Print Page Options
Previous Prev Day Next DayNext

Book of Common Prayer

Daily Old and New Testament readings based on the Book of Common Prayer.
Duration: 861 days
Icelandic Bible (ICELAND)
Version
Sálmarnir 18

18 Til söngstjórans. Eftir Davíð, þjón Drottins, er flutti Drottni orð þessara ljóða, þá er Drottinn frelsaði hann af hendi allra óvina hans og af hendi Sáls.

Hann mælti: Ég elska þig, Drottinn, þú styrkur minn.

Drottinn, bjarg mitt og vígi og frelsari minn, Guð minn, hellubjarg mitt, þar sem ég leita hælis, skjöldur minn og horn hjálpræðis míns, háborg mín!

Lofaður sé Drottinn, hrópa ég, og ég frelsast frá óvinum mínum.

Brimöldur dauðans umkringdu mig, elfur glötunarinnar skelfdu mig,

snörur Heljar luktu um mig, möskvar dauðans féllu yfir mig.

Í angist minni kallaði ég á Drottin, og til Guðs míns hrópaði ég. Hann heyrði raust mína í helgidómi sínum, og óp mitt barst til eyrna honum.

Jörðin bifaðist og nötraði, undirstöður fjallanna skulfu, þær bifuðust, því að hann var reiður,

reykur gekk fram úr nösum hans og eyðandi eldur af munni hans, glóðir brunnu út frá honum.

10 Hann sveigði himininn og steig niður, og skýsorti var undir fótum hans.

11 Hann steig á bak kerúb og flaug af stað og sveif á vængjum vindarins.

12 Hann gjörði myrkur að skýli sínu, regnsorta og skýþykkni að fylgsni sínu allt um kring.

13 Frá ljómanum fyrir honum brutust hagl og eldglæringar gegnum ský hans.

14 Þá þrumaði Drottinn á himnum, og Hinn hæsti lét raust sína gjalla.

15 Hann skaut örvum sínum og tvístraði óvinum sínum, lét eldingar leiftra og hræddi þá.

16 Þá sá í mararbotn, og undirstöður jarðarinnar urðu berar fyrir ógnun þinni, Drottinn, fyrir andgustinum úr nösum þínum.

17 Hann seildist niður af hæðum og greip mig, dró mig upp úr hinum miklu vötnum.

18 Hann frelsaði mig frá hinum sterku óvinum mínum, frá fjandmönnum mínum, er voru mér yfirsterkari.

19 Þeir réðust á mig á mínum óheilladegi, en Drottinn var mín stoð.

20 Hann leiddi mig út á víðlendi, frelsaði mig, af því að hann hafði þóknun á mér.

21 Drottinn fer með mig eftir réttlæti mínu, eftir hreinleik handa minna geldur hann mér,

22 því að ég hefi varðveitt vegu Drottins og hefi ekki reynst ótrúr Guði mínum.

23 Allar skipanir hans hefi ég fyrir augum, og boðorðum hans þokaði ég eigi burt frá mér.

24 Ég var lýtalaus fyrir honum og gætti mín við misgjörðum.

25 Fyrir því galt Drottinn mér eftir réttlæti mínu, eftir hreinleik handa minna fyrir augliti hans.

26 Gagnvart ástríkum ert þú ástríkur, gagnvart ráðvöndum ráðvandur,

27 gagnvart hreinum hreinn, en gagnvart rangsnúnum ert þú afundinn.

28 Þú hjálpar þjáðum lýð, en gjörir hrokafulla niðurlúta.

29 Já, þú lætur lampa minn skína, Drottinn, Guð minn, þú lýsir mér í myrkrinu.

30 Því að fyrir þína hjálp brýt ég múra, fyrir hjálp Guðs míns stekk ég yfir borgarveggi.

31 Vegur Guðs er lýtalaus, orð Drottins er hreint, skjöldur er hann öllum þeim sem leita hælis hjá honum.

32 Hver er Guð nema Drottinn, og hver er hellubjarg utan vor Guð?

33 Sá Guð sem gyrðir mig styrkleika og gjörir veg minn sléttan,

34 sem gjörir fætur mína sem hindanna og veitir mér fótfestu á hæðunum,

35 sem æfir hendur mínar til hernaðar, svo að armar mínir benda eirbogann.

36 Og þú gafst mér skjöld hjálpræðis þíns, og hægri hönd þín studdi mig, og lítillæti þitt gjörði mig mikinn.

37 Þú rýmdir til fyrir skrefum mínum, og ökklar mínir riðuðu ekki.

38 Ég elti óvini mína og náði þeim og sneri ekki aftur, fyrr en ég hafði gjöreytt þeim.

39 Ég molaði þá sundur, þeir máttu eigi upp rísa, þeir hnigu undir fætur mér.

40 Þú gyrtir mig styrkleika til ófriðarins, beygðir fjendur mína undir mig.

41 Þú lést mig sjá bak óvina minna, og fjendum mínum eyddi ég.

42 Þeir hrópuðu, en enginn kom til hjálpar, þeir hrópuðu til Drottins, en hann svaraði þeim ekki.

43 Og ég muldi þá sem mold á jörð, tróð þá fótum sem saur á strætum.

44 Þú frelsaðir mig úr fólkorustum, gjörðir mig að höfðingja þjóðanna, lýður sem ég þekkti ekki þjónar mér.

45 Óðara en þeir heyra mín getið, hlýða þeir mér, útlendingar smjaðra fyrir mér.

46 Útlendingar dragast upp og koma skjálfandi fram úr fylgsnum sínum.

47 Lifi Drottinn, lofað sé mitt bjarg, og hátt upp hafinn sé Guð hjálpræðis míns,

48 sá Guð sem veitti mér hefndir og braut þjóðir undir mig,

49 sem hreif mig úr höndum óvina minna. Og yfir mótstöðumenn mína hófst þú mig, frá ójafnaðarmönnum frelsaðir þú mig.

50 Fyrir því vil ég vegsama þig, Drottinn, meðal þjóðanna og lofsyngja þínu nafni.

51 Hann veitir konungi sínum mikla hjálp og auðsýnir miskunn sínum smurða, Davíð og niðjum hans að eilífu.

Fimmta bók Móse 3:18-28

18 Þá bauð ég yður og sagði: "Drottinn Guð yðar hefir gefið yður þetta land til eignar. Farið vígbúnir fyrir bræðrum yðar, Ísraelsmönnum, allir þér sem vopnfærir eruð.

19 En konur yðar og börn og búsmali yðar _ ég veit að þér eigið mikinn fénað _ skal verða eftir í borgunum, sem ég hefi gefið yður,

20 þar til er Drottinn Guð yðar veitir bræðrum yðar hvíld, eins og yður, og þeir hafa líka tekið til eignar land það, er Drottinn Guð yðar gefur þeim hinumegin Jórdanar. Þá megið þér snúa aftur, hver til óðals síns, er ég hefi gefið yður."

21 Jósúa bauð ég þá og sagði: "Þú hefir séð allt það með eigin augum, sem Drottinn Guð yðar hefir gjört þessum tveimur konungum. Eins mun Drottinn fara með öll þau konungaríki, sem þú ert á leið til.

22 Eigi skuluð þér óttast þau, því að Drottinn Guð yðar berst fyrir yður."

23 Þá bað ég Drottin líknar og sagði:

24 "Ó Drottinn Guð! Þú hefir nú þegar sýnt þjóni þínum, hve mikill þú ert og hve sterk hönd þín er, því að hver er sá guð á himni eða jörðu, sem gjöri önnur eins verk og þú og jafnmikil máttarverk?

25 Æ, leyf mér að fara yfir um og sjá landið góða, sem er hinumegin Jórdanar, þetta fagra fjalllendi og Líbanon."

26 En Drottinn reiddist mér yðar vegna og bænheyrði mig ekki, og Drottinn sagði við mig: "Nóg um það. Tala eigi meira um þetta mál við mig.

27 Far þú upp á Pisgatind og horf þú í vestur, norður, suður og austur og lít það með augum þínum, því að þú munt ekki komast yfir hana Jórdan.

28 En skipa þú Jósúa foringja og tel hug í hann og gjör hann öruggan, því að hann skal fara yfir um fyrir þessu fólki og hann skal skipta milli þeirra landinu, sem þú sér."

Bréf Páls til Rómverja 9:19-33

19 Þú munt nú vilja segja við mig: "Hvað er hann þá að ásaka oss framar? Hver fær staðið gegn vilja hans?"

20 Hver ert þú, maður, að þú skulir deila á Guð? Hvort mundi smíðisgripurinn segja við smiðinn: "Hví gjörðir þú mig svona?"

21 Eða hefur ekki leirkerasmiðurinn leirinn á valdi sínu, svo að hann megi gjöra úr sama deiginu ker til sæmdar og annað til vansæmdar?

22 En ef nú Guð, sem vildi sýna reiði sína og auglýsa mátt sinn, hefur með miklu langlyndi umborið ker reiðinnar, sem búin eru til glötunar,

23 og ef hann hefur gjört það til þess að auglýsa ríkdóm dýrðar sinnar á kerum miskunnarinnar, sem hann hafði fyrirfram búið til dýrðar?

24 Slík ker erum vér, sem hann hefur kallað, ekki aðeins úr flokki Gyðinga, heldur og úr flokki heiðingja.

25 Eins og hann líka segir hjá Hósea: Lýð, sem ekki var minn, mun ég kalla minn, og þá elskaða, sem ekki var elskuð,

26 og á þeim stað, þar sem við þá var sagt: þér eruð ekki minn lýður, þar munu þeir verða kallaðir synir Guðs lifanda.

27 En Jesaja hrópar yfir Ísrael: "Þótt tala Ísraels sona væri eins og sandur sjávarins, þá skulu leifar einar frelsaðar verða.

28 Drottinn mun gjöra upp reikning sinn á jörðunni, binda enda á hann og ljúka við hann í skyndi,"

29 og eins hefur Jesaja sagt: "Ef Drottinn hersveitanna hefði ekki látið oss eftir niðja, værum vér orðnir eins og Sódóma, vér værum líkir Gómorru."

30 Hvað eigum vér þá að segja? Heiðingjarnir, sem ekki sóttust eftir réttlæti, hafa öðlast réttlæti, _ réttlæti, sem er af trú.

31 En Ísrael, sem vildi halda lögmál er veitt gæti réttlæti, náði því ekki.

32 Hvers vegna? Af því að þeir ætluðu sér að réttlætast með verkum, ekki af trú. Þeir hnutu um ásteytingarsteininn,

33 eins og ritað er: Sjá ég set í Síon ásteytingarstein og hrösunarhellu. Sérhver, sem á hann trúir, mun ekki verða til skammar.

Matteusarguðspjall 24:1-14

24 Jesús gekk út úr helgidóminum og hélt brott. Þá komu lærisveinar hans og vildu sýna honum byggingar helgidómsins.

Hann sagði við þá: "Þér sjáið allt þetta? Sannlega segi ég yður, hér mun ekki eftir látinn steinn yfir steini, er eigi sé niður brotinn."

Þá er hann sat á Olíufjallinu, gengu lærisveinarnir til hans og spurðu hann einslega: "Seg þú oss, hvenær verður þetta? Og hvert mun tákn komu þinnar og endaloka veraldar?"

Jesús svaraði þeim: "Varist að láta nokkurn leiða yður í villu.

Margir munu koma í mínu nafni og segja: ,Ég er Kristur!` og marga munu þeir leiða í villu.

Þér munuð spyrja hernað og ófriðartíðindi. Gætið þess, að skelfast ekki. Þetta á að verða, en endirinn er ekki þar með kominn.

Þjóð mun rísa gegn þjóð og ríki gegn ríki, þá verður hungur og landskjálftar á ýmsum stöðum.

Allt þetta er upphaf fæðingarhríðanna.

Þá munu menn framselja yður til pyndinga og taka af lífi, og allar þjóðir munu hata yður vegna nafns míns.

10 Margir munu þá falla frá og framselja hver annan og hata.

11 Fram munu koma margir falsspámenn og leiða marga í villu.

12 Og vegna þess að lögleysi magnast, mun kærleikur flestra kólna.

13 En sá sem staðfastur er allt til enda, mun hólpinn verða.

14 Og þetta fagnaðarerindi um ríkið verður prédikað um alla heimsbyggðina öllum þjóðum til vitnisburðar. Og þá mun endirinn koma.

Icelandic Bible (ICELAND)

by Icelandic Bible Society