Book of Common Prayer
20 Til söngstjórans. Davíðssálmur.
2 Drottinn bænheyri þig á degi neyðarinnar, nafn Jakobs Guðs bjargi þér.
3 Hann sendi þér hjálp frá helgidóminum, styðji þig frá Síon.
4 Hann minnist allra fórnargjafa þinna og taki brennifórn þína gilda. [Sela]
5 Hann veiti þér það er hjarta þitt þráir, og veiti framgang öllum áformum þínum.
6 Ó að vér mættum fagna yfir sigri þínum og veifa fánanum í nafni Guðs vors. Drottinn uppfylli allar óskir þínar.
7 Nú veit ég, að Drottinn veitir hjálp sínum smurða, svarar honum frá sínum helga himni, í máttarverkum kemur fulltingi hægri handar hans fram.
8 Hinir stæra sig af vögnum sínum og stríðshestum, en vér af nafni Drottins, Guðs vors.
9 Þeir fá knésig og falla, en vér rísum og stöndum uppréttir.
10 Drottinn! Hjálpa konunginum og bænheyr oss, er vér hrópum.
21 Til söngstjórans. Davíðssálmur.
2 Drottinn, yfir veldi þínu fagnar konungurinn, hve mjög kætist hann yfir hjálp þinni!
3 Þú hefir gefið honum það er hjarta hans þráði, um það sem varir hans báðu, neitaðir þú honum eigi. [Sela]
4 Því að þú kemur í móti honum með hamingjublessunum, setur gullna kórónu á höfuð honum.
5 Um líf bað hann þig, það veittir þú honum, fjöld lífdaga um aldur og ævi.
6 Mikil er sæmd hans fyrir þína hjálp, vegsemd og heiður veittir þú honum.
7 Já, þú hefir veitt honum blessun að eilífu, þú gleður hann með fögnuði fyrir augliti þínu.
8 Því að konungurinn treystir Drottni, og vegna elsku Hins hæsta bifast hann eigi.
9 Hönd þín nær til allra óvina þinna, hægri hönd þín nær til allra hatursmanna þinna.
10 Þú gjörir þá sem glóandi ofn, er þú lítur á þá. Drottinn tortímir þeim í reiði sinni, og eldurinn eyðir þeim.
11 Ávöxtu þeirra afmáir þú af jörðunni og afkvæmi þeirra úr mannheimi,
12 því að þeir hafa stofnað ill ráð í gegn þér, búið fánýtar vélar.
13 Því að þú rekur þá á flótta, miðar á andlit þeirra með boga þínum.
14 Hef þig, Drottinn, í veldi þínu! Vér viljum syngja og kveða um máttarverk þín!
110 Davíðssálmur. Svo segir Drottinn við herra minn: "Sest þú mér til hægri handar, þá mun ég leggja óvini þína sem fótskör að fótum þér."
2 Drottinn réttir út þinn volduga sprota frá Síon, drottna þú mitt á meðal óvina þinna!
3 Þjóð þín kemur sjálfboða á valdadegi þínum. Í helgu skrauti frá skauti morgunroðans kemur dögg æskuliðs þíns til þín.
4 Drottinn hefir svarið, og hann iðrar þess eigi: "Þú ert prestur að eilífu, að hætti Melkísedeks."
5 Drottinn er þér til hægri handar, hann knosar konunga á degi reiði sinnar.
6 Hann heldur dóm meðal þjóðanna, fyllir allt líkum, hann knosar höfuð um víðan vang.
7 Á leiðinni drekkur hann úr læknum, þess vegna ber hann höfuðið hátt.
116 Ég elska Drottin, af því að hann heyrir grátbeiðni mína.
2 Hann hefir hneigt eyra sitt að mér, og alla ævi vil ég ákalla hann.
3 Snörur dauðans umkringdu mig, angist Heljar mætti mér, ég mætti nauðum og harmi.
4 Þá ákallaði ég nafn Drottins: "Ó, Drottinn, bjarga sál minni!"
5 Náðugur er Drottinn og réttlátur, og vor Guð er miskunnsamur.
6 Drottinn varðveitir varnarlausa, þegar ég var máttvana hjálpaði hann mér.
7 Verð þú aftur róleg, sála mín, því að Drottinn gjörir vel til þín.
8 Já, þú hreifst sál mína frá dauða, auga mitt frá gráti, fót minn frá hrösun.
9 Ég geng frammi fyrir Drottni á landi lifenda.
10 Ég trúði, þó ég segði: "Ég er mjög beygður."
11 Ég sagði í angist minni: "Allir menn ljúga."
12 Hvað á ég að gjalda Drottni fyrir allar velgjörðir hans við mig?
13 Ég lyfti upp bikar hjálpræðisins og ákalla nafn Drottins.
14 Ég greiði Drottni heit mín, og það í augsýn alls lýðs hans.
15 Dýr er í augum Drottins dauði dýrkenda hans.
16 Æ, Drottinn, víst er ég þjónn þinn, ég er þjónn þinn, sonur ambáttar þinnar, þú leystir fjötra mína.
17 Þér færi ég þakkarfórn og ákalla nafn Drottins.
18 Ég greiði Drottni heit mín, og það í augsýn alls lýðs hans,
19 í forgörðum húss Drottins, í þér, Jerúsalem. Halelúja.
117 Lofið Drottin, allar þjóðir, vegsamið hann, allir lýðir,
2 því að miskunn hans er voldug yfir oss, og trúfesti Drottins varir að eilífu. Halelúja.
34 Og Móse gekk neðan af Móabsheiðum upp á Nebófjall, Pisgatind, sem er gegnt Jeríkó. Þaðan sýndi Drottinn honum gjörvallt landið: Gíleað allt til Dan,
2 allt Naftalí og Efraímsland og Manasse, og allt Júdaland allt til vesturhafsins,
3 og Suðurlandið og Jórdan-sléttlendið, dalinn hjá Jeríkó, pálmaborginni, allt til Sóar.
4 Og Drottinn sagði við hann: "Þetta er landið, sem ég sór Abraham, Ísak og Jakob, er ég sagði: ,Niðjum þínum vil ég gefa það!` Ég hefi látið þig líta það eigin augum, en yfir um þangað skalt þú ekki komast."
5 Móse, þjónn Drottins, dó þar í Móabslandi, eins og Drottinn hafði sagt,
6 og hann var grafinn í dalnum í Móabslandi, gegnt Bet Peór, en enginn maður veit enn til þessa dags, hvar gröf hans er.
7 Og Móse var hundrað og tuttugu ára gamall, er hann andaðist. Eigi glapnaði honum sýn, og eigi þvarr þróttur hans.
8 Ísraelsmenn grétu Móse á Móabsheiðum í þrjátíu daga, þá enduðu sorgargrátsdagarnir eftir Móse.
9 En Jósúa Núnsson var fullur vísdómsanda, því að Móse hafði lagt hendur sínar yfir hann, og Ísraelsmenn hlýddu honum og gjörðu svo sem Drottinn hafði boðið Móse.
10 En eigi reis framar upp í Ísrael annar eins spámaður og Móse, er Drottinn umgekkst augliti til auglitis,
11 þegar litið er til allra þeirra tákna og undra, er Drottinn hafði sent hann til að gjöra í Egyptalandi á Faraó og öllum þjónum hans og öllu landi hans,
14 En hvernig eiga þeir að ákalla þann, sem þeir trúa ekki á? Og hvernig eiga þeir að trúa á þann, sem þeir hafa ekki heyrt um? Og hvernig eiga þeir að heyra, án þess að einhver prédiki?
15 Og hver getur prédikað, nema hann sé sendur? Svo er og ritað: "Hversu fagurt er fótatak þeirra, sem færa fagnaðarboðin góðu."
16 En þeir hlýddu ekki allir fagnaðarerindinu. Jesaja segir: "Drottinn, hver trúði því, sem vér boðuðum?"
17 Svo kemur þá trúin af boðuninni, en boðunin byggist á orði Krists.
18 En ég spyr: Hafa þeir ekki heyrt? Jú, vissulega, "raust þeirra hefur borist út um alla jörðina og orð þeirra til endimarka heimsbyggðarinnar."
19 Og ég spyr: Hvort skildi Ísrael það ekki? Fyrst segir Móse: "Vekja vil ég yður til afbrýði gegn þjóð, sem ekki er þjóð, egna vil ég yður til reiði gegn óviturri þjóð."
20 Og Jesaja er svo djarfmáll að segja: "Ég hef látið þá finna mig, sem leituðu mín ekki. Ég er orðinn augljós þeim, sem spurðu ekki að mér."
21 En við Ísrael segir hann: "Allan daginn breiddi ég út hendur mínar móti óhlýðnum og þverbrotnum lýð."
32 Nemið líkingu af fíkjutrénu. Þegar greinar þess fara að mýkjast og laufið að springa út, þá vitið þér, að sumar er í nánd.
33 Eins skuluð þér vita, þegar þér sjáið allt þetta, að hann er í nánd, fyrir dyrum.
34 Sannlega segi ég yður: Þessi kynslóð mun ekki líða undir lok, uns allt þetta er komið fram.
35 Himinn og jörð munu líða undir lok, en orð mín munu aldrei undir lok líða.
36 En þann dag og stund veit enginn, hvorki englar á himnum né sonurinn, enginn nema faðirinn einn.
37 Eins og var á dögum Nóa, svo mun verða við komu Mannssonarins.
38 Dagana fyrir flóðið átu menn og drukku, kvæntust og giftust allt til þess dags, er Nói gekk í örkina.
39 Og þeir vissu ekki, fyrr en flóðið kom og hreif þá alla burt. Eins verður við komu Mannssonarins.
40 Þá verða tveir á akri, annar mun tekinn, hinn eftir skilinn.
41 Tvær munu mala á kvörn, önnur verður tekin, hin eftir skilin.
42 Vakið því, þér vitið eigi, hvaða dag Drottinn yðar kemur.
43 Það skiljið þér, að húsráðandi vekti og léti ekki brjótast inn í hús sitt, ef hann vissi á hvaða stundu nætur þjófurinn kæmi.
44 Verið þér og viðbúnir, því að Mannssonurinn kemur á þeirri stundu, sem þér ætlið eigi.
45 Hver er sá trúi og hyggni þjónn, sem húsbóndinn hefur sett yfir hjú sín að gefa þeim mat á réttum tíma?
46 Sæll er sá þjónn, er húsbóndinn finnur breyta svo, er hann kemur.
47 Sannlega segi ég yður: Hann mun setja hann yfir allar eigur sínar.
48 En ef illur þjónn segir í hjarta sínu: ,Húsbónda mínum dvelst,`
49 og hann tekur að berja samþjóna sína og eta og drekka með svöllurum,
50 þá mun húsbóndi þess þjóns koma á þeim degi, sem hann væntir ekki, á þeirri stundu, sem hann veit ekki,
51 höggva hann og láta hann fá hlut með hræsnurum. Þar verður grátur og gnístran tanna.
by Icelandic Bible Society