Book of Common Prayer
26 Davíðssálmur. Lát mig ná rétti mínum, Drottinn, því að ég geng fram í grandvarleik og þér treysti ég óbifanlega.
2 Rannsaka mig, Drottinn, og reyn mig, prófa hug minn og hjarta.
3 Því að ég hefi elsku þína fyrir augum, og ég geng í sannleika þínum.
4 Ég tek mér eigi sæti hjá lygurum og hefi eigi umgengni við fláráða menn.
5 Ég hata söfnuð illvirkjanna, sit eigi meðal óguðlegra.
6 Ég þvæ hendur mínar í sakleysi og geng í kringum altari þitt, Drottinn,
7 til þess að láta lofsönginn hljóma og segja frá öllum þínum dásemdarverkum.
8 Drottinn, ég elska bústað húss þíns og staðinn þar sem dýrð þín býr.
9 Hríf eigi sál mína burt með syndurum né líf mitt með morðingjum,
10 þeim er hafa svívirðing í höndum sér og hægri höndina fulla af mútugjöfum.
11 En ég geng fram í grandvarleik, frelsa mig og líkna mér.
12 Fótur minn stendur á sléttri grund, í söfnuðunum vil ég lofa Drottin.
28 Davíðssálmur. Til þín, Drottinn, hrópa ég, þú bjarg mitt, ver eigi hljóður gagnvart mér. Ef þú þegir við mér, verð ég sem þeir, er til grafar eru gengnir.
2 Heyr þú á grátbeiðni mína, er ég hrópa til þín, er ég lyfti höndum mínum til Hins allrahelgasta í musteri þínu.
3 Hríf mig eigi á burt með óguðlegum og með illgjörðamönnum, þeim er tala vinsamlega við náunga sinn, en hafa illt í hyggju.
4 Launa þeim eftir verkum þeirra, eftir þeirra illu breytni, launa þeim eftir verkum handa þeirra, endurgjald þeim það er þeir hafa aðhafst.
5 Því að þeir hyggja eigi á verk Drottins né handaverk hans, hann rífi þá niður og reisi þá eigi við aftur.
6 Lofaður sé Drottinn, því að hann hefir heyrt grátbeiðni mína.
7 Drottinn er vígi mitt og skjöldur, honum treysti hjarta mitt. Ég hlaut hjálp, því fagnar hjarta mitt, og með ljóðum mínum lofa ég hann.
8 Drottinn er vígi lýð sínum og hjálparhæli sínum smurða.
9 Hjálpa lýð þínum og blessa eign þína, gæt þeirra og ber þá að eilífu.
36 Til söngstjórans. Eftir Davíð, þjón Drottins.
2 Rödd syndarinnar talar til hins guðlausa í fylgsnum hjarta hans, enginn guðsótti býr í huga hans.
3 Hún smjaðrar fyrir honum í augum hans og misgjörð hans verður uppvís og hann verður fyrir hatri.
4 Orðin af munni hans eru tál og svik, hann er hættur að vera hygginn og breyta vel.
5 Í hvílu sinni hyggur hann á tál, hann fetar vonda vegu, forðast eigi hið illa.
6 Drottinn, til himna nær miskunn þín, til skýjanna trúfesti þín.
7 Réttlæti þitt er sem fjöll Guðs, dómar þínir sem reginhaf. Mönnum og skepnum hjálpar þú, Drottinn.
8 Hversu dýrmæt er miskunn þín, ó Guð, mannanna börn leita hælis í skugga vængja þinna.
9 Þau seðjast af feiti húss þíns, og þú lætur þau drekka úr lækjum unaðsemda þinna.
10 Hjá þér er uppspretta lífsins, í þínu ljósi sjáum vér ljós.
11 Lát miskunn þína haldast við þá er þekkja þig, og réttlæti þitt við þá sem hjartahreinir eru.
12 Lát eigi fót hins hrokafulla troða á mér né hönd óguðlegra hrekja mig burt.
13 Þar eru illgjörðamennirnir fallnir, þeim er varpað um koll og þeir fá eigi risið upp aftur.
39 Til söngstjórans, eftir Jedútún. Davíðssálmur.
2 Ég sagði: "Ég vil gefa gætur að vegum mínum, að ég drýgi eigi synd með tungunni, ég vil leggja haft á munn minn, meðan hinn illgjarni er í nánd við mig."
3 Ég var hljóður og þagði, en kvöl mín ýfðist.
4 Hjartað brann í brjósti mér, við andvörp mín logaði eldurinn upp, ég sagði:
5 "Lát mig, Drottinn, sjá afdrif mín og hvað mér er útmælt af dögum, lát mig sjá, hversu skammær ég er.
6 Sjá, örfáar þverhendur hefir þú gjört daga mína, og ævi mín er sem ekkert fyrir þér. Andgustur einn eru allir menn. [Sela]
7 Sem tómur skuggi gengur maðurinn um, gjörir háreysti um hégómann einan, hann safnar í hrúgur, en veit eigi hver þær hlýtur."
8 Hvers vona ég þá, Drottinn? Von mín er öll á þér.
9 Frelsa mig frá öllum syndum mínum, lát mig eigi verða heimskingjum að spotti.
10 Ég þegi, ég opna eigi munninn, því að þú hefir talað.
11 Lát plágu þína víkja frá mér, ég verð að engu fyrir krafti handar þinnar.
12 Þá er þú beitir hirtingu við manninn fyrir misgjörð hans, lætur þú yndisleik hans eyðast, sem mölur væri. Andgustur einn eru allir menn. [Sela]
13 Heyr bæn mína, Drottinn, og hlýð á kvein mitt, ver eigi hljóður við tárum mínum, því að ég er aðkomandi hjá þér, útlendingur eins og allir feður mínir.
14 Lít af mér, svo að hýrna megi yfir mér, áður en ég fer burt og er eigi til framar.
15 Þá lét hún þá síga í festi út um gluggann, því að hús hennar stóð við borgarmúrinn og sjálf bjó hún úti við múrinn.
16 Og hún sagði við þá: "Haldið til fjalla, svo að leitarmennirnir finni ykkur ekki, og leynist þar þrjá daga, uns leitarmennirnir eru aftur horfnir. Eftir það getið þið farið leiðar ykkar."
17 Mennirnir sögðu við hana: "Lausir viljum við vera eiðs þess, er þú lést okkur sverja þér,
18 nema svo verði, að þegar vér komum inn í landið, þá bindir þú í gluggann, þann er þú lést okkur síga út um, festina þessa rauðu, og kallir saman í hús þitt föður þinn og móður og bræður þína og allt heimilisfólk föður þíns,
19 en gangi nokkur út fyrir húsdyr þínar, þá er hann sjálfur valdur að dauða sínum, en við sýknir, en verði hönd lögð á nokkurn þann, sem í þínu húsi er, þá skal dauði hans verða gefinn okkur að sök.
20 Og ef þú lætur vitnast erindi okkar, þá erum við lausir þess eiðs, er þú lést okkur sverja þér."
21 Hún sagði: "Svo skal vera sem þið segið!" Lét hún þá síðan fara, og þeir gengu burt, en hún batt rauðu festina í gluggann.
22 Gengu þeir þá á burt og héldu til fjalla og dvöldust þar þrjá daga, uns leitarmennirnir voru aftur heim horfnir. Höfðu leitarmennirnir leitað þeirra alla leiðina, en ekki fundið.
23 Hurfu þá þessir tveir menn aftur og gengu niður af fjöllunum og fóru yfir um og komu til Jósúa Núnssonar og sögðu honum frá öllu, er fyrir þá hafði komið.
24 Og þeir sögðu við Jósúa: "Drottinn hefir gefið allt landið oss í hendur, enda hræðast allir landsbúar oss."
13 En við yður, þér heiðingjar, segi ég: Að því leyti sem ég er postuli heiðingja, vegsama ég þjónustu mína.
14 Ég gæti ef til vill vakið afbrýði hjá ættmönnum mínum og frelsað einhverja þeirra.
15 Því ef það varð sáttargjörð fyrir heiminn, að þeim var hafnað, hvað verður þá upptaka þeirra annað en líf af dauðum?
16 Ef frumgróðinn er heilagur, þá er einnig deigið það. Og ef rótin er heilög, þá eru einnig greinarnar það.
17 En þótt nokkrar af greinunum hafi verið brotnar af, og hafir þú, sem ert villiolíuviður, verið græddur inn á meðal þeirra og sért orðinn hluttakandi með þeim í rótarsafa olíuviðarins,
18 þá stær þig ekki gegn greinunum. Ef þú stærir þig, þá vit, að þú berð ekki rótina, heldur rótin þig.
19 Þú munt þá segja: "Greinarnar voru brotnar af, til þess að ég yrði græddur við."
20 Rétt er það. Fyrir sakir vantrúarinnar voru þær brotnar af, en vegna trúarinnar stendur þú. Hreyktu þér ekki upp, heldur óttast þú.
21 Því að hafi Guð ekki þyrmt hinum náttúrlegu greinum, þá mun hann ekki heldur þyrma þér.
22 Sjá því gæsku Guðs og strangleika, _ strangleika við þá, sem fallnir eru, en gæsku Guðs við þig, ef þú stendur stöðugur í gæskunni; annars verður þú einnig af höggvinn.
23 En hinir munu og verða græddir við, ef þeir halda ekki áfram í vantrúnni, því að megnugur er Guð þess að græða þá aftur við.
24 Þú varst höggvinn af þeim olíuviði, sem eftir eðli sínu var villiviður, og ert gegn eðli náttúrunnar græddur við ræktaðan olíuvið. Hve miklu fremur munu þá þessar náttúrlegu greinar verða græddar við eigin olíuvið?
14 Svo er um himnaríki sem mann, er ætlaði úr landi. Hann kallaði þjóna sína og fól þeim eigur sínar.
15 Einum fékk hann fimm talentur, öðrum tvær og þeim þriðja eina, hverjum eftir hæfni. Síðan fór hann úr landi.
16 Sá sem fékk fimm talentur, fór þegar, ávaxtaði þær og græddi aðrar fimm.
17 Eins gjörði sá er tvær fékk. Hann græddi aðrar tvær.
18 En sá sem fékk eina, fór og gróf fé húsbónda síns í jörð og faldi það.
19 Löngu síðar kom húsbóndi þessara þjóna og lét þá gjöra skil.
20 Sá með fimm talenturnar gekk þá fram, færði honum aðrar fimm og sagði: ,Herra, fimm talentur seldir þú mér í hendur, hér hef ég grætt aðrar fimm.`
21 Húsbóndi hans sagði við hann: ,Gott, þú góði og trúi þjónn. Yfir litlu varstu trúr, yfir mikið mun ég setja þig. Gakk inn í fögnuð herra þíns.`
22 Þá gekk fram sá með tvær talenturnar og mælti: ,Herra, tvær talentur seldir þú mér í hendur, hér hef ég grætt aðrar tvær.`
23 Og húsbóndi hans sagði við hann: ,Gott, þú góði og trúi þjónn, yfir litlu varstu trúr, yfir mikið mun ég setja þig. Gakk inn í fögnuð herra þíns.`
24 Loks kom sá er fékk eina talentu, og sagði: ,Herra, ég vissi, að þú ert maður harður, sem uppsker þar, sem þú sáðir ekki, og safnar þar, sem þú stráðir ekki.
25 Ég var hræddur og fól talentu þína í jörð. Hér hefur þú þitt.`
26 Og húsbóndi hans sagði við hann: ,Illi og lati þjónn, þú vissir, að ég uppsker þar, sem ég sáði ekki, og safna þar, sem ég stráði ekki.
27 Þú áttir því að leggja fé mitt í banka. Þá hefði ég fengið það með vöxtum, þegar ég kom heim.
28 Takið af honum talentuna, og fáið þeim, sem hefur tíu talenturnar.
29 Því að hverjum sem hefur, mun gefið verða, og hann mun hafa gnægð, en frá þeim, sem eigi hefur, mun tekið verða jafnvel það, sem hann hefur.
30 Rekið þennan ónýta þjón út í ystu myrkur. Þar verður grátur og gnístran tanna.`
by Icelandic Bible Society