Book of Common Prayer
31 Til söngstjórans. Davíðssálmur.
2 Hjá þér, Drottinn, leita ég hælis, lát mig aldrei verða til skammar. Bjarga mér eftir réttlæti þínu,
3 hneig eyru þín til mín, frelsa mig í skyndi, ver mér verndarbjarg, vígi mér til hjálpar.
4 Því að þú ert bjarg mitt og vígi, og sakir nafns þíns munt þú leiða mig og stjórna mér.
5 Þú munt draga mig úr neti því, er þeir lögðu leynt fyrir mig, því að þú ert vörn mín.
6 Í þínar hendur fel ég anda minn, þú frelsar mig, Drottinn, þú trúfasti Guð!
7 Ég hata þá, er dýrka fánýt falsgoð, en Drottni treysti ég.
8 Ég vil gleðjast og fagna yfir miskunn þinni, því að þú hefir litið á eymd mína, gefið gætur að sálarneyð minni
9 og eigi ofurselt mig óvinunum, en sett fót minn á víðlendi.
10 Líkna mér, Drottinn, því að ég er í nauðum staddur, döpruð af harmi eru augu mín, sál mín og líkami.
11 Ár mín líða í harmi og líf mitt í andvörpum, mér förlast kraftur sakir sektar minnar, og bein mín tærast.
12 Ég er að spotti öllum óvinum mínum, til háðungar nábúum mínum og skelfing kunningjum mínum: þeir sem sjá mig á strætum úti flýja mig.
13 Sem dáinn maður er ég gleymdur hjörtum þeirra, ég er sem ónýtt ker.
14 Ég heyri illyrði margra, _ skelfing er allt um kring _ þeir bera ráð sín saman móti mér, hyggja á að svipta mig lífi.
15 En ég treysti þér, Drottinn, ég segi: "Þú ert Guð minn!"
16 Í þinni hendi eru stundir mínar, frelsa mig af hendi óvina minna og ofsækjenda.
17 Lát ásjónu þína lýsa yfir þjón þinn, hjálpa mér sakir elsku þinnar.
18 Ó Drottinn, lát mig eigi verða til skammar, því að ég ákalla þig. Lát hina guðlausu verða til skammar, hverfa hljóða til Heljar.
19 Lát lygavarirnar þagna, þær er mæla drambyrði gegn réttlátum með hroka og fyrirlitningu.
20 Hversu mikil er gæska þín, er þú hefir geymt þeim er óttast þig, og auðsýnir þeim er leita hælis hjá þér frammi fyrir mönnunum.
21 Þú hylur þá í skjóli auglitis þíns fyrir svikráðum manna, felur þá í leyni fyrir deilum tungnanna.
22 Lofaður sé Drottinn, því að hann hefir sýnt mér dásamlega náð í öruggri borg.
23 Ég hugsaði í angist minni: "Ég er burtrekinn frá augum þínum." En samt heyrðir þú grátraust mína, er ég hrópaði til þín.
24 Elskið Drottin, allir þér hans trúuðu, Drottinn verndar trúfasta, en geldur í fullum mæli þeim er ofmetnaðarverk vinna.
25 Verið öruggir og hughraustir, allir þér er vonið á Drottin.
35 Davíðssálmur. Deil þú, Drottinn, við þá er deila við mig, berst þú við þá er berjast við mig.
2 Tak skjöld og törgu og rís upp mér til hjálpar.
3 Tak til spjót og öxi til þess að mæta ofsækjendum mínum, seg við sál mína: "Ég er hjálp þín!"
4 Lát þá er sitja um líf mitt hljóta smán og svívirðing, lát þá hverfa aftur með skömm, er ætla að gjöra mér illt.
5 Lát þá verða sem sáðir fyrir vindi, þegar engill Drottins varpar þeim um koll.
6 Lát veg þeirra verða myrkan og hálan, þegar engill Drottins eltir þá.
7 Því að ástæðulausu hafa þeir lagt net sitt leynt fyrir mig, að ástæðulausu hafa þeir grafið gryfju fyrir mig.
8 Lát tortíming koma yfir þá, er þá varir minnst, lát netið, er þeir hafa lagt leynt, veiða sjálfa þá, lát þá falla í þeirra eigin gryfju.
9 En sál mín skal kætast yfir Drottni, gleðjast yfir hjálpræði hans.
10 Öll bein mín skulu segja: "Drottinn, hver er sem þú, er frelsar hinn umkomulausa frá þeim sem er honum yfirsterkari, hinn hrjáða og snauða frá þeim sem rænir hann?"
11 Ljúgvottar rísa upp, þeir spyrja mig um það sem ég veit ekki um.
12 Þeir launa mér gott með illu, einsemd varð hlutfall mitt.
13 En þegar þeir voru sjúkir, klæddist ég hærusekk, þjáði mig með föstu og bað með niðurlútu höfði,
14 gekk um harmandi, sem vinur eða bróðir ætti í hlut, var beygður eins og sá er syrgir móður sína.
15 En þeir fagna yfir hrösun minni og safnast saman, útlendingar og ókunnugir menn safnast saman móti mér, mæla lastyrði og þagna eigi.
16 Þeir freista mín, smána og smána, nísta tönnum í gegn mér.
17 Drottinn, hversu lengi vilt þú horfa á? Frelsa sál mína undan eyðileggingu þeirra, mína einmana sál undan ljónunum.
18 Þá vil ég lofa þig í miklum söfnuði, vegsama þig í miklum mannfjölda.
19 Lát eigi þá sem án saka eru óvinir mínir, hlakka yfir mér, lát eigi þá sem að ástæðulausu hata mig, skotra augunum.
20 Því að frið tala þeir eigi, og móti hinum kyrrlátu í landinu hugsa þeir upp sviksamleg orð.
21 Þeir glenna upp ginið í móti mér, segja: "Hæ, hæ! Nú höfum vér séð það með eigin augum!"
22 Þú hefir séð það, Drottinn, ver eigi hljóður, Drottinn, ver eigi langt í burtu frá mér.
23 Vakna, rís upp og lát mig ná rétti mínum, Guð minn og Drottinn, til þess að flytja mál mitt.
24 Dæm mig eftir réttlæti þínu, Drottinn, Guð minn, og lát þá eigi hlakka yfir mér,
25 lát þá ekki segja í hjarta sínu: "Hæ! Ósk vor er uppfyllt!" lát þá ekki segja: "Vér höfum gjört út af við hann."
26 Lát þá alla verða til skammar og hljóta kinnroða, er hlakka yfir ógæfu minni, lát þá íklæðast skömm og svívirðing, er hreykja sér upp gegn mér.
27 Lát þá kveða fagnaðarópi og gleðjast, er unna mér réttar, lát þá ætíð segja: "Vegsamaður sé Drottinn, hann sem ann þjóni sínum heilla!"
28 Og tunga mín skal boða réttlæti þitt, lofstír þinn liðlangan daginn.
19 Lýðurinn kom upp úr Jórdan á tíunda degi hins fyrsta mánaðar og setti búðir sínar í Gilgal, við austurtakmörkin á Jeríkó.
20 Og steinana tólf, er þeir höfðu tekið upp úr Jórdan, reisti Jósúa í Gilgal.
21 Mælti hann þá til Ísraelsmanna á þessa leið: "Þegar synir yðar á síðan spyrja feður sína og segja: ,Hvað eiga steinar þessir að jarteina?`
22 þá skuluð þér gjöra það kunnugt og segja: ,Ísrael gekk á þurru yfir ána Jórdan,
23 með því að Drottinn Guð yðar þurrkaði vatnið í Jórdan fyrir yður, þar til er þér voruð komnir yfir um, eins og Drottinn Guð yðar gjörði við Sefhafið, er hann þurrkaði það fyrir oss, þar til er vér vorum komnir yfir um,
24 til þess að allar þjóðir á jörðu mættu vita, að hönd Drottins er sterk, svo að þær óttuðust Drottin Guð yðar alla daga."`
5 Allir konungar Amoríta, þeirra er bjuggu fyrir vestan Jórdan, og allir konungar Kanaaníta, sem búa við hafið, heyrðu, að Drottinn hefði þurrkað vatnið í Jórdan fyrir Ísraelsmönnum, uns þeir voru komnir yfir um. Þá kom þeim æðra í brjóst og þeim féllst hugur fyrir Ísraelsmönnum.
10 Þegar Ísraelsmenn höfðu sett búðir sínar í Gilgal, héldu þeir páska á Jeríkóvöllum, hinn fjórtánda dag mánaðarins, að kveldi.
11 Og daginn eftir páska átu þeir ósýrð brauð og bakað korn af gróðri landsins, einmitt þennan dag.
12 Daginn eftir þraut manna, er þeir átu af gróðri landsins, og upp frá því fengu Ísraelsmenn ekki manna, heldur átu þeir af gróðri Kanaanlands það árið.
13 Það bar til, er Jósúa var staddur hjá Jeríkó, að hann leit upp og sá, hvar maður stóð gegnt honum með brugðið sverð í hendi. Jósúa gekk til hans og sagði við hann: "Hvort ert þú vor maður eða af óvinum vorum?"
14 Hann svaraði: "Nei! heldur er ég fyrirliði fyrir hersveit Drottins. Nú er ég kominn." Þá féll Jósúa fram á ásjónu sína til jarðar, laut og sagði: "Hvað vilt þú, herra, mæla við þjón þinn?"
15 Þá sagði fyrirliðinn fyrir hersveit Drottins við Jósúa: "Drag skó þína af fótum þér, því að það er heilagur staður, er þú stendur á!" Og Jósúa gjörði svo.
9 Elskan sé flærðarlaus. Hafið andstyggð á hinu vonda, en haldið fast við hið góða.
10 Sýnið hver öðrum bróðurkærleika og ástúð, og verið hver yðar fyrri til að veita öðrum virðing.
11 Verið ekki hálfvolgir í áhuganum, verið brennandi í andanum. Þjónið Drottni.
12 Verið glaðir í voninni, þolinmóðir í þjáningunni og staðfastir í bæninni.
13 Takið þátt í þörfum heilagra, stundið gestrisni.
14 Blessið þá, er ofsækja yður, blessið þá, en bölvið þeim ekki.
15 Fagnið með fagnendum, grátið með grátendum.
16 Berið sama hug til allra, hreykið yður ekki, en haldið yður að hinum lítilmótlegu. Ætlið yður ekki hyggna með sjálfum yður.
17 Gjaldið engum illt fyrir illt. Stundið það sem fagurt er fyrir sjónum allra manna.
18 Hafið frið við alla menn að því leyti sem það er unnt og á yðar valdi.
19 Hefnið yðar ekki sjálfir, þér elskaðir, heldur lofið hinni refsandi reiði Guðs að komast að, því að ritað er: "Mín er hefndin, ég mun endurgjalda, segir Drottinn."
20 En "ef óvin þinn hungrar, þá gef honum að eta, ef hann þyrstir, þá gef honum að drekka. Með því að gjöra þetta, safnar þú glóðum elds á höfuð honum."
21 Lát ekki hið vonda yfirbuga þig, heldur sigra þú illt með góðu.
17 Á fyrsta degi ósýrðu brauðanna komu lærisveinarnir til Jesú og sögðu: "Hvar vilt þú, að vér búum þér páskamáltíðina?"
18 Hann mælti: "Farið til ákveðins manns í borginni, og segið við hann: ,Meistarinn segir: Minn tími er í nánd, hjá þér vil ég halda páska með lærisveinum mínum."`
19 Lærisveinarnir gjörðu sem Jesús bauð þeim og bjuggu til páskamáltíðar.
20 Um kvöldið sat hann til borðs með þeim tólf.
21 Og er þeir mötuðust, sagði hann: "Sannlega segi ég yður: Einn af yður mun svíkja mig."
22 Þeir urðu mjög hryggir og sögðu við hann, einn af öðrum: "Ekki er það ég, herra?"
23 Hann svaraði þeim: "Sá sem dýfði hendi í fatið með mér, mun svíkja mig.
24 Mannssonurinn fer að sönnu héðan, svo sem um hann er ritað, en vei þeim manni, sem því veldur, að Mannssonurinn verður framseldur. Betra væri þeim manni að hafa aldrei fæðst."
25 En Júdas, sem sveik hann, sagði: "Rabbí, ekki er það ég?" Jesús svaraði: "Þú sagðir það."
by Icelandic Bible Society