Book of Common Prayer
146 Halelúja. Lofa þú Drottin, sála mín!
2 Ég vil lofa Drottin meðan lifi, lofsyngja Guði mínum, meðan ég er til.
3 Treystið eigi tignarmennum, mönnum sem enga hjálp geta veitt.
4 Andi þeirra líður burt, þeir verða aftur að jörðu, á þeim degi verða áform þeirra að engu.
5 Sæll er sá, er á Jakobs Guð sér til hjálpar, sá er setur von sína á Drottin, Guð sinn,
6 hann sem skapað hefir himin og jörð, hafið og allt sem í því er, hann sem varðveitir trúfesti sína að eilífu,
7 sem rekur réttar kúgaðra og veitir brauð hungruðum. Drottinn leysir hina bundnu,
8 Drottinn opnar augu blindra, Drottinn reisir upp niðurbeygða, Drottinn elskar réttláta.
9 Drottinn varðveitir útlendingana, hann annast ekkjur og föðurlausa, en óguðlega lætur hann fara villa vegar.
10 Drottinn er konungur að eilífu, hann er Guð þinn, Síon, frá kyni til kyns. Halelúja.
147 Halelúja. Það er gott að leika fyrir Guði vorum, því að hann er yndislegur, honum hæfir lofsöngur.
2 Drottinn endurreisir Jerúsalem, safnar saman hinum tvístruðu af Ísrael.
3 Hann læknar þá, er hafa sundurkramið hjarta, og bindur um benjar þeirra.
4 Hann ákveður tölu stjarnanna, kallar þær allar með nafni.
5 Mikill er Drottinn vor og ríkur að veldi, speki hans er ómælanleg.
6 Drottinn annast hrjáða, en óguðlega lægir hann að jörðu.
7 Syngið Drottni með þakklæti, leikið á gígju fyrir Guði vorum.
8 Hann hylur himininn skýjum, býr regn handa jörðinni, lætur gras spretta á fjöllunum.
9 Hann gefur skepnunum fóður þeirra, hrafnsungunum, þegar þeir kalla.
10 Hann hefir eigi mætur á styrkleika hestsins, eigi þóknun á fótleggjum mannsins.
11 Drottinn hefir þóknun á þeim er óttast hann, þeim er bíða miskunnar hans.
12 Vegsama Drottin, Jerúsalem, lofa þú Guð þinn, Síon,
13 því að hann hefir gjört sterka slagbrandana fyrir hliðum þínum, blessað börn þín, sem í þér eru.
14 Hann gefur landi þínu frið, seður þig á hinu kjarnbesta hveiti.
15 Hann sendir orð sitt til jarðar, boð hans hleypur með hraða.
16 Hann gefur snjó eins og ull, stráir út hrími sem ösku.
17 Hann sendir hagl sitt sem brauðmola, hver fær staðist frost hans?
18 Hann sendir út orð sitt og lætur ísinn þiðna, lætur vind sinn blása, og vötnin renna.
19 Hann kunngjörði Jakob orð sitt, Ísrael lög sín og ákvæði.
20 Svo hefir hann eigi gjört við neina þjóð, þeim kennir hann ekki ákvæði sín. Halelúja.
111 Halelúja. Ég vil lofa Drottin af öllu hjarta, í félagi og söfnuði réttvísra.
2 Mikil eru verk Drottins, verð íhugunar öllum þeim, er hafa unun af þeim.
3 Tign og vegsemd eru verk hans og réttlæti hans stendur stöðugt að eilífu.
4 Hann hefir látið dásemdarverka sinna minnst verða, náðugur og miskunnsamur er Drottinn.
5 Hann hefir gefið fæðu þeim, er óttast hann, hann minnist að eilífu sáttmála síns.
6 Hann hefir kunngjört þjóð sinni kraft verka sinna, með því að gefa þeim eignir heiðingjanna.
7 Verk handa hans eru trúfesti og réttvísi, öll fyrirmæli hans eru áreiðanleg,
8 örugg um aldur og ævi, framkvæmd í trúfesti og réttvísi.
9 Hann hefir sent lausn lýð sínum, skipað sáttmála sinn að eilífu, heilagt og óttalegt er nafn hans.
10 Upphaf speki er ótti Drottins, hann er fögur hyggindi öllum þeim, er iðka hann. Lofstír hans stendur um eilífð.
112 Halelúja. Sæll er sá maður, sem óttast Drottin og hefir mikla unun af boðum hans.
2 Niðjar hans verða voldugir á jörðunni, ætt réttvísra mun blessun hljóta.
3 Nægtir og auðæfi eru í húsi hans, og réttlæti hans stendur stöðugt að eilífu.
4 Hann upprennur réttvísum sem ljós í myrkrinu, mildur og meðaumkunarsamur og réttlátur.
5 Vel farnast þeim manni, sem er mildur og fús að lána, sem framkvæmir málefni sín með réttvísi,
6 því að hann mun eigi haggast að eilífu, hins réttláta mun minnst um eilífð.
7 Hann óttast eigi ill tíðindi, hjarta hans er stöðugt og treystir Drottni.
8 Hjarta hans er öruggt, hann óttast eigi, og loks fær hann að horfa á fjendur sína auðmýkta.
9 Hann hefir miðlað mildilega, gefið fátækum, réttlæti hans stendur stöðugt að eilífu, horn hans gnæfir hátt í vegsemd.
10 Hinn óguðlegi sér það, og honum gremst, nístir tönnum og tortímist. Ósk óguðlegra verður að engu.
113 Halelúja. Þjónar Drottins, lofið, lofið nafn Drottins.
2 Nafn Drottins sé blessað héðan í frá og að eilífu.
3 Frá sólarupprás til sólarlags sé nafn Drottins vegsamað.
4 Drottinn er hafinn yfir allar þjóðir og dýrð hans yfir himnana.
5 Hver er sem Drottinn, Guð vor? Hann situr hátt
6 og horfir djúpt á himni og á jörðu.
7 Hann reisir lítilmagnann úr duftinu, lyftir snauðum upp úr saurnum
8 og leiðir hann til sætis hjá tignarmönnum, hjá tignarmönnum þjóðar hans.
9 Hann lætur óbyrjuna í húsinu búa í næði sem glaða barnamóður. Halelúja.
12 Drottinn sagði við Móse: "Gakk þú hér upp á Abarímfjall og lít yfir landið, sem ég hefi gefið Ísraelsmönnum.
13 Og er þú hefir litið það, skalt þú einnig safnast til þíns fólks, eins og Aron bróðir þinn gjörði,
14 sökum þess að þið þrjóskuðust gegn skipun minni í Síneyðimörk, þá er lýðurinn möglaði og þið skylduð helga mig fyrir augum þeirra með vatninu." _ Þar eru nú Meríbavötn hjá Kades í Síneyðimörk.
15 En Móse talaði við Drottin og sagði:
16 "Drottinn, Guð lífsandans í öllu holdi, setji mann yfir lýðinn,
17 sem gangi út fyrir þeim og gangi inn fyrir þeim, sem leiði þá út og leiði þá inn, svo að söfnuður Drottins sé eigi eins og hjörð, sem engan hirði hefir."
18 Þá sagði Drottinn við Móse: "Tak þú Jósúa Núnsson, mann sem andi er í, og legg hönd þína yfir hann.
19 Leið hann fyrir Eleasar prest og fram fyrir allan söfnuðinn og skipa hann í embætti í augsýn þeirra.
20 Og þú skalt leggja yfir hann af tign þinni, svo að allur söfnuður Ísraelsmanna hlýði honum.
21 Og hann skal ganga fyrir Eleasar prest, en Eleasar leita úrskurðar með úrím fyrir hann frammi fyrir Drottni. Að hans boði skulu þeir ganga út, og að hans boði skulu þeir ganga inn, hann og allir Ísraelsmenn með honum og allur söfnuðurinn."
22 Og Móse gjörði eins og Drottinn hafði boðið honum. Tók hann Jósúa og leiddi hann fyrir Eleasar prest og fram fyrir allan söfnuðinn,
23 lagði því næst hendur sínar yfir hann og skipaði hann í embætti, eins og Drottinn hafði sagt fyrir Móse.
11 Guð gjörði óvenjuleg kraftaverk fyrir hendur Páls.
12 Það bar við, að menn lögðu dúka og flíkur af Páli á sjúka, og hurfu þá veikindi þeirra, og illir andar fóru út af þeim.
13 En nokkrir Gyðingar, er fóru um og frömdu andasæringar, tóku og fyrir að nefna nafn Drottins Jesú yfir þeim, er höfðu illa anda. Þeir sögðu: "Ég særi yður við Jesú þann, sem Páll prédikar."
14 Þeir er þetta frömdu, voru sjö synir Gyðings nokkurs, Skeva æðsta prests.
15 En illi andinn sagði við þá: "Jesú þekki ég, og Pál kannast ég við, en hverjir eruð þér?"
16 Og maðurinn, sem illi andinn var í, flaug á þá, keyrði þá alla undir sig og lék þá svo hart, að þeir flýðu naktir og særðir úr húsinu.
17 Þetta varð kunnugt öllum Efesusbúum, bæði Gyðingum og Grikkjum, og ótta sló á þá alla, og nafn Drottins Jesú varð miklað.
18 Margir þeirra, sem trú höfðu tekið, komu, gjörðu játningu og sögðu frá athæfi sínu.
19 Og allmargir er farið höfðu með kukl, komu með bækur sínar og brenndu þær að öllum ásjáandi. Þær voru samtals virtar á fimmtíu þúsundir silfurpeninga.
20 Þannig breiddist orð Drottins út og efldist í krafti hans.
14 Þegar Jóhannes hafði verið tekinn höndum, kom Jesús til Galíleu og prédikaði fagnaðarerindi Guðs
15 og sagði: "Tíminn er fullnaður og Guðs ríki í nánd. Gjörið iðrun og trúið fagnaðarerindinu."
16 Jesús var á gangi með Galíleuvatni og sá Símon og Andrés, bróður Símonar, vera að kasta netum í vatnið, en þeir voru fiskimenn.
17 Jesús sagði við þá: "Komið og fylgið mér, og mun ég láta yður menn veiða."
18 Og þegar í stað létu þeir eftir netin og fylgdu honum.
19 Hann gekk skammt þaðan og sá Jakob Sebedeusson og Jóhannes bróður hans, og voru þeir einnig á báti að búa net.
20 Jesús kallaði þá, og þeir yfirgáfu Sebedeus föður sinn hjá daglaunamönnunum í bátnum og fylgdu honum.
by Icelandic Bible Society