Book of Common Prayer
45 Til söngstjórans. Lag: Liljur. Kóraítamaskíl. Brúðkaupskvæði.
2 Hjarta mitt svellur af ljúfum orðum, ég flyt konungi kvæði mitt, tunga mín er sem penni hraðritarans.
3 Fegurri ert þú en mannanna börn, yndisleik er úthellt yfir varir þínar, fyrir því hefir Guð blessað þig að eilífu.
4 Gyrð lendar þínar sverði, þú hetja, ljóma þínum og vegsemd.
5 Sæk fram sigursæll sakir tryggðar og réttlætis, hægri hönd þín mun sýna þér ógurlega hluti.
6 Örvar þínar eru hvesstar, þjóðir falla að fótum þér, fjandmenn konungs eru horfnir.
7 Hásæti þitt er Guðs hásæti um aldur og ævi, sproti ríkis þíns er réttlætis-sproti.
8 Þú elskar réttlæti og hatar ranglæti, fyrir því hefir Guð, þinn Guð, smurt þig með fagnaðarolíu framar félögum þínum.
9 Myrra og alóe og kassía eru öll þín klæði, frá fílabeinshöllinni gleður strengleikurinn þig.
10 Konungadætur eru meðal vildarkvenna þinna, konungsbrúðurin stendur þér til hægri handar í skrúða Ófír-gulls.
11 "Heyr, dóttir, og hneig eyra þitt! Gleym þjóð þinni og föðurlandi,
12 að konungi megi renna hugur til fegurðar þinnar, því að hann er herra þinn og honum átt þú að lúta.
13 Frá Týrus munu menn koma með gjafir, auðugustu menn lýðsins leita hylli þinnar."
14 Eintómt skraut er konungsdóttirin, perlum sett og gullsaumi eru klæði hennar.
15 Í glitofnum klæðum er hún leidd fyrir konung, meyjar fylgja henni, vinkonur hennar eru færðar fram fyrir þig.
16 Þær eru leiddar inn með fögnuði og gleði, þær fara inn í höll konungs.
17 Í stað feðra þinna komi synir þínir, þú munt gjöra þá að höfðingjum um land allt.
18 Ég vil gjöra nafn þitt minnisstætt öllum komandi kynslóðum, þess vegna skulu þjóðir lofa þig um aldur og ævi.
47 Til söngstjórans. Kóraítasálmur.
2 Klappið saman lófum, allar þjóðir, fagnið fyrir Guði með gleðiópi.
3 Því að Drottinn, Hinn hæsti, er ógurlegur, voldugur konungur yfir gjörvallri jörðinni.
4 Hann leggur undir oss lýði og þjóðir fyrir fætur vora.
5 Hann útvaldi handa oss óðal vort, fremdarhnoss Jakobs, sem hann elskar. [Sela]
6 Guð er upp stiginn með fagnaðarópi, með lúðurhljómi er Drottinn upp stiginn.
7 Syngið Guði, syngið, syngið konungi vorum, syngið!
8 Því að Guð er konungur yfir gjörvallri jörðinni, syngið Guði lofsöng!
9 Guð er orðinn konungur yfir þjóðunum, Guð er setstur í sitt heilaga hásæti.
10 Göfugmenni þjóðanna safnast saman ásamt lýð Abrahams Guðs. Því að Guðs eru skildir jarðarinnar, hann er mjög hátt upphafinn.
48 Ljóð. Kóraítasálmur.
2 Mikill er Drottinn og mjög vegsamlegur í borg vors Guðs, á sínu helga fjalli.
3 Yndisleg rís hún, gleði alls landsins, Síonarhæð, yst í norðri, borg hins mikla konungs.
4 Guð hefir í höllum hennar kunngjört sig sem vígi.
5 Því sjá, konungarnir áttu með sér stefnu, héldu fram saman.
6 Óðara en þeir sáu, urðu þeir agndofa, skelfdust, flýðu.
7 Felmtur greip þá samstundis, angist sem jóðsjúka konu.
8 Með austanvindinum brýtur þú Tarsis-knörru.
9 Eins og vér höfum heyrt, svo höfum vér séð í borg Drottins hersveitanna, í borg vors Guðs. Guð lætur hana standa að eilífu. [Sela]
10 Guð, vér ígrundum elsku þína inni í musteri þínu.
11 Eins og nafn þitt, Guð, svo hljómi lofgjörð þín til endimarka jarðar. Hægri hönd þín er full réttlætis.
12 Síonfjall gleðst, Júdadætur fagna vegna dóma þinna.
13 Kringið um Síon, gangið umhverfis hana, teljið turna hennar.
14 Hyggið að múrgirðing hennar, skoðið hallir hennar, til þess að þér getið sagt komandi kynslóð,
15 að slíkur sé Drottinn, Guð vor. Um aldur og ævi mun hann leiða oss.
8 Drottinn sagði við Jósúa: "Óttast þú eigi og lát eigi hugfallast. Tak með þér allt herliðið, og tak þig upp og far til Aí. Sjá, ég mun gefa konunginn í Aí, fólk hans, borg og land í þínar hendur.
2 Og þú skalt fara með Aí og konung hennar eins og þú fórst með Jeríkó og konung hennar. Þó megið þér taka herfang það og fénað þann, sem þar er, yður til handa. Settu launsátur að baki borgarinnar."
3 Þá tók Jósúa sig upp með allt herliðið og hélt til Aí. En Jósúa valdi nú þrjátíu þúsundir hraustra manna og sendi þá af stað um nóttina
4 og lagði svo fyrir þá: "Sjáið til! Þér skuluð liggja í launsátri að baki borgarinnar, en verið ekki mjög langt frá borginni og verið allir viðbúnir.
5 Sjálfur mun ég fara til borgarinnar með alla mína menn, og er þeir fara út í móti oss, eins og hið fyrra sinnið, munum vér flýja undan þeim.
6 Og þeir munu veita oss eftirför, uns vér höfum teygt þá burt frá borginni, því að þeir munu segja: ,Nú flýja þeir fyrir oss, eins og hið fyrra sinnið,` og vér munum flýja fyrir þeim.
7 Þá skuluð þér spretta upp úr launsátrinu og taka borgina, því að Drottinn, Guð yðar, mun gefa hana á yðar vald.
8 En er þér hafið tekið borgina herskildi, skuluð þér leggja eld í borgina. Gjörið það, sem Drottinn segir. Gefið nú gætur að; ég hefi boðið yður það."
9 Sendi Jósúa þá nú af stað, og fóru þeir í launsátrið og námu staðar milli Betel og Aí, vestanvert við Aí. En Jósúa hafðist við um nóttina meðal lýðsins.
10 Morguninn eftir reis Jósúa árla og kannaði liðið. Fór hann því næst sjálfur og öldungar Ísraels fyrir liðinu upp til Aí.
11 Og allt herliðið, sem með honum var, fór upp þangað. Héldu þeir fram, þar til er þeir komu gegnt borginni. Þar settu þeir herbúðir sínar fyrir norðan Aí, og var dalurinn milli þeirra og Aí.
12 Því næst tók hann um fimm þúsundir manns og setti þá í launsátur milli Betel og Aí, vestanvert við borgina.
13 Þeir fylktu nú liðinu, öllum hernum, sem var fyrir norðan borgina, og afturliðinu fyrir vestan borgina. En Jósúa fór þessa sömu nótt ofan í dalinn miðjan.
14 Er konungurinn í Aí varð þessa vís, höfðu borgarmenn hraðan á, risu árla og fóru út í móti Ísrael til orustu, hann og allt hans lið, á ákveðnum stað gegnt Jórdandalnum. En hann vissi ekki, að honum var búin launsát að borgar baki.
15 En Jósúa og allur Ísrael létust bíða ósigur fyrir þeim og flýðu á leið til eyðimerkurinnar.
16 Voru þá allir menn, er í borginni voru, kvaddir til að reka flóttann, og veittu þeir Jósúa eftirför og létu teygjast burt frá borginni.
17 Varð enginn maður eftir í Aí og Betel, sá er eigi færi eftir Ísrael; skildu þeir eftir opna borgina og veittu Ísrael eftirför.
18 Þá sagði Drottinn við Jósúa: "Rétt þú út spjót það, sem þú hefir í hendi þér, gegn Aí, því að ég mun gefa hana þér á vald." Og Jósúa rétti út spjótið, sem hann hafði í hendi sér, gegn borginni.
19 Þá spratt launsátursliðið hratt upp úr stað sínum. Skunduðu þeir að, er hann rétti út höndina, fóru inn í borgina og tóku hana, lögðu því næst sem skjótast eld í borgina.
20 En er Aí-menn sneru sér við, sáu þeir að reyk lagði upp af borginni til himins, og brast þá nú þróttur, svo að þeir máttu í hvoruga áttina flýja, og liðið, sem flúið hafði til eyðimerkurinnar, snerist nú í móti þeim, er rekið höfðu flóttann.
21 En er Jósúa og allur Ísrael sáu, að launsátursliðið hafði tekið borgina og að reykinn lagði upp af borginni, þá hurfu þeir aftur og gjörðu áhlaup á Aí-menn.
22 Hinir komu þá og úr borginni út í móti þeim, og urðu þeir nú milli Ísraelsmanna, sem umkringdu þá á alla vegu. Felldu þeir þá, svo að enginn var eftir skilinn, sá er undan kæmist eða forðaði lífi sínu.
14 Takið að yður hina óstyrku í trúnni, án þess að leggja dóm á skoðanir þeirra.
2 Einn er þeirrar trúar, að alls megi neyta en hinn óstyrki neytir einungis jurtafæðu.
3 Sá, sem neytir kjöts, fyrirlíti ekki hinn, sem lætur þess óneytt, og sá, sem lætur þess óneytt, dæmi ekki þann, sem neytir þess, því að Guð hefur tekið hann að sér.
4 Hver ert þú, sem dæmir annars þjón? Hann stendur og fellur herra sínum. Og hann mun standa, því að megnugur er Drottinn þess að láta hann standa.
5 Einn gjörir mun á dögum, en annar metur alla daga jafna. Sérhver hafi örugga sannfæringu í huga sínum.
6 Sá, sem tekur tillit til daga, gjörir það vegna Drottins. Og sá, sem neytir kjöts, gerir það vegna Drottins, því að hann gjörir Guði þakkir. Sá, sem lætur óneytt, hann lætur óneytt vegna Drottins og gjörir Guði þakkir.
7 Því að enginn af oss lifir sjálfum sér og enginn deyr sjálfum sér.
8 Ef vér lifum, lifum vér Drottni, og ef vér deyjum, deyjum vér Drottni. Hvort sem vér þess vegna lifum eða deyjum, þá erum vér Drottins.
9 Því að til þess dó Kristur og varð aftur lifandi, að hann skyldi drottna bæði yfir dauðum og lifandi.
10 En þú, hví dæmir þú bróður þinn? Eða þá þú, hví fyrirlítur þú bróður þinn? Allir munum vér verða að koma fram fyrir dómstól Guðs.
11 Því að ritað er: "Svo sannarlega sem ég lifi, segir Drottinn, fyrir mér skulu öll kné beygja sig og sérhver tunga vegsama Guð."
12 Því skal þá sérhver af oss lúka Guði reikning fyrir sjálfan sig.
47 Meðan hann var enn að tala, kom Júdas, einn þeirra tólf, og með honum mikill flokkur frá æðstu prestunum og öldungum lýðsins, og höfðu þeir sverð og barefli.
48 Svikarinn hafði sagt þeim þetta til marks: "Sá sem ég kyssi, hann er það. Takið hann höndum."
49 Hann gekk beint að Jesú og sagði: "Heill, rabbí!" og kyssti hann.
50 Jesús sagði við hann: "Vinur, hví ertu hér?" Þá komu hinir, lögðu hendur á Jesú og tóku hann.
51 Einn þeirra, sem með Jesú voru, greip til sverðs og brá því, hjó til þjóns æðsta prestsins og sneið af honum eyrað.
52 Jesús sagði við hann: "Slíðra sverð þitt! Allir, sem sverði bregða, munu fyrir sverði falla.
53 Hyggur þú, að ég geti ekki beðið föður minn að senda mér nú meira en tólf sveitir engla?
54 Hvernig ættu þá ritningarnar að rætast, sem segja, að þetta eigi svo að verða?"
55 Á þeirri stundu sagði Jesús við flokkinn: "Eruð þér að fara að mér með sverðum og bareflum eins og gegn ræningja til að handtaka mig? Daglega sat ég í helgidóminum og kenndi, og þér tókuð mig ekki höndum.
56 En allt verður þetta til þess, að ritningar spámannanna rætist." Þá yfirgáfu hann lærisveinarnir allir og flýðu.
by Icelandic Bible Society