Book of Common Prayer
56 Til söngstjórans. Lag: Dúfan í fjarlægum eikilundi. Miktam eftir Davíð, þá er Filistar gripu hann í Gat.
2 Ver mér náðugur, Guð, því að menn kremja mig, liðlangan daginn kreppa bardagamenn að mér.
3 Fjandmenn mínir kremja mig liðlangan daginn, því að margir eru þeir, sem berjast gegn mér.
4 Þegar ég er hræddur, treysti ég þér.
5 Með Guðs hjálp mun ég lofa orð hans, Guði treysti ég, ég óttast eigi. Hvað getur hold gjört mér?
6 Þeir spilla málefnum mínum án afláts, allt það er þeir hafa hugsað í gegn mér, er til ills.
7 Þeir áreita mig, þeir sitja um mig, þeir gefa gætur að ferðum mínum, eins og þeir væntu eftir að ná lífi mínu.
8 Sakir ranglætis þeirra verður þeim engrar undankomu auðið, steyp þjóðunum í reiði þinni, ó Guð.
9 Þú hefir talið hrakninga mína, tárum mínum er safnað í sjóð þinn, já, rituð í bók þína.
10 Fyrir því skulu óvinir mínir hörfa undan, er ég hrópa, það veit ég, að Guð liðsinnir mér.
11 Með Guðs hjálp mun ég lofa orð hans, með hjálp Drottins mun ég lofa orð hans.
12 Guði treysti ég, ég óttast eigi, hvað geta menn gjört mér?
13 Á mér hvíla, ó Guð, heit við þig, ég vil gjalda þér þakkarfórnir,
14 af því þú hefir frelsað sál mína frá dauða og fætur mína frá hrösun, svo að ég megi ganga frammi fyrir Guði í ljósi lífsins.
57 Til söngstjórans. Lag: Spill eigi. Miktam eftir Davíð, þá er hann flýði inn í hellinn fyrir Sál.
2 Ver mér náðugur, ó Guð, ver mér náðugur! Því að hjá þér leitar sál mín hælis, og í skugga vængja þinna vil ég hælis leita, uns voðinn er liðinn hjá.
3 Ég hrópa til Guðs, hins hæsta, þess Guðs, er kemur öllu vel til vegar fyrir mig.
4 Hann sendir af himni og hjálpar mér, þegar sá er kremur mig spottar. [Sela] Guð sendir náð sína og trúfesti.
5 Ég verð að liggja meðal ljóna, er eldi fnæsa. Tennur þeirra eru spjót og örvar, og tungur þeirra eru bitur sverð.
6 Sýn þig himnum hærri, ó Guð, dýrð þín breiðist yfir gjörvalla jörðina!
7 Þeir hafa lagt net fyrir fætur mína, sál mín er beygð. Þeir hafa grafið gryfju fyrir framan mig, sjálfir falla þeir í hana. [Sela]
8 Hjarta mitt er stöðugt, ó Guð, hjarta mitt er stöðugt, ég vil syngja og leika.
9 Vakna þú, sál mín, vakna þú, harpa og gígja, ég vil vekja morgunroðann.
10 Ég vil lofa þig meðal lýðanna, Drottinn, vegsama þig meðal þjóðanna,
11 því að miskunn þín nær til himna og trúfesti þín til skýjanna.
12 Sýn þig himnum hærri, ó Guð, dýrð þín breiðist yfir gjörvalla jörðina.
58 Til söngstjórans. Lag: Spill eigi. Davíðs-miktam.
2 Talið þér í sannleika það sem rétt er, þér guðir? Dæmið þér mennina með sanngirni?
3 Nei, allir aðhafist þér ranglæti á jörðu, hendur yðar vega út ofbeldi.
4 Hinir illu eru frá móðurlífi viknir af leið, lygarar fara villir vegar frá móðurskauti.
5 Eitur þeirra er eins og höggormseitur, þeir eru eins og dauf naðra, sem lokar eyrunum
6 til þess að heyra ekki raust særingamannsins né hins slungna töframanns.
7 Guð, brjót sundur tennurnar í munni þeirra, mölva jaxlana úr ljónunum, Drottinn!
8 Lát þá hverfa eins og vatn, sem rennur burt; miði hann örvum sínum á þá, þá hníga þeir,
9 eins og snigillinn, sem rennur í sundur og hverfur, ótímaburður konunnar, er eigi sá sólina.
10 Áður en pottar yðar kenna hitans af þyrnunum, hvort sem þyrnarnir eru grænir eða glóandi, feykir hann hinum illa burt.
11 Þá mun hinn réttláti fagna, af því að hann hefir fengið að sjá hefndina, hann mun lauga fætur sína í blóði hinna óguðlegu.
12 Þá munu menn segja: Hinn réttláti hlýtur þó ávöxt; það er þó til Guð, sem dæmir á jörðunni.
64 Til söngstjórans. Davíðssálmur.
2 Heyr, ó Guð, raust mína, er ég kveina, varðveit líf mitt fyrir ógnum óvinarins.
3 Skýl mér fyrir bandalagi bófanna, fyrir óaldarflokki illvirkjanna,
4 er hvetja tungur sínar sem sverð, leggja örvar sínar, beiskyrðin, á streng
5 til þess að skjóta í leyni á hinn ráðvanda, skjóta á hann allt í einu, hvergi hræddir.
6 Þeir binda fastmælum með sér ill áform, tala um að leggja leynisnörur, þeir hugsa: "Hver ætli sjái það?"
7 Þeir upphugsa ranglæti: "Vér erum tilbúnir, vel ráðin ráð!" því að hugskot hvers eins og hjarta er fullt véla.
8 Þá lýstur Guð þá með örinni, allt í einu verða þeir sárir,
9 og tunga þeirra verður þeim að falli. Allir þeir er sjá þá, munu hrista höfuðið.
10 Þá mun hver maður óttast og kunngjöra dáðir Guðs og gefa gætur að verkum hans.
11 Hinn réttláti mun gleðjast yfir Drottni og leita hælis hjá honum, og allir hjartahreinir munu sigri hrósa.
65 Til söngstjórans. Davíðssálmur. Ljóð.
2 Þér ber lofsöngur, Guð, á Síon, og við þig séu heitin efnd.
3 Þú sem heyrir bænir, til þín kemur allt hold.
4 Margvíslegar misgjörðir urðu mér yfirsterkari, en þú fyrirgafst afbrot vor.
5 Sæll er sá er þú útvelur og lætur nálægjast þig til þess að búa í forgörðum þínum, að vér megum seðjast af gæðum húss þíns, helgidómi musteris þíns.
6 Með óttalegum verkum svarar þú oss í réttlæti, þú Guð hjálpræðis vors, þú athvarf allra jarðarinnar endimarka og fjarlægra stranda,
7 þú sem festir fjöllin með krafti þínum, gyrtur styrkleika,
8 þú sem stöðvar brimgný hafsins, brimgnýinn í bylgjum þess og háreystina í þjóðunum,
9 svo að þeir er búa við endimörk jarðar óttast tákn þín, austrið og vestrið lætur þú fagna.
10 Þú hefir vitjað landsins og vökvað það, blessað það ríkulega með læk Guðs, fullum af vatni, þú hefir framleitt korn þess, því að þannig hefir þú gjört það úr garði.
11 Þú hefir vökvað plógför þess, jafnað plóggarða þess, með regnskúrum hefir þú mýkt það, blessað gróður þess.
12 Þú hefir krýnt árið með gæsku þinni, og vagnspor þín drjúpa af feiti.
13 Það drýpur af heiðalöndunum, og hæðirnar girðast fögnuði.
14 Hagarnir klæðast hjörðum, og dalirnir hyljast korni. Allt fagnar og syngur.
16 Þá svaraði lýðurinn og sagði: "Fjarri sé það oss að yfirgefa Drottin og þjóna öðrum guðum.
17 Því að Drottinn er vor Guð, hann sem leitt hefir oss og feður vora af Egyptalandi, úr þrælahúsinu, og gjört hefir þessi miklu undur að oss ásjáandi og varðveitt oss á allri þeirri leið, sem vér höfum nú farið, og meðal allra þeirra þjóða, þar sem vér höfum lagt um leið vora.
18 Og Drottinn stökkti burt undan oss öllum þjóðunum og Amorítum, íbúum landsins. Vér viljum einnig þjóna Drottni, því að hann er vor Guð!"
19 Jósúa sagði þá við lýðinn: "Þér getið ekki þjónað Drottni, því að hann er heilagur Guð. Vandlátur Guð er hann. Hann mun ekki umbera misgjörðir yðar og syndir.
20 Ef þér yfirgefið Drottin og þjónið útlendum guðum, þá mun hann snúast gegn yður og láta illt yfir yður koma og tortíma yður, í stað þess að hann áður hefir gjört vel til yðar."
21 Þá sagði lýðurinn við Jósúa: "Nei, því að Drottni viljum vér þjóna."
22 Þá sagði Jósúa við lýðinn: "Þér eruð vottar að því gegn sjálfum yður, að þér hafið kosið að þjóna Drottni." Þeir sögðu: "Vér erum það."
23 Jósúa sagði: "Kastið nú burt útlendu guðunum, sem hjá yður eru, og hneigið hjörtu yðar til Drottins, Ísraels Guðs."
24 Lýðurinn sagði við Jósúa: "Drottni Guði vorum viljum vér þjóna og hlýða hans röddu."
25 Á þeim degi gjörði Jósúa sáttmála við lýðinn og setti honum lög og rétt þar í Síkem.
26 Og Jósúa ritaði þessi orð í lögmálsbók Guðs, tók því næst stein mikinn og reisti hann þar upp undir eikinni, sem stóð í helgidómi Drottins.
27 Og Jósúa sagði við allan lýðinn: "Sjá, steinn þessi skal vera vitni gegn oss, því að hann hefir heyrt öll orðin, sem Drottinn hefir við oss talað, og hann skal vera vitni gegn yður, til þess að þér afneitið ekki Guði yðar."
28 Síðan lét Jósúa fólkið fara, hvern til síns óðals.
29 Eftir þessa atburði andaðist Jósúa Núnsson, þjónn Drottins, hundrað og tíu ára gamall,
30 og var hann grafinn í eignarlandi sínu, hjá Timnat Sera, sem liggur á Efraímfjöllum, fyrir norðan Gaasfjall.
31 Ísrael þjónaði Drottni meðan Jósúa var á lífi og öldungar þeir, er lifðu Jósúa og þekktu öll þau verk, er Drottinn hafði gjört fyrir Ísrael.
32 Bein Jósefs, sem Ísraelsmenn höfðu haft með sér sunnan af Egyptalandi, grófu þeir í Síkem, í landspildu þeirri, sem Jakob hafði keypt af sonum Hemors, föður Síkems, fyrir hundrað kesíta, og varð hún eign Jósefs sona.
16 Ég fel yður á hendur Föbe, systur vora, sem er þjónn safnaðarins í Kenkreu.
2 Veitið henni viðtöku í Drottni eins og heilögum hæfir og liðsinnið henni í hverju því, sem hún þarf yðar við, því að hún hefur verið bjargvættur margra og mín sjálfs.
3 Heilsið Prisku og Akvílasi, samverkamönnum mínum í Kristi Jesú.
4 Þau hafa stofnað lífi sínu í hættu fyrir mig, og fyrir það votta ég þeim ekki einn þakkir, heldur og allir söfnuðir meðal heiðingjanna.
5 Heilsið einnig söfnuðinum, sem kemur saman í húsi þeirra. Heilsið Epænetusi, mínum elskaða, sem er frumgróði Asíu Kristi til handa.
6 Heilsið Maríu, sem mikið hefur erfiðað fyrir yður.
7 Heilsið Andróníkusi og Júníasi, ættmönnum mínum og sambandingjum. Þeir skara fram úr meðal postulanna og hafa á undan mér gengið Kristi á hönd.
8 Heilsið Amplíatusi, mínum elskaða í Drottni.
9 Heilsið Úrbanusi, samverkamanni vorum í Kristi, og Stakkýsi, mínum elskaða.
10 Heilsið Apellesi, sem hefur reynst hæfur í þjónustu Krists. Heilsið heimilismönnum Aristóbúls.
11 Heilsið Heródíon, ættingja mínum. Heilsið þeim á heimili Narkissusar, sem tilheyra Drottni.
12 Heilsið Trýfænu og Trýfósu, sem hafa lagt hart á sig fyrir Drottin. Heilsið Persis, hinni elskuðu, sem mikið hefur starfað fyrir Drottin.
13 Heilsið Rúfusi, hinum útvalda í Drottni, og móður hans, sem er mér einnig móðir.
14 Heilsið Asýnkritusi, Flegon, Hermes, Patróbasi, Hermasi og bræðrunum, sem hjá þeim eru.
15 Heilsið Fílólógusi og Júlíu, Nerevs og systur hans og Ólympasi og öllum heilögum, sem með þeim eru.
16 Heilsið hver öðrum með heilögum kossi. Allir söfnuðir Krists senda yður kveðju.
24 Nú sér Pílatus, að hann fær ekki að gjört, en ólætin aukast. Hann tók vatn, þvoði hendur sínar frammi fyrir fólkinu og mælti: "Sýkn er ég af blóði þessa manns! Svarið þér sjálfir fyrir!"
25 Og allur lýðurinn sagði: "Komi blóð hans yfir oss og yfir börn vor!"
26 Þá gaf hann þeim Barabbas lausan, en lét húðstrýkja Jesú og framseldi hann til krossfestingar.
27 Hermenn landshöfðingjans fóru nú með hann inn í höllina og söfnuðu um hann allri hersveitinni.
28 Þeir afklæddu hann og færðu hann í skarlatsrauða kápu,
29 fléttuðu þyrnikórónu og settu á höfuð honum, en reyrsprota í hægri hönd hans. Síðan féllu þeir á kné fyrir honum og höfðu hann að háði og sögðu: "Heill þú, konungur Gyðinga!"
30 Og þeir hræktu á hann, tóku reyrsprotann og slógu hann í höfuðið.
31 Þegar þeir höfðu spottað hann, færðu þeir hann úr kápunni og í hans eigin klæði. Þá leiddu þeir hann út til að krossfesta hann.
by Icelandic Bible Society