Book of Common Prayer
61 Til söngstjórans. Með strengjaleik. Eftir Davíð.
2 Heyr, ó Guð, hróp mitt, gef gaum bæn minni.
3 Frá endimörkum jarðar hrópa ég til þín, meðan hjarta mitt örmagnast. Hef mig upp á bjarg það, sem mér er of hátt.
4 Leið mig, því að þú ert orðinn mér hæli, öruggt vígi gegn óvinum.
5 Lát mig gista í tjaldi þínu um eilífð, leita hælis í skjóli vængja þinna. [Sela]
6 Því að þú, ó Guð, hefir heyrt heit mín, þú hefir uppfyllt óskir þeirra er óttast nafn þitt.
7 Þú munt lengja lífdaga konungs, láta ár hans vara frá kyni til kyns.
8 Hann skal sitja um eilífð frammi fyrir Guði, lát miskunn og trúfesti varðveita hann.
9 Þá vil ég lofsyngja nafni þínu um aldur, og efna heit mín dag frá degi.
62 Til söngstjórans. Fyrir Jedútún. Davíðssálmur.
2 Bíð róleg eftir Guði, sála mín, frá honum kemur hjálpræði mitt.
3 Hann einn er klettur minn og hjálpræði, háborg mín _ ég verð eigi valtur á fótum.
4 Hversu lengi ætlið þér að ryðjast allir saman gegn einum manni til að fella hann eins og hallan vegg, eins og hrynjandi múr?
5 Þeir ráðgast um það eitt að steypa honum úr tign hans, þeir hafa yndi af lygi, þeir blessa með munninum, en bölva í hjartanu. [Sela]
6 Bíð róleg eftir Guði, sála mín, því að frá honum kemur von mín.
7 Hann einn er klettur minn og hjálpræði, háborg mín _ ég verð eigi valtur á fótum.
8 Hjá Guði er hjálpræði mitt og vegsemd, minn örugga klett og hæli mitt hefi ég í Guði.
9 Treyst honum, allur þjóðsöfnuðurinn, úthellið hjörtum yðar fyrir honum, Guð er vort hæli. [Sela]
10 Hégóminn einn eru mennirnir, tál eru mannanna börn, á metaskálunum lyftast þeir upp, einber hégómi eru þeir allir saman.
11 Treystið eigi ránfeng og alið eigi fánýta von til rændra muna, þótt auðurinn vaxi, þá gefið því engan gaum.
12 Eitt sinn hefir Guð talað, tvisvar hefi ég heyrt það: "Hjá Guði er styrkleikur."
13 Já, hjá þér, Drottinn, er miskunn, því að þú geldur sérhverjum eftir verkum hans.
68 Til söngstjórans. Davíðssálmur. Ljóð.
2 Guð rís upp, óvinir hans tvístrast, þeir sem hata hann flýja fyrir augliti hans.
3 Eins og reykur eyðist, eyðast þeir, eins og vax bráðnar í eldi, tortímast óguðlegir fyrir augliti Guðs.
4 En réttlátir gleðjast, fagna fyrir augliti Guðs og kætast stórum.
5 Syngið fyrir Guði, vegsamið nafn hans, leggið braut fyrir hann er ekur gegnum öræfin. Drottinn heitir hann, fagnið fyrir augliti hans.
6 Hann er faðir föðurlausra, vörður ekknanna, Guð í sínum heilaga bústað.
7 Guð lætur hina einmana hverfa heim aftur, hann leiðir hina fjötruðu út til hamingju, en uppreisnarseggir skulu búa í hrjóstrugu landi.
8 Ó Guð, þegar þú fórst út á undan lýð þínum, þegar þú brunaðir fram um öræfin, [Sela]
9 þá nötraði jörðin, og himnarnir drupu fyrir Guði, Drottni frá Sínaí, fyrir Guði, Ísraels Guði.
10 Ríkulegu regni dreyptir þú, ó Guð, á arfleifð þína, það sem vanmegnaðist, styrktir þú.
11 Staðinn þar sem söfnuður þinn dvelur, bjóst þú hinum hrjáðu, ó Guð, sakir gæsku þinnar.
12 Drottinn lætur orð sín rætast, konurnar sem sigur boða eru mikill her:
13 "Konungar hersveitanna flýja, þeir flýja, en hún sem heima situr skiptir herfangi.
14 Hvort viljið þér liggja milli fjárgirðinganna? Vængir dúfunnar eru lagðir silfri og fjaðrir hennar íbleiku gulli."
15 Þegar Hinn almáttki tvístraði konungunum, þá snjóaði á Salmon.
16 Guðs fjall er Basansfjall, tindafjall er Basansfjall.
17 Hví lítið þér, tindafjöll, öfundarauga það fjall er Guð hefir kjörið sér til bústaðar, þar sem Drottinn samt mun búa um eilífð?
18 Hervagnar Guðs eru tíþúsundir, þúsundir á þúsundir ofan. Hinn alvaldi kom frá Sínaí til helgidómsins.
19 Þú steigst upp til hæða, hafðir á burt bandingja, tókst við gjöfum frá mönnum, jafnvel uppreisnarmönnum, að þú, Drottinn, Guð, mættir búa þar.
20 Lofaður sé Drottinn, er ber oss dag eftir dag, Guð er hjálpráð vort. [Sela]
21 Guð er oss hjálpræðisguð, og Drottinn alvaldur bjargar frá dauðanum.
22 Já, Guð sundurmolar höfuð óvina sinna, hvirfil þeirra, er ganga í sekt sinni.
23 Drottinn hefir sagt: "Ég vil sækja þá til Basan, flytja þá frá djúpi hafsins,
24 að þú megir troða þá til bana, að tungur hunda þinna megi fá sinn hlut af óvinunum."
25 Menn horfa á inngöngu þína, ó Guð, inngöngu Guðs míns og konungs í musterið.
26 Söngvarar eru í fararbroddi, þá strengleikarar, ásamt yngismeyjum, er berja bumbur.
27 Lofið Guð á hátíðarsamkundum, lofið Drottin, þér sem eruð af uppsprettu Ísraels.
28 Þar er Benjamín litli, er ríkir yfir þeim, höfðingjar Júda í þyrpingu, höfðingjar Sebúlons, höfðingjar Naftalí.
29 Bjóð út, ó Guð, styrkleik þínum, þeim styrkleik sem þú hefir auðsýnt oss
30 frá musteri þínu í Jerúsalem. Konungar skulu færa þér gjafir.
31 Ógna þú dýrinu í sefinu, uxaflokkunum ásamt bolakálfum þjóðanna, sem troða menn fótum sökum ágirndar sinnar á silfri. Tvístra þú þjóðum, er unna ófriði!
32 Það koma sendiherrar frá Egyptalandi, Bláland færir Guði gjafir hröðum höndum.
33 Þér konungsríki jarðar, syngið Guði, syngið Drottni lof, [Sela]
34 honum sem ekur um himnanna himna frá eilífð, hann lætur raust sína gjalla, hina voldugu raust.
35 Tjáið Guði dýrð, yfir Ísrael er hátign hans og máttur hans í skýjunum.
36 Ógurlegur er Guð í helgidómi sínum, Ísraels Guð veitir lýðnum mátt og megin. Lofaður sé Guð!
2 Engill Drottins kom frá Gilgal til Bókím og mælti: "Ég leiddi yður út af Egyptalandi og færði yður í það land, sem ég sór feðrum yðar, og ég sagði: ,Ég mun aldrei rjúfa sáttmála minn við yður,
2 en þér megið ekki gjöra sáttmála við íbúa þessa lands, heldur skuluð þér rífa niður ölturu þeirra.` En þér hafið ekki hlýtt raustu minni. Hví hafið þér gjört þetta?
3 Fyrir því segi ég einnig: ,Ég mun ekki stökkva þeim burt undan yður, og þeir munu verða broddar í síðum yðar og guðir þeirra verða yður að tálsnöru."`
4 Er engill Drottins hafði mælt þessum orðum til allra Ísraelsmanna, þá hóf lýðurinn upp raust sína og grét.
5 Og þeir nefndu stað þennan Bókím, og færðu þar Drottni fórn.
11 Þá gjörðu Ísraelsmenn það, sem illt var í augum Drottins, og þjónuðu Baölum,
12 og yfirgáfu Drottin, Guð feðra sinna, er leitt hafði þá af Egyptalandi, og eltu aðra guði, af guðum þjóða þeirra, er bjuggu umhverfis þá, og féllu fram fyrir þeim og egndu Drottin til reiði.
13 Og þeir yfirgáfu Drottin og þjónuðu Baal og Astörtum.
14 Þá upptendraðist reiði Drottins gegn Ísrael, og hann gaf þá á vald ránsmönnum og þeir rændu þá, og hann seldi þá í hendur óvinum þeirra allt í kringum þá, svo að þeir fengu eigi framar staðist fyrir óvinum sínum.
15 Hvert sem þeir fóru, var hönd Drottins í móti þeim til óhamingju, eins og Drottinn hafði sagt og eins og Drottinn hafði svarið þeim. Komust þeir þá í miklar nauðir.
16 En Drottinn vakti upp dómara, og þeir frelsuðu þá úr höndum þeirra, er þá rændu.
17 En þeir hlýddu ekki heldur dómurum sínum, heldur tóku fram hjá með öðrum guðum og féllu fram fyrir þeim. Þeir viku brátt af vegi feðra sinna, sem hlýddu boðum Drottins; þeir breyttu ekki svo.
18 Þegar Drottinn vakti þeim upp dómara, þá var Drottinn með dómaranum og frelsaði þá úr höndum óvina þeirra á meðan dómarinn var á lífi, því að Drottinn kenndi í brjósti um þá, er þeir kveinuðu undan kúgurum sínum og kvölurum.
19 En er dómarinn andaðist, breyttu þeir að nýju verr en feður þeirra, með því að elta aðra guði til þess að þjóna þeim og falla fram fyrir þeim. Þeir létu eigi af gjörðum sínum né þrjóskubreytni sinni.
20 Þá upptendraðist reiði Drottins gegn Ísrael og hann sagði: "Af því að þetta fólk hefir rofið sáttmála minn, þann er ég lagði fyrir feður þeirra, og ekki hlýtt minni raustu,
21 þá mun ég ekki heldur framar stökkva burt undan þeim nokkrum manni af þjóðum þeim, sem Jósúa skildi eftir, er hann andaðist.
22 Ég vil reyna Ísrael með þeim, hvort þeir varðveita veg Drottins og ganga hann, eins og feður þeirra gjörðu, eða ekki."
23 Þannig lét Drottinn þjóðir þessar vera kyrrar án þess að reka þær burt bráðlega, og hann gaf þær eigi í hendur Jósúa.
17 Ég áminni yður um, bræður, að hafa gát á þeim, er vekja sundurþykkju og tæla frá þeirri kenningu, sem þér hafið numið. Sneiðið hjá þeim.
18 Því að slíkir menn þjóna ekki Drottni vorum Kristi, heldur eigin maga, og með blíðmælum og fagurgala blekkja þeir hjörtu hrekklausra manna.
19 Hlýðni yðar er alkunn orðin. Því gleðst ég yfir yður og ég vil, að þér séuð vitrir í því, sem gott er, en einfaldir í því, sem illt er.
20 Guð friðarins mun bráðlega sundurmola Satan undir fótum yðar. Náðin Drottins vors Jesú Krist sé með yður.
21 Tímóteus, samverkamaður minn, Lúkíus, Jason og Sósípater, ættmenn mínir, biðja að heilsa yður.
22 Ég, Tertíus, sem hef ritað bréfið, bið að heilsa yður í Drottni.
23 Gajus, sem ljær mér og öllum söfnuðinum hús, biður að heilsa yður; Erastus, gjaldkeri borgarinnar, og bróðir Kvartus biðja að heilsa yður.
25 Honum, sem megnar að styrkja yður með fagnaðarerindinu, sem ég boða, og í prédikuninni um Jesú Krist samkvæmt opinberun þess leyndardóms, sem frá eilífum tíðum hefur verið dulinn,
26 en nú er opinberaður og fyrir spámannlegar ritningar, eftir skipun hins eilífa Guðs, kunngjörður öllum þjóðum til að vekja hlýðni við trúna,
32 Á leiðinni hittu þeir mann frá Kýrene, er Símon hét. Hann neyddu þeir til að bera kross Jesú.
33 Og er þeir komu til þess staðar, er heitir Golgata, það þýðir hauskúpustaður,
34 gáfu þeir honum vín að drekka, galli blandað. Hann bragðaði það, en vildi ekki drekka.
35 Þá krossfestu þeir hann. Og þeir köstuðu hlutum um klæði hans og skiptu með sér,
36 sátu þar svo og gættu hans.
37 Yfir höfði hans festu þeir sakargift hans svo skráða: ÞESSI ER JESÚS, KONUNGUR GYÐINGA.
38 Þá voru krossfestir með honum tveir ræningjar, annar til hægri, hinn til vinstri.
39 Þeir, sem fram hjá gengu, hæddu hann, skóku höfuð sín
40 og sögðu: "Þú sem brýtur niður musterið og reisir það á þrem dögum. Bjarga nú sjálfum þér, ef þú ert sonur Guðs, og stíg niður af krossinum!"
41 Eins gjörðu æðstu prestarnir gys að honum og fræðimennirnir og öldungarnir og sögðu:
42 "Öðrum bjargaði hann, sjálfum sér getur hann ekki bjargað. Hann er konungur Ísraels, stígi hann nú niður af krossinum, þá skulum vér trúa á hann.
43 Hann treystir Guði. Nú ætti Guð að frelsa hann, ef hann hefur mætur á honum. Eða sagði hann ekki: ,Ég er sonur Guðs`?"
44 Einnig ræningjarnir, sem með honum voru krossfestir, smánuðu hann á sama hátt.
by Icelandic Bible Society