Print Page Options
Previous Prev Day Next DayNext

Book of Common Prayer

Daily Old and New Testament readings based on the Book of Common Prayer.
Duration: 861 days
Icelandic Bible (ICELAND)
Version
Sálmarnir 24

24 Davíðssálmur. Drottni heyrir jörðin og allt sem á henni er, heimurinn og þeir sem í honum búa.

Því að hann hefir grundvallað hana á hafinu og fest hana á vötnunum.

_ Hver fær að stíga upp á fjall Drottins, hver fær að dveljast á hans helga stað?

_ Sá er hefir óflekkaðar hendur og hreint hjarta, eigi sækist eftir hégóma og eigi vinnur rangan eið.

Hann mun blessun hljóta frá Drottni og réttlætingu frá Guði hjálpræðis síns.

_ Þessi er sú kynslóð er leitar Drottins, stundar eftir augliti þínu, þú Jakobs Guð. [Sela] _________

_ Þér hlið, lyftið höfðum yðar, hefjið yður, þér öldnu dyr, að konungur dýrðarinnar megi inn ganga.

_ Hver er þessi konungur dýrðarinnar? _ Það er Drottinn, hin volduga hetja, Drottinn, bardagahetjan.

_ Þér hlið, lyftið höfðum yðar, hefjið yður, þér öldnu dyr, að konungur dýrðarinnar megi inn ganga.

10 _ Hver er þessi konungur dýrðarinnar? _ Drottinn hersveitanna, hann er konungur dýrðarinnar. [Sela]

Sálmarnir 29

29 Davíðssálmur. Tjáið Drottni vegsemd, þér guðasynir, tjáið Drottni vegsemd og vald.

Tjáið Drottni dýrð þá er nafni hans hæfir, fallið fram fyrir Drottni í helgum skrúða.

Raust Drottins hljómar yfir vötnunum, Guð dýrðarinnar lætur þrumur drynja, Drottinn ríkir yfir hinum miklu vötnum.

Raust Drottins hljómar með krafti, raust Drottins hljómar með tign.

Raust Drottins brýtur sundur sedrustré, Drottinn brýtur sundur sedrustrén á Líbanon.

Hann lætur Líbanonfjöll hoppa eins og kálfa og Hermonfjall eins og ungan vísund.

Raust Drottins klýfur eldsloga.

Raust Drottins lætur eyðimörkina skjálfa, Drottinn lætur Kadeseyðimörk skjálfa.

Raust Drottins lætur hindirnar bera fyrir tímann og gjörir skógana nakta, og allt í helgidómi hans segir: Dýrð!

10 Drottinn situr í hásæti uppi yfir flóðinu, Drottinn mun ríkja sem konungur að eilífu.

11 Drottinn veitir lýð sínum styrkleik, Drottinn blessar lýð sinn með friði.

Sálmarnir 8

Til söngstjórans. Á gittít. Davíðssálmur.

Drottinn, Guð vor, hversu dýrlegt er nafn þitt um alla jörðina! Þú breiðir ljóma þinn yfir himininn.

Af munni barna og brjóstmylkinga hefir þú gjört þér vígi til varnar gegn óvinum þínum, til þess að þagga niður í hefndargirni óvinarins.

Þegar ég horfi á himininn, verk handa þinna, tunglið og stjörnurnar, er þú hefir skapað,

hvað er þá maðurinn þess, að þú minnist hans, og mannsins barn, að þú vitjir þess?

Þú lést hann verða litlu minni en Guð, með sæmd og heiðri krýndir þú hann.

Þú lést hann ríkja yfir handaverkum þínum, allt lagðir þú að fótum hans:

sauðfénað allan og uxa, og auk þess dýr merkurinnar,

fugla loftsins og fiska hafsins, allt það er fer hafsins vegu.

10 Drottinn, Guð vor, hversu dýrlegt er nafn þitt um alla jörðina!

Sálmarnir 84

84 Til söngstjórans. Á gittít. Kóraíta-sálmur.

Hversu yndislegir eru bústaðir þínir, Drottinn hersveitanna.

Sálu mína langaði til, já, hún þráði forgarða Drottins, nú fagnar hjarta mitt og hold fyrir hinum lifanda Guði.

Jafnvel fuglinn hefir fundið hús, og svalan á sér hreiður, þar sem hún leggur unga sína: ölturu þín, Drottinn hersveitanna, konungur minn og Guð minn!

Sælir eru þeir, sem búa í húsi þínu, þeir munu ætíð lofa þig. [Sela]

Sælir eru þeir menn, sem finna styrk hjá þér, er þeir hugsa til helgigöngu.

Er þeir fara gegnum táradalinn, umbreyta þeir honum í vatnsríka vin, og haustregnið færir honum blessun.

Þeim eykst æ kraftur á göngunni og fá að líta Guð á Síon.

Drottinn, Guð hersveitanna, heyr bæn mína, hlýð til, þú Jakobs Guð. [Sela]

10 Guð, skjöldur vor, sjá og lít á auglit þíns smurða!

11 Því að einn dagur í forgörðum þínum er betri en þúsund aðrir, heldur vil ég standa við þröskuldinn í húsi Guðs míns en dvelja í tjöldum óguðlegra.

12 Því að Drottinn Guð er sól og skjöldur, náð og vegsemd veitir Drottinn. Hann synjar þeim engra gæða, er ganga í grandvarleik.

13 Drottinn hersveitanna, sæll er sá maður, sem treystir þér.

Jósúabók 24:1-15

24 Jósúa stefndi saman öllum ættkvíslum Ísraels í Síkem og kallaði fyrir sig öldunga Ísraels og höfðingja hans, dómendur hans og tilsjónarmenn, og þeir gengu fram fyrir auglit Guðs.

Þá mælti Jósúa við allan lýðinn: "Svo segir Drottinn, Ísraels Guð: Forfeður yðar bjuggu í fyrndinni fyrir handan Efrat, þeir Tara, faðir Abrahams og Nahors, og dýrkuðu aðra guði.

Þá tók ég Abraham forföður yðar handan yfir Fljótið og lét hann fara fram og aftur um allt Kanaanland, og ég margfaldaði kyn hans og gaf honum Ísak.

Og Ísak gaf ég þá Jakob og Esaú. Og Esaú gaf ég Seírfjöll, að hann skyldi taka þau til eignar, en Jakob og synir hans fóru suður til Egyptalands.

Síðan sendi ég Móse og Aron og laust Egyptaland með undrum þeim, er ég framdi þar. Síðar leiddi ég yður út þaðan.

Ég leiddi feður yðar út af Egyptalandi, og þér komuð að Sefhafinu. En Egyptar veittu feðrum yðar eftirför með vögnum og riddurum til hafsins.

Þá hrópuðu þeir til Drottins, og ég setti myrkur milli yðar og Egypta, og lét hafið falla yfir þá, svo að það huldi þá. Og þér sáuð með eigin augum, hvernig ég fór með Egypta. Eftir það dvölduð þér langa hríð í eyðimörkinni.

Síðan leiddi ég yður inn í land Amoríta, sem bjuggu hinumegin Jórdanar, og þeir börðust við yður, en ég gaf þá í hendur yður, og þér tókuð land þeirra til eignar, og ég eyddi þeim fyrir yður.

Þá reis upp Balak Sippórsson, konungur í Móab, og barðist við Ísrael. Sendi hann þá og lét kalla Bíleam Beórsson til þess að bölva yður.

10 En ég vildi ekki heyra Bíleam, og hann blessaði yður þvert á móti. Frelsaði ég yður þannig úr höndum hans.

11 Þá fóruð þér yfir Jórdan og komuð til Jeríkó. Og Jeríkóbúar börðust við yður, þeir Amorítar, Peresítar, Kanaanítar, Hetítar, Girgasítar, Hevítar og Jebúsítar, en ég gaf þá í yðar hendur.

12 Þá sendi ég skelfingu á undan yður, og stökkti Amorítakonungunum tveimur burt undan yður, en hvorki kom sverð þitt né bogi þinn þessu til leiðar.

13 Ég gaf yður land, sem þér ekkert höfðuð fyrir haft, og borgir, sem þér höfðuð ekki reist, en tókuð yður samt bólfestu í þeim, og víngarða og olíutré, sem þér hafið ekki gróðursett, en njótið nú ávaxta þeirra.

14 Óttist því Drottin og þjónið honum einlæglega og dyggilega, og kastið burt guðum þeim, er feður yðar þjónuðu fyrir handan Fljótið og í Egyptalandi, og þjónið Drottni.

15 En líki yður ekki að þjóna Drottni, kjósið þá í dag, hverjum þér viljið þjóna, hvort heldur guðum þeim, er feður yðar þjónuðu, þeir er bjuggu fyrir handan Fljótið, eða guðum Amoríta, hverra land þér nú byggið. En ég og mínir ættmenn munum þjóna Drottni."

Postulasagan 28:23-30

23 Þeir tóku til dag við hann, og komu þá mjög margir til hans í herbergi hans. Frá morgni til kvölds skýrði hann og vitnaði fyrir þeim um Guðs ríki og reyndi að sannfæra þá um Jesú, bæði eftir lögmáli Móse og spámönnunum.

24 Sumir létu sannfærast af orðum hans, en aðrir trúðu ekki.

25 Fóru þeir burt, ósamþykkir sín í milli, en Páll sagði þetta eitt: "Rétt er það, sem heilagur andi mælti við feður yðar fyrir munn Jesaja spámanns:

26 Far til lýðs þessa og seg þú: Með eyrum munuð þér heyra og alls eigi skilja, og sjáandi munuð þér horfa og ekkert sjá.

27 Því að hjarta lýðs þessa er sljótt orðið, og illa heyra þeir með eyrum sínum, og augunum hafa þeir lokað, svo að þeir sjái ekki með augunum né heyri með eyrunum og skynji með hjartanu og snúi sér, og ég lækni þá.

28 Nú skuluð þér vita, að þetta hjálpræði Guðs hefur verið sent heiðingjunum, og þeir munu hlusta."

30 Full tvö ár var Páll þar í húsnæði, sem hann hafði leigt sér, og tók á móti öllum þeim, sem komu til hans.

Markúsarguðspjall 2:23-28

23 Svo bar við, að Jesús fór um sáðlönd á hvíldardegi, og lærisveinar hans tóku að tína kornöx á leiðinni.

24 Farísearnir sögðu þá við hann: "Lít á, hví gjöra þeir það, sem er ekki leyfilegt á hvíldardegi?"

25 Hann svaraði þeim: "Hafið þér aldrei lesið, hvað Davíð gjörði, er honum lá á, þegar hann hungraði og menn hans?

26 Hann fór inn í Guðs hús, þegar Abíatar var æðsti prestur, og át skoðunarbrauðin, en þau má enginn eta nema prestarnir, og gaf líka mönnum sínum."

27 Og hann sagði við þá: "Hvíldardagurinn varð til mannsins vegna og eigi maðurinn vegna hvíldardagsins.

28 Því er Mannssonurinn einnig herra hvíldardagsins."

Icelandic Bible (ICELAND)

by Icelandic Bible Society