá yður til himins, mun koma á sama hátt og þér sáuð hann fara til himins."
12 Þá sneru þeir aftur til Jerúsalem frá Olíufjallinu, sem svo er nefnt og er í nánd við Jerúsalem, hvíldardagsleið þaðan.
13 Er þeir komu þangað, fóru þeir upp í loftstofuna, þar sem þeir dvöldust: Pétur og Jóhannes, Jakob og Andrés, Filippus, Tómas, Bartólómeus, Matteus, Jakob Alfeusson, Símon vandlætari og Júdas Jakobsson.
14 Allir þessir voru með einum huga stöðugir í bæninni ásamt konunum. María, móðir Jesú, var líka með þeim og bræður hans.
45 En frá hádegi varð myrkur um allt land til nóns.
46 Og um nón kallaði Jesús hárri röddu: "Elí, Elí, lama sabaktaní!" Það þýðir: "Guð minn, Guð minn, hví hefur þú yfirgefið mig?"
47 Nokkrir þeirra, er þar stóðu, heyrðu þetta og sögðu: "Hann kallar á Elía!"
48 Jafnskjótt hljóp einn þeirra til, tók njarðarvött og fyllti ediki, stakk á reyrstaf og gaf honum að drekka.
49 Hinir sögðu: "Sjáum til, hvort Elía kemur að bjarga honum."
50 En Jesús hrópaði aftur hárri röddu og gaf upp andann.
51 Þá rifnaði fortjald musterisins í tvennt, ofan frá og niður úr, jörðin skalf og björgin klofnuðu,
52 grafir opnuðust og margir líkamir helgra látinna manna risu upp.
53 Eftir upprisu Jesú gengu þeir úr gröfum sínum og komu í borgina helgu og birtust mörgum.
54 Þegar hundraðshöfðinginn og þeir, sem með honum gættu Jesú, sáu landskjálftann og atburði þessa, hræddust þeir mjög og sögðu: "Sannarlega var þessi maður sonur Guðs."
by Icelandic Bible Society