Print Page Options
Previous Prev Day Next DayNext

Book of Common Prayer

Daily Old and New Testament readings based on the Book of Common Prayer.
Duration: 861 days
Icelandic Bible (ICELAND)
Version
Sálmarnir 106

106 Halelúja! Þakkið Drottni, því að hann er góður, því að miskunn hans varir að eilífu.

Hver getur sagt frá máttarverkum Drottins, kunngjört allan lofstír hans?

Sælir eru þeir, sem gæta réttarins, sem iðka réttlæti alla tíma.

Minnst þú mín, Drottinn, með velþóknun þeirri, er þú hefir á lýð þínum, vitja mín með hjálpræði þínu,

að ég megi horfa með unun á hamingju þinna útvöldu, gleðjast yfir gleði þjóðar þinnar, fagna með eignarlýð þínum.

Vér höfum syndgað ásamt feðrum vorum, höfum breytt illa og óguðlega.

Feður vorir í Egyptalandi gáfu eigi gætur að dásemdarverkum þínum, minntust eigi þinnar miklu miskunnar og sýndu Hinum hæsta þrjósku hjá Hafinu rauða.

Þó hjálpaði hann þeim sakir nafns síns til þess að kunngjöra mátt sinn.

Hann hastaði á Hafið rauða, svo að það þornaði upp, og lét þá ganga um djúpin eins og um eyðimörk.

10 Hann frelsaði þá af hendi hatursmanna þeirra og leysti þá af hendi óvinanna.

11 Vötnin huldu fjendur þeirra, ekki einn af þeim komst undan.

12 Þá trúðu þeir orðum hans, sungu honum lof.

13 En þeir gleymdu fljótt verkum hans, treystu eigi á ráð hans.

14 Þeir fylltust lysting í eyðimörkinni og freistuðu Guðs í öræfunum.

15 Þá veitti hann þeim bæn þeirra og sendi þeim megurð.

16 Þá öfunduðust þeir við Móse í herbúðunum, við Aron, hinn heilaga Drottins.

17 Jörðin opnaðist og svalg Datan og huldi flokk Abírams,

18 eldur kviknaði í flokki þeirra, loginn brenndi hina óguðlegu.

19 Þeir bjuggu til kálf hjá Hóreb og lutu steyptu líkneski,

20 og létu vegsemd sína í skiptum fyrir mynd af uxa, er gras etur.

21 Þeir gleymdu Guði, frelsara sínum, þeim er stórvirki gjörði í Egyptalandi,

22 dásemdarverk í landi Kams, óttaleg verk við Hafið rauða.

23 Þá hugði hann á að tortíma þeim, ef Móse, hans útvaldi, hefði eigi gengið fram fyrir hann og borið af blakið, til þess að afstýra reiði hans, svo að hann skyldi eigi tortíma.

24 Þeir fyrirlitu hið unaðslega land og trúðu eigi orðum hans.

25 Þeir mögluðu í tjöldum sínum og hlýddu eigi á raust Drottins.

26 Þá lyfti hann hendi sinni gegn þeim og sór að láta þá falla í eyðimörkinni,

27 tvístra niðjum þeirra meðal þjóðanna og dreifa þeim um löndin.

28 Þeir dýrkuðu Baal Peór og átu fórnir dauðra skurðgoða.

29 Þeir egndu hann til reiði með athæfi sínu, og braust því út plága meðal þeirra.

30 En Pínehas gekk fram og skar úr, og þá staðnaði plágan.

31 Og honum var reiknað það til réttlætis, frá kyni til kyns, að eilífu.

32 Þeir reittu hann til reiði hjá Meríba-vötnum, þá fór illa fyrir Móse þeirra vegna,

33 því að þeir sýndu þrjósku anda hans, og honum hrutu ógætnisorð af vörum.

34 Þeir eyddu eigi þjóðunum, er Drottinn hafði boðið þeim,

35 heldur lögðu þeir lag sitt við heiðingjana og lærðu athæfi þeirra.

36 Þeir dýrkuðu skurðgoð þeirra, og þau urðu þeim að snöru,

37 þeir færðu að fórnum sonu sína og dætur sínar illum vættum

38 og úthelltu saklausu blóði, blóði sona sinna og dætra, er þeir fórnfærðu skurðgoðum Kanaans, svo að landið vanhelgaðist af blóðskuldinni.

39 Þeir saurguðust af verkum sínum og frömdu tryggðrof með athæfi sínu.

40 Þá upptendraðist reiði Drottins gegn lýð hans, og hann fékk viðbjóð á arfleifð sinni.

41 Hann gaf þá á vald heiðingjum, og hatursmenn þeirra drottnuðu yfir þeim.

42 Óvinir þeirra þjökuðu þá, og þeir urðu að beygja sig undir vald þeirra.

43 Mörgum sinnum bjargaði hann þeim, en þeir sýndu þrjósku í ráði sínu og urðu að lúta sakir misgjörðar sinnar.

44 Samt leit hann á neyð þeirra, er hann heyrði kvein þeirra.

45 Hann minntist sáttmála síns við þá og aumkaðist yfir þá sakir sinnar miklu miskunnar

46 og lét þá finna miskunn hjá öllum þeim er höfðu haft þá burt hernumda.

47 Hjálpa þú oss, Drottinn, Guð vor, og safna oss saman frá þjóðunum, að vér megum lofa þitt heilaga nafn, víðfrægja lofstír þinn.

48 Lofaður sé Drottinn, Ísraels Guð, frá eilífð til eilífðar. Og allur lýðurinn segi: Amen! Halelúja.

Fjórða bók Móse 22:1-21

22 Ísraelsmenn lögðu upp og settu búðir sínar á Móabsheiðum, hinumegin Jórdanar gegnt Jeríkó.

En Balak Sippórsson sá allt það, sem Ísrael gjörði Amorítum.

Urðu Móabítar þá næsta hræddir við lýðinn, því að hann var fjölmennur, og það stóð þeim stuggur af Ísraelsmönnum.

Þá sögðu Móabítar við öldunga Midíansmanna: "Nú mun mannfjöldi þessi upp eta allt í kringum oss, eins og uxar eta grængresi í haga." Balak Sippórsson var um þær mundir konungur í Móab.

Sendi hann menn á fund Bíleams Beórssonar, til Petór, sem er við Efrat, í land samlanda sinna, til þess að sækja hann, og lét segja honum: "Sjá, þjóð nokkur er komin frá Egyptalandi. Þekur hún land allt og hefir nú tekið sér bólfestu gagnvart mér.

Kom því og bölva þjóð þessari fyrir mig, því að hún er mér ofurefli. Vera má, að ég fái þá sigrast á henni og stökkt henni úr landi, því að ég veit, að sá er blessaður, sem þú blessar, og sá bölvaður, sem þú bölvar."

Öldungar Móabíta og öldungar Midíansmanna fóru nú af stað og höfðu með sér spásagnarlaunin. Komu þeir til Bíleams og fluttu honum orð Balaks.

Bíleam sagði við þá: "Verið hér í nótt, og mun ég svara yður, eftir því sem Drottinn segir mér." Og höfðingjar Móabíta voru hjá Bíleam um nóttina.

En Guð kom til Bíleams og sagði: "Hvaða menn eru það, sem hjá þér eru?"

10 Bíleam sagði við Guð: "Balak Sippórsson, konungur í Móab, hefir gjört mér þessa orðsending:

11 ,Sjá, þjóð nokkur er hér komin af Egyptalandi, og þekur hún landið allt. Kom því og bið henni bölbæna fyrir mig. Vera má, að ég geti þá barist við hana og stökkt henni burt."`

12 En Guð sagði við Bíleam: "Eigi skalt þú fara með þeim, og eigi skalt þú bölva þessari þjóð, því að hún er blessuð."

13 Morguninn eftir reis Bíleam árla og sagði við höfðingja Balaks: "Farið heim í land yðar, því að Drottinn vill ekki leyfa mér að fara með yður."

14 Og höfðingjar Móabíta héldu af stað og komu til Balaks og sögðu: "Bíleam færðist undan að fara með oss."

15 Balak sendi þá enn höfðingja, fleiri og göfuglegri en þessir voru.

16 Og er þeir komu á fund Bíleams, sögðu þeir við hann: "Balak Sippórsson mælir svo: ,Lát þú ekkert aftra þér frá að koma á minn fund.

17 Ég vil veita þér mikla sæmd, og allt sem þú segir mér, skal ég gjöra. Kom því og bið lýð þessum bölbæna."`

18 En Bíleam svaraði og sagði við þjóna Balaks: "Þó að Balak gæfi mér hús sitt fullt af silfri og gulli, gæti ég samt ekki brugðið af boði Drottins, Guðs míns, hvorki í smáu né stóru.

19 En verið þér nú einnig hér í nótt, að ég megi vita, hvað Drottinn enn vill við mig tala."

20 Þá kom Guð til Bíleams um nóttina og sagði við hann: "Ef menn þessir eru komnir til að sækja þig, þá rís þú upp og far með þeim, og gjör þó það eitt, er ég býð þér."

21 Bíleam reis því árla um morguninn, söðlaði ösnu sína og fór með höfðingjum Móabíta.

Bréf Páls til Rómverja 6:12-23

12 Látið því ekki syndina ríkja í dauðlegum líkama yðar, svo að þér hlýðnist girndum hans.

13 Ljáið ekki heldur syndinni limi yðar að ranglætisvopnum, heldur bjóðið sjálfa yður Guði sem lifnaða frá dauðum og limi yðar Guði sem réttlætisvopn.

14 Synd skal ekki drottna yfir yður, því að ekki eruð þér undir lögmáli, heldur undir náð.

15 Hvað þá? Eigum vér að syndga, af því að vér erum ekki undir lögmáli, heldur undir náð? Fjarri fer því.

16 Vitið þér ekki, að ef þér bjóðið öðrum sjálfa yður fyrir þjóna og hlýðið honum, þá eruð þér þjónar þess, sem þér hlýðið, hvort heldur er syndar til dauða eða hlýðni til réttlætis?

17 En þökk sé Guði! Þér voruð þjónar syndarinnar, en urðuð af hjarta hlýðnir þeirri kenningu, sem þér voruð á vald gefnir.

18 Og þér gjörðust þjónar réttlætisins eftir að hafa verið leystir frá syndinni.

19 Ég tala á mannlegan hátt, sökum veikleika yðar. Því að eins og þér hafið boðið limi yðar óhreinleikanum og ranglætinu fyrir þjóna til ranglætis, svo skuluð þér nú bjóða limi yðar réttlætinu fyrir þjóna til helgunar.

20 Þegar þér voruð þjónar syndarinnar, þá voruð þér lausir við réttlætið.

21 Hvaða ávöxtu höfðuð þér þá? Þá sem þér nú blygðist yðar fyrir, því að þeir leiða að lokum til dauða.

22 En nú, með því að þér eruð leystir frá syndinni, en eruð orðnir þjónar Guðs, þá hafið þér ávöxt yðar til helgunar og eilíft líf að lokum.

23 Laun syndarinnar er dauði, en náðargjöf Guðs er eilíft líf í Kristi Jesú, Drottni vorum.

Matteusarguðspjall 21:12-22

12 Þá gekk Jesús í helgidóminn og rak út alla, sem voru að selja þar og kaupa, hratt um borðum víxlaranna og stólum dúfnasalanna

13 og mælti við þá: "Ritað er: ,Hús mitt á að vera bænahús,` en þér gjörið það að ræningjabæli."

14 Blindir og haltir komu til hans í helgidóminum, og hann læknaði þá.

15 Æðstu prestarnir og fræðimennirnir sáu dásemdarverkin, sem hann gjörði, og heyrðu börnin hrópa í helgidóminum: "Hósanna syni Davíðs!" Þeir urðu gramir við

16 og sögðu við hann: "Heyrir þú, hvað þau segja?" Jesús svaraði þeim: "Já, hafið þér aldrei lesið þetta: ,Af barna munni og brjóstmylkinga býrðu þér lof."`

17 Og hann fór frá þeim og úr borginni til Betaníu og hafði þar náttstað.

18 Árla morguns hélt hann aftur til borgarinnar og kenndi hungurs.

19 Hann sá fíkjutré eitt við veginn og gekk að því, en fann þar ekkert nema blöðin tóm. Hann segir við það: "Aldrei framar vaxi ávöxtur á þér að eilífu." En fíkjutréð visnaði þegar í stað.

20 Lærisveinarnir sáu þetta, undruðust og sögðu: "Hvernig gat fíkjutréð visnað svo fljótt?"

21 Jesús svaraði þeim: "Sannlega segi ég yður: Ef þér eigið trú og efist ekki, getið þér ekki aðeins gjört slíkt sem fram kom við fíkjutréð. Þér gætuð enda sagt við fjall þetta: ,Lyft þér upp, og steyp þér í hafið,` og svo mundi fara.

22 Allt sem þér biðjið í bæn yðar, munuð þér öðlast, ef þér trúið."

Icelandic Bible (ICELAND)

by Icelandic Bible Society