Print Page Options
Previous Prev Day Next DayNext

Book of Common Prayer

Daily Old and New Testament readings based on the Book of Common Prayer.
Duration: 861 days
Icelandic Bible (ICELAND)
Version
Sálmarnir 38

38 Davíðssálmur. Minningarljóð.

Drottinn, refsa mér ekki í reiði þinni og tyfta mig ekki í gremi þinni.

Örvar þínar standa fastar í mér, og hönd þín liggur þungt á mér.

Enginn heilbrigður blettur er á líkama mínum sakir reiði þinnar, ekkert heilt í beinum mínum sakir syndar minnar.

Misgjörðir mínar ganga mér yfir höfuð, sem þung byrði eru þær mér of þungar orðnar.

Ódaun leggur af sárum mínum, rotnun er í þeim sakir heimsku minnar.

Ég er beygður og mjög bugaður, ráfa um harmandi daginn langan.

Lendar mínar eru fullar bruna, og enginn heilbrigður blettur er á líkama mínum.

Ég er lémagna og kraminn mjög, kveina af angist hjartans.

10 Drottinn, öll mín þrá er þér kunn og andvörp mín eru eigi hulin þér.

11 Hjarta mitt berst ákaft, kraftur minn er þrotinn, jafnvel ljós augna minna er horfið mér.

12 Ástvinir mínir og kunningjar hörfa burt fyrir kröm minni, og frændur mínir standa fjarri.

13 Þeir er sitja um líf mitt, leggja snörur fyrir mig, þeir er leita mér meins, mæla skaðræði og hyggja á svik allan liðlangan daginn.

14 En ég er sem daufur, ég heyri það ekki, og sem dumbur, er eigi opnar munninn,

15 ég er sem maður er eigi heyrir og engin andmæli eru í munni hans.

16 Því að á þig, Drottinn, vona ég, þú munt svara mér, Drottinn minn og Guð minn,

17 því að ég segi: "Lát þá eigi hlakka yfir mér, eigi hælast um af því, að mér skriðni fótur."

18 Því að ég er að falli kominn, og þjáningar mínar eru mér æ fyrir augum.

19 Ég játa misgjörð mína, harma synd mína,

20 og þeir sem án saka eru óvinir mínir, eru margir, fjölmargir þeir er hata mig að ástæðulausu.

21 Þeir gjalda mér gott með illu, sýna mér fjandskap, af því ég legg stund á það sem gott er.

22 Yfirgef mig ekki, Drottinn, Guð minn, ver ekki fjarri mér,

23 skunda til liðs við mig, Drottinn, þú hjálp mín.

Sálmarnir 119:25-48

25 Sál mín loðir við duftið, lát mig lífi halda eftir orði þínu.

26 Ég hefi talið upp málefni mín, og þú bænheyrðir mig, kenn mér lög þín.

27 Lát mig skilja veg fyrirmæla þinna, að ég megi íhuga dásemdir þínar.

28 Sál mín tárast af trega, reis mig upp eftir orði þínu.

29 Lát veg lyginnar vera fjarri mér og veit mér náðarsamlega lögmál þitt.

30 Ég hefi útvalið veg sannleikans, sett mér ákvæði þín fyrir sjónir.

31 Ég held fast við reglur þínar, Drottinn, lát mig eigi verða til skammar.

32 Ég vil skunda veg boða þinna, því að þú hefir gjört mér létt um hjartað.

33 Kenn mér, Drottinn, veg laga þinna, að ég megi halda þau allt til enda.

34 Veit mér skyn, að ég megi halda lögmál þitt og varðveita það af öllu hjarta.

35 Leið mig götu boða þinna, því að af henni hefi ég yndi.

36 Beyg hjarta mitt að reglum þínum, en eigi að ranglátum ávinningi.

37 Snú augum mínum frá því að horfa á hégóma, lífga mig á vegum þínum.

38 Staðfest fyrirheit þitt fyrir þjóni þínum, sem gefið er þeim er þig óttast.

39 Nem burt háðungina, sem ég er hræddur við, því að ákvæði þín eru góð.

40 Sjá, ég þrái fyrirmæli þín, lífga mig með réttlæti þínu.

41 Lát náð þína koma yfir mig, Drottinn, hjálpræði þitt, samkvæmt fyrirheiti þínu,

42 að ég fái andsvör veitt þeim er smána mig, því að þínu orði treysti ég.

43 Og tak aldrei sannleikans orð burt úr munni mínum, því að ég bíð dóma þinna.

44 Ég vil stöðugt varðveita lögmál þitt, um aldur og ævi,

45 þá mun ég ganga um víðlendi, því að ég leita fyrirmæla þinna,

46 þá mun ég tala um reglur þínar frammi fyrir konungum, og eigi skammast mín,

47 og leita unaðar í boðum þínum, þeim er ég elska,

48 og rétta út hendurnar eftir boðum þínum, þeim er ég elska, og íhuga lög þín.

Jósúabók 3:1-13

Morguninn eftir reis Jósúa árla. Lögðu þeir nú upp frá Sittím og komu að Jórdan, hann og allir Ísraelsmenn, og voru þar um nóttina, áður þeir færu yfir um.

En að þremur dögum liðnum fóru tilsjónarmennirnir um allar herbúðirnar

og buðu lýðnum og sögðu: "Þegar þér sjáið sáttmálsörk Drottins, Guðs yðar, og levítaprestana bera hana, þá leggið upp frá yðar stað og farið á eftir henni.

Látið þó vera um tveggja þúsund álna bil millum yðar og hennar og komið ekki nærri henni. Megið þér þá vita, hvaða veg þér eigið að fara, því að þér hafið aldrei farið þann veg áður."

Þá sagði Jósúa við lýðinn: "Helgið yður, því að á morgun mun Drottinn gjöra undursamlega hluti meðal yðar."

Og við prestana sagði Jósúa: "Takið upp sáttmálsörkina og farið yfir um á undan lýðnum." Þeir tóku þá upp sáttmálsörkina og fóru yfir um á undan lýðnum.

Drottinn sagði við Jósúa: "Í dag mun ég taka til að mikla þig í augsýn alls Ísraels, svo að þeir megi vita, að ég er með þér, eins og ég var með Móse.

En bjóð þú prestunum, sem bera sáttmálsörkina, á þessa leið: Þegar þér komið í vatnsbrúnina í Jórdan, þá nemið þar staðar í ánni."

Og Jósúa sagði við Ísraelsmenn: "Komið hingað og heyrið orð Drottins, Guðs yðar!"

10 Og Jósúa mælti: "Af þessu skuluð þér vita mega, að lifandi Guð er á meðal yðar og að hann vissulega mun stökkva burt undan yður Kanaanítum, Hetítum, Hevítum, Peresítum, Gírgasítum, Amorítum og Jebúsítum:

11 Sjá, sáttmálsörk hans, sem er Drottinn allrar veraldar, mun fara á undan yður út í Jórdan.

12 Veljið yður nú tólf menn af ættkvíslum Ísraels, einn mann af ættkvísl hverri.

13 Og þegar prestarnir, sem bera sáttmálsörk Drottins, hans sem er Drottinn allrar veraldar, stíga fæti í vatn Jórdanar, þá mun vatnið í Jórdan stöðvast, vatnið, sem ofan að kemur, og standa sem veggur."

Bréf Páls til Rómverja 11:25-36

25 Ég vil ekki, bræður mínir, að yður sé ókunnugt um þennan leyndardóm, til þess að þér skuluð ekki með sjálfum yður ætla yður hyggna. Forherðing er komin yfir nokkurn hluta af Ísrael og varir þangað til heiðingjarnir eru allir komnir inn.

26 Og þannig mun allur Ísrael frelsaður verða, eins og ritað er: Frá Síon mun frelsarinn koma og útrýma guðleysi frá Jakob.

27 Og þetta er sáttmáli minn við þá, þegar ég tek burt syndir þeirra.

28 Í ljósi fagnaðarerindisins eru þeir óvinir Guðs vegna yðar, en í ljósi útvalningarinnar elskaðir sakir feðranna.

29 Guð iðrar ekki náðargjafa sinna og köllunar.

30 Þér voruð fyrrum óhlýðnir Guði, en hafið nú hlotið miskunn vegna óhlýðni þeirra.

31 Þannig hafa þeir nú líka orðið óhlýðnir, til þess að einnig þeim mætti miskunnað verða fyrir miskunn þá, sem yður er veitt.

32 Guð hefur gefið alla óhlýðninni á vald, til þess að hann geti miskunnað öllum.

33 Hvílíkt djúp ríkdóms, speki og þekkingar Guðs! Hversu órannsakandi dómar hans og órekjandi vegir hans!

34 Hver hefur þekkt huga Drottins? Eða hver hefur verið ráðgjafi hans?

35 Hver hefur að fyrra bragði gefið honum, svo að það eigi að verða honum endurgoldið?

36 Því að frá honum og fyrir hann og til hans eru allir hlutir. Honum sé dýrð um aldir alda! Amen.

Matteusarguðspjall 25:31-46

31 Þegar Mannssonurinn kemur í dýrð sinni og allir englar með honum, þá mun hann sitja í dýrðarhásæti sínu.

32 Allar þjóðir munu safnast frammi fyrir honum, og hann mun skilja hvern frá öðrum, eins og hirðir skilur sauði frá höfrum.

33 Sauðunum skipar hann sér til hægri handar, en höfrunum til vinstri.

34 Og þá mun konungurinn segja við þá til hægri: ,Komið þér, hinir blessuðu föður míns, og takið að erfð ríkið, sem yður var búið frá grundvöllun heims.

35 Því hungraður var ég, og þér gáfuð mér að eta, þyrstur var ég, og þér gáfuð mér að drekka, gestur var ég, og þér hýstuð mig,

36 nakinn og þér klædduð mig, sjúkur og þér vitjuðuð mín, í fangelsi var ég, og þér komuð til mín.`

37 Þá munu þeir réttlátu segja: ,Herra, hvenær sáum vér þig hungraðan og gáfum þér að eta eða þyrstan og gáfum þér að drekka?

38 Hvenær sáum vér þig gestkominn og hýstum þig, nakinn og klæddum þig?

39 Og hvenær sáum vér þig sjúkan eða í fangelsi og komum til þín?`

40 Konungurinn mun þá svara þeim: ,Sannlega segi ég yður, það allt, sem þér gjörðuð einum minna minnstu bræðra, það hafið þér gjört mér.`

41 Síðan mun hann segja við þá til vinstri handar: ,Farið frá mér, bölvaðir, í þann eilífa eld, sem búinn er djöflinum og árum hans.

42 Því hungraður var ég, en þér gáfuð mér ekki að eta, þyrstur var ég, en þér gáfuð mér ekki að drekka,

43 gestur var ég, en þér hýstuð mig ekki, nakinn, en þér klædduð mig ekki, ég var sjúkur og í fangelsi, en ekki vitjuðuð þér mín.`

44 Þá munu þeir svara: ,Herra, hvenær sáum vér þig hungraðan eða þyrstan, gestkominn eða nakinn, sjúkan eða í fangelsi, og hjálpuðum þér ekki?`

45 Hann mun þá svara þeim: ,Sannlega segi ég yður: Það allt sem þér gjörðuð ekki einum hinna minnstu bræðra minna, það hafið þér ekki heldur gjört mér.`

46 Og þeir munu fara til eilífrar refsingar, en hinir réttlátu til eilífs lífs."

Icelandic Bible (ICELAND)

by Icelandic Bible Society