Print Page Options
Previous Prev Day Next DayNext

Book of Common Prayer

Daily Old and New Testament readings based on the Book of Common Prayer.
Duration: 861 days
Icelandic Bible (ICELAND)
Version
Sálmarnir 40

40 Til söngstjórans. Davíðssálmur.

Ég hefi sett alla von mína á Drottin, og hann laut niður að mér og heyrði kvein mitt.

Hann dró mig upp úr glötunargröfinni, upp úr hinni botnlausu leðju, og veitti mér fótfestu á kletti, gjörði mig styrkan í gangi.

Hann lagði mér ný ljóð í munn, lofsöng um Guð vorn. Margir sjá það og óttast og treysta Drottni.

Sæll er sá maður, er gjörir Drottin að athvarfi sínu og snýr sér eigi til hinna dramblátu né þeirra er snúist hafa afleiðis til lygi.

Mörg hefir þú, Drottinn, Guð minn, gjört dásemdarverk þín og áform þín oss til handa, ekkert kemst í samjöfnuð við þig. Ef ég ætti að boða þau og kunngjöra, eru þau fleiri en tölu verði á komið.

Á sláturfórnum og matfórnum hefir þú enga þóknun, _ þú hefir gefið mér opin eyru _ brennifórnir og syndafórnir heimtar þú eigi.

Þá mælti ég: "Sjá, ég kem, í bókrollunni eru mér reglur settar.

Að gjöra vilja þinn, Guð minn, er mér yndi, og lögmál þitt er hið innra í mér."

10 Ég hefi boðað réttlætið í miklum söfnuði, ég hefi eigi haldið vörunum aftur, það veist þú, Drottinn!

11 Ég leyndi eigi réttlæti þínu í hjarta mér, ég kunngjörði trúfesti þína og hjálpræði og dró eigi dul á náð þína og tryggð í hinum mikla söfnuði.

12 Tak þá eigi miskunn þína frá mér, Drottinn, lát náð þína og trúfesti ætíð vernda mig.

13 Því að ótal hættur umkringja mig, misgjörðir mínar hafa náð mér, svo að ég má eigi sjá, þær eru fleiri en hárin á höfði mér, mér fellst hugur.

14 Lát þér, Drottinn, þóknast að frelsa mig, skunda, Drottinn, mér til hjálpar.

15 Lát þá verða til skammar og hljóta kinnroða, er sitja um líf mitt, lát þá hverfa aftur með skömm, er óska mér ógæfu.

16 Lát þá verða forviða yfir smán sinni, er hrópa háð og spé.

17 En allir þeir er leita þín skulu gleðjast og fagna yfir þér, þeir er unna hjálpræði þínu skulu sífellt segja: "Vegsamaður sé Drottinn!"

18 Ég er hrjáður og snauður, en Drottinn ber umhyggju fyrir mér. Þú ert fulltingi mitt og frelsari, tef eigi, Guð minn!

Sálmarnir 54

54 Til söngstjórans. Með strengjaleik. Maskíl eftir Davíð,

þá er Sifítar komu og sögðu við Sál: Veistu að Davíð felur sig hjá oss?

Hjálpa mér, Guð, með nafni þínu, rétt hlut minn með mætti þínum.

Guð, heyr þú bæn mína, ljá eyra orðum munns míns.

Því að erlendir fjandmenn hefjast gegn mér og ofríkismenn sækjast eftir lífi mínu, eigi hafa þeir Guð fyrir augum. [Sela]

Sjá, Guð er mér hjálpari, það er Drottinn er styður mig.

Hið illa mun fjandmönnum mínum í koll koma, lát þá hverfa af trúfesti þinni.

Þá vil ég færa þér sjálfviljafórnir, lofa nafn þitt, Drottinn, að það sé gott,

því að það hefir frelsað mig úr hverri neyð, og auga mitt hefir svalað sér á að horfa á óvini mína.

Sálmarnir 51

51 Til söngstjórans. Sálmur Davíðs,

þá er Natan spámaður kom til hans, eftir að hann hafði gengið inn til Batsebu.

Guð, vertu mér náðugur sakir elsku þinnar, afmá brot mín sakir þinnar miklu miskunnsemi.

Þvo mig hreinan af misgjörð minni, hreinsa mig af synd minni,

því að ég þekki sjálfur afbrot mín, og synd mín stendur mér stöðugt fyrir hugskotssjónum.

Gegn þér einum hefi ég syndgað og gjört það sem illt er í augum þínum. Því ert þú réttlátur, er þú talar, hreinn, er þú dæmir.

Sjá, sekur var ég, er ég varð til, syndugur, er móðir mín fæddi mig.

Sjá, þú hefir þóknun á hreinskilni hið innra, og í fylgsnum hjartans kennir þú mér visku!

Hreinsa mig með ísóp, svo að ég verði hreinn, þvo mig, svo að ég verði hvítari en mjöll.

10 Lát mig heyra fögnuð og gleði, lát kætast beinin sem þú hefir sundurmarið.

11 Byrg auglit þitt fyrir syndum mínum og afmá allar misgjörðir mínar.

12 Skapa í mér hreint hjarta, ó Guð, og veit mér nýjan, stöðugan anda.

13 Varpa mér ekki burt frá augliti þínu og tak ekki þinn heilaga anda frá mér.

14 Veit mér aftur fögnuð þíns hjálpræðis og styð mig með fúsleiks anda,

15 að ég megi kenna afbrotamönnum vegu þína og syndarar megi hverfa aftur til þín.

16 Frelsa mig frá dauðans háska, Guð hjálpræðis míns, lát tungu mína fagna yfir réttlæti þínu.

17 Drottinn, opna varir mínar, svo að munnur minn kunngjöri lof þitt!

18 Þú hefir ekki þóknun á sláturfórnum _ annars mundi ég láta þær í té _ og að brennifórnum er þér ekkert yndi.

19 Guði þekkar fórnir eru sundurmarinn andi, sundurmarið og sundurkramið hjarta munt þú, ó Guð, eigi fyrirlíta.

20 Gjör vel við Síon sakir náðar þinnar, reis múra Jerúsalem!

21 Þá munt þú hafa þóknun á réttum fórnum, á brennifórn og alfórn, þá munu menn bera fram uxa á altari þitt.

Jósúabók 9:22-10:15

22 Þá lét Jósúa kalla þá og mælti við þá á þessa leið: "Hví svikuð þér oss, er þér sögðuð: ,Vér eigum heima mjög langt í burtu frá yður,` þar sem þér þó búið mitt á meðal vor?

23 Fyrir því skuluð þér nú vera bölvaðir og jafnan vera þrælar upp frá þessu, bæði viðarhöggsmenn og vatnsberar fyrir hús Guðs míns."

24 Þá svöruðu þeir Jósúa og sögðu: "Oss þjónum þínum var frá því sagt, að Drottinn, Guð þinn, hefði heitið Móse, þjóni sínum, að gefa yður allt landið, en eyða öllum landsbúum fyrir yður. Fyrir því urðum vér hræddir um líf vort fyrir yður og tókum því þetta til bragðs.

25 En nú erum vér á þínu valdi. Far þú með oss svo sem þér þykir gott og rétt vera."

26 Og Jósúa fór svo með þá og frelsaði þá úr höndum Ísraelsmanna, svo að þeir dræpu þá ekki.

27 Og hann gjörði þá á þeim degi að viðarhöggsmönnum og vatnsberum fyrir söfnuðinn og fyrir altari Drottins á þeim stað, er hann mundi til velja, og er svo enn í dag.

10 Er Adónísedek, konungur í Jerúsalem, frétti að Jósúa hefði unnið Aí og gjöreytt hana, að hann hefði farið með Aí og konung hennar eins og hann fór með Jeríkó og konung hennar, og að Gíbeonbúar hefðu gjört frið við Ísrael og byggju meðal þeirra,

þá urðu þeir mjög hræddir, því að Gíbeon var stór borg, engu minni en konungaborgirnar, og hún var stærri en Aí og allir borgarbúar hreystimenn.

Sendi Adónísedek, konungur í Jerúsalem, þá til Hóhams, konungs í Hebron, til Pírams, konungs í Jarmút, til Jafía, konungs í Lakís, og til Debírs, konungs í Eglon, og lét segja þeim:

"Komið til móts við mig og veitið mér fulltingi, að vér megum vinna Gíbeon, því að hún hefir gjört frið við Jósúa og Ísraelsmenn."

Þá söfnuðust saman fimm konungar Amoríta og fóru þangað með öllu liði sínu: konungurinn í Jerúsalem, konungurinn í Hebron, konungurinn í Jarmút, konungurinn í Lakís og konungurinn í Eglon. Settust þeir um Gíbeon og tóku að herja á hana.

Gíbeonmenn sendu þá til Jósúa í herbúðirnar í Gilgal, og létu segja honum: "Slá ekki hendi þinni af þjónum þínum. Kom sem skjótast oss til hjálpar og veit oss fulltingi, því að allir konungar Amoríta, þeirra er búa í fjalllendinu, hafa safnast saman í móti oss."

Þá fór Jósúa frá Gilgal með allt lið sitt og alla kappa sína.

Drottinn sagði við Jósúa: "Þú skalt ekki hræðast þá, því að ég mun gefa þá í þínar hendur. Enginn þeirra mun fá staðist fyrir þér."

Jósúa kom nú að þeim óvörum, því að hann hélt áfram ferðinni alla nóttina frá Gilgal.

10 Og Drottinn gjörði þá felmtsfulla fyrir Ísrael og biðu þeir mikinn ósigur við Gíbeon, en hinir eltu þá í áttina til stígsins, er liggur upp að Bet Hóron, og felldu menn á flóttanum allt til Aseka og Makeda.

11 En er þeir flýðu fyrir Ísrael og voru á leið niður frá Bet Hóron, þá lét Drottinn stóra steina falla yfir þá af himni alla leið til Aseka, svo að þeir dóu. Voru þeir fleiri, er féllu fyrir haglsteinunum, en þeir, er Ísraelsmenn drápu með sverðseggjum.

12 Þá talaði Jósúa við Drottin, þann dag er Drottinn gaf Amoríta á vald Ísraelsmönnum, og hann mælti í áheyrn Ísraels: Sól statt þú kyrr í Gíbeon, og þú, tungl, í Ajalondal!

13 Og sólin stóð kyrr, og tunglið staðnaði, uns lýðurinn hafði hefnt sín á óvinum sínum. Svo er skrifað í Bók hinna réttlátu. Þá staðnaði sólin á miðjum himni og hraðaði sér eigi að ganga undir nær því heilan dag.

14 Og enginn dagur hefir þessum degi líkur verið, hvorki fyrr né síðar, að Drottinn skyldi láta að orðum manns, því að Drottinn barðist fyrir Ísrael.

15 Jósúa fór þá aftur til herbúðanna í Gilgal og allur Ísrael með honum.

Bréf Páls til Rómverja 15:14-24

14 En ég er líka sjálfur sannfærður um yður, bræður mínir, að þér og sjálfir eruð fullir góðgirni, auðgaðir alls konar þekkingu og færir um að áminna hver annan.

15 En ég hef sums staðar ritað yður full djarflega, til þess að minna yður á sitthvað. Ég hef gjört það vegna þess að Guð hefur gefið mér þá náð

16 að vera helgiþjónn Krists Jesú hjá heiðingjunum og inna af hendi prestþjónustu við fagnaðarerindi Guðs, til þess að heiðingjarnir mættu verða Guði velþóknanleg fórn, helguð af heilögum anda.

17 Ég hef þá fyrir samfélag mitt við Krist Jesú það, sem ég get hrósað mér af: Starf mitt í þjónustu Guðs.

18 Ekki mun ég dirfast að tala um neitt annað en það, sem Kristur hefur látið mig framkvæma, til að leiða heiðingjana til hlýðni, með orði og verki,

19 með krafti tákna og undra, með krafti heilags anda. Þannig hef ég lokið við að flytja fagnaðarerindið um Krist frá Jerúsalem og allt í kring til Illyríu.

20 Það hefur þannig verið metnaður minn að láta fagnaðarerindið óboðað þar sem Kristur hafði áður nefndur verið, til þess að ég byggði ekki ofan á grundvelli annars,

21 alveg eins og ritað er: "Þeir skulu sjá, sem ekkert var um hann sagt, og þeir, sem ekki hafa heyrt, skulu skilja."

22 Því er það, að mér hefur hvað eftir annað verið meinað að koma til yðar.

23 En nú á ég ekki lengur neitt ógjört á þessum slóðum, og mig hefur auk þess í mörg ár langað til að koma til yðar,

24 þegar ég færi til Spánar. Ég vona, að ég fái að sjá yður, er ég fer um hjá yður, og að þér búið ferð mína þangað, er ég fyrst hef nokkurn veginn fengið nægju mína hjá yður.

Matteusarguðspjall 27:1-10

27 Að morgni gjörðu allir æðstu prestarnir og öldungar lýðsins samþykkt gegn Jesú, að hann skyldi af lífi tekinn.

Þeir létu binda hann og færa brott og framseldu hann Pílatusi landshöfðingja.

Þegar Júdas, sem sveik hann, sá, að hann var dæmdur sekur, iðraðist hann og skilaði æðstu prestunum og öldungunum silfurpeningunum þrjátíu

og mælti: "Ég drýgði synd, ég sveik saklaust blóð." Þeir sögðu: "Hvað varðar oss um það? Það er þitt að sjá fyrir því."

Hann fleygði þá silfrinu inn í musterið og hélt brott. Síðan fór hann og hengdi sig.

Æðstu prestarnir tóku silfrið og sögðu: "Ekki má láta það í guðskistuna, því þetta eru blóðpeningar."

Og þeir urðu ásáttir um að kaupa fyrir þá leirkerasmiðs akurinn til grafreits handa útlendingum.

Þess vegna kallast hann enn í dag Blóðreitur.

Þá rættist það, sem sagt var fyrir munn Jeremía spámanns: "Þeir tóku silfurpeningana þrjátíu, það verð, sem sá var metinn á, er til verðs var lagður af Ísraels sonum,

10 og keyptu fyrir þá leirkerasmiðs akurinn eins og Drottinn hafði fyrir mig lagt."

Icelandic Bible (ICELAND)

by Icelandic Bible Society